Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur höfuðáherslu á jöfnuð í sinni stefnu og fagnar fjölbreytileikanum. Á Íslandi eigum við öll að njóta fullra réttinda, óháð kynvitund, kynhneigð, kyneinkennum eða kyntjáningu. Því eru málefni hinsegin fólks okkur afar hugleikin sem og það að eiga virkt samtal við hinsegin samfélagið á Íslandi. Stór skref hafa verið stigin í málaflokknum undir forystu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs með áherslu á að bæta réttindastöðu hinsegin fólks. Ísland hefur alla burði til og á að vera í fararbroddi á heimsvísu þegar kemur að réttindastöðu hinsegin fólks. Við erum stolt af hinsegin fólki, elju þess og krafti við að tryggja réttindi allra og viljum sem hreyfing taka virkan þátt í þeirri baráttu. Markmið íslenskra stjórnvalda á að vera að koma Íslandi efst á Regnbogakort ILGA-Europe.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur á síðustu árum lagt ríka áherslu á að bæta réttindastöðu hinsegin fólks. Lögð hefur verið áhersla á að tryggja atvinnuöryggi hinsegin fólks með sérstakri lagasetningu. Trans fólk fær nú þjónustu án þess að þurfa að sæta geðröskunargreiningu og lög um kynrænt sjálfræði hafa tekið gildi. Lögunum er ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi og rétt þeirra til þess að skilgreina kyn sitt þannig að kynvitund hvers og eins njóti viðurkenningar. Breytingar á kynskráningu í þjóðskrá eru nú heimilar ásamt hlutlausri skráningu kyns.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að stjórnvöld setji sér skýra stefnu í málefnum hinsegin fólks og vinni á grundvelli hennar aðgerðaáætlun til innleiðingar þess sem upp á vantar. Stefnumótunina verður að vinna í góðu samstarfi við hinsegin samfélagið á Íslandi enda er málaflokkurinn fjölbreyttur og í mikilli mótun. Mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist hratt og örugglega við til að tryggja réttindi hinsegin fólks.
Hverskyns hatursorðræða og hatursglæpir í garð hinsegin fólks eiga aldrei að líðast. Setja þarf skýran lagaramma um hatursorðræðu og hatursglæpi gegn hinsegin fólki. Viðbragðsaðilar þurfa að geta spornað gegn og brugðist við slíku á grundvelli skýrra laga og viðbragðsáætlana.
Auka þarf vernd intersex fólks enn frekar, sérstaklega intersex barna. Á þeim skulu aldrei gerðar ónauðsynlegar aðgerðir til þess eins að „lagfæra“ líkama þeirra.
Stjórnvöld eiga að leita allra leiða til að taka á móti fleiru hinsegin fólki á flótta. Móta þarf sérstaka stefnu um móttöku hinsegin fólks sem leitar að alþjóðlegri vernd.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að blóðgjafir karlmanna, sem stunda kynmök með öðrum karlmönnum, verði heimilaðar og að allt blóð verði skimað, óháð kynhegðun þeirra einstaklinga sem gefa blóðið.
Bæta þarf þjónustu við trans börn, foreldra þeirra og forsjáraðila.
Hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi gegna lykilhlutverki í réttindabaráttu hinsegin samfélagsins. Innan þeirra vébanda eru sérfræðingar í málefnum hinsegin fólks og nauðsynlegt er að leitað sé til þeirra við alla stefnumótun.
Tryggja þarf virkt samtal, þátttöku og aðkomu félagasamtaka eins og Samtakanna ´78, Trans Ísland og Intersex Ísland í opinberri stefnumótun um hinsegin mál og framkvæmd hennar, t.d. með auknum stuðningi við rekstur og fræðslustarf.