Utanríkismálanefnd um ástandið í Tyrklandi

 Mannréttindabrot gegn Kúrdum verði fordæmd

Að frumkvæði Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns VG,  kom utanríkismálanefnd Alþingis til fundar í morgun til að ræða stöðu mála í Tyrklandi.

Utanríkisráðherra kom til fundarins til að gera grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda til atburðarásarinnar í Tyrklandi í ljósi fangelsana og ofsókna á hendur blaðamönnum, kennurum, stjórnmálamönnum, dómurum og saksóknurum sem ekki eru taldir þjóna stjórn Erdogans forseta. Alvarlegast er þó ástandið í Suðaustur-Tyrklandi þar sem útgöngubann hefur verið í framkvæmd meira og minna síðan í águst á síðasta ári í yfir tuttugu héruðum þar sem Kúrdar eru í meirihluta.

Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt handtökum og hreinsunum frá því valdaránstilraunin var reynd 15. júlí síðastliðinn en minna hefur farið fyrir mótmælum gegn mannréttindabrotum sem framin hafa verið á undanförnu ári. Þegar eftir fund NATÓ í Brüssel í júlílok í fyrra, hófst mikil herferð gegn Kúrdum sem hefur valdið því að hátt á fjórða hundrað þúsund manns eru á vergangi og hátt í tvær milljónir manna orðið fyrir alvarlegum búsifjum af völdum þessa. Í maí mánuði voru þingmenn á tyrkneska þinginu sviptir þinghelgi en þeirri aðgerð var fyrst og fremst beint gegn HDP, flokki lýðræðissinnaðra Kúrda, en málsókn er hafin á hendur eitt hundrað fimmtíu og tveimur þingmönnum. Þá er þess að geta að yfir eitt hundrað lýðræðislega kjörnum borgar- og bæjarstjórum í byggðum Kúrda hafa verið hraktir úr embætti, sumir fangelsaðir.

Eindregin samstaða

 Á öllu þessu vakti Ögmundur Jónasson, sem sat fundinn af hálfu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, athygli og hvatti til þess að íslensk stjórnvöld tækju þessi mál upp á vettvangi NATÓ og annars staðar þar sem við höfum snertiflöt við tyrknesk stjórnvöld. Utanríkisráðherra tók undir áhyggjur af stöðu mála í Tyrklandi og sagði að framvegis verði lögð ríkari áhersla á mannréttindabrot sem framin væru gegn Kúrdum og öðrum minnihlutahópum í Tyrklandi. Ögmundur sagði að ástæða væri til að fagna þessari afstöðu og þá einnig hve góður samhljómur hefði verið í utanríkismálanefnd;  „Fundurinn var mjög gagnlegur, eindregin samstaða var um að Íslendingum beri að mótmæla mannréttindabrotum í Tyrklandi kröftuglega og að mótmælin nái til ofsóknum á hendum Kúrdum og öðrum minnihlutahópum“ segir Ögmundur.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur mótmælt mannréttindabrotum í Tyrklandi og hefur hvatt íslensk stjórnvöld til að halda uppi harðri gagnrýni vegna ofsóknanna og mannréttindabrota og taka jafnframt til eindreginna varna fyrir Kúrda á alþjóðavettvangi.  Þau mótmæli og skilaboð voru ítrekuð á fundi utanríkismálanefndar í morgun.

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, framkvæmdastýra þingflokks VG, simi 824-6743