“Vindur, vindur vinur minn”

Vindasamt á Íslandi, segja menn og hafa lög að mæla. Greinarheitið er eftir Guðlaug Arason rithöfund og óvíst að allir samþykki innihald þess. Eftir því sem þrengir að orkukostum með vatnsafli eða jarðvarma, ber meira á könnun á vindorkukostum og umræðum um þess konar orkuöflunarleið, jafnvel á nýjum verkefnum.

Vindorkuver eru nýlunda

Fáeinir bændur riðu á vaðið í smáum stíl, Landsvirkjun reisti tvær stórar vindmyllur í tilraunaskyni NV af Búrfelli og einkaaðilar hafa t.d. rekið tvær vindmyllur í Þykkvabæ. Rekstrarkannanir sýna, ásamt úttekt Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings á ólíkum veðurfars- og ísingarsvæðum, að vindorka getur verið veruleg viðbót við orkuöflun á Íslandi. Hve langt það kann að ganga er háð kostnaði, orkuþörf, skipulagsmálum, staðbundnum umhverfismálum og fleiri þáttum. Vísindalegur grunnur vindorkustöðva verður að vera traustur. Þá er ekki aðeins átt við staðsetningu vindmylla og lágmörkun umhverfisárifa á áhrifasvæði þeirra. Líka verður að leita erlendra gagna um raunverulegt vistspor, frá öflun smíðaefna til tækjanna allt til niðurrifs og förgunar. Til þess þarf svokallað lífsferlisgreiningu (LCA).

Vindmyllur – hvar?

Sjáanleg verkefni eða hugmyndir, aðrar en eins konar heimarafstöðvar, eru tvenns konar. Í einn stað vindlundir eða vindorkuver með einum eða mörgum tugum vindmylla. Þeim er safnað í hóp eða keðju og aflgetan er tugir eða örfá hundruð MW. Þannig er vindlundur Landsvirkjunar vestan Hofsjökuls í nýtingarflokki 3. áfanga Rammaáætlunar og hugmyndir einkafjárfesta um stærri vindlund í Dölum vestur. Í annan stað er um að ræða fyrirspurnir eða verkefni á hugmyndastig líkari því sem sést í Þykkvabæ; ein eða nokkrar stórar myllur sem framleiða t.d. 1 til 5 MW hver. Ýmist eiga sveitarfélög eða einkaaðilar þar hlut að máli. Sveitarfélög og aðra vantar bæði laga- og reglugerðarramma utan um slík verkefni sem og sérfræðiráðgjöf við ákvarðanir og samninga. Telja má víst að vindmyllur verða umdeildar hér á landi sem annars staðar. Hér ber að geta þess að orkuver með afli yfir 10MW eiga heima undir smásjá verkefnisstjórnar Rammaáætlunar. Þar er nú Búrfellslundur í biðflokki.

Framsækin markmið

Núna er laga- og reglugerðarumbúnaður vindorku sundurlaus og óreyndur að ýmsu leyti. Vissulega falla vindorkuvirkjanir undir raforkulög, skipulagslög, lög um flutningskerfið og lög um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þær eru þó svo ólíkar vatns- og jarðvarmavirkjunum, og nýjar af nálinni, að brýn þörf er á að taka heildstætt á lagaumhverfinu, reglugerðum og leyfismálum, áður en lengra er haldið. Þess vegna segir í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að setja skuli lög um beislun vindorku, auk þess sem heildstæð orkustefna fyrir landið verði unnin. Til viðbótar vindorku ber þar að líta til annarra orkugjafa, sjávarins (hverflar í sjó, líkir vindmyllum, eða ölduaflsnemar) og varmadæla sem sækja t.d. varma í lághita á landi eða volgan sjó og nýtast aðallega til húshitunar. Í þeim efnum er til nýsköpun í landinu, t.d. sjávarhverflar Valorku og stór varmdæla sem gagnast mun Eyjamönnum, þróuð í samstarfi við  Nýsköpunarmiðstöðina.

Skýrslubeiðni í farvegi

Til þess að styðja við laga- og reglugerðarskrif um vindorku og til skoðunar á sjávarorku og varmadæluvirkjunum, og til þess að styðja við mótun orkustefnu, legg ég á Alþingi fram beiðni um skýrslugerð. Safna á saman fróðleik um helstu þætti fyrrgreindra leiða til orkuöflunar. Beiðnin verður vafalítið samþykkt og mun Atvinnuráðuneytið þar með láta vinna skýrsluna á 6-7 mánuðum. Vandséð er að ráðist verði í byggingu vindorkuvera, stórra eða smárra, fyrr en grunnstefna, lagaumgjörð, og reglur liggja fyrir.

 

Ari Trausti Guðmundsson. 

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu.