Samfélag fyrir okkur öll
Landsfundur 2021.
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að fjölbreytileiki sé styrkur hvers samfélags og því á íslenskt samfélag að taka þeim fagnandi sem hingað koma, óháð uppruna þeirra eða þeim forsendum sem dvölin byggir á. Fólk sem sest að á Íslandi á að hafa sömu tækifæri og aðrir íbúar svo sem til atvinnuöryggis, húsnæðisöryggis og tryggrar heilbrigðisþjónustu. Réttlátt og öflugt samfélag nýtur hæfileika og þekkingar allra óháð uppruna. Þá væri mikill fengur af aukinni þátttöku innflytjenda í stjórnmálum. Fordómar sem byggja á uppruna og trúarbrögðum verða ekki liðnir á Íslandi, né heldur orðræða og framkoma sem felur í sér hatur og tortryggni gagnvart innflytjendum.
Opinber þjónusta og upplýsingagjöf
Opinberum aðilum ber að veita öllum borgurum sömu góðu þjónustuna. Einstaklingar skulu ekki líða fyrir tungumálakunnáttu sína og uppruna í samskiptum við stjórnvöld og stofnanir.
- Öflug upplýsingagjöf um íslenskt samfélag, réttindi, skyldur, félags- og heilbrigðisþjónustu, menntun og menningu, atvinnu og húsnæði eflir fólk til virkrar samfélagsþátttöku, veitir því öryggi, bætir réttindi þess og stöðu í samfélaginu og vinnur gegn einangrun og jaðarsetningu. Stjórnvöld skulu hafa frumkvæði að því að veita innflytjendum nauðsynlegar upplýsingar og tryggja starfsfólki fræðslu svo það geti sinnt hlutverki sínu við að miðla þeim. Þeim sem ekki skilja íslensku skal standa til boða túlkun svo tryggja megi að þau fái fullnægjandi aðstoð og þjónustu. Nauðsynlegt er að bjóða upp á og efla þjónustu á borð við Ráðgjafarstofu innflytjenda og Fjölmenningarsetur.
- Efla þarf samstarf ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við innflytjendur og fólk á flótta.
- Stokka þarf upp í opinberri þjónustu við innflytjendur og fólk á flótta, færa stóran hluta hans frá dómsmálaráðuneyti yfir í félagsmálaráðuneyti og hugsa heildstætt út frá þjónustu og mannúð. Huga þarf sérstaklega að stöðu kvenna af erlendum uppruna. #Metoo-sögur kvenna af erlendum uppruna sviptu hulunni af því að þær eru útsettar fyrir kerfisbundinni mismunun og ofbeldi. Vegna þessa skal sérstaklega gætt að réttindum þeirra í allri upplýsingagjöf, stefnumótun og aðgerðum.
Menntun og atvinna
- Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að öllum innflytjendum sé tryggð íslenskukennsla þeim að kostnaðarlausu. Efla þarf gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur, auka fjölbreytni, aðgengi og styðja vinnustaði til þess að bjóða upp á íslenskukennslu á vinnutíma.
- Vinnumarkaðurinn þarf að meta að verðleikum þá menntun og reynslu sem fólk kemur með hingað svo flest geti starfað við sitt fag, sjálfu sér og samfélaginu öllu til góða. Jafnframt er mikilvægt að tryggja að innflytjendur hafi sömu tækifæri til að bæta við sig menntun og aðrir.
- Börn og ungmenni sem ekki eiga íslensku að móðurmáli eiga að geta staðið jafnfætis jafnöldrum sínum í námi og þarf ráðuneyti menntamála í samvinnu við sveitarfélögin að stórauka þjónustu, stuðning og námsframboð fyrir þennan hóp og fjölskyldur þeirra. Börn með íslensku sem annað tungumál eiga að hafa aðgang að móðurmálskennslu sem og íslenskukennslu. Efla þarf ráðgjöf til kennara og fagfólks vegna slíkrar kennslu sem og kennaramenntun á sviði fjöltyngi og fjölmenningarlegra kennsluhátta. Mikilvægt er að bjóða upp á stuðning við nám og efla til muna samskipti skóla og foreldra.
- Berjast þarf gegn mismunun og misnotkun á vinnumarkaði af fullri hörku. Allt fólk sem starfar á Íslandi á að njóta fullra réttinda á vinnumarkaði. Mansal, launaþjófnaður, félagsleg undirboð og önnur misnotkun á vinnuafli skal aldrei líðast. Styrkja þarf lagaumhverfi og opinbert eftirlit.
- Upplýsingar um stöðu á vinnumarkaði, réttindi og skyldur þurfa að vera aðgengilegar. Auðvelda þarf ríkisborgurum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að fá atvinnuréttindi. Nauðsynlegt er að opnar séu ólíkar leiðir fyrir fólk í ólíkum aðstæðum til að setjast að hér á landi.
Fólk á flótta
Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að málefni fólks á flótta hafi til þessa verið of lituð af því að vera stjórnsýsluverkefni frekar en þjónusta við fólk með mannúð og virðingu að leiðarljósi. Þessu vill Vinstrihreyfingin – grænt framboð breyta.
- Aldrei hafa fleiri þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka, ofsókna, loftslagsbreytinga og fátæktar. Ísland á að taka vel á móti fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Veita skal öllu fólki á flótta sambærilega þjónustu óháð því hvort um sé að ræða kvótaflóttafólk eða fólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd. Mikilvægt er að fólk sem hingað leitar í skjól fái skjóta, góða og sanngjarna málsmeðferð. Skilvirkni kerfisins á aldrei að vera á kostnað mannúðar- og réttlætissjónarmiða. Fólk sem hingað leitar hefur sama rétt til mannlegrar reisnar og sömu mannréttindi og aðrir í okkar samfélagi. Þá skal tryggja hinsegin fólki á flótta sérstaka vernd í lögum um útlendinga.
- Tryggja skal fólki sem hingað kemur nauðsynlega heilbrigðis- og tannlæknaþjónustu.
- Skipta þarf Útlendingastofnun upp og skilja á milli þjónustu við fólk á flótta annars vegar og stjórnsýslu umsókna hins vegar. Ekki er heppilegt að sama stofnunin sjái um þessa tvo þætti. Efla þarf samvinnu á milli ráðuneyta; þjónusta við fólk á að vera á forræði félagsmálaráðuneytis en sá hluti sem snýr að umsóknum um landvistarleyfi á forræði dómsmálaráðuneytis.
- Mikilvægt er að taka undir ítrekaðar ábendingar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um heimild ríkja til að taka umsóknir til efnismeðferðar þó svo að þau beri ekki ábyrgð á henni samkvæmt öðrum ákvæðum. Standa ber vörð um upphaflegan tilgang Dyflinnarsamstarfsins, að aðildarríki deili ábyrgð vegna komu fólks á flótta til Evrópu en varpi henni ekki yfir á önnur ríki.
- Börn á flótta, bæði þau sem eru fylgdarlaus og þau sem eru í fylgd foreldra / forsjáraðila, eru fyrst og síðast börn og meta skal aðstæður þeirra með sjálfstæðum hætti. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmáli Evrópu, og aðrir alþjóðasamningar er varða réttindi barna og Ísland er aðili að, skulu alltaf hafðir að leiðarljósi þegar fjallað er um mál barna á flótta. Fylgdarlaust barn á flótta er í viðkvæmri stöðu og á að fá þjónustu í samræmi við hana. Tryggja þarf að húsnæði sem fylgdarlausum börnum býðst við komuna til landsins sé öruggt og barnvænt. Ef aldur barns er á reiki skal barnið ætíð njóta vafans. Sé nauðsynlegt að leggja mat á aldur barns skal gera það með heildstæðu mati og aldrei skal notast við aldursgreiningar á tönnum.
Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur áherslu á að:
- Stjórnvöld hafi frumkvæði að því að veita innflytjendum nauðsynlegar upplýsingar og tryggja starfsfólki fræðslu svo það geti sinnt hlutverki sínu við að miðla upplýsingum um íslenskt samfélag
- Íslenskukennsla fyrir innflytjendur verði efld og gæði og fjölbreytni hennar aukin
- Tryggt sé að börn og ungmenni sem ekki eiga íslensku að móðurmáli geti staðið jafnöldrum sínum jafnfætis í námi
- Mismunun og misnotkun á vinnumarkaði sé mætt af fullri hörku. Allt fólk sem starfar á Íslandi á að njóta fullra réttinda á vinnumarkaði
- Ísland taki vel á móti fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd
- Veita öllu fólki á flótta sambærilega þjónustu óháð því hvort um sé að ræða kvótaflóttafólk eða fólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd
- Hinsegin fólki á flótta sé tryggð sérstök vernd í lögum um útlendinga
- Útlendingastofnun verði skipt upp og skilið á milli þjónustu við fólk á flótta annars vegar og stjórnsýslu umsókna hins vegar
- Ef nauðsynlegt er að leggja mat á aldur barns skal það gert með heildstæðu mati og aldrei skal notast við aldursgreiningar á tönnum