PO
EN

Alþjóða- og friðarmál

Landsfundur 2024.

Ísland á að beita sér fyrir því alþjóðalög séu virt og standa vörð um stefnu og starf Sameinuðu þjóðanna. Til að tryggja öllum íbúum jarðar mannsæmandi kjör er ljóst að deila þarf auðlindum heimsins jafnar. Til að jafna kjör fólks þarf róttækar breytingar á því hvernig völdum og gæðum er dreift jafnt milli ríkja sem innan þeirra, s.s. milli stétta, kynja, þjóðernishópa o.s.frv. Kapítalismi er hvorki sjálfbær efnahagslega né umhverfislega og leiðir til samþjöppunar valds, auðs og eigna hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum sem og stórfelldrar mismununar. Þessu fylgir heimsvaldastefna og hnattvæðing á forsendum fjármagnsins.

Ekkert er jafn skaðlegt fyrir umhverfið, velferð og heilsu fólks og hernaður. Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan. Það á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu á alþjóðavettvangi. Stríð og hernaður leysa engin vandamál, þótt hernaðarsinnar haldi því fram að barist sé fyrir friði og mannréttindum. Auk þess er vígvæðing og hernaður gegndarlaus sóun auðlinda og lífs.

Höfnum hernaði

  • Aðgerðir á alþjóðavettvangi, þar á meðal viðskiptaþvinganir, mega ekki valda þjáningu og dauða saklausra borgara. Íslensk stjórnvöld eiga að hafna hernaðaríhlutun, beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun sem og að vinna gegn vopnaframleiðslu og vígbúnaði.
  • Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum og banna umferð þeirra. Ísland á að undirrita og lögfesta sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.
  • Heræfingar, sem og herskipa- og herflugvélakomur, eiga að vera óheimilar á Íslandi.

Ísland og umheimurinn

  • Íslensk utanríkisstefna þarf að byggjast á því sjónarmiði að við kjósum alþjóðlegt réttlæti, afvopnun og friðsamlegar lausnir deilumála. Besta leiðin til þess er að Ísland beiti sér fyrir samvinnu smáríkja á alþjóðavettvangi á jafnréttisgrundvelli með sjálfbærni að leiðarljósi. Utanríkisstefna Íslands á að taka mið af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  • Ísland á að koma fram af dirfsku á alþjóðavettvangi í baráttu fyrir kynjajafnrétti, kvenfrelsi og réttindum hinsegin fólks í heiminum. Ísland á jafnframt að beita sér fyrir aðgerðum gegn mansali á alþjóðavettvangi. Við eigum einnig að skipa okkur í sveit forystuþjóða í umhverfismálum og í baráttu gegn umhverfis- og loftslagsvá á alþjóðavettvangi.
  • Ísland á að beita sér gegn múrum og girðingum á milli þjóða og þjóðfélagshópa og styðja sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt annarra þjóða. Ísland á að beita sér fyrir því að frjálst ríki Palestínu verði að veruleika.
  • Ísland hafnar kynþáttahatri og kynþáttafordómum. Mikilvægt er að hamla uppgangi öfgaafla sem vinna m.a. að afnámi mannréttinda og afmennskun.
  • Ísland þarf að taka skýra afstöðu með friði, réttindum frumbyggja, sjálfbærni og náttúruvernd á norðurslóðum.
  • Ísland hefur að mörgu leyti forréttindastöðu í alþjóðasamfélaginu og ber því að gera það sem í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Ísland þarf að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar, bæði með því að taka vel á móti fólki á flótta og styðja fólk í því að geta lifað með reisn annars staðar í heiminum.
  • Íslendingar eiga að stórauka framlag sitt til þróunarsamvinnu með jafnrétti að leiðarljósi og leggja fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Sameinuðu þjóðirnar hvetja til þess að framlögin nemi 0,7% af vergum þjóðartekjum. Aðalmarkmið þróunarverkefna á vegum Íslendinga á að vera að fólki sé gert kleift að verða sjálfbjarga á eigin forsendum með loftslagsmál og sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
  • Ísland ætti að lágmarki að tvöfalda stuðning sinn við þróunarríki til aðlögunar og aðgerða gegn loftslagsvá í samræmi við þrettánda Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna m.a. í gegnum Græna loftslagssjóðinn og Aðlögunarsjóðinn.
  • Binda þarf enda á rangláta viðskiptahætti og arðrán stórfyrirtækja svo hin fátækari svæði geti brauðfætt íbúa sína án þess að ganga á gæði jarðar. Síaukinn ágangur á auðlindir jarðar og áhrif mannkynsins á loftslag hennar leiðir til fólksflótta, misskiptingar og umhverfisvár sem stefnir lífríki jarðarinnar, vistkerfum og mannkyninu sjálfu í hættu. Gegn þessari þróun verður að sporna.
  • Gæta verður þess í samningum um alþjóðasamskipti og alþjóðaviðskipti að festa ekki í sessi þá efnahagslegu gjá sem nú blasir við milli einstakra heimshluta og hafa mannréttindi og félagsleg réttindi í huga. Ísland á að beita sér fyrir lokun skattaskjóla.
  • Fyrir smáríki á borð við Ísland mun alþjóðleg samvinna ætíð verða lífsnauðsyn. Efla ber alþjóðasamtök á borð við Sameinuðu þjóðirnar og undirstofnanir þess, sem og staðbundin bandalög á borð við Norðurlandaráð og Norðurskautsráðið og efla tengsl við grannþjóðir á Norður-Atlantshafi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur ríka áherslu á samstarf við önnur Evrópulönd en telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan.

Stefnumörkun til framtíðar

  • Setja þarf skýra stefnu í þróun gervigreindar sem gengur út frá því að gervigreind sé ekki notuð til þvingana, mannréttindabrota og annarrar valdníðslu.
  • Móta þarf stefnu í málefnum geimsins sem stuðli að samvinnu, sjálfbærri nýtingu og framþróun í þágu friðar, jöfnuðar og umhverfis.
  • Þjóðaröryggisstefna Íslands á að snúast um raunverulegar ógnir landsins. Þær eru fyrst og fremst vegna loftslagsvár og annarra náttúruhamfara, heilbrigðisógna, tölvuglæpa og annarrar glæpastarfsemi. Þjóðaröryggisstefnan á að tryggja að innviðir Íslands standist þær ógnir sem að landinu kunna að steðja. Í því skyni þarf að tryggja að innviðir á borð við alþjóðlegar hafnir og flugvelli, fjarskipta- og orkukerfi lúti samfélagslegri stjórn.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search