Gagnsemi greininga

Í júní mán­uði hafa tvær skýrsl­ur al­þjóða­stofn­ana verið birtar um landið og báðar leggja sér­staka áherslu á þróun ferða­mála. Það sem mest brennur á íslenskri ferða­þjón­ustu um þessar mundir er fyr­ir­huguð breyt­ing á virð­is­auka­skatti á greinar ferða­þjón­ustu í kjöl­far þeirra breyt­inga sem áttu sér stað um ára­mótin 2015/16. Í því sam­hengi sagði fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjón­ustu í frétta­tíma RÚV, 27. júní sl., að mik­il­vægt væri að byggja slíkar ákvarð­anir á grein­ing­um. Er það nokkuð sem ég get vel tekið undir enda staðið í þeim nú í rúman ára­tug.

Nú þarf vissu­lega að efla grein­ingar almennt á áhrifum gesta­koma á land og þjóð. Í sam­hengi áhrifa skatta­breyt­inga vil ég sér­stak­lega nefna gagna­öflun um ferða­þjón­ustu í tengslum við hlið­ar­reikn­inga­gerð Hag­stofu Íslands­. Hins veg­ar má spyrja hve margar grein­ingar þarf til að und­ir­byggja ein­staka ákvarð­an­ir. Þær tvær skýrslur sem komu út í jún­í, ann­ars veg­ar frá Alþjóða gjald­eyr­is­sjóðnum (AGS) og hins veg­ar frá Efna­hags­sam­vinnu- og þró­un­ar­stofn­unin (OECD), byggja á nokkuð ítar­legum grein­ingum á stöðu mála, með vísan m.a. til fræði­greina um efnið sem birtar eru á rit­rýndum vett­vangi. Báðar veita góða inn­sýn í mögu­leg áhrif af skatta­breyt­ing­um.

Skýrsla AGS segir ekk­ert beint um fyr­ir­hug­aðar breyt­ingar á virð­is­auk­an­um. Þeir leggja hins veg­ar á­herslu á að vöxtur ferða­þjón­ustu verði við­var­andi, þó mögu­lega hægi eitt­hvað á. Þeir benda á að Ísland hefur siglt langt fram úr því sem vænta mætti þrátt fyrir geng­is­þróun hér á landi og þróun hag­vaxtar landa á upp­runa­mörk­uð­um, sem almennt segir til um kaup­mátt þar og þá líkur til að fólk ferð­ist. Það sem AGS segir skýra það eru nokkrir þætt­ir. Fyrst er að nefna hlut­verk flugs­ins en, líkt og OECD, benda þeir á að þar liggja færi stjórn­valda á að stýra þróun mála. AGS nefnir einnig  op­in­bera fjár­fest­ingu í  af­þr­ey­ingu, öryggi Íslands og hlut­verk mark­aðs og kynn­ing­ar­mála. Undir þessu öllu og helsta skýr­ing þró­unar er þó gosið í Eyja­fjalla­jökli, sem kom land­inu og víð­ernum þess og óbyggðum á heimskort ferða­langa um allan heim. AGS bendir á að gengi og verð­lag mun ekki hafa áhrif á gesta­komur, nema mögu­lega stytta dvöl og breyta mynstri eyðslu. Þeir telja þó að á móti því vinni að  Ís­land er eftir allt dýr áfanga­staður sem nýtur sér­stakrar mark­aðs­hylli sem teng­ist norð­ur­slóðum og víð­ern­um. Einnig bendir AGS á að upp­sveiflur í ferða­þjón­ustu eigi það til að haldast, í þeim búi ákveðin þrá­kelkni eða skrið­þungi, svo notuð séu hug­tök sem ég og spænskur kollegi minn beitum á grein­ingu gesta­komu hér á landi í grein sem nú er í rýn­i.

Í yfir­liti OECD um stöðu efna­hags­mála á Íslandi í júní og grein­ingu á stöðu ferða­mála er tekið undir með AGS um vöxt grein­ar­innar og drif­krafta hans. Þeir segja einnig að hægja mun á vexti, en margt vinnur með Íslandi svo sem víð­ern­in, staða lands­ins sam­göngu­lega séð og breidd upp­runa­mark­að­ar, það er við erum ekki háð einu landi með gest­i. Sem­sagt gestum mun halda áfram að fjölga, enda sam­keppn­is­staða lands­ins sem áfanga­staðar ásætt­an­leg. Það sem OECD leggur sér­staka áherslu á er sjálf­bærni lands­ins og upp­bygg­ingu grein­ar­innar í takti við þarfir þjóðar og nátt­úru. Einnig draga þeir sér­stak­lega fram mik­il­vægi þess að sam­hengi sé milli stefnu í sam­göngu­málum og ferða­mál­um.

Ólíkt skýrslu AGS tek­ur OECD skýrslan hins veg­ar ­skýra afstöðu til umræðu um virð­is­auka og segir að færa skuli greinar ferða­þjón­ustu í hefð­bundið þrep virð­is­auka­skatts. Þá umræðu set­ur OECD í sam­hengi við tekju­mögu­leika hins opin­bera og sveit­ar­fé­laga og í beinu fram­haldi kemur umræða um sjálf­bærni og mögu­leg stýri­tæki á þágu hennar með fjölda dæma og sam­an­burð­ar­hug­mynda frá öðrum löndum um leið­ir, mikið sem bent hefur verið á af íslensku fræða­fólki. OECD sýnir hvernig sú breyt­ing sem var gerð ára­mótin 2014/16 skil­aði auknum tekjum og sama má lesa í Tíund frétta­blaði Rík­is­skatt­stjóra nú í jún­í.

Þá má spyrja hvort breyt­ingar á stöðu ferða­þjón­ustu gagn­vart virð­is­auka­skatti séu hin rétta leið til að ná í frek­ari tekjur af gest­um. Komu­gjöld og ýmis þjón­ustu­gjöld við áfanga­staði inn­an­lands hafa verið nefnd sem val­mögu­leikar og í fyrr­nefndu við­tali lagði fram­kvæmda­stjóri SAF áherslu á „gjald­töku fyrir virð­is­auk­andi þjón­ust­u“. Hér þarf að átta sig á sér­stöku eðli ferða­þjón­ustu og þeirri stað­reynd að hún er ekki hefð­bundin útflutn­ings­grein. Ferða­þjón­usta kemur inn á öll svið mann­lífs­ins og snýst ekki bara um gor­etex klætt ferða­fólk, heldur marga aðra sem koma í afar ólíkum til­gang. Í riti Sam­ein­uðu Þjóð­anna sem skil­greinir aðferða­fræði við gerð hlið­ar­reikn­inga er lagt áherslu á að efna­hags­á­hrif af gesta­komum þarf að nálg­ast gegnum gest­ina sjálfa, neyslu þeirra og athafn­ir. Þetta er megin ástæða þess að gera þarf sér­stak­lega grein fyrir aðferðum til að ná utan um ferða­þjón­ustu við gerð þjóð­hags­reikn­inga. Til þess að ná tekjum af ferða­þjón­ustu til hins opin­bera þá er þannig eðli­leg­ast að horft sé til þess hvernig gestir koma inn á öll svið mann­lífs­ins og hið opin­bera nái því í tekjur gegnum hið hefð­bundna skatt­kerfi. Í þessu sam­hengi er einnig mik­il­vægt að skilja að virð­is­auka­skattur er í reynd ekki lagður á aðföng, þar sem þau fást að fullu end­ur­greidd sem inn­skatt­ur. Skatt­ur­inn er aðeins bor­inn af þeim sem kaupa vöru og þjón­ustu til end­an­legra nota.

Miðað við grein­ingar AGS og OECD á stöðu og fram­tíð­ar­horfum íslenskrar ferða­þjón­ustu munu tekjur hins opin­bera aukast af grein­inni með því að setja ferða­þjón­ustu í venju­legt virð­is­auka­skatts umhverfi, þar sem verð­breyt­ingar á ferða­þjón­ustu ráða ekki úrslitum hér um gesta­kom­ur. Auð­vitað þarf frek­ari grein­ingar til að fylgj­ast með mögu­lega breytt­u ­neyslu­mynstri ­gesta og breyt­ingum á ferða­hegðun um landið og þá hvað nákvæm­lega skýrir það, en miðað við þá mynd sem góðar grein­ingar öfl­ugra al­þjóða­stofn­ana hafa teiknað upp má taka ákvörðun sem teld­ist nokkuð vel upp­lýst. Hins veg­ar er mik­il­vægt að hafa góða fyr­ir­vara á slíkum ákvörð­unum og átta sig á að landið er ekki ein heild, raun­veru­leiki ferða­þjón­ustu er ólíkur á SV horn­inu og ann­ars stað­ar. Þar kemur sam­göngu­kerfið inn og sam­þætt­ing ólíkra ­sam­göngu­mála ­sem jafnað gæti þann aðstöðumun. Hið raun­veru­lega stýri­tæki í gesta­komum er stefna okkar í sam­göngu­málum þar sem flug­völl­ur­inn í Kefla­vík leikur lyk­il­hlut­verk. Upp­bygg­ing hans og teng­ing við aðra lands­hluta ásamt mót­væg­is­að­gerðum vegna breyt­inga á vsk fyrir ferða­þjón­ustu úti um land þar sem árs­tíða­sveiflna í gesta­komum gætir enn veru­lega munu skipta sköp­um. Enn eru því sókn­ar­færi í ferða­þjón­ustu, með virð­is­auka.

Edward Hujibens

Höf­undur er pró­fessor við Háskól­ann á Akur­eyri.  (fyrst birt í Kjarnanum)