Málefni hinsegin fólks

Deildu 

Share on facebook
Share on twitter

Ályktun um málefni hinsegin fólks Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn í Reykjavík 6. – 8. október 2017 lýsir yfir áhyggjum af því að Ísland hafi dregist verulega aftur úr þegar kemur að alþjóðlegum samanburði á stöðu hinsegin fólks í heiminum. Á regnbogakorti ILGA Europe uppfyllir Ísland nú innan við helming lagalegra skilyrða til að réttindi hinsegin fólks séu tryggð og hefur Ísland því dregist mikið aftur úr síðan 2014 og er nú töluvert á eftir þeim þjóðum sem við berum okkur gjarnan saman við.

Vinstri græn vilja tryggja atvinnuöryggi hinsegin fólks með lagasetningu þess efnis að ekki sé hægt að segja fólki upp á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar, líkt og staðan er í dag. Eins mótmæla Vinstri græn því að skurðaðgerðir séu framkvæmdar á intersex fólki, jafnvel frá bernsku, án nauðsynjar eða samþykkis þess. 

Einnig mótmæla Vinstri græn því að geðröskunargreiningu þurfi til þess eins að fólk fái að breyta kynskráningu sinni hjá hinu opinbera. Vinstri græn vilja að intersex einstaklingar fái að ráða því sjálfir hvort þeir falli inn í þær fyrir fram ákveðnu kynjamyndir þegar þeir hafa aldur til og ekki eigi að raska kynvitund þeirra með óþarfa inngripum á kyneinkennum þeirra. Það er klárt mannréttindabrot að framkvæma aðgerðir á hvítvoðungum til þess eins að normgera kyneinkenni þeirra, svo þeir passi inn í ákveðinn kynjaramma án upplýsts samþykkis einstaklingsins. 

Allir hafa rétt á að vera sú manneskja sem þeir eru óháð öllu öðru. Fólk á sjálft að fá að skilgreina sig út frá sinni kynvitund, kynhneigð, kyneinkennum og kyntjáningu, hvort sem það fari í aðgerð eða kynleiðréttingaferli, til að sækjast eftir kyneinkennum sem samrýmast betur þeirra kynvitund, eða ekki. Fólk á sjálft að fá að ákveða hvort það fari í kynleiðréttingaferli og á sömuleiðis sjálft að stjórna ferlinu. Ekki skal gera kröfur um ákveðna kyntjáningu til þess að aðgerð sé leyfð, heldur á einstaklingurinn sjálfur að stýra ferðinni í góðu samráði við lækna. Horfið verði frá hinum úreltu viðhorfum að einstaklingar þurfi geðröskunargreiningu til þess að þeim sé hleypt inn í kynleiðréttingarferli, þar sem það er gróf tímaskekkja. Aldrei má hefta aðgengi einstaklings að heilbrigðisþjónustu og gildir nákvæmlega það sama þegar kemur að trans einstaklingum. Kynleiðréttingaferlið skal vera greitt af hinu opinbera. 

Vinstri græn vilja að fólk ráði því sjálft hvernig nafn þess og kyn sé skráð í Þjóðskrá. Eins verði við fleiri valmöguleikum en aðeins hinum tveimur hefðbundnu kynjum, þar sem allt fólk fellur ekki í sama mótið. Ísland gæti í þessum efnum farið að fordæmi annarra þjóða með því að bjóða upp á Xskráningu í þjóðskrá, sem þýðir einfaldlega að hið opinbera skráir fólk hvorki sem karl né konu. Því gætu einstaklingar verið X merktir í vegabréfi og á öðrum persónuskilríkjum sem krefjast kynskráningar. Einnig þarf að tryggja hinsegin fólki vernd í stjórnarskrá með því að bæta við 65. grein, svo þar séu að auki tilgreind kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning. Á sama veg ætti stjórnarskráin að viðurkenna fleiri kyn en aðeins þau sem kynjatvíhyggjan gerir ráð fyrir, þ.e. karl og konu. 

Stefnt skal að því að leggja af kynjaskipt salerni í opinberum byggingum eða tryggja kynhlutlaus salerni þar sem það á við, enda er það mikilvægt fyrir fólk sem ekki fellur að hinum hefðbundna kynjaramma. Bann við blóðgjöfum karlmanna sem stunda mök með öðrum karlmönnum er einnig tímaskekkja sem þarf að afnema sem fyrst. 

Íslenska ríkið þarf að leggja áherslu á það að semja við ríki sem heimila ættleiðingar hinsegin fólks ásamt því að vera mun sterkara þrýstiafl á þjóðir sem banna ættleiðingar hinsegin fólks. Einnig eru hinsegin hælisleitendur hópur sem þarf að hlúa sérstaklega að, þar sem um jaðarhóp innan jaðarhóps er að ræða. Þeim þarf að tryggja bestu mögulegu ráðgjöf og þjónustu sem hugsast getur, auk þess sem Útlendingastofnun þarf að taka sérstakt tillit til þess hóps. 

Eins er kominn tími til að íslenska ríkið styðji í ríkari mæli við hagsmunasamtök hinsegin fólks, sem fær aðeins brotabrot af því fé sem nágrannalönd okkar leggja til sambærilegra félaga. Þá hefur ríkið hingað til vanrækt að setja slík samtök á fjárlög. 

Íslensk stjórnvöld hafa gjarnan barið sér á brjóst og fagnað góðum árangri um það leyti sem hátíðarhöld hinsegin fólks fara fram. Jákvæður málflutningur stjórnvalda dugar hins vegar óneitanlega skammt ef aðgerðir og lagabreytingar fylgja ekki fögrum orðum. 

Alþingi og íslenska ríkið þarf að gera meira þegar kemur að málefnum hinsegin fólks og þar eru Vinstri græn tilbúin til að taka stór skref.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.