Fyrsti fundur loftslagsráðs

Loftslagsráð kom saman í fyrsta sinn í vikunni, en því er ætlað að vera stjórnvöldum til aðhalds með markvissri ráðgjöf um stefnumarkandi ákvarðanir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi. Þar á meðal eru aðgerðir til að draga úr losun og auka bindingu gróðurhúsalofttegunda, efla viðnámsþol gagnvart afleiðingum veðurfarsbreytinga og efla almenna vitund um loftslagsmál og aðgerðir til að sporna gegn þeim.

Halldór Þorgeirsson er formaður Loftslagsráðs en hann hefur áralanga reynslu af loftslagsmálum sem einn af æðstu yfirmönnum hjá skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) og þar áður sem fulltrúi Íslands í alþjóðlegum loftslagsviðræðum. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, er varaformaður. Bæði eru skipuð af umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni.

Í ráðinu eiga einnig sæti Pétur Reimarsson, verkfræðingur, sem tilnefndur er af Samtökum atvinnulífsins; Sigurður Ingi Friðleifsson, tilnefndur af Neytendasamtökunum; Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri, tilnefnd af Samtökum íslenskra sveitarfélaga; Jóhanna Harpa Árnadóttir, stjórnarmaður, tilnefnd af Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð; Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands; Guðfinna Th. Aðalgeirsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og Steingrímur Jónsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, tilnefnd sameiginlega af háskólasamfélaginu; og Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Ragnhildur Freysteinsdóttir frá Skógræktarfélagi Íslands, tilnefnd sameiginlega af umhverfisverndarsamtökum.

Loftslagsráð skal meðal annars gera tillögur til umhverfis- og auðlindaráðherra um framtíðarfyrirkomulag stjórnsýslu loftslagsmála á Íslandi fyrir 1. október 2018. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að allar helstu áætlanir stjórnvalda eigi að rýna með tilliti til loftslagsmála. Ráðið skal gera tillögu til ráðherra fyrir lok árs 2018 um hver skuli hafa það hlutverk með höndum og hvernig það sé best gert.

Loftslagsráði er jafnframt falið að vinna greinargerð um markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi 2040 og hvernig unnt sé að ná því. Greinargerðinni skal skilað fyrir 1. mars 2019.

Loftslagsráð skal auk annars hafa samstarf við nýstofnað ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Lögð er áhersla á að ráðið vinni með stjórnvöldum og stofnunum sem sinna loftslagsmálum til að forðast tvíverknað, byggja brýr milli stjórnvalda og annara og tryggja að vinna ráðsins nýtist sem best.