Varar við flótta lækna til einkageirans

Ögmundur Jónasson

Ögmundur Jónasson efndi til sérstakrar umræðu um verkfall lækna á Alþingi í morgun sem staðið hefur yfir í hálfa aðra viku.

Ögmundur tók undir með þeim sem hafa bent á að kjör lækna þurfi að vera sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum til að tryggja góða heilbrigðisþjónustu hér á landi. Ögmundur benti einnig á að hætta sé á flótta lækna úr opinbera heilbrigðiskerfinu yfir í einkarekstur í ljósi versnandi kjara lækna hjá hinu opinbera: „Menn geta leitað líka í einkarekstur,“ sagði Ögmundur og bætti við: „Um síðustu áramót var samið við sjálfstætt starfandi lækna og kjör þeirra hækkuð um 20%. Þar með er verið að setja hvata inn í kerfið að fólk úr almennu stofnununum leiti í einkarekstur“.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra tók undir að staðan væri alvarleg og að bæta þurfi samkeppnisstöðu íslenskra lækna. Fjölmargir þingmenn tóku til máls og var almenn samstaða um að bæta þurfi kjör lækna. Í seinni ræðu sinni minnti Ögmundur á að pólitískur ágreiningur sé um einkarekstur og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu: „Í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar talaði núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins fyrir því að fara í auknum mæli verk út af sjúkrahúsunum út í einkarekstur.“ Þá skoraði Ögmundur á lækna og ríkisvaldið að komast að samkomulagi en minnti jafnframt á að í ljósi þess hvernig hefur verið þrengt að kerfinu á undanförnum árum liggi ábyrgðin fyrst og fremst hjá fjárveitingarvaldinu.