Landsfundur 2013.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð einsetur sér að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis í samfélaginu og brjóta þannig upp kynjakerfi sem er skaðlegt fyrir stöðu, tækifæri og þátttöku allra. Þannig sköpum við betra samfélag fyrir okkur öll óháð kyni.
Pólitísk stefnumörkun varðar ekki eingöngu stofnanir samfélagsins heldur verður hún að lúta að daglegu lífi, samskiptum og raunverulegu frelsi einstaklingsins.
Kynjakerfið er félagslegt yfirráðakerfi sem þrífst á tvíhyggju og fyrirframgefnum hugmyndum um fólk þar sem konur eru undirskipaðar en karlar yfirskipaðir. Misréttið verður enn meira ef fólk fellur ekki að staðalmyndum kynjakerfisins, fatlaðar konur búa oft við tvöfalda mismunun, fólk sem ekki fellur að hefðbundinni skilgreiningu á karli eða konu mætir misrétti, fólk af erlendum uppruna sömuleiðis og svona mætti lengi telja. Öll stefnan sem og aðgerðir og þjónusta í samræmi við hana eiga að taka mið af mismunandi þörfum og vilja fólks. Forðast verður einsleitni í umræðu og aðgerðum í þessum málaflokki þar sem mikil fjölbreytni og oft flókin félagsleg kerfi eru á ferð.
Fullt jafnrétti krefst þess að ráðist sé bæði að rótum kynjakerfisins og einkennum þess. Breytingar til lengri tíma krefjast umbóta á sviði uppeldis- og menntamála en á sama tíma verður að grípa til beinna og tafarlausra aðgerða.
Öryggi
Kynbundið ofbeldi er alvarlegasta birtingarmynd kynjamisréttis. Það er ekki einstaklingsbundinn vandi heldur samfélagsmein sem þrífst á valdamisræmi og er mesta ógn við líf og heilsu kvenna, jafnt á Íslandi sem annars staðar. Ofbeldi og ógnin um ofbeldi eru hluti af daglegu lífi kvenna og hafa enn meiri áhrif á líf og stöðu kvenna sem tilheyra minnihlutahópum.
Útrýma þarf kynbundnu ofbeldi. Í því skyni þarf að efla forvarnir, fræðslu, skimun, þjónustu og meðferð ofbeldismála á öllum sviðum samfélagsins og tryggja að konur hafi alltaf fullt forræði og frelsi til að taka ákvarðanir um eigin líkama. Uppræta þarf þau viðhorf og kerfi sem leiða af sér kynbundið ofbeldi. Til þess þarf samhent átak stjórnvalda, fræðasamfélagsins, stofnana, grasrótarsamtaka og samfélagsins í heild.
- Gera þarf áætlun í samstarfi ríkis og sveitarfélaga um að útrýma kynbundnu ofbeldi. Þar þarf að ákvarða tímasettar og árangursmælanlegar aðgerðir og fjármagn til verkefnanna. Komið verði á laggirnar ofbeldisvarnarráði þar sem saman komi allir viðbragðs- og fagaðilar í málaflokknum til að fylgja eftir aðgerðaráætluninni, meta virkni úrræða og gildandi laga hverju sinni í takt við þá þróun og tækniframfarir sem eiga sér stað í samfélaginu.
- Við samþykkjum ekki staðgöngumæðrun, hvorki í velgjörðar- né hagnaðarskyni. Það eru ekki réttindi fólks að eignast börn með hvaða ráðum sem er og það á ekki að líta á konur, æxlunarfæri þeirra og líkama sem verkfæri annarra.
- Tryggja þarf fæðandi konum fjölbreytta og góða þjónustu í samræmi við þarfir þeirra og vilja. Þjónustan á alltaf að miða að þörfum og vilja konunnar sjálfrar og hún á að vera öllum aðgengileg óháð búsetu.
- Standa þarf vörð um rétt kvenna til fóstureyðinga.
- Framfylgja þarf þeim ákvæðum íslenskra laga sem banna ofbeldi af öllum toga.
- Klám er og á að vera bannað með lögum. Því þarf að framfylgja betur.
- Líkami manneskju má aldrei vera söluvara. Mikilvægt er að standa með banni við kaupum á vændi og efla bæði viðbrögð og frumkvæði lögreglu og dómstóla við brotum á þeim lögum.
- Styrkja þarf löggjöf og framkvæmd laga þegar kemur að nauðgunarmálum enda tekur réttarkerfið aðeins á litlum hluta þessara alvarlegu glæpa.
- Bæta þarf framkvæmd laga um heimildir lögreglu til að fjarlægja ofbeldismenn af heimilum.
- Styrkja þarf löggjöf gegn stafrænu kynferðisofbeldi (einnig kallað hefndarklám).
- Tryggja þarf góða þjónustu við þolendur í samræmi við þarfir þeirra og vilja innan heilbrigðiskerfis, félagsþjónustu og réttarkerfis. Standa skal myndarlega við bakið á þeim grasrótarsamtökum sem hafa borið hitann og þungann af ráðgjöf og þjónustu við þolendur. Sömuleiðis þarf að tryggja meðferðarúrræði fyrir ofbeldismenn.
- Tryggja þarf að öll börn sem verða fyrir eða vitni að heimilisofbeldi hljóti faglega aðstoð. Fylgja þarf því eftir að við ákvörðun forsjár og umgengni við foreldra fái barnið að njóta vafans ef grunur er uppi um ofbeldi á heimilinu.
- Sérstök aðgerðaráætlun gegn mansali er nauðsynleg og henni þarf að framfylgja með fjármagni og mannafla. Tryggja þarf vernd og þjónustu við einstaklinga sem búa við nauðung, leiðir út úr slíkum aðstæðum og meðferðarúrræði, ráðgjöf og eftirfylgni fyrir þolendur.
- Fræða þarf ungt fólk og samfélagið allt um skaðsemi ofbeldismenningarinnar, um klámvæðingu, muninn á kynlífi og ofbeldi. Efla skal umræðu um kynbundið ofbeldi af öllum toga.
- Ísland á að vera í forystu á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að tryggja konum öryggi um allan heim og miðla reynslu og þekkingu sem hér hefur skapast. Ísland taki virkan þátt í baráttu kvenna hvarvetna fyrir kynfrelsi og yfirráðum yfir eigin líkama.
- Gerum almannarými aðlaðandi og örugg með því að gæta að lýsingu og hönnun í skipulagi og forðast undirgöng og skuggasund í skipulagi.
Þátttaka, völd og áhrif
Ofuráhersla á hið kapítalíska hagkerfi, vaxandi veldi fjármagnsins og frjálshyggja eru ógn við félagslegt réttlæti og jafna stöðu kynjanna í samfélaginu. Raunverulegt jafnrétti krefst róttækra aðgerða á samfélagslegum forsendum.
Kynjað valdakerfi nær til allra sviða samfélagsins svo sem stjórnmála, atvinnulífs, fjölmiðla, velferðar og menningar. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða á öllum sviðum, tryggja að fjölbreyttar raddir heyrist og að á þær sé hlustað.
Kynskiptur vinnumarkaður er slæmur fyrir samfélagið allt: fyrir vinnustaðamenningu, nýsköpun og starfsþróun. Hann á sinn þátt í að viðhalda stöðluðum hugmyndum um hlutverk kynjanna. Brýnt er að brjóta upp staðalmyndir, stuðla að fjölbreyttari fyrirmyndum, meta fólk að verðleikum og útrýma kynbundnum launamun.
Í lýðræðissamfélagi þurfa ákvarðanir að vera teknar af breiðum hópi fólks. Uppbygging vinnumarkaðar og valdastofnana er karllæg sem gerir það að verkum að lítill og einsleitur hópur hefur of mikil völd.
- Halda þarf áfram að innleiða kynjaða hagstjórn og fjárhagsáætlunargerð enda skilar sú aðferðafræði sanngjarnari og betri nýtingu opinbers fjár.
- Öflugt velferðarkerfi gegnir ekki aðeins mikilvægu hlutverki gagnvart þeim sem á þurfa að halda heldur veitir það fólki svigrúm til að stunda atvinnu, meðal annars við uppeldi, umönnun, menntun og hjúkrun. Þannig er sterkt velferðarkerfi forsenda öflugs atvinnulífs og virkrar þátttöku kynjanna.
- Tryggja þarf að starfsfólk ríkis og sveitarfélaga fái viðunandi fræðslu um jafnréttismál og þær lagalegu skyldur sem þeim ber að uppfylla í störfum sínum.
- Fjölmiðlar eiga að draga upp raunsanna mynd af fjölbreytileika samfélagsins. Fylgja þarf eftir framkvæmd laga um jafnrétti og fjölmiðla með öllum tiltækum ráðum.
- Eðlilegt er að íhuga kynjakvóta sem leið til að stuðla að jafnrétti í fjölmiðlum, í stjórnunarstöðum, í stjórnmálum, við úthlutun styrkja eða á öðrum þeim sviðum þar sem kynjahalli er mikill.
- Mikilvægt er að tryggja að tekið sé mið af rannsóknum, reynslu og þekkingu á sviði kvennaheilsu í allri heilbrigðisþjónustu.
- Hjá grasrótar- og hagsmunasamtökum á sviði jafnréttismála liggur dýrmæt reynsla og þekking sem taka þarf mið af í allri opinberri stefnumörkun, mótun þjónustu og rekstri hins opinbera.
- Brýnt er að fram fari jafnréttismat á öllum nýjum verkefnum, breytingum á verkefnum, eða niðurskurði á vettvangi hins opinbera. Ennfremur er brýnt að gerðar verði jafnréttisúttektir með reglulegu millibili eftir því sem tilefni gefst til.
- Stjórnvaldsstofnanir sem hafa jafnréttismál með höndum hafi nauðsynlegar valdheimildir, mannafla og fjármagn til að sinna hlutverki sínu.
- Á sviði íþrótta og menningar er brýnt að tryggja jöfn tækifæri til afreka, þátttöku og áhrifa, að fjölbreytileiki samfélagsins sé sýnilegur og að fjármagni í málaflokkunum sé úthlutað með sanngjörnum hætti.
- Aðkeypt aðstoð við heimilisstörf er í of miklum mæli utan hins hefðbundna vinnumarkaðar. Starfsfólk er ótryggt, safnar ekki lífeyrisréttindum, hefur ekki aðgang að stéttarfélögum og er berskjaldað fyrir hvers kyns misnotkun. Viðurkenna þarf þessi störf til jafns við önnur störf og tryggja réttindi starfsfólks sem er að stærstum hluta konur.
- Til að útrýma kynbundnum launamun þarf að afnema launaleynd að fullu og tryggja gagnsæja og hlutlæga ákvarðanatöku í launamálum. Brot á lögum um launajafnrétti verði gerð refsiverð.
- Brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Lengjum fæðingarorlofið, tryggjum að það skiptist með sanngjörnum hætti milli foreldra og bjóðum öllum börnum upp á leikskólapláss þegar fæðingarorlofi lýkur.
- Eldri konur sem búa við takmörkuð lífeyrisréttindi eiga að njóta fullnægjandi kjara á vegum opinbera tryggingakerfisins.
- Styttum vinnuvikuna án skerðingar launa. Aukum þannig lífsgæði og vægi annarra þátta en launavinnu í lífi fólks. Ennfremur stuðlum við þannig að jafnari ábyrgð á heimilisstörfum sem aftur leiðir til jafnari tækifæra til þátttöku í samfélaginu, í atvinnulífi og stjórnmálum.
- Stjórnmálahreyfingum ber að leggja sitt af mörkum til að tryggja fjölbreytt sjónarmið í flokksstarfi og þar sem ráðum er ráðið – að tryggja hlut kvenna á framboðslistum og í áhrifastöðum og að brjóta upp hefðbundin kynhlutverk innan stjórnmálanna.
Menntun og uppeldi
Jafnrétti til náms er forsenda félagslegs réttlætis í samfélaginu. Góð almenn menntun jafnar tækifæri fólks til þátttöku en skólakerfið er jafnframt ein mikilvægasta eining samfélagins til að brjóta upp kynjakerfið og breyta hugarfari.
Staðlaðar hugmyndir um stelpur og stráka sem börn kynnast allt frá fæðingu í gegnum menningu og hefðir, listir, fjölmiðla, vini og fjölskyldu viðhalda kynjakerfinu og tvíhyggjunni. Börn fá þannig skilaboð um að tileinka sér eiginleika sem falla að fyrirframgefnum og einsleitum hugmyndum og hlutverkum sem og að þessir eiginleikar séu mismikils virði. Kvenlægir eiginleikar eru þannig taldir minna virði en þeir karllægu. Á því byggir svo yfir- og undirskipan kerfisins.
Aukin áhersla á femíníska greiningu og gagnrýna hugsun í skólakerfinu getur rofið vítahring staðalmynda og styrkt börn til að rækta með sér hæfileika og áhugamál óháð úreltum hugmyndum um hlutverk þeirra.
- Kynjafræði á að vera sjálfstæð skyldugrein á öllum skólastigum og nauðsynlegur hluti af námi í kennslu- og uppeldisfræðum.
- Samþætta verður kynjasjónarmið inn í allar greinar svo staða kynjanna, birtingarmyndir og áhrif kynjakerfisins séu greind í þeim viðfangsefnum sem tekin eru fyrir.
- Öll menntun á að efla gagnrýna hugsun gagnvart staðalmyndum kynjanna, greina bein og óbein skilaboð kynjakerfisins og sporna gegn áhrifum þeirra.
- Sérstök ofbeldisvarnarfræðsla er nauðsynleg í grunnskólum. Taka verður á áhrifum klámvæðingarinnar og fjalla um tilfinningar, nánd og mörk, um samþykki og nærgætni í kynferðislegum samskiptum.
- Mat á framkvæmd jafnréttisfræðslu í samræmi við Aðalnámskrá verði hluti af innra og ytri mati á skólastarfi.