Vantraust – Bjarkey Gunnarsdóttir

Frú forseti.

Kæru landsmenn. Botninum er náð. Á örfáum dögum hefur þjóðin glatað ímynd sinni um gjörvalla heimsbyggðina. Fyrrverandi forsætisráðherra blekkti þjóð sína þegar hann steig úr stóli ráðherra og hafði ekki einu sinni burði í sér eða geð til að ávarpa þjóðina og telur sig í rauninni ekki skulda henni afsökunarbeiðni.

Nýi forsætisráðherrann sagði í ræðustól þingsins að skattaskjólsviðskipti fyrirrennara síns væru í lagi því að það væri svo erfitt að eiga peninga á Íslandi og að einhvers staðar þyrftu þeir að vera. Og hann lagði blessun sína, ekki bara yfir leyndina heldur líka hagsmunaáreksturinn og hafði miklar athugasemdir við að fólk skyldi voga sér yfir höfuð að ræða um málið.

Sami hroki birtist okkur þegar ný kennitöluflakkandi leppríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, stigastjórnin, var mynduð í hraði og kynnt í stiganum á Alþingi þar sem fjármálaráðherra talaði niður til stjórnarandstöðunnar og til fólksins í landinu með miklu yfirlæti. Engu var breytt, ekkert nýtt, sama fólk en skipt um bás.

Hæstv. umhverfisráðherra talaði um almenning og stjórnarandstöðuna og líkti henni við óþekk börn og sagði að öllum kröfum hefði verið mætt. Ég frábið mér að fólkinu sem hér er inni og er verið að tala um sé líkt við börn. Það á miklu betra skilið.

Og nýi utanríkisráðherrann segir í sinni fyrstu ræðu: Stjórnarfarslegur stöðugleiki er kominn á eftir umrót síðustu daga.

Ja, sér er nú hver stöðugleikinn. Ætlum við að una því að ráðherrar og aflandsfólkið séu á launum hjá þjóðinni meðan þeir búa sig undir næstu kosningar? Enginn í stjórnarliðinu hefur fordæmt hegðun eða gjörðir þessa fólks. Gott fólk, horfðum við ekki örugglega öll á sama Kastljóssþáttinn?

Samkvæmt könnun sem gerð var í gær bera 65% lítið traust til forsætisráðherra og svipað til hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssonar. Svo telja þessir menn sig bæra til að fara með málefni þjóðarinnar.

Við skulum heldur ekki horfa fram hjá því að ef það hefði ekki verið andlitið á fyrrverandi forsætisráðherra sem var í helstu fjölmiðlum heimsins hefði það verið andlit fjármálaráðherra, því að þetta er einsdæmi. Önnur lönd bregðast við með rannsóknum og við höfum haft fregnir af því að Cameron, sem var með smáaura, sé að leggja öll sín gögn á borðið og allar upplýsingar. Líklega neyðist hann til að segja af sér.

En hvað er gert hér? Á litla Íslandi sem er í miklum vanda telja ráðamenn enga ástæðu til að segja af sér og gefa lýðræðinu tækifæri. Þeir þora ekki að endurnýja umboð sitt. Við megum heldur ekki gleyma þeim málum sem hafa komið upp hjá núverandi ríkisstjórn. Tveir aðrir ráðherrar, hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson og fyrrverandi ráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir, sem fór að vísu nauðbeygð úr stólnum, hafa orðið uppvísir að óheiðarleika. Þessi ríkisstjórn er gjörspillt og þjóðin hefur sýnt að hún treystir henni ekki en þau sem fyrir henni fara virðast ekki skilja alvöru málsins, sem er vægast sagt hrikalegt.