Lýðræðismál

Valdið til fólksins

Landsfundur 2015.

Lýðræðis- og mannréttindastefna Vinstri grænna byggist á þeirri hugmyndafræði að hver einstaklingur hafi sjálfsákvörðunarrétt, athafnafrelsi, geti tjáð skoðanir sínar án þess að ganga á rétt annarra og að öllum séu tryggð jöfn tækifæri til að móta bæði samfélagið og eigið líf.

Virkt lýðræði með jafnri aðkomu allra krefst þess að allir geti tekið þátt óháð fjárráðum, heilsu og menntun. Sérstaklega þarf að huga að valdeflingu minnihlutahópa og þeirra sem hafa veika stöðu í samfélaginu og tryggja þeim viðeigandi aðstoð. Tryggja þarf fólki tíma til þátttöku og virða mannréttindi þess. Valdafyrirkomulag án aðkomu almennings hefur fest sig í sessi í nafni lýðræðis. Við því þarf að bregðast með lýðræðiskerfi sem kemur í veg fyrir valdamisræmi og færir okkur í átt að jöfnuði og sjálfbærni. Þannig samtvinnast velferð, mannréttindi og lýðræði.

Verkefni okkar er að gera róttækar lýðræðisumbætur og auka bæði vald almennings og áhrif hans á ákvarðanir stjórnvalda. Við ætlum að tryggja aðgengi almennings að upplýsingum og að málskotsréttur sé milliliðalaust í höndum kjósenda. Markmið hreyfingarinnar er að stuðla að valddreifingu, jöfnuði og sjálfbærni bæði í nærsamfélaginu og á heimsvísu.

Lýðræðisleg hreyfing

Kjölfesta Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er þátttaka almennra félagar hennar um land allt, í starfi, stefnumótun og ákvörðunum hreyfingarinnar. Starf hennar á að einkennast af opnum samræðum í raunheimum og netheimum. Vinstri græn koma saman, móta hugmyndir, leysa úr álitamálum og koma stefnu hreyfingarinnar á framfæri og í framkvæmd. Ávallt skal leitast við að ná samhljóða niðurstöðu í ákvarðanatöku. Kosningar þar sem einfaldur meirihluti ræður skulu vera þrautaúrræði. Í allri umræðu og ákvarðanatöku skal taka sérstakt mið af hagsmunum jaðar- og minnihlutahópa og valdeflingu þeirra. Fulltrúar hreyfingarinnar framfylgja stefnu hennar og ákvörðunum haga störfum sínum í samræmi við þær.

Lýðræðislegt samfélag

a) Lýðræðisleg stjórnskipan
Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill færa valdið til almennings. Lokið verði við heildarendurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands til að þjóðin eignist framsækna stjórnarskrá. Mikilvægt er að stjórnskipan landsins miði að því að dreifa valdi og auka jöfnuð. Við viljum opnari stjórnsýslu og faglegar ráðningar. Stjórnmálamenn og -flokkar skulu vera óháð fjárframlögum frá lögaðilum enda er.grundvallarregla lýðræðisins sú að hver einstaklingur sé jafn öðrum óháð fjárhag.

Skilja þarf betur á milli löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds og auka til muna aðkomu almennings að mikilvægum málum, t.d. með slembivali. Skapa þarf vettvang fyrir rökræður, samráð og sameiginlega ákvarðanatöku. Einnig þarf að efla lögbundin réttindi almennings til að færa ákvarðanir í lýðræðislegt ferli. Almenningur þarf að geta átt frumkvæði að málum, t.d. með því að leggja fram formlegar tillögur á Alþingi, í sveitarstjórn eða til ráðuneytis.

Framfylgja þarf betur ákvæðum upplýsingalaga þannig að almenningur hafi raunverulegan aðgang að upplýsingum um ákvarðanir sem varða almannahagsmuni. Skylda stjórnvalda á að vera að miðla upplýsingum með aðgengilegum hætti.

Raddir barna og ungmenna eiga að heyrast í samfélaginu. Það er mikilvægt að þau fái tækifæri til að taka þátt í lýðræðislegu samráði og kynnist leiðum til að sætta sjónarmið með samræðu og sameiginlegri niðurstöðu.

Mikilvægt er að gæta að aðkomu og þátttöku fólks við ákvarðanir sem það varðar. Sérstaklega er brýnt að stjórnvöld líti þar til minnihlutahópa og þeirra hópa sem minni aðgang hafa að ákvörðunum og völdum.

b) Lýðræðislegt hagkerfi
Sjálfbært, lýðræðislegt hagkerfi er líklegra til að standa af sér kreppur og veita samfélaginu efnahagslegan stöðugleika og velsæld. Nú lýtur stærsti hluti efnahagslífsins ekki leikreglum lýðræðisins og úr því þarf að bæta. Því þarf m.a. að styðja framgang lýðræðislegra fyrirtækja með lagasetningu og styrkja atvinnulýðræði í löggjöf. Lýðræðislegur rekstur fyrirtækja eykur atvinnuöryggi, bætir vinnuumhverfi, stuðlar að launajöfnuði og góðum félagslegum aðbúnaði starfsmanna. Sömuleiðis þarf að styðja betur við fyrirtæki sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni til dæmis með því að greiða leið samfélagsmiðaðrar banka- og tryggingastarfsemi. Tryggja þarf að hið opinbera geti rekið stofnanir og félög á samfélagslegum forsendum.

Almenningur skal eiga aðkomu að ráðstöfun opinberra fjármuna með þátttöku-fjárhagsáætlunargerð

c) Lýðræðislegir fjölmiðlar
Frjálsir fjölmiðlar eru lýðræðinu nauðsynlegir. Þeir veita aðhald með faglegri og upplýsandi umfjöllun og fréttaflutningi. Því ber stjórnvöldum að verja sjálfstæði þeirra og ritstjórnarlegt frelsi. Fjölmiðlar verða að hafa fjárhagslega burði til að sinna lýðræðishlutverki sínu. Æskilegt er að hið opinbera styðji við starfsemi þeirra án þess að vega að sjálfstæði þeirra með takmörkunum á fjárveitingum, hótunum eða annarri valdbeitingu.

Ríkisútvarpið skal áfram vera öflugur fjölmiðill í almannaþágu sem er rekinn fyrir almannafé. Stjórn skal skipa með faglegum hætti og breiðri aðkomu ólíkra aðila. Tryggja þarf þátttöku almennings og starfsmanna í stórum ákvörðunum og stefnumótun Ríkisútvarpsins t.d. með slembivali. Tryggja þarf aðgengi að upplýsingum um stjórnun, stefnumótun og daglega starfsemi fjölmiðilsins.

Lýðræðisþátttaka ungs fólks

Lýðræðisleg þátttaka nemenda í skólastarfi skal vera tryggð, þeir aldir upp í lýðræðislegum vinnubrögðum og upplýstir um réttindi sín og skyldur. 

Vinstri græn telja mikilvægt að hvetja ungt fólk til stjórnmálaþátttöku svo ákvarðanir um samfélagið séu teknar af sem breiðustum hópi. Ein leið til þess er lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár. Dræm og dvínandi þátttaka ungs fólks í kosningum til þings og sveitarstjórna er staðreynd og veldur áhyggjum. Hætt er við er að fólk geti orðið afhuga stjórnmálaþátttöku og nýti síður atkvæðisrétt sinn í kosningum ef það fær ekki tækifæri til þess að hafa áhrif á samfélagið sem það býr í.

Vinstri græn vilja að ungt fólk fái að hafa áhrif á stefnumótun samfélagsins. Ungt fólk til áhrifa!

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.