Efnahagsmál

  • Skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði
  • Sjálfbær vöxtur
  • Heilbrigt fjármálakerfi
  • Eðlileg hagstjórnartæki til að efla velferðarsamfélagið
  • Peningastefna sem fer saman við ríkisfjármálastefnu
  • Sátt á vinnumarkaði byggist á sátt um velferðarkerfið

Inngangur
Öflugt efnahagslíf er samtvinnað öflugu velferðarkerfi og skýrri sýn í umhverfismálum þar sem auðlindir eru nýttar með sjálfbærum hætti. Undirstaða öflugs efnahagslífs er blandað hagkerfi þar sem hinir efnamestu eru skattlagðir umfram hina tekjulægri en sú stefna hefur skilað mestri hagsæld og mestum jöfnuði. Áherslur Vinstri grænna í ríkisfjármálum taka mið af grunnstefnu hreyfingarinnar um öflugt velferðarkerfi á Íslandi og að vöxtur sé sjálfbær og gangi ekki á auðlindir. Mikilvægur grunnur að því er að skattkerfið sé skilvirkt, réttlátt, grænt, jafni tekjur og eyði aðstöðumun.
Ríkjandi hugmyndafræði undanfarinna áratuga um óheftan markað, umfangsminna hlutverk ríkisins og lága skatta á hæstu tekjur hefur skilað sér annars vegar í minnkandi hagsæld og í þeirri staðreynd að hagsældin skilar sér misjafnlega til almennings þannig að ójöfnuður eykst. Ójöfnuðurinn hefur ekki aðeins í för með sér minnkandi hagsæld heldur einnig vaxandi kynþáttahyggju og jaðarsetningu minnihlutahópa. Skattaskjól og aflandsfélög hafa síðan verið sérstakur vandi fyrir hagsæld sem og alþjóðleg skattasamkeppni sem gerir atvinnurekendum kleift að flytja fyrirtæki sín milli landa.

Þó að tekjujöfnuður sé meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar er eignastaðan mjög ójöfn. Ríkustu tíu prósentin eiga um þrjá fjórðu allra eigna en eignaminnstu 30 prósentin eiga nánast ekkert eða minna en ekkert. Aukin einkavæðing hefur svo aukið þessa misskiptingu eigna þar sem eignir hverfa úr almannaeign og verða eignamestu aðilunum að féþúfu. Til að sporna gegn þessari misskiptingu ber að nýta skattkerfið til að jafna eignastöðu. Þá sýna rannsóknir líka að flutningur fjármagns með því að draga úr tekjumun og styrkja stöðu hinna tekjulægstu skilar sér hratt og örugglega út í samfélagið og eykur hagsæld.

Mikilvægt er að á næstu misserum verði ráðist í endurskoðun á skattkerfinu í samráði við aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar, og fulltrúa aldraðra, öryrkja og námsmanna með framtíðarsýn í huga. Skoða þarf líka breytingar vegna aukinnar sjálfvirkni og tæknivæðingar sem á eftir að hafa róttæk áhrif á íslenskan vinnumarkað og greina til hvaða aðgerða þarf að grípa til að tryggja mannsæmandi kjör launafólks. Um leið þurfa stjórnvöld að stuðla að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu og nýsköpun á öllum sviðum til að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf og tryggja að íslenskt samfélag og atvinnulíf sé sem best í stakk búið til að takast á við áskoranir tæknivæðingar, loftslagsbreytinga og annarra fyrirsjáanlegra samfélagsbreytinga. Liður í því er að ná sátt um nýja mælikvarða sem meta hagsæld, félagslegan auð, kynjasjónarmið og loftslagsmarkmið en ekki eingöngu hagvöxt, sem er takmarkaður mælikvarði til þess, og byggja þannig efnahagsstjórn á fjölbreyttari sjónarmiðum en nú er gert.

Ríkisfjármál og skattar
Ríkisfjármál eru í raun reikningshald samneyslu og samhjálpar. Þau verða að samræmast markmiðum samfélagsins og því er það pólitísk ákvörðun hver útgjöldin eiga að vera og hverjar tekjurnar. Skattkerfið byggist því á félagslegum og efnahagslegum markmiðum. Að mati sífellt fleiri fræðimanna er skattkerfið langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð í samfélaginu. Jöfnuður er í sjálfu sér ekki aðeins réttlætismál heldur líka mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Um það vitnar fjöldi alþjóðlegra rannsókna og skýrslna sem allar sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti .

Efnahagsstefna sem dregur úr ójöfnuði leiðir því ekki einungis til réttlátara þjóðfélags heldur verða þjóðfélögin einnig auðugri. Öflugt tæki í þeirri vinnu er að styrkja enn betur kynjaða hagstjórn og kynjaða fjárlagagerð. Meiri jöfnuður leiðir því til sanngjarnari þjóðfélaga og styrkir hagkerfin.
Skattar eiga að tryggja öflugt velferðarsamfélag og stuðla að jöfnuði. Þess vegna hefur verið bent á mikilvægi auðlegðar¬skatts og þrepaskipts fjármagnstekjuskatts. Slíkar aðgerðir auka að sjálfsögðu jöfnuð en eru líka mikilvæg tekjuöflun til að styrkja innviði íslensk samfélags sem hafa verið vanræktir um langt skeið. Til að sú uppbygging geti farið fram með efnahagslega ábyrgum hætti er mikil¬vægt að styrkja tekjustofna ríkisins til frambúðar. Réttlátasta leiðin til þess er að skattleggja fjármagnið þar sem það er að finna. Ísland á að skipa sér í framvarðarsveit ríkja þar sem skattalegar stöðutökur og brask með gjaldmiðla og skammtímagróða fjármagnshreyfingar verði skattlagt.

Eðlilegt er að innleiða hlutfallslega lágan auðlegðarskatt á eignir (að undanskildu íbúðarhúsnæði) og innleiða einnig þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt. Eðlilegt er að hafa þrepaskiptan tekjuskatt og að ofurtekjur séu skattlagðar meira en lægri tekjur og venjulegar launatekjur. Tryggja þarf aukið jafnræði með því að loka leiðum til að fela tekjur og einkaneyslu í einkahlutafélögum.

Til að stemma stigu við skattaundanskotum einstaklinga og fyrirtækja frá velferðarkerfinu þarf að stórefla skattaeftirlit og skattrannsóknir. Nýtingu aflandsfélaga í skattaskjólum á að banna eða takmarka sem kostur er. Aðgerðir í skattamálum eiga að þjóna markmiðum um öflugt velferðarsamfélag, aukinn jöfnuð og önnur samfélagsleg markmið, svo sem í umhverfismálum, lýðheilsu og byggðastefnu. (Sjá fylgiskjal 1)

Lög um opinber fjármál
Frá því að lög um opinber fjármál voru samþykkt árið 2015 hefur það verið gagnrýnt bæði á vettvangi Alþingis og af ýmsum sérfræðingum að svigrúmi við beitingu ríkisfjármálanna til skynsamlegrar hagstjórnar og sveiflujöfnunar séu settar of þröngar skorður. Eðlilegra væri að setja þess í stað ákvæði um að hver ríkisstjórn skuli í upphafi starfstíma síns setja fram markmið í sömu efnum í ríkisfjármálaáætlun í takti við alþjóðleg viðmið.
Hagstjórnarreglur núverandi laga um opinber fjármál ganga í raun lengra en svokölluð Maastricht-viðmið og fyrir þeim eru ekki haldbær rök. Þannig getur of hröð og mikil niðurgreiðsla skulda verið beinlínis skaðleg fyrir mikilvæga samfélagsinnviði, svo sem heilbrigðis- og menntakerfið. Krafan um hallalaust fimm ára tímabil getur einnig hindrað virka efnahagsstjórn og tryggir ekki jafnvægi og getur jafnvel verið til hindrunar því að jafnvægi náist. Á samdráttarskeiði getur reglan til dæmis hindrað virka beitingu ríkisfjármála til að örva atvinnulíf. Fimm ára viðmið er of stuttur tími þar sem hagsveiflan getur verið mun lengri og samdráttarskeið kann enn að vera til staðar þótt fjármálareglan krefjist aðhaldsaðgerða sem gangi gegn ríkjandi ástandi og auki því samdráttinn. Þá er árlegt hallamark 2,5% órökstutt.

Ríkisfjármálaáætlun á ekki eingöngu að líta til fjármálalegs stöðugleika til skamms tíma. Hún þarf að líta til lengri tíma og svara því hvernig á að bregðast við langtímaþróun efnahags- og samfélagsmála, þörfum fyrir breytta og bætta þjónustu í velferðarmálum og uppbyggingu félagslegra jafnt sem efnislegra innviða.

Fjármálareglur laganna um opinber fjármál binda hendur stjórnvalda um of og takmarka möguleika þeirra til hagstjórnar, hvort sem er á þenslu- eða samdráttartímum..

Heilbrigt fjármálakerfi
Mjög hefur verið kallað eftir þverpólitískri og faglegri vinnu um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið áður en teknar verða frekari ákvarðanir um sölu ríkisbanka. Fjalla þarf um umfang bankakerfisins. Setja þarf eðlilegar reglur um eignarhald og skoða til dæmis hvernig sé hægt að tryggja að íslensk fjármálafyrirtæki séu ekki í eigu aflandsfélaga í skattaskjólum. Fjalla þarf um hvort reglur um eiginfjárhlutfall dugi til á íslenskum markaði.
Ræða þarf hver eigi að vera hlutur og þátttaka ríkisins á fjármálamarkaði og gera áætlun um hvað skal selja stóra hluti í þeim bönkum sem nú eru í eigu ríkisins.

Vinstri græn leggja áherslu á að ríkið verði áfram eigandi Landsbankans. Aðskilja þarf starfsemi bankanna í viðskipta- og fjárfestingastarfsemi og hins vegar í innlenda og erlenda starfsemi. Gera þarf nauðsynlegar lagabreytingar til að skapa umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfa samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum

Greina þarf umfang svokallaðrar skuggabankastarfsemi í íslensku efnahagslífi þar sem lífeyrissjóðir og önnur fyrirtæki eru orðin umfangsmiklir lánveitendur til fyrirtækja og einstaklinga. Koma þarf reglum yfir lánveitingar hjá skuggabönkum, til dæmis að skuldbinda þessi fyrirtæki til að framkvæma greiðsluhæfismat á öllum lánum yfir tiltekinni fjárhæð, og tryggja þannig vernd íslenskra neytenda og íslenska hagkerfisins.
Húsnæði eru grundvallarmannréttindi og eðlilegt að áfram verði til félagslegur húsnæðislánasjóður sem tryggi meðal annars lán til kaupa á húsnæði um land allt. Bregðast verður við því neyðarástandi sem skapast hefur á húsnæðismarkaði þar sem framboð hefur ekki fylgt eftirspurn, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, en ekki síður úti á landi þar sem byggingarkostnaður hefur reynst íþyngjandi miðað við möguleika á lánsfé. Skoða þarf til hlítar hvort rétt sé að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni þannig að húsnæðisverð og þróun þess hafi ekki ráðandi áhrif á verðbólgumælingar.
Draga þarf úr vægi verðtryggingar með auknu framboði á óverðtryggðum lánum en einnig með því að fjölga þeim tækjum sem eru fyrir hendi til að fylgja eftir peningastefnu stjórnvalda og lækka þannig vaxtakostnað almennings. Þannig hafa skattalækkanir síðustu ára beinlínis unnið gegn markmiðum peningastefnunnar, hugsanlega með þeim afleiðingum að vextir hafa lækkað hægar en ella. Fara þarf heildstætt yfir húsnæðisstuðningskerfi hins opinbera, þar sem eru mörg ólík kerfi, og meta hvert eigi að stefna til framtíðar þannig að húsnæðisstuðningur hins opinbera verði efldur og nýtist fyrst og fremst lág- og meðaltekjuhópum.

Endurskoða þarf lífeyrissjóðakerfið með það að markmiði að draga úr kostnaði við yfirbyggingu. Arðsemiskrafa á lífeyrissjóði, sem nú miðast við 3,5% ofan á verðtryggingu, gerir það að verkum að vextir á húsnæðislán og námslán eru aldrei undir 5%. Draga má úr þessari arðsemiskröfu. Tryggja þarf að lífeyrissjóðir setji sér samfélagsleg markmið í fjárfestingum sem meðal annars uppfylla umhverfissjónarmið.

Samspil efnahagsstjórnar og vinnumarkaðar
Mikilvægt er að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði, en sá stöðugleiki má ekki snúast um að halda láglaunahópum niðri og grafa undan velferðarkerfinu. Nýstofnað þjóðhagsráð þarf að fjalla um félagslegan stöðugleika ekki síður en efnahagslegan og þar þarf verkalýðshreyfingin að eiga sæti. Þá er eðlilegt að komið verði á laggirnar sem fyrst Þjóðhagsstofnun sem sé sjálfstæð stofnun og unnar séu langtíma þjóðhagsáætlanir til þess að forðast kollsteypur í íslensku efnahagslífi.

Til að unnt verði að skapa almenna sátt um eðlilega launaþróun í landinu þarf að ráðast í markvissar aðgerðir til að efla bæði skattaeftirlit og vinnueftirlit. Þannig verði spornað gegn launastuldi og markvisst barist gegn mansali og þrælahaldi sem er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði. Skoða þarf hvort unnt sé að skylda fyrirtæki til að upplýsa um launabil innan hvers fyrirtækis í ársreikningum og efna til víðtæks samtals um hvað sé ásættanlegur launamunur í samfélaginu, svo sem hvort hann eigi að vera þrefaldur eða fjórfaldur. Stefnt skal að því að minnka launabilið og útrýma með öllum tiltækum ráðum launamun kynjanna. Slíkar aðgerðir, ásamt skýrri framtíðarsýn um skattkerfið og velferðarsamfélagið, eru grundvöllur þess að unnt verði að ná stöðugleika á vinnumarkaði.

Peningastefna
Í þeim greiningum, sem unnar hafa verið fyrir stjórnvöld um valkosti í gjaldmiðlamálum, eru tveir valkostir sem hafa þótt raunhæfir. Annars vegar að Ísland haldi sjálfstæðri peningastefnu með íslenska krónu sem gjaldmiðil. Þar sé viðhaldið ákveðnu verðbólgumarkmiði en hugsanlega sett önnur markmið, svo sem gengisstöðugleikamarkmið eða markmið um tiltekið atvinnustig. Hins vegar að Ísland gangi í Evrópusambandið, verði aðili að Myntbandalagi Evrópu og taki upp evru og verði þar með hluti af samevrópskri peningastefnu undir forystu evrópska Seðlabankans. Aðrar leiðir, svo sem einhliða upptaka annars gjaldmiðils eða svokallað myntráð, hafa verið skoðaðar og hingað til ekki þótt fýsilegar. Myntráð væri til að mynda mjög dýr leið fyrir lítið samfélag enda kallar það á stóran gjaldeyrisvaraforða og hefur almennt ekki tíðkast nema í einhvers konar millibilsástandi hjá ríkjum sem til dæmis hafa stefnt inn í ESB (þó að einhver fleiri dæmi séu til).

Krónan er lítill gjaldmiðill og hefur hingað til verið sveiflukennd og þar með endurspeglað miklar sveiflur í hagstjórninni. Efasemdir hafa verið uppi um að krónan dugi til að skapa efnahagslegan stöðugleika en um leið má ekki gleyma því að margháttaðar aðgerðir, til dæmis skattalækkanir á þenslutímum, hafa beinlínis unnið gegn yfirlýstum markmiðum um stöðugleika. Ef Ísland heldur áfram að nýta sér krónuna sem gjaldmiðil þarf að tryggja að peningastefnan taki mið af ekki aðeins efnahagslegum stöðugleika heldur einnig félagslegum.

Innganga í ESB er mun stærri ákvörðun en svo að hún snúist eingöngu um gjaldmiðil eða peningastefnu. Hins vegar hefur efnahagsstefna ESB verið harðlega gagnrýnd á undanförnum árum eftir kreppu fyrir að byggjast um of á hægrisinnaðri sveltistefnu gagnvart aðildarríkjum og ekki gefa nægjanlegt svigrúm til sveiflujöfnunar. Bent hefur verið á að evrópski Seðlabankinn þyrfti að huga að fleiri sjónarmiðum við hagstjórn fyrir utan að uppbygging sjálfs kerfisins er ólýðræðisleg þar sem evrópski Seðlabankinn hefur gríðarleg völd án þess að lýðræðislegt umboð hans sé skýrt. Stefna Vinstri grænna er sú að standa utan ESB en hins vegar er hreyfingin reiðubúin að leggja það mál í hendur þjóðarinnar enda um stórt mál að ræða sem eðlilegt er að allur almenningur taki ákvörðun um.

FYLGISKJAL 1

Auðlegðarskattur
Auðlegðarskattur er nauðsynlegur hluti af tekjuskattkerfinu enda getur eignafólk nýtt sér eignir sínar til að hafa af þeim tekjur án þess að þær myndi skattstofn. Þá er auðlegðarskattur nauðsynlegt tæki til að draga úr ójafnri skiptingu auðs í landinu. Eðlilegt væri að miða við lágt hlutfall (1%-1,5%) og hátt almennt fríeignamark (þannig að flestir séu undanþegnir en stóreignafólk borgi sanngjarnan hlut sinn til samfélagsins).

Þrepaskiptur fjármagnstekjuskattur
Fjármagnstekjuskattur leggst á skuldabréfaeign, tekjur af vöxtum, leigu á húsnæði og hagnað af sölu fasteigna og verðbréfa. Eðlilegt er að hafa fjármagnstekjuskatt annaðhvort þrepaskiptan eða hækka frítekjumarkið/skattleysismörk á háar fjármagnstekjur og skattleggja þær í takt við almennar launatekjur. Slík aðgerð er bæði réttlætismál og getur skilað verulegum tekjum í ríkissjóð.

Hluti fjármagnstekjuskatts renni til sveitarfélaga
Lykilatriði er að hluti fjármagnstekjuskatts renni til sveitarfélaga sem nú fá ekki neinar tekjur af þeim sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt. Hins vegar liggur líka fyrir að gjaldendur þessa skatts dreifast misjafnlega á sveitarfélögin og því er lagt til að þær tekjur renni í gegnum Jöfnunarsjóð sveitafélaga

Sérstakt hátekjuþrep í tekjuskatti
Til að taka á svokölluðum ofurtekjum, til dæmis í kaupaukum, er skilvirkasta leiðin að setja á sérstakt hátekjuþrep í tekjuskattskerfinu sem tekur á mjög háum tekjum en kemur við tiltölulega fáa aðila.

Lækkun virðisaukaskatts á matvæli
Óbeinir skattar á borð við virðisaukaskatt leggjast hlutfallslega þyngra á tekjulága en tekjuháa. Því er eðlilegt að beita virðisaukaskattkerfinu til að jafna kjör eða til að ná fram öðrum samfélagslegum markmiðum. Það er til dæmis hægt með því að lækka virðisaukaskatt á neysluvörur á borð við matvæli, sem gagnast mun barna- og fjölskyldufólki og tekjulægri hópum, eða á menningu eins og bækur og tónlist.

Leiðrétting persónuafsláttar
Persónuafsláttur verði þannig að hann nýtist lág og millitekjuhópum sem best og fylgi þróun verðlags. Tryggja þarf að tekjulægstu hóparnir, sem eru undir markmiðum um grunnframfærslu, séu undir skattleysismörkum.

Lýðheilsuskattar
Rannsóknir sýna að skattar á óholla mat- og drykkjarvöru eru áhrifarík leiðin til að bæta heilsu fólks. Því munu Vinstri græn beita sér fyrir að vöruflokkar sem innihalda sykraða gosdrykki og sykraða matvöru verði færðir í hærra virðisaukaskattsþrep.

Umhverfiskattar
Bent hefur verið á að kolefnisgjald sé áhrifamesta skattlagningin til að draga úr notkun óendurnýjanlegra orkugjafa. Kolefnisgjald og skattar á bensín, dísilolíu og olíu til upphitunar eru almennt lægri hér á landi en hjá öðrum Norðurlöndum. OECD hefur bent á að gjald, sem ýmsar þjóðir hafa lagt á útblástur koltvísýrings, sé um það bil 80% of lágt til þess að það nýtist sem skyldi til að verja loftslag jarðarinnar. Með því að hækka gjöldin og afnema undanþágur frá kolefnisgjaldi væri hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra mengunarvalda um leið og tekjur myndu renna í ríkissjóð. Sama má segja um aðra græna skatta sem er eðlilegt að hækka til að ná fram markmiðum í umhverfismálum.

Grænar skattaívilnanir
Rétt eins og grænir skattar skipta máli til að ná fram markmiðum í umhverfismálum geta grænar skattaívilnanir nýst í sama markmiði. Eðlilegt er að nýfjárfestingar uppfylli loftslagsmarkmið og ekki séu gerðir frekari ívilnandi fjárfestingasamningar í þágu mengandi starfsemi. Umhverfisvænni samgöngumátar njóti ákveðinna skattaívilnana til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum svo dæmi sé tekið, sem og matvælaframleiðsla sem uppfyllir loftslags- og sjálfbærnimarkmið.

Auðlindagjöld
Innheimta á gjald af nýtingu auðlinda og tryggja þannig að arðurinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sem eru takmörkuð gæði, renni til þjóðarinnar ef þær eru ekki nýttar með samfélagslegum hætti í þágu almennings. Lykilatriði er að auðlindagjöld séu arðgreiðslur en ekki skattar. Þannig væri tekjuskattsstofninn slakur mælikvarði á auðlindaarðinn og ræðst af ýmsum öðrum þáttum (vaxtakjörum, frádráttarbærum fjármagnskostnaði o.fl.) en auðlindagjaldið á að vera greiðsla fyrir réttinn til að nýta auðlindina og sú greiðsla getur til dæmis ekki ráðist af því hvort fyrirtækið fjármagnar sig með eigin fé eða lánum. Því munu Vinstri græn beita sér fyrir sanngjörnum auðlindagjöldum sem myndu renna í sameiginlega sjóði íslensks samfélags og endurspegla á þann hátt að auðlindirnar eru sameign þjóðarinnar og þeir sem nýta þessi takmörkuðu gæði njóta forréttinda.

Komugjöld og gistináttagjöld
Greina þarf bestu leiðirnar þannig að þeir sem hagnast á stærstu útflutningsgrein íslensks atvinnulífs, ferðaþjónustunni, greiði sanngjarnan hlut í sameiginlega sjóði. Vinstri græn hafa lagt til að setja komugjöld á farseðla og breyta gistináttagjaldinu þannig að það sé í hlutfalli við verð gistinátta. Ennfremur að gistináttagjaldið eða hluti þess renni til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Alþjóðlegt samstarf í skattamálum
Ísland á að vera í fararbroddi í alþjóðlegu samstarfi í skattamálum um upplýsingaskipti og aukið gagnsæi. Vextir, þóknanir og þjónustugreiðslur til aðila á lágskattasvæðum verði skattlögð sérstaklega og þannig markvisst unnið gegn aflandsfélögum í skattaskjólum.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.