,

Ræða Svandísar

Virðulegur forseti

Áskoranir stjórnmála dagsins eru allt í senn gamalkunnar en líka nýjar og ógnvekjandi – félagslegur ójöfnuður og fátækt, átök og ofbeldi reka milljónir frá heimilum sínum og blikur eru á lofti. Útlendingaandúð, kvenfyrirlitning og grimmd við minnihlutahópa af öllu tagi, hinsegin fólk, flóttafólk, þjóðabrot eða fólk af tilteknum trúarlegum uppruna – hatursöflunum vex ásmegin víða um lönd og sagan segir okkur að þau þurfa ekki endilega hreinan meirihluta atkvæða til að valda straumhvörfum í heilum samfélögum og jafnvel heiminum öllum, breyta mannkynssögunni. Á slíkum tímum skiptir öllu að stjórnmálahreyfingar og flokkar gæti að meginreglum lýðræðis og mannréttinda, spyrni fast á móti heimsku og valdníðslu og freistist ekki til að laga málflutning sinn að heiftinni og hatrinu. Grunngildi um mannúð og jafnan rétt, jöfnuð og frið eru mikilvæg og þeim þarf alltaf að halda vandlega til haga.

 

Vinstrihreyfingin-grænt framboð leiðir nú ríkisstjórn þvert yfir pólitískt litróf á Íslandi, ríkisstjórn um þær áherslur við stjórn landsins sem hér eru ræddar í kvöld. Stjórnarsáttmálinn snýst um þrjá meginstrauma í mínum huga. Í fyrsta lagi um áherslur í anda jöfnuðar og félagshyggju og þá fyrst og fremst við uppbyggingu innviða, sem fyrir löngu var orðið brýn nauðsyn að efla, í heilbrigðismálum og menntamálum, félagsmálum, samgöngum og fjarskiptum. Í öðru lagi um framsýnar áætlanir í stórum málum nýrrar aldar, umhverfismálum, loftslagsmálum, nýsköpun á öllum sviðum en líka lýðræðis- og upplýsingamálum þar sem svo margt hefur kallað á umbætur. Loks og í þriðja lagi eflingu alþingis með stóraukinni áherslu á þverpólitíska vinnu í stórum stefnumarkandi málum og auknum stuðningi við störf þingflokka, ekki síst í stjórnarandstöðu.

 

Sagt hefur verið að efnahagslegur stöðugleiki eigi að vera grunnurinn að góðu samfélagi en félagslegur stöðugleiki er ekki síður mikilvægur. Að fólk megi treysta því að keppt sé að jafnrétti og jöfnuði og að innviðir samfélagsins haldi, að enginn sé skilinn eftir, að menntun, heilbrigðisþjónusta og velferð standi öllum til boða, að fjölskyldurnar búi við fæðingarorlof og leikskóla sem taki við að því loknu, að sátt ríki um skólana og trausta menntun, að menningin færi okkur gleði og sýn til allra átta allan ársins hring, að full vinna dugi fyrir framfærslu og að unnt sé að koma sér þaki yfir höfuðið, að ungt fólk geti farið að heiman og komið undir sig fótunum þegar sá tími rennur upp. Að gamalt fólk geti tekið þátt í þróttmiklu samfélagi og lifað með reisn allt til síðasta dags.

 

Á mínu borði er einn mikilvægasti hluti félagslegs stöðugleika en það er heildstæð og skynsamleg heilbrigðisþjónusta sem hefur sjúklinginn og samfélagið í forgrunni. Við ætlum að móta um hana skýra stefnu og styrkja á allan hátt og að því er unnið og verður unnið næstu misseri og næstu ár. Draga á úr greiðsluþátttöku sjúklinga og nálgast það sem gerist í þeim efnum á Norðurlöndunum. Heilbrigðisþjónustan á Íslandi hefur, eins og allir vita, lengi liðið fyrir lausatök og skertar fjárveitingar, verið svo brotakennd að brýnt er að bæta þar úr. Fjöldi aðila og úttekta hafa dregið fram einstaka þætti þessarar stöðu, nú síðast Ríkisendurskoðandi sem fjallar um ómarkviss kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu en áður hafði MacKinsey bent á að margt mætti gera betur og ekki síst í því að skapa heildstæðara kerfi þar sem ljóst er hvað gerist á hverjum stað.

 

Sjálf hef ég líka, og mitt fólk, lagt kapp á að afla upplýsinga og reynslu úr öllum áttum um þessi efni og leitast við að fá sem allra skýrasta mynd af ástandinu og nauðsynlegum úrbótum. Þar ber allt að sama brunni. Sá skortur á yfirsýn og markvissri framkvæmd sem nú ríkir leiðir af sér biðlista í sumum efnum en oflækningar annars staðar. Slíkt kerfi er hvorki gott fyrir sjúklinga, þá hópa sem þeim eiga að sinna né samfélagið í heild. Með því að setja fram vandaða heilbrigðisstefnu, tryggja trausta og öfluga þjónustu opinberra sjúkrahúsa, efla göngudeildir og treysta heilsugæsluna um allt land en líka með því að skýra samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu og stuðningi við sjúka og aldraða gegnum Sjúkratryggingar Íslands, þar sem markmið samninganna og ætlaður árangur af þeim liggja ljós fyrir og gæðakröfur eru skýrar, þar sem skýrt er hvaða þjónustu skuli veita og hvar skuli inna hana af hendi, þannig nálgumst við heildstæðara kerfi og markvissari og betri þjónustu fyrir alla.

Kjölfestan er traust og öflugt heilbrigðiskerfi okkar allra, sem við eigum sjálf og þjóðin hefur kallað eftir. Þannig tryggjum við besta nýtingu fjármuna líkt og allar rannsóknir sýna og styðjum um leið aðra geira þjónustunnar. Liður í því að er að hefjast handa þegar í haust við byggingu nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss sem á eftir að færa þjónustu við sjúklinga og vinnuumhverfi heilbrigðisstétta í landinu öllu á alveg nýjan stað. Verkefnið er samt meira og miklu stærra, eins og hér hefur verið rakið, við ætlum að sækja fram á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu og forvarna, stilla saman strengi og krafta allra þeirra sem vinna að bættri heilsu og öryggi landsmanna hvar sem þeir búa og hvernig sem efnahag þeirra er háttað. Að því er unnið hörðum höndum á minni vakt í ríkisstjórn þriggja flokka og undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

Góðar stundir!