Sigríður Gísladóttir nýr formaður VG á Vestfjörðum

Aðalfundur VG á Vestfjörðum fór fram á Ísafirði mánudaginn 3. apríl. Hafði það verið auglýst að Katrín Jakobsdóttir og Björg Eva Erlendsdóttir, formaður og framkvæmdastjóri yrðu á fundinum ásamt Lísu Kristjánsdóttur, aðstoðarmanni Katrínar. Hugðust þær taka seinnipartsflugið vestur. Sú heimsókn náði þó ekki lengra en svo að flugvélin hringsólaði yfir Ísafjarðardjúpi áður en ákveðið var að snúa henni við – um 90 mínútum eftir að hún hafði tekið á loft. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Norðvesturkjördæmis og Súgfirðingur með meiru lét sig þó ekki vanta. Góð mæting var á fundinum, sem haldinn var í Edinborgarhúsinu, en kosið var í nýja stjórn félagsins og sendi fundurinn frá sér nokkrar ályktanir. Guðný Hildur Magnúsdóttir, sem leitt hefur starfið á norðanverðum Vestfjörðum undanfarin ár, sóttist ekki eftir endurkjöri. Nýr formaður er Sigríður Gísladóttir, dýralæknir á Ísafirði. Sigríður hefur komið víða við í starfi VG, en hún var m.a. í 3. sæti á lista VG í Kópavogi í sveitarstjórnarkosningunum 2014 og var kosningastjóri í Norðvesturkjördæmi haustið 2016. Við þökkum Guðnýju fyrir velunnin störf og bjóðum Sigríði velkomna til starfa! Ný stjórn, í heild sinni er eftirfarandi:

Sigríður Gísladóttir, formaður
Ágústa Guðmundsdóttir, gjaldkeri
Jóna Benediktsdóttir, ritari
Svava Rán Valgeirsdóttir, meðstjórnandi
Gígja S. Tómasdóttir, meðstjórnandi

Varamenn:
Þormóður Logi Björnsson
Guðný Hildur Magnúsdóttir

Aðalfundurinn sendi frá sér eftirfarandi ályktanir:

Aðalfundur svæðisfélags Vinstri Grænna á Vestfjörðum haldinn 3. apríl 2017 á Ísafirði sendir frá sér eftirfarandi ályktanir:

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum ætlast til að stjórnvöld standi við gefin loforð um uppbyggingu innviða samfélagsins. Gera þarf miklar breytingar á langsveltu menntakerfi þannig að hægt sé að tala um jafnrétti til náms á Íslandi. Heilbrigðiskerfi þjóðarinnar er í molum og gera þarf umbætur á því sem fela jafnframt í sér að fólk geti notið heilbrigðisþjónustu óháð búsetu eða efnahag og breyta þarf velferðarkerfinu þannig að þeir sem þurfa að treysta á aðstoð þess til framfærslu verði ekki um leið fastir í gildru fátæktar.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum skorar á stjórnvöld að standa við samþykkta samgönguáætlun og sjá til þess að eðlileg uppbygging atvinnulífs geti farið fram um land allt.  Minnt er á að flug og sjúkraflug skiptir íbúa landsbyggðarinnar verulegu máli.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum lýsir furðu sinni yfir þeirri stöðu sem komin er upp í tengslum við tilkynningu HB Granda um að hætta vinnslu á Akranesi. Fundurinn átelur útgerðarfyrirtæki sem sýna samfélögum sem þau starfa í slíka vanvirðingu og hvetur forsvarsmenn Akranesbæjar til að nýta fjármuni sem ætlaðir eru til atvinnuuppbyggingar í önnur verkefni en þau sem felast í sérstökum stuðningi við HB Granda.

 Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum bendir á mikilvægi þess að Menntaskólinn á Ísafirði geti sinnt kennslu verknáms eins og verið hefur og krefst þess að menntamálaráðherra og þingmenn svæðisins sjái til þess að tímabundin fækkun nemenda sem fyrirsjáanleg er á næstu árum, verði ekki til að draga úr fjárframlögum og þar með námsframboði við skólann með slæmum afleiðingum fyrir samfélagið allt.

Aðalfundur svæðisfélags VG á Vestfjörðum minnir á samfélagslegt mikilvægi héraðsfréttamiðla og leggur til að sjálfstæðir og óháðir héraðsfréttamiðlar fái stuðning til að starfa í því fjölmiðlaumhverfi sem ríkir á Íslandi. Varað er við því að slíkir fjölmiðlar komist í eigu stjórnmálaafla, eða aðila tengdum þeim, sem beita þeim í eigin þágu.