Velferðarstefna

HEILBRIGÐISÞJÓNUSTA FYRIR ALLA

Aðgangur að ókeypis heilbrigðisþjónustu eru almenn mannréttindi
Landsfundur 2015.

umhverfi og greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu eru meðal mikilvægustu réttinda einstaklinga. Það er hagur hvers samfélags að stuðla að góðri heilsu almennings og hlúa vel að þeim sem tapa heilsu. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á öfluga heilbrigðis- og velferðarþjónustu sem er fjármögnuð með skattfé og starfrækt á opinberum grunni.

Með opinberum rekstri fæst yfirsýn yfir heilbrigðiskerfið og hægt er að hámarka nýtingu fjármagns og tryggja aðgang að þjónustunni án aðgreiningar, með áherslu á jafnræði og gæði. Vinstri græn hafna markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í velferðarþjónustu.

Aðgangur að hreinu vatni, góð loftgæði og frjáls aðgangur að náttúrulegu umhverfi og náttúrulegum gæðum er allt hluti af heilbrigði einstaklinga og þjóðar. Við mat á heilbrigðis-þjónustu og þjónustukaupum skal ávallt meta umhverfisþætti og umhverfissjónarmið.

Heilbrigðiskerfið á að þjóna öllum óháð efnahag, aðstæðum og búsetu og tryggja þarf að notendur heilbrigðisþjónustunnar komi að skipulagi hennar. Mikilvægt er að fylgt verði Heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og aðgerðaáætlanir innan hennar verði fjármagnaðar að fullu. Vinstri græn telja brýnt að snúa af braut einkarekstrar og verktöku í heilbrigðisþjónustu og hindra að hér festist í sessi tvöfalt kerfi þar sem fjársterkir einstaklingar geta keypt sér heilbrigðisþjónustu sem stendur öðrum ekki til boða. Útgjöld vegna lyfja og læknisþjónustu eru ennþá hærri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum og því þarf að breyta. Brýnt er að lækka heilbrigðisútgjöld sem hlutfall af tekjum heimila, afnema sjúklingagjöld og lækka lyfjakostnað sjúklinga. Fyrsta skrefið er að öll heilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni verði gjaldfrjáls, tannlækningar, sálfræði- og geðlæknaþjónusta þar með taldar. Kanna þarf hvort ekki sé rétt að taka upp skólatannlækningar í grunnskólum að nýju.

Lækkum lyfjakostnað
Halda þarf áfram að lækka lyfjakostnað með hagkvæmari innkaupum meðal annarrs í samvinnu við Norðurlöndin, hindra einokun og samþjöppun á lyfjamarkaði og kanna möguleika á því að setja aftur á stofn lyfjaframleiðslu á vegum hins opinbera. Lyf fyrir börn og ungmenni skulu vera gjaldfrjáls. Aðgengi að S-merktum lyfjum má ekki ráðast af öðru en faglegu mati lækna og alls ekki af fjárráðum viðkomandi sjúklings eða þeim fjölda sem þarf á sama lyfi að halda. 

Öflug heilsugæsla og sjúkrahúsþjónusta
Öflug heilsugæsla, fjölbreytt sérfræðiþjónusta, fræðsla, forvarnir og framúrskarandi sjúkrahús eru hornsteinar góðrar heilbrigðisþjónustu. Byggja þarf upp öfluga heilbrigðisþjónustu fyrir landið allt þannig að almenningur geti sótt sér grunnþjónustu sem næst heimabyggð. Efla þarf menntun heilbrigðisstétta í heilsugæslunni og tryggja að heilsugæslan sé eftirsóttur vinnustaður heilbrigðisstétta.

Ljúka þarf byggingu nýs Landspítala og tryggja að starfandi sé öflugt háskólasjúkrahús þar sem nemendur geti kynnst öllum hliðum heilbrigðisþjónustu. Jafnhliða byggingu nýs Landspítala þarf að horfa til uppbyggingar við Sjúkrahúsið á Akureyri og þróa það áfram yfir í að verða fullgilt háskólasjúkrahús. Breyta þarf skipulagi heilbrigðisþjónustunnar þannig að öll heilsugæsla verði án endurgjalds og taka upp tilvísanakerfi með valfrjálsu stýrikerfi eins og þekkt er á Norðurlöndum. Heilsugæsluna þarf jafnframt að efla og taka upp þverfaglega þjónustu í samvinnu við félagsþjónustu sveitarfélaga.

Forvarnir, sálfræðiþjónusta og tannlækningar eiga að vera í boði innan heilsugæslunnar. Stöðugt þarf að endurskoða hlutverk heilsugæslunnar og vinna að sem bestri nýtingu mannafla. Skoða þarf hvort bein aðkoma sjúkraþjálfara að heilsugæslu geti bætt þjónustu. Byggja þarf upp þekkingu og þjálfun til að unnt sé að veita fyrstu geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvum.

Skoða þarf uppbyggingu nýrra þjónustumódela svo sem í þjónustu við konur og aldraða innan raða heilsugæslunnar.

Mikilvægt er að auka þekkingu á afleiðingum og einkennum ofbeldis í heilbrigðiskerfinu öllu en ekki síst í heilsugæslu, skólahjúkrun og mæðravernd. Allt heilbrigðisstarfsfólk þarf að þekkja einkenni og afleiðingar ofbeldis og tryggja þarf viðeigandi úrræði fyrir þau sem búa við eða verða fyrir hvers kyns ofbeldi.

Geðvernd í verki
Batahugmyndafræðin skal höfð að leiðarljósi í allri geðheilbrigðisþjónustu og samfélagsgeðþjónustu þarf að stórefla.

Tryggja þarf réttindi geðsjúkra, vinna gegn fordómum um geðsjúkdóma og hrinda í framkvæmd langþráðri stefnumörkun í geðheilbrigðismálum.

Tryggja þarf metnaðarfull meðferðarúrræði fyrir fíkla og búsetuúrræði fyrir þá sem lokið hafa meðferð til þess að aðstoða þá við að komast aftur út í samfélagið. Bjóða skal jaðarhópum, svo sem heimilislausum, utangarðsfólki og fíklum, upp á skaðaminnkandi þjónustu og almenna heilsuvernd.

Tryggja þarf réttindi og góðan aðbúnað fanga sem og að bjóða þeim aðgang að menntun og viðunandi meðferðar- og heilbrigðisþjónustu. Leggja ber áherslu á betrunarvist í stað refsivistar í fangelsum landsins, þar sem efla þarf geðheilbrigðisþjónustu til muna. Efla þarf samfélagsþjónustu í stað fangelsisrefsingar. Stórefla þarf möguleika fanga til að viðhalda tengslum við fjölskyldur sínar á meðan á afplánun stendur, ekki síst í þágu barna þeirra. 

Öflugri endurhæfing
Skýra þarf og styrkja skipulag endurhæfingarþjónustu. Endurhæfing hefur mikla þýðingu fyrir fólk sem býr við skerta færni vegna slysa, ýmissa langvinnra sjúkdóma eða hrörnunar sem fylgir hækkandi aldri. Tryggja þarf greiðan aðgang að samfelldri endurhæfingu bæði innan heilbrigðiskerfis og félagsþjónustu.  

Réttindi sjúklinga, fjölgun hjúkrunarrýma
Skilgreina þarf rétt sjúklinga til þjónustu og setja viðmið og reglur um hámark biðtíma. Setja þarf viðmið um fjölda faglærðra heilbrigðisstarfsmanna á einstökum stöðum. Jafnframt þarf að tryggja að sjúklingar geti tekið upplýsta ákvörðun um meðferð sína og veita glöggar upplýsingar um ástand sjúklingsins og stöðu sjúkdómsins.

Fjölga þarf hjúkrunarrýmum og sjá til þess að aldraðir fái lifað með reisn. Stórefla þarf heimahjúkrun og heimaþjónustu og huga sérstaklega að þörfum langveikra. Rekstur hjúkrunar- og dvalarheimila á best heima á hendi hins opinbera eða sjálfseignarstofnana og veraldlegra félagasamtaka sem ekki eru rekin í ábataskyni. Setja þarf af stað vinnu við að endurskoða þjónustulíkan í öldrunarþjónustu, með áherslu á þverfaglega samvinnu.

Mikilvægt er að ný hugsun í þjónustu við eldra fólk festi rætur og að hinn eðlilegi þjónustuvettvangur sé þar sem hinn aldraði kýs, en ekki á forsendum þjónustuaðila eða stofnana. 

Velferð fyrir alla

Félagslegt réttlæti
Samfélag félagslegs réttlætis byggist á öflugri velferðarstefnu sem tryggir rétt fólks til mannsæmandi lífskjara, félagslegra réttinda og mannlegrar reisnar.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur brýnt að horft sé heildstætt á samfélagið hvort sem um er að ræða gott og hagkvæmt húsnæði, gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börn og ungmenni eða gjaldfrjálsa tannlæknaþjónustu. Öryrkjar, aldraðir og atvinnulausir, sem eru háðir velferðarkerfinu um afkomu sína, eiga að hafa möguleika á að lifa innihaldsríku lífi og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Greiður aðgangur að hjálpartækjum er forsenda þess að fólk með fötlun geti verið samfélagslega virkt.

Vinstri græn vilja stytta vinnuvikuna. Fyrstu skref í þá átt hafa verið tekin hjá Reykjavíkurborg undir forystu Vinstri grænna. Rannsóknir sýna að stytting vinnuvikunnar eykur bæði framleiðni og lífsgæði. Með því að stytta vinnuvikuna gerum við samfélagið fjölskylduvænna þar sem meiri tími gefst til samveru með fjölskyldunni.

Láglaunafólk, aldraðir og öryrkjar eru að festast í fátæktargildru. Umtalsverð hækkun lægstu launa á að vera forgangsverkefni í kjarasamningagerð næstu ára og hækkun bóta almannatrygginga á að fylgja slíkum hækkunum. Einfalda þarf bótakerfið, lífeyrisþegum til hagsbóta. Ellilífeyrir fylgi jafnframt lágmarkslaunum.

Vinstri græn taka afstöðu með baráttu fatlaðs fólks þegar kemur að aðgengi og inngildingu (e. inclusion). Það er löngu tímabært að gera aðgerðaráætlanir og tryggja nægt fjármagn til málaflokksins. Vinstri græn fagna því að notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA, hefur verið fest í sessi með lögum frá Alþingi. Vinna þarf áfram að notendasamráði og valdeflingu notenda velferðarþjónustunnar.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga gegnir lykilhlutverki í velferðarsamfélagi enda tryggir hún viðkvæmum hópi lágmarksframfærslu þegar öðrum úrræðum sleppir. Upphæð fjárhagsaðstoðar á að vera mannsæmandi og hana ber að veita skilyrðislaust. Sveitarfélögum og ríki ber á sama tíma að bjóða upp á fjölbreytt virkniúrræði og starfsþjálfun og hvetja til almennrar virkni og þátttöku fólks í samfélaginu.

Fjölmenningarsamfélag
Mikilvægt er að efla alla þjónustu sem tengist móttöku innflytjenda, svo sem með því að auka upplýsingagjöf til þeirra um réttindi, skyldur, atvinnu og húsnæði. Brýnt er að tryggja að innflytjendum og erlendu verkafólki sé ekki mismunað í launum eða á nokkurn annan hátt. Bjóða þarf íslenskukennslu innflytjendum að kostnaðarlausu sem og móðurmálskennslu fyrir börn sem hafa íslensku sem annað mál. Taka skal vel á móti innflytjendum, ekki síst þeim sem flýja örbirgð og stríð í heimahögum sínum.

Lýðheilsa og forvarnir
Efla þarf forvarnir og fræðslu um heilbrigða lifnaðarhætti samtímis því að þróa atvinnuhætti og samfélagsgerð sem hlúir að heilsunni í stað þess að ógna henni. Skoða þarf hvort uppbygging vinnudagsins með því formi, sem nú er, sé heppilegust með tilliti til þarfa starfsmanna og hvort tími til hlés innan vinnudags geti bætt líðan vinnandi fólks.

Forvarnarstarf þarf að styrkja á öllum stigum heilbrigðisþjónustu, í skólakerfi og félagsþjónustu. Efling heilbrigðrar sjálfsmyndar barna, auk fræðslu um holla lífshætti og það að bera virðingu hvert fyrir öðru, eru bestu forvarnirnar gegn vímuefnum og ofbeldi. Efla þarf forvarnir í geðheilbrigði. Efla þarf ráðgjöf félagsráðgjafa og sálfræðinga í skólum til að taka á tilfinningalegum og geðrænum vanda barna og ungmenna. Snemmtæk íhlutun kemur í veg fyrir alvarlegri vanda síðar á lífsleiðinni.

Móta þarf markvissa stefnu í áfengis-, tóbaks- og vímuvarnarmálum. Fyrsta skrefið er að styrkja velferðarkerfið og efla forvarnarstarf, sem byggist á sannreyndum aðferðum og hefur skilað árangri. Sala áfengis á að vera áfram á vegum hins opinbera. Það fyrirkomulag er í samræmi við lýðheilsuleiðbeiningar embættis landlæknis.

Tryggja þarf fíklum viðunandi meðferðarúrræði með samvinnu dóms-, félags- og heilbrigðiskerfis. Snúa þarf af braut harðari refsinga fyrir neyslu fíkniefna en styrkja aðgerðir gegn fíkniefnasölum, innflutningi og framleiðslu fíkniefna.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.