Ræða Katrínar á flokksráðsfundi 8. febrúar

Kæru félagar!

 

Það er mér sérstakur heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag þegar við fögnum tuttugu ára afmæli Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

 

Fyrir nokkrum árum gengum við Vinstri-græn að Gljúfurleitarfossi í sumarferð hreyfingarinnar en fossinum var þá ógnað af virkjanaáformum, svokallaðri Norðlingaöldu. Fyrst sátum við saman í alllangri rútuferð eftir holóttum vegi og reyndum að syngja baráttusöngva meðan innyflin skiptu um stað. Í rigningu og roki fengum við okkur pönnukökur og kaffi í skjóli langferðabílsins áður en við lögðum af stað í gönguferðina góðu. Á meðan á kaffinu stóð var ákveðið að reka nokkra girðingarstaura niður á gönguleiðinni svona rétt í leiðinni. Gangan tók tímann sinn en fossinn var hverrar mínútu virði. Þarna vorum við saman. Börn og gamalmenni. Félagar í VG. Margir makar mættir til að taka þátt í þessum skrýtna félagsskap, sumir af fúsum og frjálsum vilja, aðrir vafalaust undir talsverðum þrýstingi. Þegar ég lít aftur finnst mér þessi ganga að einhverju leyti svo lýsandi fyrir VG. Rútuferðin langa. Pönnukökurnar og kaffið sem félagar höfðu sjálfir undirbúið. Gangan þar sem gripið var í nokkur verkefni á leiðinni, þarna var jú þörf á að setja niður staura. Og fossinn sem sólin blikaði á þegar við loksins komum.

 

Það getur tekið á að vera í VG og stundum er það skrýtið eins og þegar maður heldur á girðingarstaur í göngu – reyndar ekki það skrýtnasta sem ég hef lent í; ég gæti sagt ykkur sögur af lifandi þorskum, súrmat í plastfötum, útifundum í óveðrum, og mörgu fleiru – og stundum tekur tíma að ná áfangastað, stundum erum við óheppin og stundum erum við óheppileg. Við prentum tíu þúsund póstkort með yfirskriftinni Næst á dagskrá: Rættlæti. Og sitjum svo við heila nótt með tíu þúsund límmiða með Næst á dagskrá: Réttlæti. Við erum alltaf næstum því með þetta og steinhissa þegar enginn er sammála okkur. Við rífumst oft, við gefum helst engan afslátt, en við erum líka félagar.

 

Við munum nota tækifærið um helgina til að líta um öxl, rifja upp söguna. Hún er um margt merkileg því saga VG er líka saga mikilla umbrotatíma í íslenskum stjórnmálum. Og við munum líka líta fram á við og velta því upp, hver er staða okkar hreyfingar í samtímanum og hver er staða vinstrisins í heiminum?

 

Árið 1999 þegar Vinstri-græn voru stofnuð var þeim ekki spáð manni inn á þing. Flokkurinn var stórsigurvegari þeirra kosninga, náði þvert á væntingar sérfræðinga, sex þingmönnum sem voru þau Árni Steinar Jóhannsson heitinn, Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson. Þessi sex manna þingflokkur varð strax feyki duglegur eins og hann væri margfalt stærri og þau stóðu vaktina í stórum málum, bæði á sviði náttúruverndar þar sem Kárahnjúkar voru nú líklega stærsta málið, og á sviði almannaþjónustu þar sem þingmenn VG stóðu styrk gegn einkavæðingu og markaðsvæðingu, á tímum þar sem andstaða við slíkt var talin til marks um gamaldags og íhaldssaman hugsunarhátt.

Kosningarnar 2003 voru auðvitað ákveðin vonbrigði eftir sigurinn 1999 en þá missti hreyfingin einn þingmann og þurfti að berjast gegn þungum áróðri um að VG væru á móti öllu. Sama mátti reyndar segja um sveitarstjórnarkosningarnar 2002 sem voru einnig vonbrigði hvað fylgi varðar og raunar höfum við lengi átt erfitt með að festa okkur í sessi á sveitarstjórnarstiginu þrátt fyrir nokkur sterk vígi. En það hefur verið okkur dýrmætt að kunna að tapa og kunna að sigra og láta það ekki á okkur fá. Því auðvitað hefur gengi okkar verið sveiflukennt allt frá stofnun.

 

Og það sem við höfum séð á þessum tíma er gerbreyting á okkar málefnalegu stöðu. Þegar við Vinstri-græn töluðum um nýsköpun og að hverfa frá stóriðjustefnunni, eitthvað annað, þóttum við hlægileg og eitthvað annað var skilgreint sem fjallagrös og sauðskinnsskór. Þegar Vinstri-græn vildu gera kaup á vændi refsiverð vorum við púritanar sem hötuðu karlmenn og voru á móti kynlífi. Þegar við vildum fella niður leikskólagjöld vorum við óraunsætt draumórafólk. Og þegar við sögðum að kannski væru bankarnir of aðsópsmiklir vorum við sögð standa gegn framförum og jafnvel sjálfum nútímanum.

En sagan sýnir að öll þessi mál eru nú hluti af meginstraumi stjórnmálanna.

 

Fyrstu tíu ár VG stóðum við utan ríkisstjórnar. Eftir góða kosningu árið 2009 blasti hins vegar beint við að halda áfram stjórnarsamstarfi við Samfylkingu en eins og við munum mynduðum við minnihlutastjórn með henni þann 1. febrúar 2009. Sú ríkisstjórn vann ótrúlegt starf á tímum sem líklega voru mestu umbrotatímar í íslensku samfélagi frá lýðveldisstofnun. Það tókst að ná ótrúlegum árangri við að rétta af stöðu ríkissjóðs með blandaðri leið skattahækkana og niðurskurðar sem var í andstöðu við meginstraum hagfræðikenninga þess tíma.

 

Mörg lönd fóru þá leið að bregðast eingöngu við alþjóðlegu fjármálakreppunni með niðurskurði, sem hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir almenning. Nýlega fór sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna gegn fátækt í heimsókn til Bretlands og sagði í skýrslu sinni að lokinni ferð að niðurskurðarstefna breskra stjórnvalda hefði skilið borgara landsins eftir í eymd og vesæld. Hann tók harðar til orða en við eigum að venjast um nágrannalönd okkar, sagði fimmta hvern landsmann búa við fátækt. Hann dró fram hversu kynjuð niðurskurðarstefnan er þegar hann sagði að þótt hópur af karlrembum hefði verið kallaður saman til að hanna kerfi sem ívilnaði körlum á kostnað kvenna, þá hefði sá hópur ekki getað lagt til margt sem var ekki þegar í framkvæmd. Ég nefni þetta hér, án þess að vilja taka Bretland sérstaklega út fyrir sviga, því að hinn valkosturinn í baráttunni eftir hrun var einmitt þessi, að skera niður og eins og svo oft, taka sparnaðinn beint úr vösum kvenna og þeirra sem minnst eiga.

 

Við nýttum tækifærin í atvinnulífi til að endurmóta efnahagslífið. Fjárfesting sem hófst í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum og fyrstu lögin um starfsumhverfi nýsköpunar sem sett voru á þessu kjörtímabili skilar sér nú í sterkari hugverkaiðnaði og fjölbreyttara efnahagslífi. Fyrstu lögin um loftslag og ný lög um rammaáætlun. Það tókst að opna skóla landsins fyrir atvinnulausu fólki sem þar með gat skapað sér ný tækifæri í stað þess að sitja heima á atvinnuleysisbótum þegar enga vinnu var að fá. En um leið voru verkefnin flókin, hvort sem þau voru óumbeðin eins og Icesave-samningarnir, eða Evrópusambandsumsóknin þar sem við Vinstri-græn gerðum ákveðna málamiðlun af því að við töldum það algjört lykilatriði að verja félagsleg gildi við stjórn landsins. Sú ákvörðun reyndist okkur erfið en ég minni þó á að enn stöndum við utan ESB og vilji þjóðarinnar virðist ekki vera sá að við höldum í annan leiðangur í þá átt.

 

Eins og ég nefndi áðan var stjórnarsamstarfið okkur erfitt að því leyti að við töpuðum helmingnum af okkar fylgi. En um leið tel ég að það hafi verið rétt ákvörðun að stíga þetta skref sem að einhverju leyti varð til þess að Vinstrihreyfingin-grænt framboð reis undir ábyrgð á mjög erfiðum tímum og við getum horft stolt til baka á þann árangur sem við náðum.

 

Við tók tími í stjórnarandstöðu þar sem við nýttum andrýmið til að byggja okkur upp. Stemmningin var góð þrátt fyrir að við þyrftum að nýta alla okkar krafta, annars vegar til að ná fjárhagnum á rétt ról, og hins vegar til að ganga í gegnum þá málefnalegu endurnýjun sem við þurftum á að halda eftir fjögur ár af miklum hasar í ríkisstjórn. Og sú vinna skilaði sér í góðum árangri í óvæntum kosningum haustið 2016. Ári seinna, eða 2017, var aftur boðað til kosninga og við tókum þá ákvörðun að fara í stjórnarsamstarf sem við vissum að yrði umdeilt en gæfi um leið tækifæri til að ráðast í þá samfélagslegu uppbyggingu sem við töldum að væri aðalatriðið að fara í eftir mörg ár niðurskurðar og þrenginga í kjölfar kreppu. Við töldum ófært annað en að nýta meðbyr í efnahagslífinu til brýnna verkefna við að byggja upp innviði landsins.

Og hér erum við nú, tuttugu ára gömul. Tíu fyrstu árin voru ólík þeim tíu sem á eftir fóru. Og næstu tíu verða vafalaust öðruvísi.

 

Kæru félagar.

 

Öll tökum við þátt í stjórnmálum til að hafa áhrif og leggja okkar af mörkum við að bæta samfélagið. Ég þarf ekki að rekja í smáatriðum þær sérstöku kringumstæður og röð kosninga sem leiddu til þess að við ákváðum að mynda núverandi ríkisstjórn. Sem forystuflokkur í ríkisstjórn erum við í góðri stöðu til að ná ýmsum af okkar markmiðum. Í stefnu ríkisstjórnarinnar eru lykilmálin þau sömu og við lögðum mesta áherslu á fyrir síðustu kosningar. Við vildum sjá árangur í uppbyggingu samfélagslegra innviða – við vildum sjá raunverulegar aðgerðir í loftslagsmálum – við vildum sjá framfarir í jafnréttis- og kvenfrelsismálum. Allt það sem við höfum staðið fyrir hingað til og náð árangri í.

 

Undir okkar forystu hefur ríkisstjórnin átt samtal og samstarf allt frá fyrsta degi við verkalýðshreyfinguna, atvinnurekendur og sveitarfélögin.

Þetta samstarf hefur skilað dýrmætum kjarabótum fyrir atvinnulausa.

Þetta samstarf hefur skilað þeirri langþráðu breytingu að kjararáð var lagt niður og launafyrirkomulag æðstu embættismanna verður sambærilegt við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.

Þetta samstarf hefur skilað raunverulegum tillögum til að leysa húsnæðisvandann sem er risastórt lífskjaramál fyrir venjulegt fólk. Þær snúast um félagslegar lausnir: Að efla almenna íbúðakerfið, efla vernd leigjenda, skapa ramma um starfsemi óhagnaðardrifinna leigufélaga og flýta uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði.

Nýjar tillögur hafa sömuleiðis litið dagsins ljós í samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um hvernig við getum tekið á félagslegum undirboðum, kennitöluflakki og launaþjófnaði og ekki er vanþörf á eins og sjá mátti í fréttum gærdagsins. Slík meinsemd á ekki að líðast í samfélagi okkar.

 

Kæru félagar.

 

Það að byggja upp samfélagslega innviði snýst ekki einungis um vegi og brýr. Það snýst um að byggja upp almannarýmið. Ég er að tala um skólana, heilsugæsluna, löggæsluna; ég er að tala um rými sem við eigum sameiginlega og getum reitt okkur á. Almannaþjónusta er í raun almannarými. Hún hefur því hlutverki að gegna að tvinna saman ólíka þræði samfélagsins og tryggja að við sitjum öll við sama borð; að við njótum öll jafnræðis og sambærilegrar þjónustu. Og þannig tryggir hún jöfn tækifæri okkar allra, tækifæri til að lifa og starfa og tækifæri til að taka þátt í samfélaginu.

 

Þess vegna er verkefnið; að byggja upp hina samfélagslegu innviði, svo gríðarlega mikilvægt til að tryggja velferð og jöfnuð, og þess vegna höfum við lagt svo mikla áherslu á að snúa vörn í sókn í uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar, skólanna og annarra slíkra innviða.

 

Önnur mikilvæg aðgerð til að tryggja aukinn jöfnuð og réttlátara samfélag er að tryggja að allar aðgerðir í skattamálum auki jöfnuð. Það höfum við þegar gert og munum halda því áfram.

 

Í fyrsta lagi með því að auka verulega fjármuni sem renna inn í barnabótakerfið og auka þannig í senn ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna og fjölga þeim um 2200 sem eiga rétt á barnabótum. Þetta gerðum við um áramótin.

 

Í öðru lagi höfum við snúið við þeirri þróun að skattbyrði ólíkra tekjuhópa þróast með ólíkum hætti. Það er mikilvægt að átta sig á því að skattbyrði allra hópa hefur aukist vegna þess að tekjur allra hafa aukist. Hins vegar hefur skattbyrðin aukist misjafnlega vegna þess að neðri mörk skattkerfisins hafa hingað til fylgt neysluvísitölu en efri mörkin hafa fylgt launavísitölu. Þar með hefur persónuafsláttur einnig fylgt neysluvísitölu en hann hefur að sjálfsögðu meiri áhrif á tekjulægri hópana en þá tekjuhærri. Þess vegna tókum við tvö skref núna um áramótin sem vinna gegn þessu og auka þar með jöfnuð.

 

Annars vegar hækkuðum við persónuafslátt umfram breytingar á vísitölu neysluverðs sem gagnast best þeim tekjulægri.

 

Hins vegar höfum við fest efri mörk skattkerfisins við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á.

 

Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir ásamt því að hafa hækkað fjármagnstekjuskatt um tíu prósent, úr tuttugu prósentum í 22% um þarsíðustu áramót.

 

Þessar breytingar hefðu ekki orðið nema vegna þess að Vinstri-græn eru við stjórn landsins og það er mjög mikilvægt að tillögur um frekari breytingar sem við munum leggja fram á næstunni þjóni markmiðum um aukinn jöfnuð og réttlátara skattkerfi. En í því verkefni má ekki heldur gleyma því að lýðræðislegir ferlar kalla á að fleiri sjónarmið en okkar séu tekin til greina. Við ráðum ekki ein og breytingar sem eiga að standast tímans tönn þurfa að njóta víðtæks stuðnings.

Og jöfnuður næst með fleiri þáttum. Meðal annars þess vegna var það meðal okkar fyrstu verka að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna aldraðra og núna liggja fyrir tillögur um hvernig megi betur koma til móts við fátækasta fólkið í hópi aldraðra sem eru ekki síst konur sem ekki hafa haft hér fasta búsetu alla ævi, oft konur af erlendum uppruna. Þá eru eyrnamerktir þrír milljarðar í fjárlögum þessa árs til að bæta kjör og efla samfélagsþátttöku örorkulífeyrisþega. Innan stjórnarráðsins vinnum við nú að kortlagningu á því hvernig megi til dæmis skapa fleiri hlutastörf fyrir fatlað fólk og fólk með skerta starfsgetu.

 

Við höfum sett það sem forgangsmál að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér læknisþjónustu. Undir forystu Svandísar hafa þegar verið stigin stór skref með lækkun tannlæknakostnaðar fyrir aldraða og öryrkja og með því að afnema komugjöld fyrir þessa hópa í heilsugæsluna. Um leið höfum við aldrei séð viðlíka uppbyggingu í heilbrigðismálum og undir þessari sömu forystu þar sem við leggjum áhersluna á almannaþjónustuna.

 

Ég nefndi áðan loftslagsmálin sem líklega eru stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag. Í fyrsta sinn er komin fram alvöru fjármögnuð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem annars vegar eru settar fram raunhæfar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hins vegar aðgerðir til aukinnar kolefnisbindingar. Markmiðið sem Vinstri-græn settu fyrst á dagskrá íslenskra stjórnmála – um kolefnishlutlaust Ísland – er núna orðið markmið stjórnvalda. En þetta er ekki það eina. Undir forystu okkar umhverfisráðherra má sjá stórátak í friðlýsingum og náttúruvernd, átak gegn plastnotkun – hafið er ekki móttökustöð fyrir plast heldur heimili sjávardýra af öllum gerðum – og fjöldamörg önnur mál sem munu skipta sköpum fyrir komandi kynslóðir.

 

Jafnréttismálin voru um áramót flutt yfir í forsætisráðuneytið. Samhliða því færðum við málefni hinsegin fólks undir hatt jafnréttismál í takt við löngu tímabæra útvíkkun jafnréttishugtaksins. Það er mikilvægt að hún verði útfærð með þeim hætti að kynjasjónarmið verði ekki undir eins og gerst hefur víða í kringum okkur og það munum við tryggja. En það kemur í minn hlut að fylgja eftir einu af málum sem Vinstri-græn lögðu áherslu á við gerð stjórnarsáttmála en það er breytt réttarstaða trans- og intersex fólks. Nú höfum við tækifæri til að gera betur og koma Íslandi aftur í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Sömuleiðis gefst tækifæri á mikilvægum úrbótum í meðferð kynferðisbrotamála og gefa þessum málaflokki aukið vægi með því að efla fræðslu og umræðu til að vinna gegn kynbundnu áreiti og ofbeldi. Við tökum því fagnandi að sá veruleiki sem konur í öllum lögum og öllum geirum íslensks samfélag hafa mátt búa við hafi verið afhjúpaður með me-too bylgjunni og nýtum þá þekkingu og þann aukna skilning sem hefur orðið til að gera betur. Því konur eiga að geta lifað og hrærst í íslensku samfélagi, innan heimilis og utan, í tómstundum og vinnu, í almannarýminu og á skemmtistöðum, án þess að þurfa að sæta kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Þessu verður að linna.

 

Ég hef rætt hér sérstaklega um þær áskoranir sem ég tel hvað brýnastar. Að efla jöfnuð og jafnrétti og berjast gegn loftslagsbreytingum. Þriðja áskorunin sem ég vil nefna eru þær tæknibreytingar sem eru þegar hafnar og við köllum gjarnan fjórðu iðnbyltinguna.

 

Stjórnvöld þurfa að vera leiðandi í því að takast á við þessar breytingar og tryggja að við verðum gerendur en ekki bara áhorfendur að þessari byltingu. Í lok þessa mánaðar mun nefnd sem ég skipaði í fyrra skila greiningu sinni á þeim áskorunum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir vegna tæknibreytinga.

 

Við þurfum að forgangsraða nú sem aldrei fyrr til að styðja við rannsóknir, þróun og nýsköpun. Það er þetta eitthvað annað sem við Vinstri-græn vorum ein um að ræða þegar stóriðjustefnan hélt íslensku samfélagi í heljargreipum. Ef við viljum móta okkar efnahagslíf út frá hugmyndum 21. aldar þá skiptir máli að atvinnulífið hvíli á fjölbreyttum stoðum og þar eru rannsóknir og nýsköpun lykilatriði. Sömuleiðis er mikilvægt að við tileinkum okkur hugmyndir um hringrásarhagkerfið þar sem við byggjum ekki velsæld okkar á ósjálfbærum vexti heldur tryggjum hana í sátt við umhverfið.

 

Kæru félagar.

 

Töluvert hefur verið talað um traust á stjórnmálum og ljóst er að traust á stjórnmálum hangir alltaf saman við traust á stjórnmálamönnum – og auðvitað þeim hugmyndum sem stjórnmálin standa fyrir og hrinda í framkvæmd. Það er þó margt sem við getum gert innan kerfisins til að efla traust. Forsætisráðuneytið hefur samið við Siðfræðistofnun um að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um siðareglur, heilindaramma og reglur um hagsmunaskráningu.

 

Nefnd undir forystu Eiríks Jónssonar prófessors hefur þegar skilað af sér nokkrum frumvörpum sem öll eiga það sammerkt að auka upplýsinga- og tjáningarfrelsi. Ég hef þegar lagt fram frumvarp um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna, og á döfinni eru frumvörp um endurskoðun upplýsingalaga og vernd uppljóstrara.

 

Að lokum hlýt ég að nefna það bjartsýna verkefni að loka formenn stjórnmálaflokkanna mánaðarlega inni í herbergi til að vinna að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Þar liggur undir áætlun um að verkefninu verði lokið á tveimur kjörtímabilum. Verkefnið er á áætlun og þrátt fyrir bókanir allra aðila með margháttuðum athugasemdum um mismunandi skoðanir ólíkra flokka leyfi ég mér enn að vera bjartsýn á að við náum fram jákvæðum breytingum á stjórnarskrá á þessu kjörtímabili í þeim anda sem við höfum rætt á undanförnum áratug. Ég hlýt að nefna sérstaklega ákvæði um auðlindir í þjóðareign og ákvæði um umhverfisvernd sem lengi hafa verið okkar baráttumál.

 

Kæru félagar

 

Um allan heim sjáum við nú uppgang valdboðsstjórnmála. Um leið sjáum við vaxandi spennu í samskiptum ríkja og stoðir fjölþjóðlegs samstarfs titra í þeirri valdabaráttu sem stendur yfir í heiminum. Við höfum lagt á það áherslu að íslensk stjórnvöld tali alltaf fyrir friðsamlegum lausnum og gegn vígvæðingu. Þar getum við gert betur og eigum til þess tækifæri, til dæmis í ár þegar við eigum sæti í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í fyrsta skipti í lýðveldissögunni. Við eigum að taka skýra afstöðu gegn valdboðsstjórnmálum samtímans og við eigum eftir sem áður að standa gegn stórhættulegu hagsmunakapphlaupi stórvelda. Ísland hefur oftast fylgt öðrum Norðurlöndum í utanríkismálum þar sem þau sameinast um að vera boðberar lýðræðislegra lausna. Yfirlýsing Íslands í málefnum Venesúela á rætur að ríkja til þessarar stefnu enda er alþjóðlegur þrýstingur á að þar verði boðað til lýðræðislegra kosninga. Ég veit að sumir félagar okkar eru ósáttir við framgang þessara mála og ég hef skilning á því. Þess vegna höfum við sett lýðræðislegar kosningar á oddinn en ég legg ríka áherslu á að hér er ekki á nokkurn hátt verið að styðja hernaðaríhlutun heldur leggjum við áherslu á friðsamlega lausn þessarar deilu.

 

Við þurfum að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu vinstrimanna – eins og við gerum nú með aðild að Progressive International, hreyfingu sem sett var saman af Bernie Sanders og Yanis Varoufakis, til að stuðla að jafnrétti, félagslegu réttlæti og sjálfbærni. Þarna getur vinstrið skipt sköpum til að tryggja réttindi fólks, vernd umhverfis og jafnari kjör fyrir okkur öll.

 

Við þurfum ávallt í okkar hreyfingu að rifja það upp af hverju við erum í stjórnmálum. Síðast þegar við hittumst þá ræddi ég það einmitt að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur breytt um ýmsar áherslur á þeim 20 árum sem við höfum starfað. Stjórnmálaflokkur er ekki safn stofnað um menningararf heldur hreyfing fólks. Þær áherslur og skoðanir sem við stóðum fyrir og voru úthrópaðar sem öfgastefna eru núna orðnar almennar og lítt róttækar. Um leið höfum við breytt áherslum okkar og stefnu í ýmsum málum þó að gildi okkar hafi ekki breyst. Og í sumum málum hefur verið tekist á á landsfundum þar sem hreyfingin hefur skipst í nánast hnífjafnar fylkingar. En við höfum yfirleitt haldið það í heiðri að virða félagslegar niðurstöður og fylgt þeim. Og þá kem ég enn og aftur að því að minna á að um það snúast stjórnmálaflokkar, að vera vettvangur fólks sem á ákveðin sameiginleg gildi og vinnur með lýðræðislegum hætti að mótun stefnu og ákvörðunum. Og útkljáir ágreining með félagslegum og lýðræðislegum hætti.

Við eigum að vera stolt af því vera stjórnmálahreyfing sem hefur alltaf þorað að taka óvinsæla slagi og óvinsælar ákvarðanir. Við getum verið stolt af því að vera stjórnmálahreyfing sem lætur stefnu og málefni ekki ráðast af fjölda læka heldur mótar stefnu sína á félagslegan hátt og stendur með henni. Við getum verið stolt af því að hafa í tuttugu ára sögu þorað að takast á og takast í hendur þrátt fyrir að vera ósammála. Við getum verið stolt af því að hafa alltaf forgangsraðað því að gera samfélaginu gagn og það höfum við svo sannarlega gert.

Kæru félagar!

 

Ég rifjaði hér upp eina af sumarferðum Vinstri-grænna í upphafi. Árlega höfum við rætt sumarferðir í stjórn hreyfingarinnar. Alltaf hefur verið hart tekist á um hvert skuli halda, hvað skuli gera, hvernig nestið eigi að vera og hvaða tími sé bestur til að rekast ekki á göngur, réttir, heyannir, menningarnætur, hinsegin daga, bíladaga og öll önnur þau verkefni sem félagar í VG þurfa að sinna. Og ferðirnar hafa alltaf verið þannig að þó að margir hafi efast um hvort það eigi yfir höfuð að fara í ferð – ég vissulega ein þeirra – þá hefur þeim alltaf lokið með því að við hefðum ekki viljað sleppa þessari ferð, að minnsta kosti þar til kemur að næstu skipulagningu. Þannig eru stjórnmálin og þannig er lífið. Ég lít á það sem forréttindi að fá að starfa með ykkur og trúi því að nú sem áður gerum við gagn í því verkefni að gera samfélagið betra og réttlátara fyrir okkur öll.