Yfirlýsing þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vegna  rakarastofufundar í Alþingishúsinu föstudaginn 9. febrúar 2018.

 

Vinstri græn hafa frá upphafi verið femínisk  hreyfing  og femínismi er ein af grunnstoðum hreyfingarinnar. Þingmenn VG hafa einnig verið í fararbroddi við innleiðingu mikilvægra breytinga á löggjöf í málaflokknum, þ.m.t. innleiðingu austurrísku leiðarinnar, skilgreiningu vændiskaupa sem glæps, bann við veitingastarfsemi sem geri út á nekt starfsmanna o.fl. Þessar vörður til stuðnings femíniskra gilda sem hreyfingin hefur stuðlað að fría hana þó ekki frá áframhaldandi baráttu gegn misrétti. VG munu áfram  taka þátt í að varða þá leið. Stjórnvöld hafa tekið á málinu af festu og VG fagna sérstaklega skipun starfshóps á vegum forsætisráðherra um aðgerðir gegn kynferðislegu ofbeldi. VG hafa  skipað starfshóp til að endurskoða aðgerðaáætlun hreyfingarinnar gegn einelti og kynbundnu ofbeldi og sem afgreiða á flokksráðsfundi í ágúst. Þá hefur hreyfingin tekið fullan þátt í samráðsvettvangi stjórnmálaflokkanna. Vinstri græn telja að með #meetoo umræðunni hafi  kompásinn í umræðu  um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi varanlega breyst og muni ekki aftur hverfa til þeirra gilda sem leyfðu þá kúgun og ofbeldi sem viðgengist hefur gegn konum og fjölmargar sögur vitna um. Við viljum leggjast á árarnar til að tryggja að svo verði. Dætur okkar og systur,  mæður og eiginkonur eiga að geta treyst því að synir þeirra og bræður,  feður og eiginmenn komi fram við þær sem jafningja og sýni í verki að ofbeldi gegn konum er ofbeldi gegn okkur öllum.