EN
PO
Search
Close this search box.

Atvinnumál

Landsfundur 2017.

Mikilvægt er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf geti þrifist um allt land í sátt við náttúruna og umhverfið. Vinstri græn leggja áherslu á að öllum séu tryggð tækifæri til atvinnu við hæfi á mannsæmandi kjörum og að til staðar séu forsendur sem tryggi öllum jöfn tækifæri atvinnusköpunar.

Atvinnustefna Vinstri grænna byggist á sanngjörnum kjörum, réttlátu skattkerfi, öflugri menntun, samvinnu, sjálfbærni, jöfnuði og félagslegu réttlæti. Hún skapar tækifæri til uppbyggingar um allt land.

Réttindi launafólks

Vinstri græn standa með launafólki og stéttarfélögum þeirra í baráttunni fyrir réttindum og bættum kjörum.
Laun þurfa að lágmarki að duga fyrir grunnframfærslu, vinnuvikan á að styttast án kjaraskerðingar og upphæðir almannatrygginga að fylgja launaþróun. Tryggja þarf þeim sem hafa fallið út af vinnumarkaði starfsendurhæfingu við hæfi í samstarfi við sveitarfélög. Launamuni kynjanna þarf að útrýma nú þegar og jafna kjör á milli stétta, sér í lagi þar sem eitt kyn er í miklum meirihluta.

Fjölga þarf möguleikum á menntun og þróun í starfi til þess að launafólk hafi aukin tækifæri og betri kjör. Tryggja þarf að komandi breytingar í atvinnuháttum vegna tækniþróunar verði til hagsbóta fyrir almenning og verði ekki til þess að skerða kjör launafólks.

Þeim sem ekki eru launafólk þarf að tryggja framfærslu án skilyrða. Brýnt er að tryggja réttindi ungs fólks sem er að fóta sig á vinnumarkaði og huga þarf sérstaklega að þeim sístækkandi hópi sem þiggur óregluleg laun fyrir vinnu sína. Einnig er mikilvægt að eldri borgurum sé gert kleift að stunda atvinnu svo lengi sem þeir hafa vilja og starfsgetu til þess.

Koma þarf í veg fyrir mansal, misnotkun á vinnuafli og félagslegt undirboð með samstarfi við verkalýðshreyfinguna, öflugra eftirliti með vinnumarkaðnum og ríkulegum framlögum til mansalsáætlunar stjórnvalda. Innleiða þarf keðjuábyrgð í lög þannig að ekki sé hægt að vísa allri ábyrgð á undirverktaka.

Skattkerfið ber að nýta til kjarajöfnunar. Tryggja þarf fjölþrepa skattkerfi sem færir skattbyrðina af lægri launum yfir á hærri laun, óháð því hvort um er að ræða launatekjur eða fjármagnstekjur. Berjast þarf gegn hvers kyns skattsvikum og svartri atvinnustarfsemi enda sviptir hún launafólk því öryggi og þeim réttindum sem stéttarfélögin veita.

Atvinnuþróun og innviðir

Til að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land er mikilvægt að tryggja að til staðar séu forsendur fyrir atvinnusköpun. Þar skipta bæði innviðir og stuðningskerfi, sem miðar að uppbyggingu sjálfbærrar atvinnustarfsemi, lykilmáli.
Framtíðin þarf að byggjast á jöfnum tækifærum öllum til handa, virðingu fyrir náttúrunni og gróskunni sem þrífst í fjölbreytninni en ekki stórum heildarlausnum. Þörf er á nýrri nálgun sem gengur út frá sjálfbærni, samvinnu, jöfnuði og félagslegu réttlæti.

Tryggja þarf jöfn tækifæri til atvinnusköpunar um allt land með markvissri uppbyggingu samgangna, fjarskipta, háhraðanettenginga, menntunartækifæra, heilbrigðisþjónustu og annarrar grunnþjónustu. Einnig er mikilvægt að jafna búsetukostnað um allt land og tryggja samfélagsleg úrræði á húsnæðismarkaði. Gera þarf fólki af öllum kynjum kleift að sinna störfum sínum í ríkari mæli óháð staðsetningu, meðal annars með aukinni nýtingu tölvutækni, og auðvelda stofnun og umsýslu lítilla fyrirtækja.

Stefna um búsetumynstur til framtíðar á að byggjast á skilgreindum vaxtarsvæðum og miða að markvissri uppbyggingu landsbyggðarinnar á þeim. Um leið skal unnið áfram á grundvelli sértækra aðgerða með íbúum þeirra svæða sem brothættust eru í byggðalegu tilliti, t.d. þar sem konum fækkar mest.
Mikilvægt er að styrkja og auka fjölbreytni opinberra sjóða sem styðja við og fjárfesta í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Áhersla skal lögð á græna hvata og sterkari tengingu háskólastigsins við nýsköpunar- og sprotastarfsemi. Það skapar forsendur fyrir þekkingariðnað sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun. Þannig er einstaklingsframtakið virkjað best, möguleikum fyrir félagslegan rekstur fjölgar og rekstrarforsendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem og sprotafyrirtækja styrkjast.

Skapa þarf svigrúm fyrir fyrirtæki sem rekin eru af starfsfólki og fjármálastofnanir í eigu almennings. Bæta þarf lagaumhverfi til að efla atvinnulýðræði og aðkomu starfsmanna að ákvörðunum og stefnumörkun í stofnunum og fyrirtækjum. Rétt er að búa einnig í haginn fyrir stofnun lýðræðislegra fyrirtækja og fjármálastofnana sem eru í eigu og undir stjórn starfsmannanna sem þar vinna og veita þeim beina hlutdeild í arðinum af eigin vinnu.

Stuðningskerfi atvinnulífsins þarf að stuðla að og endurspegla fjölbreytt atvinnulíf. Koma þarf á lýðræðislegu samráði og samtali sem víðast í samfélaginu um íslenskt atvinnulíf með aðkomu almennings, grasrótarsamtaka, sveitarfélaga, fræða og fyrirtækja. Meginmarkmiðið með slíkri vinnu yrði að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í sátt við samfélag og auðlindir.
Standa þarf vörð um auðlindir landsins og tryggja að núverandi kynslóðir skili þeim í betra ástandi til komandi kynslóða.

Auðlindanýting, hvort sem er innan sjávarútvegs, landbúnaðar, orkugeirans eða annars, skal byggjast á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og ávallt grundvallast á því að auðlindirnar séu þjóðareign og arðurinn eigi að nýtast fólkinu í landinu. Þeim sem hafa tekjur af nýtingu auðlinda, þar á meðal orkuauðlinda og sjávarauðlindarinnar, ber að greiða fyrir það sanngjarnt gjald til þjóðarinnar, eiganda auðlindanna.

Ljóst er að atvinnuhættir iðnríkja eru óðum að breytast með aukinni sjálfvirkni og vaxandi vægi upplýsingatækni. Ísland er þar engin undantekning. Á næstu árum og áratugum mun ráðast hvort Ísland skipar sér í flokk þjóða sem nýta framfarir í tölvu-, upplýsinga- og tæknigeiranum til að hefja uppbyggingu á nýjum grunni kvenfrelsis, jafnaðar, sjálfbærni, breytts gildismats og frjálsrar búsetu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search