Edward Huijbens, varaformaður VG setur flokksráð

Ræða varaformanns og setning

Ágætu félagar, verið velkomin á flokksráðsfund, þann fyrsta eftir að við tókum að okkur að leiða ríkisstjórn hér á landi.

Nú eru liðnir rúmir tveir mánuðir síðan við hittumst hér á þessum sama stað og staðfestum ríkisstjórnarsáttmála VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Líkt og ég sagði þá og segi aftur nú, þá er þessi sáttmáli ákaflega ítarlegur og hreint ótrúleg samsvörun milli okkar nýsamþykktu stefnumála af landsfundi og þess sem þarna er sagt. Við erum byrjuð að breyta Íslandi … Verkefnið sem nú blasir þannig við er að raungera þau orð sem þarna eru á blaði. Stóra plaggið þar að lútandi er ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára sem nú er í vinnslu. Við fáum vafalítið að heyra af því öllu í dag og ræða, en það sem ég hef líka tekið eftir er að vinda hefur lægt að einhverju marki innan okkar ágætu hreyfingar í kjölfar stjórnarmyndunar. Vissulega verð ég var við aðhald og það er alveg ljóst að félagar í okkar hreyfingu munu láta þá sem á þingi sitja og í ríkisstjórn standa reikniskil sinna gerða, og öðruvísi ætti það ekki að vera. En núna erum við að vinna þá vinnu fyrir samfélagið sem við höfum alltaf talað um að nauðsynleg væri. Loksins, segi ég nú bara.

Mig langar í þessu setningarávarpi að fara aðeins út í heim, koma svo heim og horfa yfir sviðið og enda svo á því sem okkur mest varðar öll; það sem næst okkur stendur heimahagarnir og okkar sveitarfélög.

Í upphafi þessa mánaðar fór ég til kóngsins Köbehavn og sat í Grænlandsherbergi danska þingsins í heilan dag að ræða við aðra vinstri og umhverfisverndaflokka í Norður Evrópu um árangur og erfiði við ríkisstjórnarsamstarf. Flokksformenn og framkvæmdastjórar frá Norðurlöndum, Hollandi, Lúxemborg og Þýskalandi lýstu allir áskorunum sem fælust í að færa hreyfingu sem sprettur úr því að standa vaktina í mótmælum á götum úti, yfir í að vinna innan stjórnsýslu að breytingunum sem þarf að gera. Þær áskoranir sem þar var lýst snéru að;
• viðhaldi sambands almennra félaga við forystu,
• sambandi þingflokks við þá sem væru í ríkisstjórn og
• sambandi hreyfingarinnar við götuna, fólkið þarna úti sem lifir sínu lífi í því umhverfi sem stjórnsýslan er að móta.

Þessi sambönd þarf að rækta, innan hreyfingarinnar, og það var verkefni sem ég tók að mér á síðasta landsfundi. Við þurfum að temja okkur vinnulag, samræðuhefð og ferla sem byggja á gagnsæi, trausti og gagnkvæmri virðingu. Eitthvað sem við kunnum og getum og höfum sannarlega sýnt í verki til þessa. En æfingin skapar meistarann, ekki satt?

Annað sem ég lærði þarna úti var að Danir sofa víst í stígvélum! … Það sem þeir áttu við var reyndar að þeir væru ævinlega klárir í kosningar, enda hægt að boða til þeirra með allt niður í 19 daga fyrirvara. Okkar innra skipulag hefur allt miðað að því að vera sífellt meir í startholunum fyrir kosningar, enda ef allt er talið hafa um 13 slíkar verið haldnar síðan 2008, auðvitað ekki allar til þings, sem betur fer. Til að geta staðið í slíku þarf stjórnmálaafl að hafa sín innviði í lagi. Það höfum við sannarlega, um allt land, eftir nærri tveggja áratuga vinnu okkar allra. En til þess þarf einnig fé og nú er það komið að einhverju marki með endurskoðun fjárveitinga til flokkana. Með fúnkerandi innviði og sterkari fjárhag, m.a. til að koma fólki saman á fund sem þennan, getum við enn frekar byggt lýðræðislega málefnaskrá í samtali fólks allstaðar að, nokkuð sem Norðmenn glíma við líkt og við, vegna fjarlægða og kostnaðar. Með góðan fjárhag ættu allir flokkar líka að geta staðið málefnalega að sínum stefnuskrám og þurfa ekki að reiða sig á fáránlegar hliðar áróðursvélum reknar fyrir ákveðna flokka á öðrum kennitölum. … Ég segi því; vaðstígvélin eru allavega komin á náttborðið hjá okkur og það er sannarlega ekki fyrir pjattaða að hafa svo um hnúta búið. Viljann til að gera vel í kosningum skortir ekki hjá okkur og það birtist einnig í kjölfar kosninganna. Eftir að allt var mu garð gengið var uppi krafa meðal félaga um að læra af framkvæmd þeirra. Þessi umræða kemur upp í kjölfar allra kosninga og er fullkomlega eðlileg. Við verðum að taka saman okkar lærdóm. Með það fyrir augum nú settum við Einar Bergmundur upp vefsvæði sem væri aðeins lokaðra en okkar „lokaði“ fésbókarþráður. Þar komu góðar ábendingar fram;
• Það þarf að viðhalda stöðugt fólki í framvarðasveit hreyfingarinnar, þar þarf að vera fólk sem er fyrirvaralítið tilbúið í svo gott sem hvað sem er. Það hinsvegar krefst viðhalds og endurnýjunar. Að vera í framvarðasveit lengi dregur úr flestum þrótt og þeir þurfa stuðning, bakland og einhverja sem hægt er að skipta inná. Verum því alltaf vakandi fyrir nýjum félögum, sérstaklega ungum nýjum félögum. Höfum augun úti í framhaldsskólunum og verum reiðubúin að taka gott samtal um pólitík við alla þar sem sýna því áhuga. Í síðasta VG jólablaði þeirra Eyjamanna er ágæt lýsing á því hvernig gott samtal og hlýjar móttökur gerðu Ragnar okkar Óskarsson að sönnum vinstrimanni. „Ragnar minn, Ertu orðin bolsi? spurði afi hans Magnús, íhald í gegn. Og eftir staðfestingu þess, spurði hann „en við verðum alltaf vinir er það ekki?“ … tja er þaðekki ?
• úthlaupin voru frábær, þó gæta þurfi þess að fá utanaðkomandi til að sjá um þau í smærri byggðarlögum. Málið með úthlaupin er að komast í snertingu við fólk, ná að horfa í augun á fólki með VG merkin á og sýna að við erum venjulegt fólk sem viljum vinna samfélaginu vel. Alla jafna var tekið frámunalega vel á móti okar fólki um allt land og okkur tókst að svara spurningum og sýna pólíkina eins og hún er; Fólk að vinna fyrir fólk.

Eins og ég sagði í upphafi. Við leiðum ríkisstjórn hér á landi. Við erum með forsætisráðherra! Við erum að breyta Íslandi … En nú reynir á! Nú er krafa uppi um að okkar forsætisráðherra beiti sér eins og einhver einræðisherra og ráði og reki ráðherra, eins og kallað er eftir hverju sinni. Sem betur fer virkar okkar stjórnskipan ekki alveg þannig. Sem betur fer, eru ráðherrar ábyrgir fyrir sér sjálfir og sínum ákvörðunum og sem betur fer er ábyrgðin fyrst og fremst og ævinlega kjósenda sjálfra er kemur að því hverjir veljast í ráðherrastóla. Þeir sem kjósa flokka og ráðherra á þing aftur og aftur, sem sannarlega hafa farið á svig við lög og reglur, hljóta að verða skoða hug sinn vandlega. Ég vil skila skömminni, skila henni til þeirra sem kusu, vitandi vits yfir okkur ráðherra sem aðeins virðist vilja fylgja eigin villuljósi. Auk þess eru í okkar kerfi ferli fyrir þessi mál. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlar að fara ofan í saumana á þessu og svo er umboðsmaður Alþingis, sem ætlar að fylla í allar eyður sem nefndin mögulega skilur eftir. Já kæru félagar, það hitnar undir Sigríði Á Andersen og til að þetta eldist nú allt vel og brenni ekki, er betra að hækka hitann rólega.

En … á meðan mallar í pottum og vaðstígvélin þorna á náttborðinu, þá hækkar sól og vorið kemur. Við munum halda áfram að breyta Íslandi … Vorið ber í skauti sér enn nýjar kosningar og nú til sveitarstjórna sem venjan er. Þessi fundur markar formlega upphaf þeirrar baráttu. Í dag ætlum við að leggja grunn að sniðmáti af stefnuskrám VG á landsvísu fyrir sveitarstjórnarkosningar. Slíkt mun styrkja enn frekar innviði VG og gera fólki í fleiri sveitarfélögum kleift að bjóða fram undir okkar merkjum í vor. Það sem ég vil sjá í kjölfar þessa dags er að vinna sem hófst á ráðstefnu okkar sveitarstjórnafulltrúa í gærkvöldi verði kláruð og leggi grunn að málefnaskrá framboða VG um allt land. Óli Halldórsson okkar maður á Húsavík sér fyrir sér að í þessu plaggi væru meginatriðin úr stefnu hreyfingarinnar soðin niður í stutt hnitmiðað punktaform og aðlöguð sveitarstjórnarstiginu. „Enn betra væri svo að þetta yrði frágengið í flottu hönnuðu “layout-i”“, sagði hann líka. Þetta lýst mér vel á og legg til að við vinnum að þessu í dag. Teiknum upp hugmyndir að innihaldi og felum skrifstofu að klára pakkann fyrir páska.

En hvaða mál gætu þetta verið sem svo brenna á okkur og hægt væri að staðfæra?
• loftlagsmál – stefna/aðgerðir á sveitarstjórnarstigi –
• skólamálin (t.d. samfélagsreknir skólar og leikskólar – andspænis einkareknum leik- og grunnskólum) –
• lýðheilsustefna í framkvæmdum –
• jafnréttisstefna –
• aðgerðir til aðlögunar og mótttöku innflytjenda – húsnæðisúrræði félagsleg o.s.frv….
• Borgarlína er ekki bara um borgina okkar …. Samningum landshlutasamtaka um almenningssamgöngur verður sagt upp 1. mars af þeirra hendi. Mikið sleifarlag og þetta þarf á vera á einni hendi og þarf að samnýta alla flutninga, sérstaklega í dreifðum byggðum.
• Með væntanlegri lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, þurfa sveitarfélög að finna úrræði fyrir börn og fjölskyldur þeirra þegar orlofi lýkur til að brúa bilið yfir í leikskóla.
• Grunnskólar fyrir alla og að frambjóðendur VG eigi samtal við grunnskólakennara um hvað það er í aðstæðum skólanna sem þarf að bæta.
• Kolefnishlutleysi sveitarfélaga: Sveitarfélög stefni að kolefnishlutleysi í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar
• Plastlaus sveitarfélög
• Réttur barna til tómstunda svo sem íþrótta
• Félagsleg þjónusta og húsnæðismál: Sameiginleg ábyrgð sveitarfélaga á þegnum landsins

Þetta eru bara nokkur mál sem mér hafa borist til eyrna frá ykkur félagar góðir og nokkur frá mínu hjarta, en vafalítið eru þau fleiri og þau þarf auðvitað að sníða að veruleik hvers sveitarfélags fyrir sig.

Dagurinn í dag fer þá þannig fram að eftir að ég hef lokið máli mínu kynni ég ályktanir sem bárust fundinum og þar á eftir talar forsætisráðherra vor Katrín Jakobsdóttir. Svo fáum við okkur hádegissnarl og síðan hefst hópavinna undir titlinum „Sveitastjórnarkosningarnar, um hvað eiga þær að snúast?“. Við lok þeirra hópavinnu þá þurfa hópar að kynna sínar hugmyndir. Hóparnir eru:
1. Umhverfishópur
Hópstjórar: Andrés Skúlason og Líf Magneudóttir

2. Húsnæði og skipulagsmál
Hópstjórar: Dagný Alda Steinsdóttir og Röðull Reyr Kárason

3. Menning og menntun
Hópstjórar: Sóley Björk og Hermann Valsson

4. Velferðar og heilbrigðismál
Hópstjórar: Hildur ?? og Sæmundur Helgason

5.Efling sveitarstjórnarstigsins
Hópstjórar: Berglind Häsler og Una Hildardóttir

6. Atvinna og nýsköpun
Hópstjórar: Sif Jóhannesdóttir og Bjarki Björnsson

Eftir þá kynningu er kaffihlé og svo afgreiðsla ályktanna. Svo mun ég slíta fundi með vel völdum lokaorðum.

Að lokum verða í boði léttar veitingar og þar vil ég nefna nýjan tón. Í samtali mínu við aðra flokka í kóngsins Köben sem ég nefndi í upphafi, kom nokkuð áhugavert fram. Norðmenn, þar sem stjórnmálafólk er hvert af öðru að falla fyrir #Metoo bylgjunni, ætla að fara að ræða „fílinn í herberginu“ er kemur að þeirri byltingu. Fíllinn er áfengi, sem nærri aldrei er fjarri þegar ofbeldið á sér stað. Bendum á það líka, förum að ræða taumleysismenninguna sem nærist á bokkunni. Ég vil taka þá umræðu undir léttum léttum veitingum og VG opni þannig á umræðuna um fílinn í herberginu. Við erum að breyta Íslandi …

Að lokum vil ég kynna þær ályktanir og tillögur sem liggja fyrir fundinum. Þar eru þrjár ályktanir og tvær tillögur sem sendar voru til ykkar rafrænt í gær.
• Fyrst er ályktun frá Cecil Haraldssyni okkar manni á Seyðisfirði um stuðning við sjálfstæðishreyfingar þjóða.
• Næst eru tvær frá okkar manni í Reykjavík, Steinari Harðarsyni um breytingar á sveitarstjórnarlögum til að tryggja rétt íbúa og önnur um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
• Una Hildardóttir sendi inn tillögu þess efnis að endurskoða aðgerðaáætlun VG gegn einelti og kynbundnu ofbeldi.
• Og Jakob Jónsson sendi inn tillögur um skipan starfshóps um mótun stefnu gegn spillingu

Það er hægt að skoða þessar ályktanir og tillögur nánar í gögnum fundarins.

Með þessum orðum lýsi ég fundinn settann og bíð næsta í pontu forsætisráðherra vorn og formann hreyfingarinnar; Katrínu Jakobsdóttur.