Vestnorrænar vinaþjóðir

Ársfundur Vestnorræna ráðsins var haldinn í Færeyjum nú á dögunum . Þar var einnig haldið sérstaklega uppá 30 ára afmæli Vestnorræna ráðsins með pomp og pragt enda fullt tilefni til að treysta vinabönd þessara þriggja grannríkja á Norðurslóðum.

Sameiginlegir hagsmunir þessara þriggja nágranna þ.e. Íslands, Færeyja og Grænlands eru miklir og sérstaklega nú um stundir hvað varðar málefni Norðurslóða.   Lögð er mikil áhersla á að hámarka áhrif þeirra á gang mála á Norðurslóðum en þangað horfa nú helstu stórveldi heims og brýnt er að vernda hagsmuni þjóðanna á svæðinu til framtíðar.

Þjóðirnar eiga í dag fjölbreytt samstarf í sjávarútvegi , mennta, menningar og heilbrigðismálum. Ársfundurinn ályktaði að auka ennfrekar þetta samstarf og kortleggja hvernig löndin geti aukið samstarfið á sviði sjávarútvegs,fríverslunar,samgangna og við uppbyggingu innviða þessara samfélaga.

Landfræðileg lega Vestnorræna svæðisins í miðju Norður Atlandshafi á milli meginlands Evrópu og Norður Ameríku og með aukinni tengingu við Asíu gerir það að verkum að flutningar þar eiga eftir að aukast mikið og öll umsvif á svæðinu.

Það er mikið talað um þau tækifæri sem skapast þegar siglingar um Norðurslóðir aukast en minna er talað um ógnanir sem þeim fylgja þar sem lifibrauð þjóðanna er undir ef mengunarslys verða. Málefni norðurslóða eru til umræðu hjá Norðurskautsráðinu og á enn fleiri stöðum og vissulega er hætta á að stórþjóðirnar sem líka eiga mikla hagsmuni undir ráði ferðinni. Mjög mikilvægt er að rödd vestnorrænu ríkjanna heyrist og hafi vægi. Það eru gífurlegir hagsmunir undir til langs tíma að mótuð sé ábyrg og sjálfbær stefna á Norðurslóðum.  Aukin skipaumferð um norðurslóður gerir Ísland að kjörstað fyrir alþjóðlega leitar og björgunarmiðstöð.

Vestnorræna ráðið samþykkti ályktun árið 2013 að kanna hverjar væru orsakir fyrir fækkun kvenna á Vestur norðurlöndum . Ályktunin hefur ekki verið uppfyllt að fullu en haldin var ráðstefna sl.júní í Nuuk þar sem fulltrúar landanna ræddu þennan vanda og í Færeyjum hefur verið kortlagt hvað veldur fólksflutningum frá jaðarsvæðum. Ég tel þetta vera brýnt verkefni sem greina þarf sem best og bregðast við svo ekki eigi illa að fara.

Mikil aukning er í ferðaþjónustu þessara þriggja landa þó ekkert jafnist á við þá sprengingu sem er í fjölda ferðamanna á Íslandi. Það er mikilvægt að auka samstarf í ferðaþjónustu á milli landanna og vinna að sameiginlegri markaðssetningu fyrir Norðurslóðir með sjálfbærni og hreinleika náttúrunnar að leiðarljós. Við skulum minnast þessi að það er vegna náttúrunnar sem ferðamenn sækja til þessara landa fyrst og fremst.

Spennandi verkefni er líka framundan á sviði námskeiða fyrir vestnorræna rithöfunda. Menntamálaráðuneytið á Íslandi er að skoða hvort hægt verði að koma slíkum námskeiðum fyrir í samstarfssamningi um menntun,menningu og rannsóknir sem nú er unnið að á milli landanna og verður til umræðu á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík í haust.

Mikil ásókn er í auðlindir til lands og sjávar í Vest Norrænu ríkjunum af stórþjóðum og auðhringjum. Mikilvægt er að samhæfa krafta þessara grannþjóða til þess að auðlindanýting þeirra sé sjálfbær og að afraksturinn nýtist til uppbyggingar heimafyrir með eflingu samfélaganna og að þjóðirnar haldi yfirráðarétti sýnum yfir eigin auðlindum.

Framundan er þátttaka Vestnorræna ráðsins í Arctic Circle ráðstefnunni þar sem verður m.a. til umræðu lýðræði á norðurslóðum og aðkoma þjóðþinganna að ákvarðanartöku í málefnum norðurslóða.

Forsætisráðherra Grænlands komst vel að orði þegar hann sagði í afmælisræðu sinni á ársfundinum.“ Við sjáum ekki alltaf stjörnurnar en við vitum að þær eru þarna ,eins er með vináttu þessara þriggja landa hún er alltaf til staðar þó höf skilji að“ .

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.