Vinstri græn vilja breytingar í sjávarútvegsmálum

Gísli Garðarsson skrifar:

Klisjan segir að vika sé langur tími í pólitík. Ef að hún er sönn, hvað má þá segja um nokkur ár? Þó ekki sé lengra síðan en þrjú og hálft ár síðan við komum úr ríkisstjórn þar sem Steingrímur var sjávarútvegsráðherra, hækkaði veiðigjöldin drastískt og fékk útgerðina til að sigla flotanum í land í mótmælaskyni eru meira að segja félagar okkar úr þeirri ríkisstjórn og nánasta samstarfsflokki okkar í stjórnmálum komnir á þá skoðun að Vinstrihreyfingin – grænt framboð sé sérstakur stuðningsmaður núverandi kerfis í sjávarútvegi. Sem er fáránlega steikt pæling. Í alvörunni, hún er það ef maður hugsar það í aðeins meira en bara smástund. Vinstri græn eru sósíalískur flokkur sem leggur ríka áherslu á byggðastefnu. Núverandi kvótakerfi hefur bæði safnað arðinum af auðlindunum á fárra hendur og lagt heilu sjávarplássin í rúst. Hvernig í veröldinni ætti það að geta samræmst hugmyndafræði VG?

Staðreyndin er sú að Vinstri græn vilja – að sjálfsögðu – breytingar í sjávarútvegsmálum. En nú virðist sú staðreynd eitthvað á reiki, ekki síst í ljósi þess að ekki náðist saman við aðra umbótaflokka í nýlegum stjórnarmyndunarviðræðum, m.a. um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Nú spyrja margir: Af hverju ekki? Jú, því nálgun VG á það hvernig (ekki hvort) ráðast eigi í breytingar á kerfinu er í grunninn hugmyndafræðilega ólík. Miðju- og hægriflokkarnir hafa viljað ráðast í þær breytingar með markaðslausnir í fyrirrúmi en VG er, sem vinstriflokkur, ekkert sérstaklega hrifinn af markaðslausnum og telur þær skapa önnur vandamál.

En hver er þá sjávarútvegsstefna VG? Það er ekki nema von að sé spurt. Ég skal reyna að varpa ljósi á það:

Í 2009 var samþykkt á landsfundi „Hafið bláa hafið – áherslur og tillögur Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum“. Það er langt og mikið plagg og má sjá hér fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur: http://vg.is/stefnan/sjavarutvegsstefna/

Í „Hafinu bláa hafinu“ voru tillögur VG í sem stystu máli eftirfarandi:

Ráðist yrði í að innkalla allan kvótann (5% á ári) og setja í stjórnarskrá ákvæði um að fiskistofnar umhverfis landið væri í sameign þjóðarinnar. Aflaheimildir væru leigðar aftur út sem tímabundinn afnotaréttur og að við það væri gætt jafnræðis. Þriðjungur heimilda væri á opinberum leigumarkaði til sex ára í senn, þriðjungur yrði bundinn við sjávarbyggðir og þriðjungur væri tímabundið hjá handhöfum kvóta (óframseljanlegar) og endurskoðaður áður en 20 ára innköllunartímabilinu lyki. Nokkrar varaleiðir voru svo nefndar sem aðrar færar leiðir sem hreyfingin gæti skoðað ef til þess kæmi. Utan þessa eru í „Hafinu bláa hafinu“ ákvæði um stórfelldar umbætur í umhverfis- og loftslagsmálum í atvinnugreininni, umbætur í tengdu lagaumhverfi og atvinnurekstri og fleira sem væri of langt mál að rekja hér.

Grundvallarmunurinn á þessum tillögum VG og annarra flokka er sá að ekki er farið í uppboð (einkavæðingu) á kvótanum eftir að hann hefur verið kallaður inn heldur er hann í eigu ríkisins/samfélagsins (þjóðnýting) og leigður út. Svona frekar beisik hægri-vinstri munur, myndi ég allavega segja. Hvað sem fólki annars kann svo sem annars að finnast um það.

Nú, eins og þeir sem hafa gluggað í „Hafið bláa hafið“ hafa eflaust áttað sig á er þar um dálítið langt og tyrfið plagg að ræða. Það sama gildir reyndar um marga stefnumörkun VG. Var því ráðist í það nýlega að gera kosningastefnur sem leystu ekki beint eldri stefnur af hólmi heldur væru skýrari og öppdeitaðari framsetning á samþykktum hreyfingarinnar. Þar kemur sjávarútvegurinn fyrir í tveimur plöggum; annars vegar „Atvinnulíf“ (hér: http://vg.is/kosningar-2016/atvinnulif/) og „Atvinnugreinar“ (hér: http://vg.is/kosningar-2016/atvinnugreinar/). Í þeirri fyrri kemur fram að sjávarauðlindin eigi að vera í þjóðareigu – ekkert nýtt þar á ferð. En í hinni seinni stendur eftirfarandi (auk – reyndar – nokkurra annarra almennra atriða): „Meginmarkmiðið með sterkri sjávarútvegsstefnu er sjálfbær nýting fiskistofnanna, ábyrg umgengni um lífríki hafsins, samhengi í byggðaþróun og síðast en ekki síst að arðurinn af auðlindinni renni til þjóðarinnar.“

Það sem þessi setning þýðir í raun og veru var að þarna vorum við að opna á málamiðlanir. Við vorum að opna t.a.m. á útboðsleiðina, ef að það væri hægt að sýna fram á það að útboð uppfyllti þessi þrjú skilyrði. Til þess að geta mögulega samið við samstarfsflokka okkar um það.

Ég vona að þessi texti skýri út sjávarútvegsstefnu Vinstri grænna fyrir einhverjum. Fólk getur haft þær skoðanir á henni sem það vill. En ég held að því verði hvorki neitað að VG hefur alla tíð stefnt að stórfelldri endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu – né heldur hinu, að við höfum opnað á málamiðlanir við þær tillögur sem við sjálf höfum lagt fram. Með það í huga getur fólk ef til vill skilið að okkur Vinstri grænum finnst verulega illa að okkur vegið þegar á okkur eru bornar þær sakir að við séum óbilgjörn eða stöndum með núverandi kerfi.