Alvöru aðgerðir í loftslagsmálum

 

Ríkisstjórnin kynnti fyrstu áfanga í viðamikilli aðgerðaáætlun í loftslagsmálum á mánudaginn. Eins og kunnugt er settu stjórnvöld sér það markmið í stjórnarsáttmála að Ísland ætti að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Þá eru íslensk stjórnvöld bundin af markmiðum Parísarsamkomulagsins sem miðast við árið 2030. Markmið áætlunarinnar eru tvíþætt. Annars vegar að draga úr losun gróðarhúsalofttegunda og hins vegar að stuðla að aukinni kolefnisbindingu.

Fyrstu áfangarnir eru annars vegar orkuskipti með sérstakri áherslu á rafvæðingu samgangna og hins vegar átak í endurheimt votlendis, landgræðslu og skógrækt. Aðgerðaáætlunin verður þó töluvert víðfeðmari og nær til fleiri þátta. Næstu skref í vinnslu hennar er að hún verður sett í samráðsgátt Stjórnarráðsins til umsagnar auk þess sem stjórnvöld munu eiga samráð við fulltrúa atvinnulífs, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og fleiri.

Það er sérstakt fagnaðarefni að íslenskt atvinnulíf hefur sýnt þessu stóra verkefni mikinn áhuga. Nú þegar hefur sjávarútvegurinn til dæmis dregið verulega úr losun frá flotanum með aukinni fjárfestingu. Fleiri greinar undirbúa nú verkefni til að ná árangri á þessu sviði og ég sé fram á gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs til að ná þessum metnaðarfullu og mikilvægu markmiðum.

Áætlað er að verja rúmum einum milljarði króna til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingu hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi á næstu fimm árum. Þá er ekki meðtalinn kostnaður við áframhaldandi ívilnanir fyrir rafbíla sem þegar eru meðal þeirra mestu sem þekkjast. Rafvæðingin skapar almenningi sömuleiðis möguleika á að auka ráðstöfunartekjur sínar þar sem rekstarkostnaður verður mun lægri en á hefðbundnum olíu- og bensínbílum fyrir utan að þjóðarbúið verður óháðara sveiflum í olíuverði. Þá er mörkuð sú stefna að frá og með árinu 2030 verði allir nýskráðir bílar loftslagsvænir. Að lokum er gert ráð fyrir eflingu almenningssamgangna sem er í senn stórt loftslagsmál og skipulagsmál í þéttbýli.

Þá verður ráðist í umfangsmikið átak við endurheimt votlendis, birkiskóga og kjarrlendis, stöðvun jarðvegseyðingar og frekari landgræðslu og nýskógrækt. Rúmum 4 milljörðum króna varið til þessara aðgerða á næstu fimm árum. Áhersla er lögð á gott samstarf við m.a. bændur og frjáls félagasamtök og sérstök áhersla er til að fagna frumkvæði sauðfjárbænda á þessu sviði sem hafa sett sér metnaðarfull markmið.

Loftslagsmál verða æ fyrirferðarmeiri í pólitískri umræðu enda eru það æ fleiri sem átta sig á nauðsyn þess að ríki heims setji sér skýr markmið til að sporna gegn frekari loftslagsbreytingum. Árangur í loftslagsmálum mun ekki nást nema með samstilltu átaki okkar allra. Þar þurfa stjórnvöld að sýna forystu. Aðgerðaáætlunin sem og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sýna að þar hafa orðið ákveðin straumhvörf og Ísland getur tekið forystu í þessum mikilvægu málum. Það felur í sér mikil tækifæri fyrir íslenskt samfélag og efnahag.

Katrín Jakobsdóttir