Search
Close this search box.

Lög hreyfingarinnar

Lög hreyfingarinnar

 

I. Heiti og markmið

1. grein

Vinstrihreyfingin – grænt framboð (Vinstri græn) er stjórnmálahreyfing með heimili og varnarþing í Reykjavík. Aðalstarfsstöð er við Túngötu 14, 101 Reykjavík.

2. grein

Markmið hreyfingarinnar er að berjast fyrir jafnrétti, jöfnuði, réttlæti, kvenfrelsi, umhverfis- og náttúruvernd, lýðræði, sjálfstæði þjóðarinnar og friðsamlegri sambúð þjóða. Í þeim tilgangi býður hreyfingin fram í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna.

3. grein

Við val í trúnaðarstörf innan og á vegum hreyfingarinnar og í starfi hennar í hvívetna skal þess gætt að ekki halli á konur.

II. Aðild að hreyfingunni

4. grein

Félagar í hreyfingunni geta þeir orðið sem styðja markmið hennar og eru ekki í öðrum stjórnmálaflokkum á Íslandi.

5. grein

Inntökubeiðnir í hreyfinguna og úrsagnir úr henni skulu tilkynntar skriflega eða með rafrænum hætti til skrifstofu hreyfingarinnar. Skrifstofan hefur yfirumsjón með félagatali í samræmi við reglur sem stjórn hreyfingarinnar gerir tillögu um og eru staðfestar af flokksráði. Öll notkun og meðferð félagatals og kjörskráa sem á því byggja skal taka mið af almennum ákvæðum laga um persónuvernd.

III. Svæðisfélög og kjördæmisráð

6. grein

Grunneiningar í skipulagi hreyfingarinnar eru svæðisfélög. Þau taka til eins eða fleiri sveitarfélaga eftir ákvörðun félaga Vinstri grænna, en félagssvæðið má þó aldrei vera minna en eitt sveitarfélag. Heimilt er að stofna smærri undirfélög sem miðast við hverfi eða byggðakjarna innan sveitarfélaga. Stjórn svæðisfélagsins fer þá með málefni deildanna. Þar sem svo háttar til að svæðisfélag tekur til fleiri en eins sveitarfélags teljast skráðir félagar innan hvers sveitarfélags vera deild innan félagsins sem fer með staðbundin verkefni, þar með talið framboð til sveitarstjórna.

7. grein

Félagar geta aðeins verið í því svæðisfélagi sem lögheimili þeirra eða dvalarstaður/heimilisfesti segir til um en er heimilt að sækja fundi í hvaða svæðisfélagi sem er og njóta þar málfrelsis og tillöguréttar. Félagar sem hafa annan dvalarstað/heimilisfesti en lögheimili segir til um tilkynni skrifstofu hvoru svæðisfélaginu þeir kjósa að tilheyra. Slíkar tilkynningar um færslu milli félaga taka þó ekki gildi frá og með þeim degi að forval eða uppstilling hefur verið ákveðin í svæðisfélagi eða kjördæmisráði sem í hlut á, og fyrr en að því loknu. Búi félagi þar sem ekki er starfandi svæðisfélag skal hann tilgreina það svæðisfélag sem hann kýs að eiga aðild að til skrifstofu hreyfingarinnar.

8. grein

Svæðisfélög skulu setja sér lög sem eru í samræmi við lög hreyfingarinnar. Þau skulu halda aðalfundi sína árlega og skulu slíkir fundir boðaðir með a.m.k. sjö sólarhringa fyrirvara.

Árlega skulu svæðisfélög senda skrifstofu hreyfingarinnar upplýsingar um stjórn félagsins, um innheimt félagsgjöld, ársreikninga og starfsemina á liðnu ári. Meðferð fjármuna og reikningsskil skulu vera í samræmi við ákvæði landslaga um fjármál stjórnmálaflokka og lög þessi.

Svæðisfélög ráða fjárhag sínum og málefnum sjálf að öðru leyti.

9. grein

Þar sem fleiri en eitt svæðisfélag starfar innan kjördæmis skulu svæðisfélögin mynda með sér kjördæmisráð. Hvert svæðisfélag kýs fulltrúa í kjördæmisráð sem nemur einum fyrir hverja fimm félaga eða brot úr þeirri tölu.

Kjördæmisráð kýs sér stjórn sem skipuð skal a.m.k. þremur mönnum og skal formaður kosinn sérstaklega.

Kjördæmisráð fer með framboð til Alþingis og önnur verkefni á sínu starfssvæði samkvæmt ákvörðun svæðisfélaganna eða stjórnar hreyfingarinnar.

10. grein

Árgjöld skulu innheimt af félögum hreyfingarinnar. Svæðisfélög/kjördæmisráð ákveða upphæð árgjalds. Með framkvæmd innheimtu fer samkvæmt samkomulagi svæðisfélaga, kjördæmisráðs og/eða stjórnar hreyfingarinnar. Stjórninni er heimilt að fela skrifstofu að annast framkvæmdina.

Svæðisfélög og kjördæmisráð það sem þau eiga aðild að samkvæmt 9. grein skipta með sér tekjum af árgjöldum þannig að 20% að lágmarki komi í hlut kjördæmisráðs.

11. grein

Samtök ungs fólks, yngra en 35 árs (Ung vinstri græn) og samtök eldra fólks, eldra en 60 ára (Eldri vinstri græn) eru einingar í hreyfingunni sem þó teljast ekki til grunneininga hreyfingarinnar sbr. 6. gr. Félagar í þeim einingum skulu þó vera félagar í svæðisfélögum með réttindi og skyldur, sbr. 4. gr.

Þessar einingar í hreyfingunni hafa sjálfstæðan fjárhag og skipa málum sínum sjálfar í samræmi við lög hreyfingarinnar og landslög.

IV. Framboð

12. grein

Svæðisfélög eða deildir innan þeirra sbr. 6. gr. skulu sjá um framboð til sveitarstjórna í nafni hreyfingarinnar eða í samstarfi við aðra. Kjördæmisráð eða svæðisfélag, ef starfssvæði þess fellur saman við kjördæmamörk, sér um framboð til Alþingis. Skulu allir skráðir félagar í hreyfingunni sem ná 16 ára aldri á því ári sem framboð er ákveðið njóta í því ferli fullra réttinda eftir því sem við á samkvæmt lögum hreyfingarinnar og reglum um framkvæmd.

13. grein

Við val á frambjóðendum á lista hreyfingarinnar sbr. 12. gr. skal viðhafa uppstillingu eða forval. Forval má fara fram í einni eða tveimur umferðum á kjörfundi, með póstkosningu eða rafrænt. Framboðslisti er ætíð endanlega samþykktur á þar til boðuðum félagsfundi svæðisfélags eða kjördæmisráðsfundi eftir því sem við á.

14. grein

Stjórn hreyfingarinnar gerir tillögu um samræmdar lágmarksreglur sem staðfestar eru af flokksráði um meðferð kjörskrár og um val á frambjóðendum skv. 13. gr. eigi síðar en 6 mánuðum fyrir reglulegar kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna. Reglurnar gildi í öllum kjördæmum og öllum sveitarfélögum.

V. Þingflokkur

15. grein

Þingflokkur Vinstri grænna kýs sér stjórn, skipuleggur störf sín og mótar afstöðu til mála á þingi í samræmi við stefnu hreyfingarinnar og samþykktir landsfunda. Veigamiklar ákvarðanir um samstarf við aðra flokka, ríkisstjórnarþátttöku eða slit á slíku samstarfi tekur þingflokkurinn í samráði við flokksráð.

VI. Sveitastjórnarráð

16. grein

Sveitarstjórnarráð er samstarfsvettvangur kjörinna fulltrúa hreyfingarinnar í sveitarstjórnum og er öðrum stofnunum til ráðuneytis um sveitarstjórnarmál. Sveitarstjórnarráð fjallar um sameiginlega stefnumótun í málefnum sveitarfélaga á grundvelli stefnuyfirlýsingar hreyfingarinnar og landsfundarsamþykkta.

17. grein

Sveitarstjórnarráð er skipað öllum aðal- og varafulltrúum í sveitarstjórnum sem eru félagsbundnir í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, óháð því hvort þeir eru kjörnir af listum hreyfingarinnar, sameiginlegum listum eða óhlutbundinni kosningu. Oddvitar framboðslista hreyfingarinnar sem ekki ná kjöri í sveitarstjórn eiga ennfremur rétt til setu í sveitarstjórnarráði og hið sama á við um ráðna sveitarstjóra sem eru félagar í hreyfingunni. Fulltrúum í flokksráði er heimilt að sitja fundi sveitarstjórnarráðs með málfrelsi og tillögurétt þótt þeir séu ekki fulltrúar í sveitarstjórn.

18. grein

Stjórn hreyfingarinnar boðar til fyrsta fundar sveitarstjórnarráðs að loknum sveitarstjórnarkosningum. Sveitarstjórnarráðið kýs sér stjórn, mótar sér starfsreglur og skipuleggur störf sín. Ráðið skal koma saman að minnsta kosti einu sinni á ári. Stjórnin boðar til funda í sveitarstjórnarráði og skipuleggur starf þess að öðru leyti.

VII. Landsfundur

19. grein

Landsfund skal halda annað hvert ár og ákveður stjórn hreyfingarinnar fundarstað og fundartíma.

20. grein

Landsfundur hefur æðsta vald í öllum málum Vinstri grænna. Hann er lögmætur ef löglega er til hans boðað.

21. grein

Boða skal landsfund með skriflegri tilkynningu til svæðisfélaganna með að minnsta kosti tveggja mánaða fyrirvara

22. grein

Landsfundur staðfestir í upphafi fundar tillögu stjórnar að fundarsköpum og skal fundinum stjórnað samkvæmt þeim.

23. grein

Mál þau og tillögur sem einstakir félagar, félög eða kjördæmisráð óska eftir að tekin verði fyrir á fundinum, skal senda stjórn hreyfingarinnar fjórum vikum fyrir landsfund. Álit og ályktanir er stjórnin hyggst leggja fyrir landsfund, sem og þau mál og tillögur sem borist hafa innan tilskilins tímafrests, skulu liggja frammi á skrifstofu hreyfingarinnar og birt á heimasíðu hans eigi síðar en tíu dögum fyrir landsfund. Sama gildir um tillögu stjórnar að fundarsköpum.

Ekki er hægt að leggja fram tillögu eftir að tímafrestur rennur út nema landsfundur samþykki að taka hana á dagskrá, sbr. þó grein 36 um lagabreytingar.

Stjórn hreyfingarinnar skipar ritstjórn sem starfar á milli landsfunda og setur henni starfsreglur.

24. grein

Í öllum málum ræður einfaldur meirihluti, ef ekki er öðruvísi ákveðið í lögum þessum.

25. grein

Kjörgengi og kosningarétt í starfi hreyfingarinnar hafa allir skráðir félagar, sbr. þó ákvæði 12. gr.

26. grein

Stjórn hreyfingarinnar getur kvatt saman aukalandsfund þegar nauðsyn krefur. Fulltrúar á aukalandsfundi eru þeir sömu og kosnir voru til síðasta reglulegs landsfundar.

27. grein

Svæðisfélögum er skylt að láta fara fram kosningu fulltrúa á landsfund úr hópi félaga sinna. Hvert svæðisfélag á rétt á einum fulltrúa á landsfundi fyrir hverja 5 félaga eða brot af þeirri tölu upp að félagatölunni 30 og einum fulltrúa fyrir hverja 15 félaga eða brot af þeirri tölu yfir félagatölunni 30. Hvert félag má kjósa allt að jafn marga til vara.

28. grein

Kjörbréf fulltrúa á landsfund skulu send skrifstofu hreyfingarinnar í síðasta lagi 14 dögum áður en landsfundur hefst og skal stjórn þá skipa þriggja manna kjörbréfanefnd og setja henni starfsreglur.

VIII. Flokksráð

29. grein

Flokksráð mynda aðalmenn í stjórn, þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar hreyfingarinnar, formenn kjördæmisráða, formenn svæðisfélaga og fulltrúar Ungra vinstri grænna og Eldri vinstri grænna. Í forföllum taka varamenn í viðkomandi trúnaðarstörfum sæti.

Auk þess eru 40 flokksráðsfulltrúar og 10 til vara kjörnir sérstaklega á landsfundi. Varamenn í flokksráði taka sæti í forföllum aðalmanna í þeirri röð sem þeir eru kjörnir. Varaformaður hreyfingarinnar er jafnframt formaður flokksráðs.

Tillögum sem leggja skal fyrir flokksráð skal skila til stjórnar hreyfingarinnar viku fyrir fund, verði því við komið. Fundir flokksráðs skulu vera opnir öllum félögum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Almennir félagar skulu hafa málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt.

30. grein

Flokksráð hefur æðsta vald í öllum málefnum Vinstri grænna á milli landsfunda.

31. grein

Fundir stjórnar hreyfingarinnar og flokksráðs eru lögmætir þegar meirihluti fulltrúa er viðstaddur. Flokksráðsfundi skal halda eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Flokksráð setur sér fundarsköp og skal fundum þess stjórnað samkvæmt þeim.

Óski 25 flokksráðsfulltrúar eftir fundi skal hann boðaður svo fljótt sem verða má og eigi síðar en innan þriggja vikna frá því að skrifleg beiðni þar um er send formanni flokksráðs.

32. grein

Á síðasta fundi flokksráðs fyrir landsfund gerir stjórn hreyfingarinnar grein fyrir afdrifum ályktana síðasta landsfundar.

IX. Stjórn hreyfingarinnar

33. grein

Stjórn hreyfingarinnar skal kosin á landsfundi. Formaður, varaformaður, ritari og gjaldkeri skulu kosnir sérstaklega og að auki skulu kosnir sjö meðstjórnendur. Þessir ellefu mynda stjórn Vinstri grænna. Auk þess skal kjósa fjóra varamenn. Varaformaður er staðgengill formanns. Ritari er staðgengill varaformanns. Fastráðnir starfsmenn hreyfingarinnar eru ekki kjörgengir sem stjórnarmenn.

Einnig skal kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara og er kjörtímabil þeirra fram til næsta landsfundar.

Fulltrúar Eldri vinstri grænna, Ungra vinstri grænna, þingflokks og sveitarstjórnarráðs hafa seturétt, málfrelsi og tillögurétt á fundum stjórnar hreyfingarinnar en eigi atkvæðisrétt, nema þá að viðkomandi sé í stjórninni. Þá getur stjórn ákveðið að hafa fund opinn öllum félagsmönnum hreyfingarinnar og er það þá boðað sérstaklega. Fundargerðir stjórnar skulu öllum aðgengilegar á heimasíðu hreyfingarinnar.

Stjórn hreyfingarinnar er heimilt að ráða framkvæmdastjóra sem annast dagleg samskipti við félaga og almennan rekstur hreyfingarinnar.

Formaður boðar stjórnarfundi. Formaður og framkvæmdastjóri hafa rétt til að skuldbinda hreyfinguna fyrir hönd meirihluta stjórnar.

X. Fagráð VG

34. grein

Stjórn skipar þrjá fulltrúa í fagráð um einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni, ofbeldi og aðra ótilhlýðilega háttsemi til tveggja ára. Stjórnarmenn, kjörnir fulltrúar og starfsfólk VG skulu ekki sitja í fagráði. Fagráðið skal starfa samkvæmt aðgerðaáætlun VG á þessu sviði, sem getur ýmist verið staðfest á landsfundi eða flokksráðsfundi.

XI. Fjárreiður

35. grein

Ár hvert skal gjaldkeri hreyfingarinnar í samráði við formann, varaformann og framkvæmdastjóra/-stýru leggja fram á fundi stjórnar fjárhagsáætlun fyrir komandi almanaksár. Stjórnin skal staðfesta fjárhagsáætlun hreyfingarinnar.

Reikningsár hreyfingarinnar er almanaksárið. Á haustfundi flokksráðs ár hvert skulu stjórn og framkvæmdastjóri/-stýra leggja fram ársreikninga fyrir liðið ár. Þeir skulu jafnframt lagðir fram til kynningar og umræðu á landsfundi.

Framkvæmdastjóri/-stýra hefur yfirumsjón með styrktarmannakerfi sem hreyfingin rekur á landsvísu. Tekjur frá styrktarmönnum skulu renna í sérstakan sjóð til að standa straum af útgjöldum vegna kosninga og til eflingar útgáfustarfsemi. Þá skulu samtök ungs fólks í hreyfingunni, sbr. 11. grein, fá árlegan styrk til starfsemi sinnar sem nemur a.m.k. fjórðungi tekna af styrktarmannakerfinu.

Um meðferð fjármuna og reikningsskil skal að öðru leyti farið í samræmi við landslög.

XII. Lagabreytingar

36. grein

Lögum hreyfingarinnar má aðeins breyta á landsfundi. Skulu jafnan hafðar tvær umræður um lagabreytingar og telst breyting samþykkt ef hún hlýtur 2/3 greiddra atkvæða á landsfundi.

Tillögur til breytinga á lögunum skulu sendar stjórn hreyfingarinnar eigi síðar en 6 vikum fyrir landsfund. Með þær skal farið eftir því sem segir í 23. grein.

XIII. Ýmis ákvæði

37. grein

Ákvörðun um að leggja hreyfinguna niður skal tekin af tveimur landsfundum í röð og samþykkt af 2/3 hluta landsfundarfulltrúa á báðum. Ráðstöfun eigna skal samrýmast markmiðum hreyfingarinnar og ákvarðast á seinni fundi.

38. grein

Ef lög einstakra kjördæmisráða/svæðisfélaga samrýmast ekki lögum hreyfingarinnar ganga þessi lög framar.

Samþykkt á landsfundi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs 19. mars 2023.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search