Search
Close this search box.

Velferðarsamfélagið

Landsfundur 2023.

Velferðarsamfélagið er samfélag félagslegs réttlætis og velferðar einstaklinga og fjölskyldna, þar sem ríkir virðing fyrir fjölbreytileika og almannaþjónusta mætir þörfum hvers og eins. Velferð og félagslegt réttlæti eru ein af grunnstoðum sjálfbærrar þróunar. Árangur í baráttunni við loftslagsbreytingar og vernd líffræðilegrar fjölbreytni er grunnforsenda fyrir velferðarsamfélaginu.

Lykilþættir velferðarsamfélags eru öflug félags-, velferðar- og heilbrigðisþjónusta, aðgengi að öruggu húsnæði og að framfærsla fólks dugi til að lifa heilbrigðu og valfrjálsu lífi. Aðgengi að velferðarþjónustu eru mannréttindi. Mikilvægt er að forgangsraða þjónustu fyrir þau sem njóta ekki sömu tækifæra vegna aðstæðna sinna. Forvarnir, snemmtæk þjónusta og samþætting þjónustu ólíkra kerfa eru lykilatriði til framtíðar.

Félags- og velferðarþjónusta

Sterk og fagleg félags- og velferðarþjónusta er grundvallarstoð í réttlátu og öflugu samfélagi. Íbúar allra sveitarfélaga þurfa að hafa gott aðgengi að félagslegri ráðgjöf og þjónustu sem mætir þörfum þeirra í ólíkum áskorunum á lífsleiðinni. Heildarsýn, virðing fyrir manngildi og sérstöðu hvers einstaklings, hjálp til sjálfshjálpar og stuðningur til fullrar þátttöku í samfélaginu skal vera markmið góðrar velferðar- og félagsþjónustu.

  • Réttur fólks til grunnþjónustu á að vera tryggður með skilgreiningu á lámarksþjónustuviðmiði ríkis og sveitarfélaga. Samþætta þarf þjónustu ólíkra kerfa til að mæta sem best þörfum einstaklinga og fjölskyldna með virðingu fyrir fjölbreytileika og mismunandi þörfum og styrkleikum fólks. Réttur til þjónustu á ávallt að byggja á þörfum hvers og eins, óháð aldri og stöðu og skal rauði þráðurinn í allri þjónustu vera valdefling.
  • Öll börn eiga að hafa jafnt aðgengi að frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.
  • Brýnt er að endurskoða lög og bæta aðstæður langveikra og alvarlega fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra.
  • Það þarf að styðja betur og valdefla þolendur hvers kyns ofbeldis og koma á viðeigandi laga- og reglugerðarumhverfi fyrir þjónustu vegna ofbeldis, með áherslu á forvarnir og stuðning við þolendur og gerendur ofbeldis.
  • Samþætta og efla skal þjónustu sveitarfélaga og heilbrigðiskerfis við eldra fólk svo það geti búið heima eins lengi og kostur er og draga þannig úr þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma. Leggja ber áherslu á fjölgun endurhæfingar- og dagþjálfunarrýma.

Heilbrigðisþjónusta

Greiður aðgangur að heilbrigðisþjónustu er meðal mikilvægustu réttinda einstaklinga og jafnframt hagur samfélagsins í heild. Þjónustan skal miða að bættum lífsgæðum og jöfnuði óháð efnahag, búsetu eða aðstæðum. Heilbrigðisþjónusta skal vera fjármögnuð með skattfé og starfrækt á opinberum grunni. Einkarekstur í ágóðaskyni á ekki heima í heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að Heilbrigðisstefnu til ársins 2030 verði fylgt og aðgerðaáætlanir hennar verði fjármagnaðar að fullu. Horfa þarf heildstætt á alla velferðarþjónustu og tryggja samþættingu ólíkra kerfa.

  • Gott aðgengi að heilnæmu umhverfi er lýðheilsumál og efla þarf forvarnir með fræðslu í heilbrigðisþjónustu hins opinbera. Bak við allar þýðingamiklar breytingar sem snerta lýðheilsu þjóðarinnar þarf að liggja mat í samræmi við velsældarhagkerfið sem stefnt er að.
  • Heilbrigðisútgjöld þurfa að lækka sem hlutfall af tekjum heimila og sjúklingagjöld í heilsugæslu og á sjúkrahúsum skulu afnumin. Lágmarka á gjöld fyrir sérfræðiþjónustu og lækka lyfjakostnað sjúklinga með hagkvæmari innkaupum.
  • Aðgengi að lyfjum má ekki ráðast af öðru en faglegu mati lækna og alls ekki af fjárráðum viðkomandi sjúklings eða þeim fjölda sem þarf á sama lyfi að halda. Lyf fyrir börn og ungmenni skulu vera endurgjaldslaus.
  • Heilsugæslan sinnir grunnþjónustu við íbúa í nærumhverfi með þverfaglegu teymi heilbrigðisstétta og hana þarf að efla frekar. Það á líka við um heilbrigðisþjónustu í öllum landshlutum þar sem áhersla skal lögð á heilsueflingu, endurhæfingu, bráðaþjónustu og gott aðgengi að öruggri fæðingarþjónustu.
  • Marka þarf skýra stefnu um það hvaða þjónusta önnur en hefðbundin heilsugæsluþjónusta, s.s. þjónusta sérgreinalækna, teljist til nærþjónustu og skuli veita reglulega í öllum heilbrigðisumdæmum.
  • Sjúkrahúsið á Akureyri á að verða fullgilt háskólasjúkrahús sem getur gegnt enn stærra hlutverki í menntun heilbrigðisfagfólks, sjúkraflugi og almannavörnum á landsvísu.
  • Brýnt er að ljúka við byggingu nýs Landspítala og jafnframt efla hann í að sinna sínu fjölþætta hlutverki sem háskólasjúkrahús með öflugum vísindarannsóknum á heilbrigðissviði. Skýra þarf hlutverk spítalans gagnvart landsbyggðinni og fjárveitingar til hans þurfa að taka tillit þess, s.s. vegna mönnunar og tæknibúnaðar tengdum fjarþjónustu.
  • Bætt vinnuaðstaða og kjör heilbrigðisstarfsfólks getur orðið til þess að fleiri sækja menntun á heilbrigðissviði. Eins þarf að bregðast við brotthvarfi heilbrigðisstarfsfólks úr starfi og leita leiða til að fá nýútskrifað fólk til starfa. Því er mikilvægt að skilgreina umfang og eðli verkefna í mönnunarlíkani og tryggja með því aukin gæði og öryggi allra.
  • Biðlistar eftir greiningum og þjónustu við börn þurfa að styttast og fræðsla til umönnunaraðila þarf að vera tryggð. Efla þarf frekar geðheilbrigðisþjónustu í nærsamfélaginu þar sem batahugmyndafræðin er höfð að leiðarljósi. Samhliða eflingu þjónustunnar þarf að tryggja réttindi geðsjúkra, vinna gegn fordómum um geðsjúkdóma og hrinda í framkvæmd stefnumörkun í geðheilbrigðismálum. Mikilvægt er að auka áhrif notenda á þjónustuna á öllum stigum.
  • Þörf er á markvissri stefnu í áfengis-, tóbaks- og vímuvarnarmálum og festa hana í sessi í lögum og reglugerðum.
  • Vöntun er á meðferðarúrræðum um allt land fyrir fólk með áfengis- og vímuefnavanda og stuðningsúrræðum eftir að meðferð lýkur. Fyrir fólk í neyslu þurfa úrræði skaðaminnkunar og almenn heilsuvernd að vera aðgengileg.

Húsnæðismál

Grundvallarþáttur í velferð einstaklinga og fjölskyldna er að geta eignast öruggt heimili. Það á að tryggja aðgengi allra að öruggu og heilsusamlegu húsnæði á viðráðanlegu verði. Sjálfbær og fjölbreyttur húsnæðismarkaður með félagslegri blöndun, sterkum innviðum og náttúrunni umlykjandi þarf að vera meginstef í allri uppbyggingu. Það á að hafna uppbyggingu húsnæðis út frá hagnaðarsjónarmiðum og koma böndum á síhækkandi húsnæðisverð og gróðradrifna uppbyggingu verktaka. Brýnt er að ná utan um kolefnisspor byggingariðnaðarins og gera áætlanir um að draga hratt og örugglega úr því svo stemma megi stigu við loftslagsbreytingum.

  • Stjórnvöldum ber að móta skýra stefnu í húsnæðismálum og hafa öflugt eftirlit með húsnæðismarkaðnum hverju sinni. Aðgerðir stjórnvalda eiga að byggja á gögnum og tryggja að hagsmunir þeirra verst settu séu hafðir að leiðarljósi.
  • Stjórnvöld eiga að skoða af fullri alvöru að endurreisa félagslega eignaíbúðakerfið til að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði.
  • Það á að tryggja aukið framboð af fjölbreyttu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði um allt land. Til þess á að efla óhagnaðardrifin leigufélög svo auka megi möguleika á öruggri langtímaleigu á viðráðanlegu verði. Með því að auka aðgengi þeirra að lánsfé og fjölga stofnstyrkjum innan almenna íbúðakerfisins er hægt að tryggja öruggan rekstrargrundvöll þeirra.
  • Skýrari lagaramma skortir um leigumarkaðinn og aukið eftirlit. Koma þarf í veg fyrir óhóflegar hækkanir á leigumarkaði, til dæmis með því að innleiða leigubremsu- eða þak.
  • Halda skal áfram að þróa hlutdeildarlán sem ætluð eru fyrstu kaupendum til að gera fleirum kleift að komast inn á húsnæðismarkaðinn.
  • Standa þarf vörð um Húsnæðissjóð, sem stofnaður var að norrænni fyrirmynd, til að fjármagna húsnæði á samfélagslegum grunni.

Vinnumarkaðsmál

Það er hlutverk stjórnvalda að skapa umhverfi þar sem heilbrigður vinnumarkaður getur þróast. Það er gert með lagaumhverfi sem kemur í veg fyrir mismunun og misnotkun, virku eftirliti og afleiðingum fyrir þau sem brjóta gegn starfsfólki. Vinnumarkaðurinn á að vera sveigjanlegur, opinn og öruggur þar sem fólk með mismikla starfsgetu fær raunveruleg tækifæri til að njóta sín í starfi og frístundum. Verkalýðshreyfingin er sterkasta afl vinnandi fólks til að sækja fram og verja réttindi launafólks og stjórnvöld eiga að vera í virku samtali og samstarfi við verkalýðshreyfinguna um að finna leiðir til að bæta kjör fólks í landinu.

  • Lágmarkslaun eiga að duga til framfærslu.
  • Útrýma á launamun kynjanna með því að endurmeta virði kvennastarfa og brjóta upp hinn kynskipta vinnumarkað.
  • Stytta á vinnuvikuna enn frekar.
  • Launaleynd skal með öllu afnumin.
  • Innleiða á lýðræði á vinnustöðum.
  • Stöðva skal félagsleg undirboð, gerviverktöku, launaþjófnað og mansal. Launaþjófnað verður að gera refsiverðan eins og annan fjárdrátt og þjófnað.
  • Það á að tryggja ábyrgð vinnuveitanda á vinnuaðstöðu launafólks samhliða þróun í átt að aukinni fjarvinnu fólks.
  • Það á að tryggja fullnægjandi upplýsingar um íslenskan vinnumarkað til þeirra sem koma erlendis frá að vinna á Íslandi.
  • Vinnumarkaðurinn á að vera opinn fyrir fjölbreytileika fólks í samfélaginu og bjóða upp á mun fleiri hlutastörf og sveigjanleg störf en nú er. Auka á sérstaklega tækifæri fatlaðs fólks á vinnumarkaði.
  • Eldra fólk á að hafa sveigjanleika við starfslok og það á að gera því kleift að vera virkt á vinnumarkaði.
  • Meta þarf áhrif loftslags- og tæknibreytinga á íslenskan vinnumarkað og setja fram aðgerðir til að mæta þeim, þar sem réttlát umskipti eru lykilatriði. Launafólk á að njóta ávinnings af tæknibreytingum til jafns við atvinnurekendur.
  • Endurmenntun og símenntun á að vera aðgengileg fyrir fólk í öllum störfum. Vinna þarf nýja stefnu og löggjöf um framhaldsfræðslu svo betur megi takast á við samfélagsþróun og breytingar á vinnumarkaði.

Almannatryggingar

Almannatryggingakerfið er ein meginstoð velferðarkerfisins. Umbylta þarf þjónustukerfi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, bæta hag þeirra sem verst standa og auka tækifæri þeirra til atvinnu. Byggja þarf upp kerfi sem tryggir fólki sem missir starfsgetu framfærslu, tækifæri og nægan tíma til að endurheimta getu sína að hluta eða öllu leyti. Kerfið þarf einnig að tryggja að fólk sem hefur litla sem enga starfsgetu geti lifað góðu og innihaldsríku lífi án þess að hafa áhyggjur af framfærslu sinni. Almannatryggingakerfi eldra fólks þarfnast einnig endurbóta og bæta þarf kjör þeirra verst settu innan þess.

  • Grípa þarf snemma inn í þegar fólk tapar starfsgetunni og tryggja í auknum mæli þjónustu og stuðning strax á fyrstu stigum, m.a. með öflugri starfsendurhæfingu, svo auka megi möguleika á endurkomu á vinnumarkað.
  • Með bættri framkvæmd í þjónustu hins opinbera má auka traust fólks til almannatryggingakerfisins. Það þarf að fjölga tækifærum fólks innan þess til aukinnar virkni og einfalda greiðslukerfi almannatrygginga fyrir endurhæfingar- og örorkulífeyrisþega. Með því að draga úr tekjutengingum og gera það gagnsærra, skilvirkara og réttlátara er hægt að auka traust á kerfi sem á að taka utan um fólk sem hallast stendur fæti. Að sama skapi þarf að halda áfram að bæta afkomu eldra fólks og fólks á örorkulífeyri þannig að framfærsla verði aldrei lægri en lágmarkslaun.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search