Ávarp Steingríms J. Sigrússonar, á 20 ára afmæli VG

Setningarávarp á afmælishátíð VG,

laugardaginn 9. febrúar 2019

(Steingrímur J. Sigfússon fyrrv. formaður VG)

 

Góðir félagar í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og hátíðargestir, kjere Nordiske kammerater, other distingvished foreign guests !

Góðann dag og til hamingju með daginn.

— Mér er það heiður og ánægja að opna þessa afmælis- og hátíðardagskrá.

-Í mínum huga ríkir f.o.f. ánægja og þakklæti þegar ég stend hér 20 árum eftir að við hrintum úr vör. En, einnig nokkur tregi og söknuður.

-Ég er innilega glaður og þakklátur fyrir að hafa fengið það tækifæri á mínum stjórnmálaferli, fengið að taka þátt í því ævintýri vil ég segja, að leggja með góðum og samhentum hópi fólks grunninn að nýrri stjórnmálahreyfingu. Og ég er stoltur á þessum degi af þeim árangri sem við í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði höfum náð. Kem aðeins nánar að því aðeins síðar.

-VG varð auðvitað ekki til sem fullsköpuð hreyfing á einum degi 6. febrúar 1999. Að baki lá mikið og þrotlaust starf, fámenns en stækkandi og harðsnúins hóps, sem synti móti straumnum marga mánuði og hátt í ár þar á undan. Það var krefjandi, það var ýmislegt um okkur sagt, það var af flestum fremur illa fyrir okkur spáð, en við héldum okkar striki, og það var fyrst og fremst og eiginlega alltaf gaman. Baráttugleðin, frumbýlisandinn og æruleysið gagnvart því að auðvitað var þetta óvissuferð entist okkur út í gegn og fylgdi okkur mörg ár inn í framtíðina eftir stofnun hreyfingarinnar.

 Gagnrýni og hrakspám svöruðum við f.o.f. á einn veg og á einfaldan hátt; Það sem við erum að gera er eingöngu að láta á það reyna hvort kjósendur í landinu vilja hafa svona hreyfingu, sjá þessar áherslur, í stjórnmálum landsins. Þeir munu svara spurningunnu með atkvæði sínu og þeir ráða. Og kjósendur svöruðu mjög skýrt í kosningunum í apríllok 1999. VG fékk fljúgandi start og hefur ekki litið til baka síðan. Og, vel að merkja, kjósendur geta auðvitað ekki kosið það sem als ekki er í boði. Hefði Vinstrihreyfingin – grænt framboð ekki boðið fram 1999 hefði ekki nokkur maður getað kosið þann flokk og hann hefði a.m.k. ekki orðið til þá, hver veit hvort síðar.

-En, ég sagði líka í byrjun að í mínum huga ríki einnig nokkur söknuður og tregi. Söknuður yfir því að þessi viðburðarríku 20 ár eru liðin og koma aldrei aftur. Hafa reyndar verið ótrúlega fljót að líða. Frumbýlingsárin eru liðin, næstu 20 ár verða öðruvísi þó þau verði að sjálfsögðu, og ég hef alla ástæðu til að ætla, góð. Söknuður og tregi er líka óhjákvæmileg tilfinning þegar maður minnist þeirra sem lögðu upp með okkur en við höfum hvatt. Það er alltaf erfitt, jafnvel hæpið, að nefna nöfn, en ég ætla að láta eftir mér að minnast þriggja félaga sérstaklega. Það eru þau Kristín Halldórsdóttir og Halldór Brynjúlfsson sem bæði leiddu framboðslista í okkar fyrstu þingkosningum og svo hann Árni Steinar Jóhannsson, vinur okkar, sem sat í fyrsta þingflokki VG, en við komum saman til þings fyrir Norðurland eystra, í fyrstu kosningunum, með 22 % stuðning í farteskinu.

Kristín var síðan starfsmaður okkar og framkvæmdastýra í fjöldamörg ár, yndisleg manneskja að vinna með og er sárt saknað. Hún var hársbreidd frá því að ná kjöri í Reykjaneskjördæmi í kosningunum 1999 og var þar þó verulega á brattann að sækja. Sigfús nokkur Ólafsson var kosningastjóri og hefur frá mörgu að segja um brekkurnar sem þau klifu.  Halldór Brynjúlfsson, Dóri okkar, föðurbróðir Mumma Umhverfis, var maður glaðsinna og ótvílráður og var á þingi í u.þ.b. þrjá klukkutíma í talningunum á kosninganótt. Þegar hann var fallinn út aftur og ég hringdi í hann undir morgun og sagði að mér þætti þetta leitt sagði hann; „blessaður vertu, það var gaman meðan á þessu stóð“. Um Árna Steinar minn kæra vin gæti ég sagt margt, hann var einstaklega hugmyndaríkur og frjór maður, yndislegur félagi með stórt hjarta og ég sakna hans hvern einasta dag.

Já, 20 ár hafa auðvitað höggvið skörð í okkar hóp og blessuð sé minning þessara þriggja félaga og allra hinna sem hafa horfið á braut. Ég legg til að við stöndum öll upp og minnumst fallinna félaga með því að lúta höfði í andartaks þögn.

……………………………………………………………………………………………………………….

Takk fyrir !

Já , ég sagðist líta stoltur til baka yfir þessi 20 ár.

-VG hefur haft áhrif frá fyrsta degi sinnar tilveru. Við breyttum landslaginu í íslenskum stjórnmálum og þau væru ólík í dag, verulega ólík að mínu mati, ef við hefðum ekki orðið til.

– Við höfum sett mál á dagskrá sem lítið fór fyrir í pólitískri umræðu fram að okkar tíma. Við höfum haft áhrif og skipt máli jafnt á okkar tíma sem stjórnarandstöðuafl og sem flokkur við stjórnvölin. Umhverfismálin, fyrsti græni flokkur Íslands, sem tók þá djörfu ákvörðun að kenna sig við græna litinn þegar það var næsti bær við að vera hryðjuverkasamtök, See shepard/Greenpease eitthvað, kvenfrelsismálin-feminisminn, þegar það voru enn að mestu jaðarmál og talið sérmál fyrir þrönga hópa mussuklæddra kvenna sem ætti lítið erindi við karla sem væru að hugsa um alvöru stjórnmál. Við höfum haldið öðrum málum á lofti eins friðarmálum og andstöðu við her og hernaðarbandalög, við höfum borið fram rótæka félagshyggju, vinstristefnu, sósíalisma. Við höfum búið um okkar alþjóðahyggju í formi félagslegrar og friðsamlegrar samvinnu sjálfstæðra þjóða, forðast þjóðrembu, einangrunarstefnu og útlendingaandúð og bent á gildi lýðræðislegrar og friðsamlegrar alþjóðasamvinnu þar sem valdbeitingu hinna sterku er hafnað.

-VG hefur látið til sín taka og ekki skort kjark til að taka þátt í ríkisstjórn eða meirihlutum í sveitarstjórnum þegar svo hefur borið undir.

– Af því er ég sérstaklega stoltur. Nú eru það svo sannarlega frekar þeir sem spáðu okkur eilífu áhrifaleysi og eyðimerkurgöngu á jaðri íslenskra stjórnmála sem þurfa að líta í eigin barm fremur en við. Hver getur hrakið þá sögulegu staðreynd að VG hefur nú í tvígang í sinni stuttu sögu skipt sköpum við örlaga aðstæður í íslenskum stjórnmálum. Verið hátt á sjötta ár af tuttugu í ríkisstjórn í sinni sögu. Það gerðum við á öndverðu ári 2009 þegar Ísland gekk í gegn um einhverja dimmustu daga lýðveldistímans og jafnvel þó lengra væri leitað. Þá settum við ekki okkur sjálf eða hreyfinguna okkar í fyrsta sæti og spurðum okkur ekki að því; hvernig væri nú þægilegast að takast á við þessi ósköp. Eigum við að njóta vinsældanna sem klúður meira og minna allra annara stjórnmálafla hefur leitt yfir landið? Eigum við að bíða átekta í þægilegri stöðu og uppskera svo í kosningum þegar allir aðrir eru á felgunni, púnkteraðir, eins og það heitir á norðlensku? Við gerðum það ekki. Við gerðum það sem landið þurfti á að halda þá og þar og ég er og verð óendanlega stoltur af því. Við settum tilgang okkar sem hreyfingar í fyrsta sæti, Tilvera okkar sem stjórnmálahreyfingar er og á að vera að verða til góðs fyrir íslenskt samfélag, náttúru og umhverfi. Ef við erum ekki til í að setja það fremst og ofar öllu öðru, eigum við ekki að bjóða okkur fram til þings eða sveitarstjórna. Ef menn eru í þessu á þeim forsendum að ganga undir sviðsljósin, fá athygli, vera stjörnur um stund en flýja af hólmi ef hin erfiðu verkefni kalla, þá vonast ég til þess að menn leiti þá fremur hófanna hjá einhverjum öðrum flokkum. Það er víst nóg pláss hér og þar og víða.

– Ég er að sama skapi og nákvæmlega eins stoltur af þeirri djörfu ákvörðun sem núverandi formaður, okkar glæsilegi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir, tók þegar hún ákvað að leiða íslensk stjórnmál út úr stór skemmandi pattstöðu og upplausnarástandi til að mynda núverndi ríkisstjórn. Og; það er ekki hægt annað en hugsa í því sambandi til baka til upphafsdaganna, til hrakspánna, til fúkyrðanna. Flokkurinn sem aldrei átti að verða að neinu leiðir nú ríkisstjórn Íslands, Katrín Jakobsdóttir er fyrsti vinstri sósíalistinn sem nokkru sinni hefur leitt ríkisstjórn á hinum sjálfstæðu Norðurlöndum. Jafnvel ég með mitt óbilandi Norður-þingeyska sjálfstraust hefði látið segja mér það tvisvar ef ekki þrisvar 1999 að slíkt ætti eftir að gerast innan 20 ára í sögu þessarar hreyfingar.  

Já, við stofnuðum nefnilega ekki þessa hreyfingu til að vera bara og aðeins andófsafl, jafn geysilega mikilvægt og það hlutverk er, og jafn vel og við kunnum það. (Okkar sex manna þingflokkur 1999 lagði upp með það að vera stærsti og duglegasti þingflokkur stjórnarandstöðunnar þó það þýddi u.þ.b. þrefalda vinnu á hvern mann og þannig varð smátt og smátt myndin af stjórnmálum þess tíma, við virkuðum með dugnaði okkar eins og við værum 18 eða 20 en ekki 6). Nei, við stofnuðum VG til að hafa áhrif til góðs fyrir Ísland, íslenskt samfélag, framtíð Íslands, og það sem fyrst en ekki mögulega eftir hálfan eða heilan mannsaldur. Menn koma og fara, stjórnmálahreyfingar og flokkar koma og fara, en lífið á jörðinni heldur vonandi áfram.

-Vissulega reyndi það stórkostlega á fyrir unga hreyfinu að taka á sínar herðar að bjarga landinu frá þjóðargjaldþroti þegar kompásinn reyndist vitlaust stilltur og allt stefnir upp á sker. Það er óhefðbundið að slíðra sverðin, eins og við höfum nú tímabundið gert með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Tala nú ekki um ef menn eru því vanastir að vakna til þess á morgnana og sofna frá því á kvöldin að berja á pólitískum andstæðingum og finna þeim allt til foráttu. Það getur verið óskaplega þægileg tilvera að vera bara alltaf á móti, og veruleikinn bíður því miður upp á nóg af ástæðum til þess, en mikið óskaplega er ég stoltur og ánægður með að okkar hreyfing festist ekki í þeim hjólförum.

Við vorum stofnuð til að vera mótandi afl, til þess að hafa áhrif, til þess að verða til góðs með okkar tilveru.

Flokkar, stjórnmálahreyfingar, samtök, eru ekki markmið í sjálfu sér, heldur tæki. Þau eru aðferð fólks sem deilir gildum og lífsskoðunum til þess að leggja saman kraftana í þágu þess að hafa með því meiri áhrif en ella. Ekki til þess að einstaklingar gangi tímabundið undir ljósið, ekki til þess að einhverjir skari eld að eigin köku, ekki til þess að eiga aðeins meira dót en hinir þegar maður deyr. Nei heldur til þess að vita, þegar dagur er að kveldi kominn, að maður lifði eins og hugsandi og ábyrg manneskja og reyndi að leggja sitt af mörkum, sitt örlitla lóð á vogarskálarnar, til að líf hins vinnandi manns, líf fjöldans, líf Jóns og Gunnu, yrði aðeins léttara og bærilegra en ella og framtíð lífs á jörðinni ætti sér að minnsta kosti von.

*Til hamingju með 20 árin, kæru félagar í VG. Takk og aftur takk þið öll sem á þessum tíma og í aðdragandanum hafið lagt hönd á plóg, hvar sem þið eruð í dag, hjarna megin eða hinu megin við móðuna miklu og hvort sem þið eruð með á skútunni í dag, hafið leitað annars skiprúms eða tekið ykkur orlof frá pólitík. Ég sé ekki eftir einni einustu sekúndu sem í leiðangurinn hafa farið þessi tuttugu ár og lít á það sem eina mestu gæfu lífs míns að hafa fengið að vera með í ævintýrinu og; það er einnig gaman í dag að fá enn að fljóta með og svo lengi sem maður er vonandi til einhvers gagns.

Ég segi þessa afmælishátíð setta.