Gamla sundhöll Keflavíkur menningarverðmæti

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar fundar 13. febrúar nk. og mun ákveða  hvort samþykkja eigi nýtt deiliskipulag fyrir Framnesveg 9, þar sem gamla sundhöll Keflavíkur stendur í dag. Ef deiliskipulagið verður samþykkt, geta eigendur lóðarinnar rifið niður sundhöllina. Ég vona að bæjarráð hafni deiliskipulaginu og hlúi þess í stað að sögu- og menningarverðmætum bæjarins.

Sundhöll Keflavíkur hefur verið mikið í umræðunni undanfarið og skiptar skoðanir um ágæti þess að rífa þessa fyrstu sundhöll bæjarins. Margir hafa lýst væntumþykju og góðum æsku minningum, á meðan aðrir telja engann missi í því að höllin gamla verði jöfnuð við jörðu. Háværust er þó sú rödd íbúa  sem telja að byggingin hafi varðveislugildi og hvetja jafnframt  bæjaryfirvöld að beita sér fyrir því að húsið verði friðað. Saga sundhallarinnar er merkileg þó ég fari ekki að rekja hana sérstaklega, en hún er fyrsta sundaðstaða Keflavíkinga hönnuð af húsasmeistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni, fyrsta arkitekt okkar íslendinga.

Íbúar Reykjanesbæjar sem vilja ekki sjá sundhöllina hverfa hafa mikinn meðbyr í bæjarfélaginu. Þeir krefjast þess að Reykjanesbær beiti sér fyrir því að vernda húsið.  Ábyrgð bæjarstjórnarmanna er mikil og þeim ber, að mínu mati, að sýna áhyggjufullum íbúum skilning, vegna þess að íbúar sem láta í sér heyra, taka á sig samfélagslega ábyrgð, sem ber að fagna í heilbrigðu samfélagi.
Eins og svo oft bregst yfirvaldið með því að hræða íbúa með Grýlusögum, stefnu sinnar til framdráttar. Sögusagnir um að ef bæjarfélagið taki húsið, muni það kosta bæjarfélagið fleiri hundruðir milljóna svo ekki sé talað um hugsanlegar skaðabætur?  Einnig hafa heyrst raddir um að Minjastofnun Íslands sjái engan missi í húsinu og sjálfsagt að það verði rifið.

Minjastofnun Íslands ritaði Skipulagsfulltrúa Reykjanesbæjar bréf í október 2017 undir þar sem efnið er Framnesvegur 9 – gamla sundhöllin í Keflavík.
„Minjastofnun Íslands telur að byggingin sé varðveisluverð, bæði frá sjónarhóli byggingarsögu og vegna menningarsögulegs gildis um bað- og sundmenningu Íslendinga og Keflvíkinga á fyrri hluta 20. aldar. Sundhöll Keflavíkur er meðal nokkurra sundhallarbygginga sem Guðjón Samúelsson húsameistari hannaði um svipað leyti, eins og t.d. sundhöll Seyðisfjarðar sem byggð var árið 1948 og sundhöll Ísafjarðar sem tekin var í notkun árið 1946. Báðar eru þessar sundlaugar enn í notkun og hafa fengið gott viðhald.” Einnig kemur fram í sama bréfi að Minjastofnun Íslands telji að vel upp gert gæti húsið orðið staðarprýði.

Það var ljóst í samtali mínu við Minjastofnun Íslands, að frá þeirra hálfu eru mörg úrræði til að tryggja öryggi hússins.
Sem dæmi væri hægt að fara þess á leit við ráðherra að fá „skyndifriðun” sem gefur bæjaryfirvöldum tíma til að fresta ákvörðunartöku og leita ásættanlegrar lausnar.  Bæjaryfirvöld gætu einnig farið þess á leit við Húsfriðunarsjóð ríkisins að friðlýsa húsið og með því yfirfæra ábyrgð og kostnað til ríkisins um endurbætur og rekstrarkostnað. Samkvæmt viðtali mínu við Minjastofnun Íslands hefur stofnunin mikinn áhuga að húsið fái að standa og lýstu samstarfsvilja við bæjaryfirvöld að finna ákjósanlega lausn til að vernda húsið.

Að mínu mati er ljóst að ef bæjaryfirvöld kjósa að tryggja öryggi hússins þá eru allar dyr opnar. Staðhæfingar um hundruða milljóna kostnað eru tölur gripnar úr lausu lofti og eiga ekki við rök að styðjast. Einnig er óraunhæft að tala um skaðabætur þar sem enginn skaði hefur verið gerður. Deiliskipulag hefur ekki verið samþykkt og byggingarleyfi hefur ekki verið veitt.

Það er ekki langt síðan að háværar raddir hvöttu til þess að rífa Duus húsin á sínum tíma. „Ónýtt drasl” voru slagorðin á þeim tíma. Þorir einhver að hugsa til þess í dag ef Duus húsin væru horfin? Þökk sé framtíðarsýn þáverandi bæjaryfirvalda að kanna hug íbúa, með því að halda hönnunarkeppni sem byggði á hagstæðum lausnum og hugmyndum um notkun á húsunum. Ég var á þriðja ári í arkitektúr á þeim tíma og tók þátt í keppninni ásamt mörgum öðrum með hönnun fyrir smábátahöfn, listasafni og kaffihúsamenningu. Í dag eru Duus húsin stolt bæjarbúa og hin mestu bæjarprýði.
Það væri ekki úr vegi fyrir bæjaryfirvöld að gera slíkt hið sama í dag fyrir Sundhöll Keflavíkur og með því hvetja bæjarbúa til listsköpunar og þátttöku í umhverfi sínu.

Á endanum snýst verndun sundhallar Keflavíkur ekki um tilfinningar eða fegurðarskyn hvers og eins heldur um að vernda sögu Keflvíkinga og sundmenningarsögu Íslendinga fyrir komandi kynslóðir. Þótt byggingin sé ekki ýkja gömul í dag þá verður hún það einn daginn og mun án efa verða okkur öllum til sóma ef rétt verður staðið að verkum.

Dagný Alda Steinsdóttir
Fulltrúi Menningarráðs Reykjanesbæjar.