Samstíga í átt að betri öldrunarþjónustu

 

 

Í lok apríl fór fram vinnustofa á vegum velferðarráðuneytisins um bætta þjónustu við aldraða. Vinnustofan fór fram í Höfða og var haldin í samvinnu velferðarráðuneytisins, Reykjavíkurborgar, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Það er ekki á hverjum degi sem ríki, borg og heilbrigðisstofnanir taka höndum saman til að ræða fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu, í þeim tilgangi að bæta þjónustu á öllum þjónustustigum – og því um að ræða viðburð sem var sérstaklega ánægulegt að boða til.

 

Til þátttöku og samráðs á vinnustofunni voru boðaðir fulltrúar Landsambands eldri borgara, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Alzheimersamtakanna. Vinnustofuna leiddi fulltrúi Landspítala og byggt var á aðferðafræði straumlínustjórnunar (e. lean-hugmyndafræði) í vinnunni.

 

Unnið var sérstaklega með áherslu á mikilvægi samfellu í þjónustu við aldraða frá einu þjónustustigi til annars, miðað við ólíkar þarfir og heilsufarsaðstæður, en einnig hvernig tryggja mætti öldruðum viðeigandi stuðning í samræmi við óskir þeirra, þarfir og lögbundin réttindi. Í lok vinnustofunnar kynntu þátttakendur tillögur að fjórum hugmyndum sem mögulegt er að hrinda í framkvæmd strax á þessu ári.

 

Hugmyndirnar fjórar áttu það sammerkt að ríma allar vel við meginþema vinnustofunnar um aukna samfellu í þjónustu. Sú fyrsta er hugmynd þess efnis að opnuð yrði sérstök síma- og ráðgjafarþjónusta í ætt við neyðarsímann 112 að danskri fyrirmynd, þar sem sérþjálfað starfsfólk greinir í gegnum síma hvar erindið á best heima og hvar sé næsti lausi tími í viðeigandi meðferðarúrræði í samræmi við bráðleika og áhættur. Önnur hugmyndin varðar eflingu heilsuverndar aldraða og forvarnir, þar sem áhersla yrði meðal annars lögð á hreyfingu við hæfi, sálfélagslegt heilbrigði og næringarfræði. Þriðja hugmyndin var þess efnis að á heilsugæslum tæki til starfa þjónusturáðgjafi aldraðra. Slíkir ráðgjafar yrðu málsvarar hins aldraða, gætu leiðbeint og liðsinnt öldruðum varðandi þjónustu og úrræði, stutt við aðstandendur og verið kjölfestan í meðferð þeirra. Fjórða og síðasta hugmyndin er hugmynd um samræmda sjúkraskrá sjúklinga, þar sem sjúkraskrá einstaklings yrði gerð aðgengileg á einum stað. Hún væri eign sjúklingsins sjálfs, uppfærð reglulega og væri aðgengileg honum og meðferðaraðilum hans í rauntíma.

 

Næstu skref í vinnunni eru að hrinda þessum góðu hugmyndum í framkvæmd, og það munum við í velferðarráðuneytinu gera í góðu samstarfi við þá aðila sem komu að skipulagningu vinnustofunnar; Landspítala, Reykjavíkurborg og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og ég hlakka til að fylgjast með þeirri vinnu.

Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.