Svandís Svavarsdóttir: Ráðgjafanefnd Landspítala

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað Landspítalanum ráðgjafarnefnd til næstu fjögurra ára, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu. Formaður nefndarinnar er Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.

Í nefndinni eru níu aðalmenn og jafnmargir til vara. Nefndin skal vera forstjóra og framkvæmdastjórn „til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans . Skal nefndin m.a. fjalla um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir spítalans og langtímastefnu hans. Nefndin skal m.a. skipuð fulltrúum notenda þjónustu spítalans. Formaður skal í samráði við forstjóra boða til upplýsinga- og samráðsfunda eftir því sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en tvisvar á ári“ líkt og segir í 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu þar sem kveðið er á um hlutverk ráðgjafarnefndarinnar.

Tengsl spítalans við þjóðfélagið efld og áhrif notenda þjónustunnar aukin

Heilbrigðisráðherra hefur sett nefndarmönnum í ráðgjafarnefnd Landspítala erindisbréf þar sem segir meðal annars að tilgangur með starfsemi nefndarinnar skuli vera að efla tengsl Landspítala við þjóðfélagið og möguleika notenda þjónustunnar til að hafa áhrif á starfsemi og þjónustu Landspítala.

Skipun nefndarinnar er sem hér segir:

Aðalmenn:

 • Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, formaður
 • Óskar Reykdalsson, lækningaforstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, varaformaður
 • Jón Kristjánsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra
 • Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra
 • Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara
 • Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands
 • Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB
 • Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu
 • Vilmundur Guðnason, prófessor og forstöðumaður Hjartaverndar

Varamenn:

 • Hjalti Þór Vignisson, fyrrverandi sveitastjóri
 • Sveinn Guðmundsson, formaður Hjartaheilla
 • Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna
 • Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar
 • Anna Stefánsdóttir, formaður Spítalans okkar
 • Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna
 • Reynir Tómas Geirsson, fyrrum prófessor og fæðingarlæknir
 • Henny Hinz, hagfræðingur ASÍ
 • Andri Snær Magnason, rithöfundur.