Vill metnaðarfull loftslagsmarkmið Íslands

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, beindi óundirbúinni fyrirspurn um loftslagsmarkmið Íslands til umhverfisráðherra á Alþingi í morgun.

„Hér á Alþingi ræðum við mörg mál en að mínu viti verjum við ekki nægilegum tíma í að ræða stærsta viðfangsefni samtímans, sem eru loftslagsbreytingar.“ Katrín spurði umhverfisráðherra út í loftslagsmarkmið Íslands fyrir fyrirhugaða loftslagsráðstefnu í París á þessu ári. Hún benti á að Evrópusambandið væri búið að setja sér sín markmið og að Noregur hefði sett fram markmið um að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030. Markmið Íslands væru hins vegar ekki komin fram. „Enn bólar ekkert á þessum markmiðum“, sagði Katrín og spurði: „Hvar eru markmiðin, hvenær koma þau og hver verða þau?“

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra svaraði því til að verið væri að vinna markmið Íslands og að þau yrðu lögð fram í ríkisstjórn „áður en þing fer heim í næstu viku“. Umhverfisráðherra sagði einnig „mjög líklegt, svo ég segi það, að við munum fylgja Noregi og Evrópu.“

Í seinni ræðu sinni lagði Katrín áherslu á að nefndir þingsins fengu kynningu á loftslagsmarkmiðum Íslands á sama tíma og ríkisstjórnin. Katrín ítrekaði að loftslagsvandinn veyrði ekki leystur „nema ríkisstjórnir heimsins komi sér saman um róttækar aðgerðir.“ Að lokum sagði Katrín: „Ef við ætlum að taka mark á þeim vísbendingum sem koma fram hér árlega þá hvet ég hæstvirtan ráðherra til þess að þau markmið sem verði hér kynnt í næstu viku verði róttæk þannig að við getum átt von á að þau skili einhverjum árangri.“