Search
Close this search box.

Málefni hinsegin fólks

Landsfundur 2023.

Fólk á að njóta fullra réttinda í samfélaginu óháð því hvernig það skilgreinir sig. Í mörgu hefur réttarstaða hinsegin fólks verið löguð og réttindi þess aukin en margt er enn óunnið. Gera þarf gangskör til að uppræta fordóma, útskúfun og ofbeldi í garð hinsegin fólks og það á að vera metnaðarmál að ráðast í kerfislegar og samfélagslegar breytingar sem bæta líf og tilveru þess. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur höfuðáherslu á jafnræði fólks í millum og að vera í virku samtali við hinsegin samfélagið í þeirri vinnu. Markmið íslenskra stjórnvalda á að vera að koma Íslandi efst á Regnbogakort ILGA-Europe.

Rík áhersla hefur verið lögð á í vinnu hreyfingarinnarað bæta stöðu hinsegin fólks með ýmiss konar lagasetningu eins og t.d. lög um kynrænt sjálfræði og lög um atvinnuöryggi trans fólks og skal áfram haldið á sömu braut. Málefni hinsegin fólks skulu ávallt höfð með í þeim samfélagsbreytingum sem hreyfingin vinnur að enda verður jöfnuði ekki náð fyrr en hinsegin fólki verða tryggð aukin tækifæri og sjálfsögð réttindi á Íslandi.

  • Stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, eiga að setja sér skýra stefnu í málefnum hinsegin fólks og gera tímasetta aðgerðaráætlun. Stefnumótunin á að vera í góðu samstarfi við hinsegin samfélagið á Íslandi enda er málaflokkurinn fjölbreyttur og í mikilli mótun. Mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist hratt og örugglega við til að tryggja réttindi hinsegin fólks.
  • Hverskyns hatursorðræða og hatursglæpir í garð hinsegin fólks eiga aldrei að líðast. Setja þarf skýran lagaramma um hatursorðræðu og hatursglæpi gegn hinsegin fólki. Viðbragðsaðilar þurfa að geta spornað gegn og brugðist við slíku á grundvelli skýrra laga og viðbragðsáætlana.
  • Auka þarf vernd intersex fólks enn frekar og sér í lagi intersex barna. Á þeim skulu aldrei gerðar ónauðsynlegar aðgerðir til þess eins að „lagfæra“ líkama þeirra sbr. lög um kynrænt sjálfræði.
  • Stjórnvöld eiga að leita allra leiða til að taka á móti fleira hinsegin fólki á flótta. Móta þarf stefnu um móttöku hinsegin fólks sem leitar að alþjóðlegri vernd.
  • Blóðgjafir karla sem stunda kynmök með öðrum körlum verði heimilaðar.
  • Bæta þarf þjónustu við trans börn, foreldra þeirra og forsjáraðila. Tryggja þarf jafnan aðgang að þjónustu við þennan hóp óháð búsetu og efnahag.
  • Hagsmunasamtök hinsegin fólks á Íslandi gegna lykilhlutverki í réttindabaráttu hinsegin samfélagsins. Innan þeirra vébanda eru sérfræðingar í málefnum hinsegin fólks og nauðsynlegt er að leitað sé til þeirra við alla stefnumótun.
  • Tryggja þarf virkt samtal, þátttöku og aðkomu hagsmunasamtaka í opinberri stefnumótun um hinsegin mál og framkvæmd hennar með stuðningi við rekstur og fræðslustarf.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search