Sjávarútvegsmál

Deildu 

Share on facebook
Share on twitter

Virðing, alúð, stöðugleiki
Auðlindanýting snýst um virðingu fyrir auðlind, alúð í nýtingu og  stöðugleika  fyrir þá sem nýta. Auðlindir landsins, sem nýta skal, ber ávallt að nýta af varúð, ábyrgð  og í sátt  við náttúru, samfélag og komandi kynslóðir. Allar  auðlindir, hvort sem er til lands eða sjávar, eiga að vera ævarandi og óframseljanlegar eignir íslensku þjóðarinnar. Þjóðinni ber að njóta arðs af allri auðlindanýtingu. Nýtingin skal byggjast á jafnræði til þátttöku, nærast á nýliðun  og vera í stöðugu og gagnkvæmu sambandi við byggðaþróun. Nýting auðlinda skal vera hluti hins græna hagkerfis  og byggjast á alþjóðlegum rannsóknum, samvinnu og nýsköpun, sérstaklega í þágu umhverfisverndar og loftslagsmála.

Umhverfissjónarmið þurfa alltaf að vera í forgrunni þegar kemur að nýtingu auðlinda. Hvað auðlindir sjávar varðar á það ekki einungis við um sjálfbæra nýtingu stofna, heldur einnig veiðar og vinnslu. Súrnun hafs er sívaxandi vandamál sem getur haft óafturkræfar breytingar á lífríki hafsins í för með sér. Mjög mikilvægt er sjávarauðlindir séu nýttar á sem umhverfisvænstan hátt og nýjustu tækni sé beitt við veiðar. Skipta þarf út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orkugjafa og huga að umhverfisvænum veiðarfærum. Í því skyni verða þeir sem auðlindina nýta að búa við nokkurt jafnvægi sem skapar hvata til fjárfestinga í umhverfisvænni tækni.

MARKMIÐIN MEÐ GÓÐU KERFI

  • Sátt um kerfi og að það sé réttlátt
  • Arður til þjóðar
  • Sjálfbær nýting – siðferðileg nýting
  • Viðhald byggða
  • Stöðugleiki í rekstri en möguleikar á nýliðun um leið

VG vill að útfærsla á stjórn fiskveiða stýrist af hagsmunum allra byggða í landinu og hafi að leiðarljósi sátt, byggðafestu og atvinnuöryggi. Skapa þarf forsendur í kerfinu fyrir nýliðun, að þeir sem vilja geti sótt sjóinn og byggt upp fyrirtæki í sjávarútvegi í samkeppni við önnur. Stjórn fiskveiða þarf að vera upplýst af bestu fáanlegu þekkingu og niðurstöðum alþjóðlegs vísindastarfs og samvinnu um mat á vistkerfi hafs, sjávarbotns og stranda.

Fiskveiðistjórn
Meginregla í auðlindanýtingu er að þjóðin öll á auðlindir til lands og sjávar og henni ber að greiða afgjald fyrir nýtinguna. Vinstri græn leggja áherslu á afdráttarlaust auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum er skýrt. VG vill að fyrirtæki, sem stunda eldi í sjó, greiði fyrir nýtingu sjávar líkt og um lóðaleigu væri að ræða. VG vill að útgerð greiði veiðigjald sem er fast hlutfall af aflaverðmæti selt úr skipum. Mikilvægt er að við útfærslu á slíku gjaldi komi til þrepaskipting milli ólíkra útgerðarflokka og afkomu eins og við viljum gera í skattkerfinu, þar sem ólíku saman að jafna hagkvæmni og hagnaði stórútgerðarinnar og minni útgerða. Verðmyndun á afla mun því óhjákvæmilega taka mið af veiðigjaldi, en þeir sem hyggjast byggja upp greinina og borga sjómönnum góð laun, munu öðlast samkeppnisforskot á aðra. VG vill að arður og atvinna af sjávarútvegi dreifist sem best um samfélagið en lendi ekki í höndum fárra útgerðarrisa sem hugsa bara um stundargróða og láta sér samfélagslega ábyrgð í léttu rúmi liggja eins og mýmörg dæmi sanna, fyrir utan það að gróðinn lendir oftar en ekki í einhverjum skattaskjólum. Arðurinn af veiðigjöldum skal að hluta renna til viðkomandi sveitarfélaga.

Hver útgerð býr að kvóta sem mælt er fyrir um af ráðherra sjávarútvegsmála, byggt á ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar. VG vill að kvótaúthlutun í núverandi mynd verði aflögð í skrefum og kvóta endurútdeilt á grundvelli hagsmuna samfélagsins, byggða í landinu og atvinnu. VG leggur sérstaka áherslu á eflingu strandveiða. Endurúthlutun felst annarsvegar í tímabundinni ráðstöfun leyfa og skal að hluta vera bundin útgerðarformum og veiðiaðferðum, og hinsvegar í uppboði, að hluta bundin svæðum landsins og sveitarfélögum og þeim aðilum boðið að skilgreina leiðir til úthlutunar. Við endurúthlutun veitir ríkið leyfi þar sem skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar, að kvótinn sé óframseljanlegur og það veiðigjald sem rukkað verður. 10% þess kvóta sem aflagður er hvert ár er tekin til hliðar og settur í byggðapott. Þeim kvóta er útdeilt árlega til 10 ára í senn til þeirra byggða sem metið er af Byggðastofnun að hallast standi. Kvótinn getur komið sem sérstakur byggðakvóti beint til byggðar eða sem mótframlag við landaðan afla í byggð. Allar ráðleggingar um að auka kvóta fara sjálfkrafa í gegnum uppboðsleið ríkis, sem og kvótar um veiðar á nýjum stofnun. Ef veiðiráðgjöf vill draga úr kvóta tegunda, kemur það til frádráttar á eftirstandandi hlut útgerða hverju sinni.

Náttúruvernd
Vistkerfi heimsins, hvort sem er á láði eða legi, einkennast af viðkvæmu jafnvægi sem hefur skapast og viðhaldist jafnvel um þúsundir ára. Áhrif mannsins á þessi vistkerfi eru nú mikil og orðin áþreifanleg á hnattrænan kvarða meðal annars með súrnun sjávar. Þessi áhrif hafa hinsvegar varað stutt og ófyrirsjánalegt hvernig þau munu leggjast með öðrum ferlum náttúru í að breyta jafnvægi vistkerfa í hafinu. Þannig þarf lykilregla í stjórn fiskveiða að vera virðing fyrir auðlindinni og vistkerfum hafs, sjávarbotns og stranda og varúðarreglan útgangspunktur þeirrar virðingar. Ef við vitum ekki hver möguleg áhrif aðgerða okkar eru að fullu, þá skal sleppa þeim aðgerðum. Næmni fyrir hlutverki okkar í vistkerfi hafsins er annað lykilorð sem VG vill að haft sé í heiðri við stjórn fiskveiða. Aðferðir við veiðar og afli sem við tökum hefur áhrif á hafið, hafsbotninn, samfélög í landi, loftslag og fleira. Með öðrum orðum eru fiskveiðar, s.s. notkun togveiðarfæra og brennsla svartolíu á skipum, hluti hnattræns umhverfis og þarf að skoða og skilja í því ljósi. Stjórn fiskveiða þarf því að vera næm á fleira en niðurstöður ársreikninga einstakra fyrirtækja og skynja ábyrgð sína eftir því.

Loks þarf að verja grunnslóð enn betur fyrir stórskipaflotanum og stórtækum veiðarfærum en nú er gert og skoða kosti þess að draga mörkin við 20 mílur utan grunnlínu og að fyrir innan þau væru einungis notuð umhverfisvæn veiðarfæri líkt og í krókaveiðum.

Fiskeldi
Í fiskeldi eru miklir vaxtar- og framtíðar möguleikar víða um land. Þeir felast í frekari þróun á umhverfisvænu fiskeldi, eldi sjávardýra og þörungaeldi. Styðja þarf vel við þróunarstarf og rannsóknir og skapa stranga lagaumgjörð og reglur fyrir greinina. Eldi sjávardýra þarf að koma í kjölfar stefnumótunar og regluverks um framkvæmd slíks. Tryggja þarf rétt sveitarfélaga til að skipuleggja haf- og strandsvæði og efnahags- og samfélagsleg áhrif eldis skulu metin á líkan hátt og áhrif á náttúruna. Stjórnvöld ættu að hvetja til framþróunar og nýsköpunar í eldislausnum sem miða að hámarksnýtingu hliðarafurða, verndun villtra stofna og viðkvæmrar náttúru, ásamt því að hámarka dýravelferð og gæði afurða. Taka skal mið af viðmiðum sjálfbærrar þróunar, vísindalegu mati á áhættu og gera kröfur til fyrirtækja um hverjar þær mótvægisaðgerðir sem nauðsynlegar eru svo að eldi geti verið stundað í sátt við umhverfi og samfélög.

Vernda verður viðkvæma náttúru fyrir áföllum og skaða sem getur hlotist af óábyrgu fiskeldi. Vernda verður villta stofna íslenskra laxfiska og viðkvæma náttúru fyrir erfðablöndun, sjúkdómum, sníkjudýrum og öðrum áföllum sem geta hlotist af því að eldisfiskar sleppi úr haldi eða valdi umhverfi skaða með öðrum hætti. Farsælast til langrar framtíðar er eldi sem helst í hendur við aðra nýtingu, öfluga vöktun, eftirlit og verndun íslenskrar náttúru. Virða þarf rétt náttúrunnar með öllum sínum fjölbreytileika til að þróast áfram á eigin forsendum, byggðum landsins til langtíma hagsbóta.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.