„Vilji er allt sem þarf“

Þingfréttir 12.-16. október

Nýliðin þingvika var sérstæð með nokkru. Dagskrá þingsins breyttist með stuttum fyrirvara og varla nein mál frá ríkisstjórninni á dagskrá.

Sérstök umræða var í þinginu á þriðjudag um dýravelferð. Þar tók Svandís til máls og minnti á lögin um dýravelferð sem tóku gildi 2013 og anda þeirra. Hún hvatti svínakjötsframleiðendur sem fara vel með dýr og vilja vanda til verka, að krefjast þess að það sé upplýst hverjir búskussarnir séu.

Í ræðu sinni á miðvikudag undir liðnum störf þingsins, dró Lilja Rafney saman  átökin um verkefnastjórn rammaáætlunar sem áttu sér stað fyrir skemmstu í atvinnuveganefnd í boði nefndarformannsins Jóns Gunnarssonar. Í þeirri snerru stóð Lilja vaktina í aðför Jóns að verkefnastjórninni.

Hún skrifaði blaðagrein um málið sem birtist í vikunni bæði á huni.is  og í Kvennablaðinu.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður í Norðvesturkjördæmi,fór upp í óundirbúnar fyrispurnir á þriðjudag og vakti máls á nauðsyn sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Ingibjörg óskaði eftir svörum menntamálaráðherra um hvort hann hyggist beita sér fyrir þeirri þjónustu. Ráðherra var loðin í svörum enda ekki við öðru að búast úr þeirri átt.

Í störfum þingsins á miðvikudag vakti Katrín athygli á þeirri niðurlægingu sem fjöldi ungra stúlkna varð fyrir í tengslum við hernámið þegar sett voru neyðarlög í landinu til að koma böndum yfir samskipti þeirra til við erlenda hermenn. Í kjölfarið voru margar stúlkur og ungar konur færðar nauðugar frá heimilum sínum, sendar í sveit eða á hælið að Kleppsjárnreykjum eins og fram kemur í nýrri heimildamynd. Katrín tilkynnti að hún ætlar sér að leggja fram skriflega fyrirspurn til innanríkisráðherra í tengslum við þetta mál þar sem m.a. þáttur stjórnvalda verði rannsakaður.

Eins og alþjóð veit þá mótmæltu bæði lögreglumenn, SLFÍ og SFR á Austurvelli á fimmtudag vegna óánægju með gang kjaraviðræðna við ríkið og  verkfallsréttarleysi. Deilurnar bætast við þau illindi, óróa og verkföll sem einkennt hafa vinnumarkaðinn allt þetta kjörtímabil.

Katrín beindi orðum sínum að innanríkisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum þennan dag vegna þessa og spurði hvernig ráðherra geti beitt sér fyrir því að leysa þennan hnút.

Þegar Ólöf Nordal fór undan í flæmingi, benti Katrín á að vilji sé allt sem þurfi og spurði ráðherra hvort hún styddi kröfu lögreglumanna um endurheimtingu verkfallsréttar. Ólöf svaraði því til að það gerði hún ekki.
Þau svör ráðherrans vöktu mikla athygli.

Áður en áframhaldandi umræða um frumvarp Vilhjálms Árnasonar um sölu á áfengi í búðum hófst á fimmtudag, kvað Ögmundur sér hljóðs og bað forseta þingsins um skýringu á því hvers vegna Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra,  tæki ekkert þátt í umræðunni um þetta frumvarp.

Krafðist Ögmundur þess að umræðan hæfist ekki nema ráðherrann væri í þingsal. Vísaði Ögmundur í stefnu ráðherrans um áfengis-og vímvarnir sem birtar voru á vef ráðuneytis hans 24. janúar sl. Niðurstaðan varð sú að umræðunni var frestað fram yfir hádegi en hélt svo áfram og varði í 7 klukkustundir með þáttöku allra þingmanna VG.

Fyrir áhugafólk um umræðuna er hægt að horfa á hana hér.

Umræðan tekur ögn skemmri tíma en að horfa á allar kvikmyndirnar um Hringadróttinssögu í beit.

Ef þið hafið misst af þingmönnum VG í fjölmiðlum þessa vikuna, má benda m.a. á að Svandís ræddi fréttir vikunnar og mál Illuga Gunnarssonar í Morgunútvarpinu á Rás2 í gærmorgun, föstudag.

Þess má geta að hún hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til ráðherrans um förina til Kína.

Ingibjörg Þórðardóttir, varaþingmaður, var líka einn gesta íVikulokunum á Rás 1 í morgun, laugardag.

Dvöl Ingibjargar á þingi er lokið í bili en hún skilur eftirskriflega fyrirspurn um umdæmissjúkrahús á Austurlandi og getur vel við unað eftir góðar 2 vikur á þingi. Þökkum henni kærlega fyrir  !

Njótið helgarinnar kæru félagar !
Rósa Björk Brynjólfdóttir, framkv.stýra þingflokks.