Valdið til fólksins

Hnattvæðing á forsendum fólks en ekki fjármagns var vinsælt slagorð þegar ég fór að skipta mér af stjórnmálum. Hnattvæðingin var þá fyrst að hefjast fyrir alvöru og þá sást því miður hvert stefndi. Nútímatækni skapar ótrúlega möguleika til samskipta heimshorna á milli sem gæti nýst til að byggja brýr og skapa samstöðu milli ólíkra hópa í ólíkum löndum, en raunin hefur því miður orðið önnur. Almenningur hefur setið eftir, aðeins ríkustu hóparnir njóta í raun tækifæra hnatttvæðingarinnar.

Heimurinn er að minnka

Því miður hefur arðrán nýlendutímans haldið áfram undir merkjum frelsis og hnattvæðingar. Auðlindir hafa verið nýttar með ósjálfbærum hætti með tilheyrandi skaða fyrir umhverfið, fólk er arðrænt um allan heim til að framleiða ódýrar neysluvörur fyrir hinn vestræna heim. Þannig berast æ fleiri fregnir af fataverksmiðjum sem hrynja ofan á verkafólkið sem er á lúsarlaunum til að tryggja lágt verð á framleiðslunni. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa ekki fleiri manneskjur verið á flótta og á Miðjarðarhafinu drukkna þúsundir manna sem flýja fátækt og styrjaldir. Fyrir þetta fólk eru ferðalög engu léttari en fyrir iðnbyltingu. Heimurinn er orðinn lítill en aðeins fyrir þá útvöldu.

Hnattvæðing hefur ekki breytt því að enn eru stríð háð til að verja hagsmuni tiltekinna ríkja og hagsmuna hópa þó að yfirvarp þeirra sé gjarnan að verja lýðræðið. Nægir þó að líta á Líbýu, Írak og Afganistan til að sjá að fyrst og fremst virðast þessi stríð snúast um að verja hagsmuni hinna ríku og hinir fátæku borga brúsann.

Hnattvæðing getur skapað tækifæri

Á meðan auður heimsins safnast á æ færri hendur þvert á öll landamæri þurfa almennir borgarar að sæta njósnum og eftirliti. Kjör almennra borgara rýrna þegar eignir samfélagsins eru seldar stórfyrirtækjum sem nýta þessar almannaeignir til að maka krókinn. Evrópa tekur þátt í loftárásum á Líbýu en lokar síðan dyrum sínum fyrir fólkinu sem flýr þaðan. Námsmenn og erlendir sérfræðingar mæta alls kyns landamærahindrunum en allar slíkar hindranir hverfa þegar hinir auðugu eiga í hlut.

Hnattvæðing gæti skapað ótrúleg tækifæri og auðgað líf fjöldans en ekki ef almenningur er enn lokaður í fátæktargildrum og ekki ef frelsi til að ferðast um heiminn og búa hvar sem menn vilja er aðeins fyrir þá best settu. Síðan mótmælendur söfnuðust saman í Seattle til að andmæla hnattvæðingu á forsendum fjármagns hefur fátt breyst til batnaðar nema að æ fleiri almennir borgarar nýta sér tæknina til að tala saman og hugrakkir blaðamenn og uppljóstrarar hafa lagt sig í hættu við að afhjúpa hinar dökku hliðar hnattvæðingarinnar þar sem einskis er svifist til að verja hagsmuni auðvaldsins.

Þurfum að sporna gegn ójöfnuði

Lykillinn að breytingum hlýtur að vera samstarf opinberra aðila um að sporna gegn ójöfnuði, til dæmis með skattalegum aðgerðum en líka með því að setja stórfyrirtækjunum skýrari reglur hvað varðar réttindi verkafólks. Það þarf að auka gagnsæi og setja skýran ramma um fjárhagsleg umsvif til að tryggja góða viðskiptahætti. Eins þarf miklu róttækari aðgerðir í umhverfismálum til að sporna gegn loftslagsbreytingum þar sem ekkert mun duga annað en frumkvæði stjórnvalda í ríkjum heimsins. Tækni hnattvæðingarinnar þarf að nota til að tryggja réttindi fólksins en ekki fjármagnsins og rétturinn til að geta notið alls heimsins þarf að vera allra en ekki aðeins forréttindahópa. Valdið þarf að vera þar sem það á raunverulega heima; hjá fólkinu sjálfu.

Katrín Jakobsdóttir