,

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að endurreisa verkamannabústaðakerfið

Stóru áherslumálin Vinstri grænna í borgarstjórnarkosningunum í vor eru loftslags- og umhverfismál, kjaramál og málefni leikskólanna og loks húsnæðismálin. Rauði þráðurinn í kosningastefnuskrá Vinstri grænna er jöfnuður, kvenfrelsi og umhverfisvernd, segir Líf Magneudóttir oddviti.

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg taki höndum saman með verkalýðshreyfingunni um að endurreisa verkamannabústaðakerfið og koma böndum á leigumarkaðinn. „Við þurfum húsnæðismarkað sem er fyrir fólk, ekki fjármagn,“ segir Líf. Eyða á biðlistum fyrir fólk sem er í brýnni þörf eftir félagslegu leiguhúsnæði og fjölga félagslegum leiguíbúðum um 600, auka á stuðning við óhagnaðardrifin leigufélög og hefja samtal við stjórnvöld um heimildir til þess að hafa stjórn á þróun leiguverðs. Vinstri græn vilja líka að borgin leiti eftir tvíhliða samningum við Airbnb um að endurheimta húsnæði sem er farið af langtímaleigumarkaði í skammtímaleigu til ferðamanna.

Önnur megináhersla Vinstri grænna eru leikskólamálin. Tryggja verður öllum fjölskyldum í Reykjavík pláss á borgarreknum leikskólum strax að fæðingarorlofi loknu. Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla með opnun ungbarnadeilda í öllum hverfum, og tryggja að allir leikskólar séu full mannaðir.

„Það verður að vera algert forgangsverkefni að fjölga starfsfólki. Það gerum við ekki nema við bætum kjör starfsfólks, þessara fjölmennra kvennastétta sem halda uppi starfi leikskólanna hafa setið eftir í kjaramálum á síðustu árum. Við eigum að skila viðsnúningnum sem hefur orðið í fjármálum borgarinnar til skólanna. Við eigum að fjárfesta í börnunum okkar og skólunun. Við þurfum að hugsa meira um fólk og setja minna í steinsteypu.“

Vinstri græn vilja að Reykjavíkurborg leiði með góðu fordæmi í kjaramálum og hafni láglaunastefnu og móti sér stefnu um launamun æðstu stjórnenda og almennra starfsmanna. „Reykjavík, sem stærsta sveitarfélag landsins á að leggja sitt af mörkum til að skapa félagslegan stöðugleika, sem verður aldrei reistur nema á félagslegu réttlæti.“

Líf leggur áherslu á að Reykjavík verði líka leiðandi í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Taka á fyrir notkun nagladekkja til að útrýma svifryki og taka stærri skref til að Reykjavík nái markmiðum um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

Greiða á götu vistvænni samgangna, fjölga hlöðum fyrir rafmagnsbíla, hefjast handa við lagningu borgarlínu, fjölga hjólreiðastígum og auka kolefnisbindingu með endurheimt votlendis og náttúrugæða í borgarlandinu.

Líf segir að Reykjavíkurborg eigi að fara fyrir með góðu fordæmi og vera leiðandi í þessum stóru málum. „Í öllum þessum stóru viðfangsefnum dagsins, loftslags- og umhverfismálunum, húsnæðismálum og loks kjaramálum verður Reykjavíkurborg að stíga fram og leiða með góðu fordæmi.“