Vinstri og hægri eru ekki á útleið!

Að afloknum sveitarstjórnarkosningum er áhugavert að líta yfir sviðið og skoða hvernig pólitískt mynstur leggst í sveitarstjórnum vítt og breytt um landið. Í mörgum minni sveitarfélögum voru óhlutbundnar kosningar og í öðrum voru blönduð framboð sem stjórnmálaflokkarnir áttu beina eða óbeina aðild að. Í stærstu sveitarfélögunum voru í flestum tilfellum hrein flokksframboð þar sem stjórnmálaflokkarnir lögðu mikið undir til að skapa sér sterka stöðu í hinu pólitíska landslagi.

Ekki er hægt að segja að einn flokkur hafi verið sigurvegari þessara kosninga en vissulega unnust sigrar staðbundið hjá flokkum og eða framboðum sem skilgreina sig til vinstri eða hægri eða einhverstaðar þar á milli. Það sem mér finnst umhugsunarvert og áhyggjuefni fyrir utan lélega kjörsókn er sá áróður sem víða er undirliggjandi að ekki eigi að skilgreina sig til vinstri eða hægri það séu úrelt hugsun og gamaldags. Tilhneigingin hefur orðið sú að allt of mikið snýst um tímabundnar persónuvinsældir einstakra einstaklinga sem koma og fara og pólitískar flugeldabombur eins og moskur og Reykjarvíkurflugvöll sem ganga út á það að ná til sín sem mestu hraðfylgi !

Það vill oftar en ekki gleymast að leggjast yfir stefnuskrár flokka og framboða og skoða fyrir hvað viðkomandi flokkur/framboð stendur til lengri tíma litið. Er hann til vinstri,hægri eða miðju eða sitt lítið af hvoru.  Pólitíkin á að vera stefnumarkandi vegvísir til framtíðar um hvernig við viljum að þjóðfélagið og nærsamfélagið þróist. Því einstaklingar hversu góðir eða slæmir sem þeir kunna að vera koma og fara og því þarf að vera hægt að treysta grunngildum og stefnumörkun hvers flokks fram á veginn.  Í stað þess að sitja uppi með eitthvað óskilgreint miðjumoð sem stekkur á vinsældarlestina hverju sinni eða kemst áfram á yfirboðum eða spilar inná lægstu hvatir mannskepnunnar í von um atkvæði.

Vinstri græn mega þokkalega vel við una að afloknum sveitarstjórnarkosningum miðað við hið pólitíska landslag og þá pólitísku afvæðingu sem vinsælt er að tala fyrir. Sveitarstjórnarkosningar snúast ólíkt landsmálunum að miklu leyti um staðbundin verkefni í nærsamfélaginu en samt sem áður liggja undir grunngildi vinstri og hægri póla sem tekist er á um ásamt umhverfis og virkjanamálum. Þar er hægt að nefna sem dæmi þá miklu áherslu hægri manna á einkavæðingu sem er alfarið gagnstætt vilja okkar Vinstri grænna sem viljum að almannaþjónustan og orkufyrirtækin verði í höndum opinberra aðila og að sameign okkar á auðlindunum sé tryggð.

Þessi sjónarmið kristölluðust m.a. í umræðunni sem varð fyrir kosningarnar í vor um hvort til greina kæmi að einkavæða Landsvirkjun en fjármálaráðherra hefur talað fyrir þeim sjónarmiðum. Gjörólík skattapólitík er á milli vinstri og hægri þar sem vinstri menn vilja beita skattkerfinu til jöfnunar lífskjara en hægri menn vilja lækka skatta og veikja þannig velferðarkerfið og láta almenning þess í stað borga stærri skerf í þeirri þjónustu sem hið opinbera veitir eins og tillögur þeirra um legugjöld á sjúkrahúsum bera glöggt vitni um.

Ég er þeirra skoðunar að það sé heilbrigðara og farsælla að kjósendur hafi það á hreinu fyrir kosningar fyrir hvaða stefnu flokkar og framboð standa. Í stað þess að keyrt sé á með þann áróður að vinstri og hægri séu liðin tíð og nóg sé að vera hress,hipp og kúl og viðhlægjendur allra að minnsta kosti fram að kosningum. Það eiga að vera hreinar línur um þá stefnu sem stjórnmálamenn standa fyrir svo seinna komi ekki í ljós að kjósandinn hafi keypt köttinn í sekknum.
Í minni sveitarfélögum hefur reynslan oftar en ekki verið sú að vel hefur tekist að vinna að málefnum sveitarfélaga þvert á flokkslínur og það er gott . Stór hluti sveitarstjórnarmála er líka unninn í samstöðu en það eru mál sem sveitastjórnir takast á um sem eru mjög pólitísk s.s eignarhald á orkufyrirtækjum,rekstrarform almannaþjónustu , skattar ,umhverfismál og forgangsröðun samfélagsverkefna . Í þessum málaflokkum skiptir miklu máli hverjum þú treystir best fyrir atkvæði þínu.

Vinstri græn hafa verið ófeimin við að skilgreina sig sem vinstri grænan femínískan umhverfisflokk sem leggur áherslu á félagslegt réttlæti,samfélagslega ábyrgð,öflugt velferðarkerfi,mannréttindi,jöfn búsetuskilyrði,jafnrétti kynjanna og umhverfisvernd. Við höfum komið til dyranna eins og við erum klædd og okkar fulltrúar í sveitarstjórnum munu halda á lofti þessum grunngildum VG og styrkja þannig lýðræðislega aðkomu fjölbreyttra sjónarmiða.
Vinstri græn hafa oftar en ekki verið sterk rödd þeirra sjónarmiða sem annars hefðu ekki eða átt sér fáa málsvara í sveitarstjórnum landsins og í landsmálunum og gegna því mikilvægu lýðræðislegu hlutverki hver og einn hvort sem er í sveitarstjórnum landsins í landsmálunum eða almennt í þjóðfélagsumræðunni.

Meðal annars þess vegna skiptir miklu máli vægi vinstri og hægri ása í stjórnmálum því allt þar á milli verður alltaf erfiðara að henda reiður á það hefur sagan kennt okkur.
Niðurstaða mín er því sú að heilbrigð og gagnrýnin stjórnmálaumræða er lýðræðinu ekki bara holl heldur líka nauðsynleg og vinstri og hægri lifir áfram í nútímasamfélagi þrátt fyrir tilraunir til að aftengja þann pólitíska veruleika og útvatna og sykurhúða alla samfélagslega umræðu.

Lilja Rafney Magnúsdóttir