Search
Close this search box.

Málefni fatlaðs fólks

Landsfundur 2023.

Fatlað fólk er hluti af fjölbreytileika samfélagsins sem samanstendur af mannlegum margbreytileika. Til fatlaðs fólks teljast m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun. Fatlað fólk verður fyrir ýmiss konar hindrunum vegna umhverfis og viðhorfa sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku þess til jafns við aðra. Hindranir samfélagsins valda fötluðu fólki vanda í daglegu lífi frekar en skerðingin sjálf og því þarf að breyta. Fatlað fólk á að hafa sömu tækifæri og annað fólk til að geta tekið þátt í samfélaginu á sínum forsendum og lifað sjálfstæðu lífi án aðgreiningar.

Aðgengi er forsenda þátttöku. Gera þarf fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum samfélagsins. Tryggja þarf aðgengi allra að hinu efnislega umhverfi, samgöngum, upplýsingum og samskiptum sem og allri annarri þjónustu eða aðstöðu sem almenningi stendur til boða, óháð búsetu. Þá á að tryggja fötluðu fólki fjölbreytt námsframboð og atvinnu.

  • Það á að lögfesta Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tryggja jöfn réttindi til sjálfstæðs lífs án aðgreiningar.
  • Fatlað fólk á að hafa val um húsnæði og geta ráðið með hverjum það býr. Því á ekki að skilyrða rétt fatlaðs fólks til viðeigandi stuðningsþjónustu við eitthvert tiltekið búsetuform.
  • Fatlað fólk skal hafa val um hvernig sú þjónusta sem það þarfnast er veitt. Ávallt skal leggja áherslu á virðingu fyrir ólíkum einstaklingum og þörfum þeirra og viðhafa virkt notendasamráð við veitingu hvers kyns þjónustu.
  • Tryggja þarf sjálfræði fatlaðs fólks og rétt þess til frelsis, athafna og upplifunar á eigin heimili, til náms, atvinnuþátttöku sem og í tómstundum.
  • Fatlað fólk á að geta notið fjölskyldulífs til samræmis við aðra í samfélaginu.
  • Fatlað fólk er sá hópur fólks sem er berskjaldaðastur fyrir margs konar ofbeldi. Fatlaðar konur og börn verða oftar fyrir fjölþættri mismunum og ofbeldi. Ofbeldi gagnvart fötluðu fólki á aldrei að líðast og það á að leggja allt kapp á að uppræta það og fyrirbyggja að það geti átt sér stað.
  • Mismunun getur verið fjölþætt og birst ólíkum hópum með ólíkum hætti. Sérstaklega þarf að huga að fötluðu fólki sem býr við fjölþætta mismunun eins og kynhneigð, uppruna, aldur, trúarskoðanir eða atgervi.
  • Fatlað fólk og fötluð börn eiga að vera örugg og frjáls og njóta mannréttinda sinna í skilningsríku og fordómalausu samfélagi. Tryggja þarf að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og frelsis til jafn við önnur börn.
  • Vinnumarkaður á að vera sveigjanlegur og hlutastörf eiga að standa fólki með mismikla starfsgetu til boða. Veita skal viðeigandi stuðning til þátttöku á vinnumarkaði.
  • Fatlað fólk, þar með talin fötluð börn, eiga að njóta menntunar á öllum skólastigum án aðgreiningar.
  • Það þarf að efla hvers kyns endurhæfingu. Nám er hluti af atvinnutengdri endurhæfingu.
  • Stafrænar lausnir þurfa að uppfylla kröfur um aðgengi.
  • Viðbragðsáætlanir og aðgerðir Almannavarna og annarra viðbragðsaðila eiga einnig að ná til fatlaðs fólks svo sem rýmingaráætlanir vegna náttúruhamfara og sóttvarnaráætlanir.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search