Saga VG

Vinstrihreyfingin – grænt framboð var formlega stofnuð 6. febrúar 1999 í þeim tilgangi að sameina vinstrisinna og náttúruverndarsinna í einn flokk fyrir kosningarnar sem fram fóru 8. maí 1999.

Stofnunin átti sér nokkurra mánaða aðdraganda. Um alllangt skeið höfðu staðið yfir tilraunir til að sameina í einn flokk félaga í Alþýðubandalagi, Alþýðuflokki, Kvennalista og Þjóðvaka, en um það voru afar deildar meiningar. Fólk aðhylltist ýmist sérframboð með yfirlýsingum um samstarf að loknum kosningum, sameiginlegt framboð um tilteknar málefnaáherslur eða samruna þessara stjórnmálaafla í eina hreyfingu. Þegar ljóst var orðið að niðurstaðan yrði eins konar sambland af tvennu því síðarnefnda þótti mörgum, einkum innan Alþýðubandalags og Kvennalista, sem grundvöllur samstarfs væri brostinn, auk þess sem margir voru frá upphafi andvígir hvers konar samruna eða voru vantrúaðir á árangurinn. Þeir hinir sömu höfðu hins vegar sem betur fer ekki allir týnt trú á gildi stjórnmálabaráttu og héldu áfram að ræða málin og var félagið Stefna – félag vinstrimanna stofnað sem fyrsti vettvangur þeirrar umræðu. Niðurstaðan eftir nokkra mánuði varð stofnun nýs stjórnmálaflokks með sterkar áherslur á félagslegt réttlæti, sjálfstæða utanríkisstefnu, kvenfrelsi og náttúruvernd.

Upphaflega blés ekki byrlega fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í því mikla ölduróti stjórnmálanna sem ríkti í aðdraganda kosninganna 1999. Smám saman sótti hún í sig veðrið og niðurstaða kosninganna 8. maí var talin stórsigur fyrir þessa ungu hreyfingu, sem fékk 9,1 % heildaratkvæða og 6 fulltrúa kjörna á Alþingi, 2 í Norðurlandi eystra, 2 í Reykjavík, 1 á Austurlandi og 1 í Norðurlandi vestra. Hreyfingunni óx stöðugt ásmegin á sínu fyrsta kjörtímabili og hver skoðanakönnunin af annarri staðfesti vaxandi stuðning kjósenda. Úrslit kosninganna 10. maí 2003 urðu þó á þann veg að VG hlaut 8.8% atkvæðanna og 5 þingmenn, 2 í Reykjavík, 1 í Norðvesturkjördæmi og 2 í Norðausturkjördæmi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð var enn á ný sigurvegari kosninganna 2007 og náði þá 14,3% atkvæða og nærri tvöfaldaði þingflokkinn, sem þá var skipaður 9 þingmönnum.

Eftir búsáhaldabyltinguna í janúar 2009 tók við minnihlutastjórn VG og Samfylkingar með stuðningi Framsóknarflokksins. Vinstri græn settist þannig í ríkisstjórn 1. febrúar 2009, eða fimm dögum fyrir tíu ára afmæli hreyfingarinnar. Jafnframt var boðað til nýrra kosninga í lok apríl en þar vannst stórsigur, tæp 22% atkvæða féll í hlut VG og stækkaði þingflokkurinn upp í 14 fulltrúa. Flokkurinn settist í ríkisstjórn eftir hrun og dalaði fylgið í þeim aðstæðum.  Síðan eru þrjú kjörtímabil liðin. Eitt með 7 þingmönnum, næsta með 10 og á yfirstandandi kjörtímabili eru þingmenn VG 11 talsins. Sex karlar og fimm konur skipa ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem tók við völdum 30. nóvember 2017. Katrín Jakobsdóttir er forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Guðmundur Ingi Guðbrandsson er ráðherra umhverfis-og auðlindamála utan þings. 

Félagar í VG eru nú tæplega 6000 talsins. Formaður flokksins er Katrín Jakobsdóttir, varaformaður er Edward Huijbens, gjaldkeri Una Hildardóttir og ritari Elín Sigurðardóttir. Þingmenn VG eru Ari Trausti Guðmundsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Svandís Svavarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Framkvæmdastjóri hreyfingarinnar er Björg Eva Erlendsdóttir. Að loknum síðustu sveitastjórnarkosningum á VG fulltrúa í mörgum sveitarstjórnum, bæði af hreinum VG listum og blönduðum listum.

Þingflokkurinn hefur aðsetur í Austurstræti s. 563 0771. Skrifstofa flokksins er á Kvennaheimilinu við Túngötu 14,  og síminn þar er 552 8872. Netfangið er vg@vg.is. Á þessari vefsíðu er einnig að finna ýmislegt um störf og stefnu VG.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.