Mennta- og menningarmál

Deildu 

Share on facebook
Share on twitter

Menntun fyrir alla
Menntun er leið samfélagsins til að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni, hæfni og viðhorf sem styrkja getu og tækifæri hvers og eins til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Góð almenn menntun er grunnur að öflugu samfélagi þar sem valdhöfum er veitt aðhald frá upplýstu og gagnsæju samfélagi, hvort sem er í umhverfismálum, fjármálalífi, stjórnmálum, fjölmiðlum eða á öðrum sviðum.

Menntun er forsenda þróunar og nýsköpunar. Framtíð Íslendinga í sátt við umhverfið byggist á þekkingarauði þjóðarinnar og því að atvinnulífið verði byggt upp á hugviti og sjálfbærni. Mikilvægt er að gera nýjum kynslóðum kleift að skapa sín eigin tækifæri í tæknivæddu samfélagi í sífelldri þróun. Öflugt menntakerfi fyrir alla á öllum skólastigum á að vera grunnstoð íslensks samfélags. Á öllum námsstigum ber að virða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Skólakerfið allt á að vera sameign okkar allra og það á að reka fyrir fjármuni úr sameiginlegum sjóðum. Gjaldfrjáls menntun á öllum skólastigum er lykillinn að því að menntun sé fyrir alla landsmenn. Skólakerfið á að vera lifandi samfélag nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks. Innan þess verður að mæta þörfum nemenda í samræmi við þarfir og þroska hvers og eins. Það á við um alla nemendur, óháð uppruna, kyni, efnahag og öðrum þáttum sem hafa áhrif á stöðu fólks í samfélaginu. Tryggja ber þátttöku nemenda í mótun skólastarfs á öllum stigum og virkja nemendalýðræði.

Skólabókasöfn sinna markvissu hlutverki í grunn- og framhaldsmenntun allra barna og unglinga. Mikilvægt er að þau verði áfram órjúfanlegur hluti skólastarfsins. Listnám er mikilvægt og skal kappkosta að öllum standi slíkt nám til boða bæði á grunn- og framhaldsstigi.

Mikilvægt er að meta störf innan menntakerfisins að verðleikum og tryggja góð kjör þeirra sem þar starfa. Þannig sýnum við í verki mikilvægi málaflokksins.

Nemendur framhalds- og háskóla eiga að njóta réttinda til jafns við einstaklinga á atvinnumarkaði, þar með talið réttinda til veikindadaga, hádegishlés og annarra almennra réttinda.

Vinna þarf samkvæmt aðalnámskrám þar sem gert er ráð fyrir að ákveðnir grunnþættir séu samþættir öllu starfi í leik-, grunn- og framhaldsskóla: læsi, lýðræði, mannréttindi, jafnrétti, sjálfbærni, sköpun, heilbrigði og velferð. Tryggja þarf aukna samfellu milli skólastiga og draga úr skörpum skilum á milli þeirra.

Tryggja þarf lögboðna náms- og starfsráðgjöf og náms- og starfsfræðslu í grunn- og framhaldsskólum til að bregðast við brotthvarfi og styðja við nemendur í náms- og starfsvali.

Leikandi leikskóli
Leikskólinn er fyrsta skólastigið og ber að stefna að því að hann verði lögbundið verkefni sveitarfélaga og án gjaldtöku. Eðlilegt er að leikskólar séu fyrst og fremst reknir af opinberum aðilum og aldrei í hagnaðarskyni.

Hugmyndafræði leikskólans á að vera í fyrirrúmi og þroski barnsins í brennidepli. Til að ná því markmiði er grundvallaratriði að fjölga menntuðum leikskólakennurum. Stjórnvöld þurfa að beita sér fyrir því að fjölga þeim sem sækja nám á þessu sviði og bæta kjör þeirra sem sinna þessum störfum.

Hver leikskóli á að hafa svigrúm til að móta eigin leikskólamenningu. Jafnframt er mikilvægt að íslenskir leikskólar bjóði öllum börnum jöfn tækifæri. Mikilvægt er að skólarnir njóti faglegs sjálfstæðis til að fagfólk á hverjum stað fái notið sín sem best.

Góður grunnskóli
Hlutverk grunnskóla í nútímasamfélagi er að hlúa að alhliða þroska barna og vellíðan þeirra sem og að veita þeim innihaldsríka og góða menntun, bæði bóklega og í list- og verkgreinum, og efla færni þeirra í að tileinka sér þekkingu og hæfni. Grunnskólinn á að vera án aðgreiningar því að öll börn eiga rétt á menntun við hæfi í sínu nærumhverfi þannig að hver og einn geti komist til þroska. Til þess þarf fjölbreyttar aðferðir, viðfangsefni og aðstæður. Jafna þarf aðgengi skóla að tækjabúnaði og styðja þannig við nám í samfélagi í örri og sífelldri þróun. Námsmat þarf að byggja á breiðum grunni og vera síkvikur hluti af innra gæðastarfi hvers skóla í stað þess að einblínt sé á ytra mat við gæðastjórnun. Endurskoða þarf skimunarpróf og staðlaða mælikvarða svo þeir miði bæði við einstaklingsmiðað nám og áherslur aðalnámskrár.

Skylduskólastigið er sérstakt að því leyti að það er eina stofnun samfélagsins þar sem öll börn og unglingar á ákveðnum aldri koma saman óháð ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum. Mikilvægt er að viðhalda fjölbreytileikanum innan hvers skólasamfélags og nýta slík tækifæri til að brjóta niður staðalmyndir og fordóma og til að þjálfa nemendur í að lifa í fjölmenningarsamfélagi.

Eðlilegt er að starfsfólk skóla fái svigrúm til að móta stefnu og áherslur sinna skóla í samráði við nemendur, foreldra og forráðamenn. Nemendur eiga að vera virkir þátttakendur í skólastarfi og hafa áhrif á mótun þess með lýðræðislegum hætti.

Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt og það á líka við um innflytjendur og börn þeirra, sem þurfa bæði að njóta kennslu í móðurmáli sínu og íslensku og börn sem eiga táknmál að móðurmáli. Málakennslu skal miðlað með þeim hætti sem hentar þörfum barnsins. Mikilvægt er að hefja frístundastarf barna til vegs og virðingar, tryggja að það sé undir stjórn fagfólks og að þar fái öflugt starf að blómstra. Mikilvægt er að samþætta listnám, íþróttir og félagsstarf frístundastarfi sveitarfélaganna. Börn og ungmenni um allt land eiga að geta í auknum mæli fengið styrki til tómstundarstarfs. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir aðlögun ungra innflytjenda. Nemendur þurfa ávallt að eiga greiðan aðgang að náms- og starfsráðgjöf og þjónustu sálfræðinga. 

Fjölbreyttur framhaldsskóli
Hlutverk framhaldsskóla er að veita nemendum haldbæra og víðtæka menntun sem geti verið undirstaða margháttaðs háskólanáms, verknáms eða þátttöku á vinnumarkaði.

Framhaldsskólinn á að standa öllum opinn þannig að nemendur geti hafið framhaldsskólanám á mismunandi aldri og lokið því á mislöngum tíma. Nemendur geti lokið námi með mismörgum einingum enda hafa þeir ólík náms- og starfsáform að loknum framhaldsskóla. 

Gjaldfrjáls námsgögn eru mikilvægur liður í því að jafna tækifæri til menntunar og vilja Vinstri græn að námsgögn verði gerð gjaldfrjáls á framhaldsskólastigi og í iðnnámi líkt og unnið hefur verið að á grunnskólastigi.

Ungt fólk í dreifbýli skal eiga þess kost að geta notið sem mestrar grunnmenntunar í heimabyggð og geta valið um bók-, verk- og listnámsbrautir.

Leggja þarf sérstaka áherslu á að bæta aðstöðu innflytjenda til að stunda nám á framhaldsskólastigi. Í því skyni þarf að auka íslenskukennslu sem sniðin er að þörfum þeirra sem læra íslensku sem annað eða þriðja tungumál og bjóða jafnframt upp á kennslu í móðurmáli innflytjenda.

Í fjölbreyttum framhaldsskólum ætti brotthvarf að vera í lágmarki og er skimun á áhættuþáttum brotthvarfs mikilvæg. Mikilvægt er að tryggja sálfræðiþjónustu í öllum framhaldsskólum enda sýna rannsóknir að brotthvarf á sér oft sálfélagslegar orsakir. Samfélagið þarf að bregðast við því og veita nemendum stuðning á ólíkum sviðum. Tryggja þarf greiðan aðgang að náms- og starfsráðgjöf fyrir alla nemendur á framhaldsskólastigi.

Framhaldsskólarnir skulu reknir af hinu opinbera og vera gjaldfrjálsir. Einkavæðing í skólakerfinu er ávísun á óhagræði, aukna stéttskiptingu og samþjöppun á fjárhags- og menningarauði þar sem tilteknar stéttir sækja tiltekna skóla, jafnvel í sömu hverfum og opinberir skólar eru reknir.

Líta ætti á verklegt nám og listnám sem jafngildi bóknáms og gefa nemendum í framhaldsskólum kost á að velja sér nám sem eflir þeirra sterku hliðar. Þegar bóknámshæfileikar eru ríkjandi ættu nemendur að eiga þess kost að efla þær hliðar með öflugu bóknámi sem undirbýr háskólanám. Þegar aðrir hæfileikar eru ríkjandi ætti að leita leiða til að nemendur geti unnið með þá hæfileika til að efla sig og starfa þar sem hæfileikarnir fá að njóta sín. Leitast verði við að hindra ekki nemendur með óljósum almennum kröfum um bóknám á öllum námsbrautum.

Unnið verði að því að auka fjölbreytni í því hvernig hægt er að ljúka starfsnámi á mismunandi hæfniþrepum. Stefna skal að því að á næstu þremur til fimm árum verði tekin markviss skref í átt að náinni samvinnu framhaldsskóla, vinnustaða, stéttarfélaga og annarra sem koma að skipulagi og framkvæmd starfsnáms. Sameiginleg ábyrgð skóla, nemanda og vinnustaðar verði að reglu til að tryggja að nám til starfa dagi ekki uppi vegna aðstæðna sem nemendur eða skólar ráða ekki við.

Brýnt er að endurskoða heildarfyrirkomulag iðnnáms með það að markmiði að fjölga útskrifuðum iðnnemum og að skólar eigi kost á að útvega nemendum nám og þjálfun til sveinsprófs ef ekki eru möguleikar á að komast á samning samkvæmt hefðbundnu fyrirkomulagi.

Styrkja þarf möguleika á námi í iðn- og starfsgreinum sem og skapandi greinum á landsbyggðinni. Reiknilíkani mennta- og menningarmálaráðuneytisins þarf að breyta vegna þess að það kemur ekki nægilega til móts við skóla sem bjóða upp á nám fyrir fámennari hópa. Líkanið gerir ráð fyrir stærðarhagkvæmni sem mjög oft er erfitt að ná utan höfuðborgarsvæðisins.

Mikilvægt er að námsefni sem notað er í opinbera skólakerfinu hverfi ekki fyrirvaralaust úr greinum þegar einstakir starfsmenn láta af störfum.

Í ljósi þess að umtalsverður fjöldi fólks verður að sækja nám út fyrir sína heimabyggð þarf að vera til staðar húsnæði á viðráðanlegu verði sem ætlað er þessum hópi. Í því samhengi er bent á aðstöðuleysi við flesta kjarnaskóla verknáms.

Háskólar og rannsóknir
Háskólamenntun á að efla gagnrýna hugsun og leiða að því grundvallarmarkmiði að stuðla að þroska hvers og eins. Það á að vera skylda samfélagsins að stuðla að því að sem flestir njóti háskólamenntunar enda ávinningur samfélagsins mikill. Ekki á að koma í veg fyrir eða hindra háskólanám með gjaldtöku af neinu tagi. Aukin háskólamenntun, áhersla á rannsóknir og nýsköpun haldast í hendur við aukna hagsæld. Rétt er að efla náms- og starfsráðgjöf á háskólastigi fremur en að fjöldatakmarkanir séu inn á einstakar námsbrautir.

Mikilvægt er að tryggja fjölbreytt háskólanám á Íslandi og efla þá grósku sem er þegar til staðar í öflugu bók- og listnámi. Skoða þarf hvort ástæða sé til að byggja upp svokallað fagháskólastig með öflugu starfs- og verknámi á háskólastigi í náinni samvinnu við verknámsskóla á framhaldsskólastigi þar sem bóknám og tækninám er samtvinnað raunhæfum verkefnum á vinnustöðum. Stuðla verður að uppbyggingu fræðasetra og námsvera um land allt þannig að landsmenn allir geti átt kost á því að stunda fjarnám á háskólastigi og margvíslegt viðbótarnám við framhaldsskóla.

Grunnrannsóknir eru undirstaða nýsköpunar og þekkingariðnaðar. Atvinnustefna í sátt við umhverfið byggist á því að virkja hugvit fremur en náttúruauðlindir og til þess þarf að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun.

Háskólar þurfa fjárveitingar til að sinna rannsóknum jafnt sem kennslu. Þeim fjármunum sem eru utan við rannsóknafjárveitingar háskólanna verði úthlutað úr samkeppnissjóðum þar sem beitt er jafningjamati við mat á rannsóknum. Nýta þarf skattalega hvata til að styðja við þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki.

Öflugri LÍN
Vinstri græn leggja áherslu á það að verulegur og vaxandi hluti af stuðningi við námsmenn verði styrkur ef sýnt er fram á fullnægjandi námsframvindu. Gæta þarf sérstaklega að félagslegu hlutverki LÍN svo fjölskyldufólk, einstæðir foreldrar og efnalítið fólk njóti sömu möguleika til náms og aðrir. Námslán eru oft þungur baggi fyrir ungar fjölskyldur að afloknu námi. Með því að breyta hluta af námslánum í styrki minnkar greiðslubyrði ungs fólks á þeim tíma sem það er oft að koma undir sig fótunum í lífinu. Með þessu færist kerfið nær því sem þekkist á Norðurlöndunum en sjálfsagt er að líta til nágrannalanda okkar sem náð hafa miklum árangri í menntun og vísindum og taka lána- og styrkjakerfi þeirra okkur til fyrirmyndar. 

Mikilvægt er að ungt fólk geti sótt menntun nálægt sínum heimahögum og námslánakerfið þarf að henta fólki hvort sem það er í háskólanámi eða verk- og iðnnámi. Þá þarf að styðja sérstaklega við fólk sem þarf að sækja nám fjarri heimahögum sínum. Allir eiga að geta sótt nám óháð stétt og stöðu í samfélaginu. Einnig leggja Vinstri græn til að námslán, sem yrðu að verulegum hluta styrkur, verði greidd út fyrirfram í byrjun hvers mánaðar. Með þessum breytingum vilja Vinstri græn koma til móts við námsmenn sem almennt hafa þurft að leita eftir yfirdráttarláni frá viðskiptabanka sínum fram að útgreiðslu lána við lok hvers misseris, með tilheyrandi kostnaði.

Fersk framhaldsfræðsla
Fólk sem ekki hefur lokið grunn- eða framhaldsskólanámi þarf að eiga raunverulega möguleika á að geta lokið því á fullorðinsárum. Því þarf að tryggja góðan aðgang að slíkri menntun og tryggja jöfn tækifæri fyrir alla, þar sem kostnaðurinn er greiddur úr sameiginlegum sjóðum.

Tryggja þarf að allir innflytjendur eigi kost á íslenskukennslu þeim að kostnaðarlausu sem og öðrum menntatækifærum til að þeir geti nýtt sína hæfileika til fulls í íslensku samfélagi. Jafnframt þarf að efla móðurmálskennslu og túlkaþjónustu til að koma til móts við mismunandi málsamfélög á Íslandi.

Mikilvægt er að tryggja fjölbreytt framboð á starfstengdu námi á vinnustöðum sem og endur- og símenntun. Svo að vel takist til er nauðsynlegt að atvinnurekendur og starfsmenn vinni saman að því að meta þarfir starfsmanna fyrir menntun. Halda þarf áfram að þróa mat á óformlegu námi með raunfærnimati.

Styrkja þarf stoðir símenntunarmiðstöðva um land allt þannig að nám í heimabyggð fyrir fullorðna sé raunverulegur og aðgengilegur kostur. Einnig þarf að tryggja framboð á náms- og starfsráðgjöf hjá sömu aðilum. Efla þarf samstarf framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva.

Skapandi samfélag

Þátttaka
Tryggja þarf menningarstarf um land allt og að allir eigi kost á að taka þátt í menningu og listum á eigin forsendum. Styrkur íslensks menningarlífs byggist á víðtækri þátttöku í skapandi starfi í ólíkum geirum. Aðgengi að menningu er einnig mikilvæg undirstaða samfélagsins. Tryggja þarf aðgengi allra barna að menningar- og listviðburðum óháð efnahag. Hinu opinbera ber að styðja við slíka starfsemi af krafti. Sama á við um ýmiss konar safnastarfsemi.

Mikilvægt er að tryggja gjaldfrjálst aðgengi almennings að menningarminjasöfnum og öðrum söfnum sem rekin eru af ríki og sveitarfélögum og efla starfsemi þeirra með tilliti til hlutverks þeirra í menntun, rannsóknum og nýsköpun.

Gott starfsumhverfi
Undirstaða öflugs lista- og menningarlífs er menntun á því sviði á öllum skólastigum. Brýnt er að styðja bæði við menningarstofnanir og sjálfsprottna menningarstarfsemi. Fjárveitingar þurfa að byggja á faglegum forsendum og verkefni metin af fagaðilum. Samvinna menningarstofnana er mikilvæg svo að fjármunir nýtist sem best og fagleg starfsemi sé í fyrirrúmi.

Stafræn menning
Brýnt er styrkja stöðu íslenskrar tungu með því að gera hana gjaldgenga á stafrænu formi og nothæfa í öllum tölvum og tækjabúnaði. Tryggja þarf nægar fjárveitingar til þessa verkefnis nú þegar og vinna ötullega að því áfram á næstu árum og áratugum. Auk þess þarf að gera gangskör að því að koma menningararfinum á stafrænt form þannig að hann verði aðgengilegur netleiðis.

Skapandi greinar
Menning og listir eru ekki einungis mikilvægar í sjálfu sér. Þær eru líka efnahagslega mikilvægar. Fjölmörg störf eru innan skapandi greina og þær velta hundruðum milljarða króna á ári hverju. Þess vegna eiga skapandi greinar að vera hluti af íslenskri atvinnustefnu. Listamenn eiga að fá greitt fyrir sína vinnu og því þarf að efla launasjóði og tryggja að opinberir aðilar, söfn og fjölmiðlar gangi á undan með góðu fordæmi og greiði listamönnum fyrir þeirra mikilvæga framlag.

Menningartengd ferðaþjónusta
Menningararfur þjóðarinnar og listsköpun samtímans eru ekki aðeins mikilvæg fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar heldur líka aðdráttarafl fyrir stærstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustuna. Þess vegna ber að efla menningartengda ferðaþjónustu og tryggja að hún sé rekin af innsæi, þekkingu og fagmennsku.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.