VG er á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúruna

Ræða Lilju Rafneyjar flutt í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi, eldhúsdegi, 30. maí 2016

Virðulegi forseti, góðir landsmenn .

Þjóðinni var algjörlega misboðið þegar upplýst var í Panamaskjölunum um tengsl og fjármuni íslenskra ráðherra,efnafólks og fyrirtækja með aflandsfélög í skattaskjólum.

Ég átti spjall við portúgalskan verkamann þegar ég beið eftir flugi vestur á Ísafjörð , hann var á leið til Akureyrar og þaðan til vinnu á Þeystareyki. Hann sagði að kjör almennings í Portúgal væru erfið og mikil spilling væri í landinu.

„Þið íslendingar eruð bara eins og ein stór fjölskylda og deilið kjörum og enginn er merkilegri en annar“ sagði hann.
„En svo kemur í ljós að æðstu ráðamenn ykkar eru í Panamaskjölunum og litla Ísland er ekki eins saklaust og ætla mætti heldur hefur spillingin, græðgin og vont siðferði náð að grassera hér eins og heima í Portugal sem leitt hefur til misskiptingar í samfélaginu. „Þá var kallað út í flug til Ísafjarðar svo þannig endaði þetta samtal sem var sláandi.

Það var eins og köld vatnsgusa yfir þjóðina þegar upp komst að það eru langt í frá allir að róa í sömu átt – það er sá hluti þjóðarinnar sem er á fyrsta farrými og felur fé sitt í skattaskjólum og svo eru það þeir sem eru í lestinni og halda þjóðarskútunni á floti og standa undir samfélagslegri ábyrgð.

Mælikvarði á heilbrigt og gott samfélag er hvernig búið er að unga fólkinu,öldruðum og öryrkjum. Þessir hópar hafa ekki verið að njóta þess efnahagslega ábata sem orðið hefur með auknum hagvexti allt frá árinu 2010.

Skattkerfisbreytingarnar miðast fyrst og fremst við það að hlífa þeim sem betur mega sín en draga úr stuðningi við þá efnaminni. Aldraðir og öryrkjar fá ekki sambærilegar hækkanir og aðrir og lægstu laun á vinnumarkaði og þeir lægst launuðu greiða allt of hátt skatthlutfall af tekjum sínum.

Það reynist ungu fólki erfitt að leigja eða eignast húsnæði, mennta sig og stofna heimili við þau kjör sem ungu barnafólki eru búin í dag.

Vinstri græn vilja stóraukin stuðning í húsnæðismálum við ungt og efnaminna fólk,lengja fæðingarorlofið og hækka fæðingarorlofsþakið og að leikskólar verði gjaldfrjálsir.

Landsbyggðarstefna þessarar ríkisstjórnar fær algjöra falleinkunn. Samgönguáætlun lýsir algjöru metnaðarleysi. Eina ljósið er að loksins á að bjóða út Dýrafjarðargöngin sem byrjað hefði verið á fyrir 2 árum ef áætlun fyrri ríkisstjórnar hefði verið framfylgt. Samgönguinnviðir í landinu eru látnir drabbast niður og vegakerfi landsins er víða orðið stórhættulegt með aukinni umferð.

Stórátak þarf að gera í samgöngumálum ef ekki á illa að fara.

Fjarskiptamál skipta landsbyggðina jafn miklu máli og samgöngubætur og það skiptir sköpum fyrir búsetu að gott netsamband sé tryggt um land allt .

Sveitafélögunum var att út í samkeppni um þá litlu fjármuni sem til skiptana voru í útboði og þau verst settu sátu eftir með sárt ennið. Þarna þurfa að koma til miklu meiri fjármunir því ljúka þarf ljósleiðaravæðingu og háhraðatengingum um land allt sem fyrst því það verkefni þolir enga bið.

Aðgengi að menntun er lykilatriði fyrir allar framfarir og ég tel að það sé aðför að jöfnum tækifærum til menntunar þegar stjórnvöld hefta aðgengi að framhaldsskólum landsins og fjársvelta skólana og nýjasta útspilið um LÍN virðist stefna í að draga úr möguleikum efnaminna fólks til náms. Litlu háskólarnir berjast fyrir tilveru sinni og niðurskurður til menntamála og takmarkað aðgengi að námi eftir efnahag og búsetu er óásættanlegt og verður ekki liðið.

Heilbrigðiskerfið er fjársvelt þrátt fyrir góða stöðu ríkissjóðs og ákalli þjóðarinnar um aukna fjármuni til heilbrigðismála er ekki mætt. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu hefur verið aukinn og mikill arður er tekinn út úr einkarekstri sem bitnar á opinberri uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og dregur úr aðgengi þeirra efnaminni að heilbrigðisþjónustu.

Mikilvægt er að bregðast strax við þeirri miklu þörf sem er t.d. á aukinni geðheilbrigðisþjónustu í landinu.

Vinstri græn vilja stórauka fjármagn til opinbera heilbrigðiskerfisins og gera það gjaldfrjálst og tryggja gott aðgengi óháð efnahag og búsetu.

Ferðaþjónustan skapar orðið mestar gjaldeyristekjur í landinu en ekkert bólar á fjármagni til innviðauppbyggingar. Mikilvægt er að ferðaþjónustan eflist um allt land og létta þannig á álagi á fjölförnustu stöðunum. Við Vinstri græn leggjum til að Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verði fjármagnaður með komugjöldum á flugfarseðla til landsins og gistináttagjaldi sem renni að hluta til sveitarfélaganna til uppbyggingar heima fyrir.

Það eru víða brothættar byggðir til sjávar og sveita í landsbyggðunum. Við vitum vel hvernig kvótakerfið hefur leikið mörg sjávarpláss og sá búvörusamningur sem nú liggur fyrir og tollasamningur með stórauknum innflutningi landbúnaðarvara stefnir sauðfjárrækt í jaðarbyggðum í tvísýnu og hefðbundnum fjölskyldubúum í hættu.

Vinstri græn vilja efla byggðahlutverk landbúnaðarins og efla þar nýsköpun og sjálfbærni og að stuðningur við landbúnað skili sér í sameiginlegum hagsmunum innlendra framleiðanda og neytanda með heilnæmri vöru á góðu verði þar sem horft er til matvæla öryggis og umhverfissjónarmiða.

Ríkisstjórnin hefur viðhaldið óbreyttu kvótakerfi og lækkað veiðigjöld á stórútgerðina sem er í bullandi hagnaði og greiðir sér mikinn arð meðan staða margra minni útgerða er erfið. Erfiðleikar og vandi íbúa brothættra sjávarbyggða er óleystur og krefst þess að verða leystur varanlega með byggðatengdum aflaheimildum en ekki endalausum smáskammtalækningum.

Vinstri græn vilja rótæka endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu sem tryggir stöðugleika og atvinnu í sjávarbyggðunum, eflir nýliðun og aðgengi að öflugum leigupotti ríkisins með aflaheimildir.
Strandveiðarnar hafa verið sá vaxtarbroddur sem hleypt hefur lífi í sjávarbyggðirnar og þær verður efla.

Við viljum að þjóðin fari með óskorað eignarhald á öllum auðlindum til lands og sjávar og að auðlindarentan nýtist til uppbyggingar um land allt.
Sérstaða Vinstri grænna hefur m.a. falist í friðarmálum,umhverfismálum og kvenfrelsismálum. Í þessum málaflokkum höfum við skyldur á alþjóðavísu og eigum að vera leiðandi afl og til fyrirmyndar þó fámenn þjóð séum.

Vinstri græn vilja að framtíðin byggist á jöfnum tækifærum öllum til handa sem byggjast á sjálfbærni,jöfnuði og félagslegu réttlæti.
Vinstri græn eru á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúru landsins.
Við treystum á stuðning ykkar góðir landsmenn í kosningunum í haust því ný ríkisstjórn verður að hafa réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi.

Við þurfum að axla okkar ábyrgð á flóttamannavandanum og eigum að tala fyrir friðsamlegum lausnum á alþjóðavettvangi og setja markið hátt í baráttunni gegn losun gróðurhúsalofttegunda sem er stærsta viðfangsefni alþjóðasamfélagsins fyrir komandi kynslóðir.

Kvenfrelsi er ekki sjálfgefið og stöðugt þarf að vera á varðbergi svo að sá árangur sem náðst hefur varðveitist og við höldum áfram á réttri braut til hagsbóta fyrir bæði kynin.

Portúgalski verkamaðurinn sem ég hitti á Reykjavíkurflugvelli um daginn minnti mig svo sannarlega á að baráttan fyrir réttlátu samfélagi líkur aldrei og hættan á aukinni misskiptingu og spillingu er stöðugt til staðar jafnt hér heima sem annarsstaðar ef við sofnum á verðinum.

Vinstri græn vilja að framtíðin byggist á jöfnum tækifærum öllum til handa sem byggjast á sjálfbærni,jöfnuði og félagslegu réttlæti.
Vinstri græn eru á velferðarvaktinni fyrir fólkið í landinu og náttúru landsins.

Við treystum á stuðning ykkar góðir landsmenn í kosningunum í haust því ný ríkisstjórn verður að hafi réttlæti og jöfnuð að leiðarljósi.