EN
PO
Search
Close this search box.

Ferðamál

Landsfundur 2017.

Hverjum treystir þú?

Ísland er einstakt land. Það er eitt yngsta land í heimi og hefur að geyma aðgengilegar og óaðgengilegar óbyggðir og víðerni sem eiga fáa sinn líka. Náttúra landsins er einstök og jafnframt viðkvæm.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að gestakomur til landsins og ferðaþjónusta leiði af sér jákvæða þróun, samfélögum og efnahagslífi til farsældar og hagsbóta og sé ávallt í sátt við náttúru landsins. Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein sem kemur inn á öll svið íslensks samfélags og mannlífs. Náttúra Íslands og sérstætt landslag, ekki síst óbyggð víðernin, laða öðru fremur gesti hingað til lands. Það er því mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuna að viðhalda óspilltri náttúru og varðveita þannig auðlindina í samvinnu við fagfólk og fræðimenn. Ferðaþjónustan, ásamt náttúruverndarsamtökum, á að vera framvörður í verndun náttúru og umhverfis og til fyrirmyndar á alþjóðavísu vegna þessa. Ferðaþjónustuna verður að skipuleggja og reka í anda sjálfbærrar þróunar og út frá viðmiðum þolmarkarannsókna á náttúru, samfélagi og innviðum og með hliðsjón af hættum og mögulegum hamförum. Með öflugum rannsóknum getur „græn ferðaþjónusta“ af því tagi orðið að blómlegri atvinnugrein til frambúðar án þess að náttúra og samfélag hljóti skaða af. Uppbygging grænnar ferðaþjónustu snýst þannig um vernd náttúru og samstarf við heimafólk á hverjum stað. Sérstaka rækt þarf að leggja viðferðaþjónustu sem grundvölluð er á hreinu lofti, lítt spilltri náttúru, heilnæmu vatni og matvöru úr ranni lífræns íslensks landbúnaðar.

Gjaldheimta og tekjur

Tekjur landsins af ferðaþjónustu eru miklar. Engu að síður skila þær sér ekki nægjanlega mikið til hins opinbera og þá sérstaklega sveitarfélaga. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að tekjuöflun af greininni verði fyrst og fremst gegnum markaða tekjustofna af veittri þjónustu en ekki af gjaldheimtu á náttúruskoðun. Hið opinbera á að hafa óskorað eignarhald yfir helstu náttúruverndarsvæðum og vinsælustu áfangastöðum í náttúru Íslands eftir því sem við verður komið. Tryggja skal fólki frjálsan aðgang að þeim þótt umferð innan þeirra verði stýrt í þágu náttúruverndar. Af skemmtiferðaskipum ætti að taka umhverfisgjald og með því efla frekari þjónustu við skipin, t.d. við að koma úrgangi frá þeim í græna farvegi. Lágmarka skal útblástur frá þeim m.a. með rafvæðingu hafna og setja bindandi viðmið um losun í sjó og loft.

Samgöngur og ferðaþjónusta

Samgöngur eru forsenda allrar ferðaþjónustu, án tenginga verður staður ekki áfangastaður gesta. Því er mikilvægt að horft sé á samgöngukerfið sem bæði stýritæki er kemur að gestakomum og lykilinnviði ferðaþjónustu. Skipulag samgangna, bílastæða og aðgengis stýrir flæði ferðafólks um áfangastaði og getur þannig dregið úr álagi. Því þarf að horfa á hvern áfangastað í landinu út frá stöðu gagnvart innviðum samgangna. Unnið verði að því að opna fleiri hlið inn til landsins til að auka möguleika fleiri svæða til að uppskera arð af ferðaþjónustu. Flugvellir og hafnir leika hér lykilhlutverk samhliða þróun ferðaþjónustu á áfangastöðum. Ólíka samgöngumáta í landinu þarf að samþætta. Flug, almenningsamgöngur, hafnir og áfangastaðir þurfa að mynda samfellu þannig að gestir sem koma með millilandaflugi komist greiðlega áfram innanlands, hvort sem það er með áframhaldandi flugi eða öflugu neti almenningsamgangna. Efla þarf hlut almenningsamganga um allt land til að bæta möguleika fyrir ferðafólk og jafnframt styðja við öflugt net almenningssamgangna öllum landsmönnum til hagsbóta.

Náttúruvernd

Einstök náttúra landsins og hve lítið henni hefur verið umbylt í þágu mannvistar, er einn helsti styrkleiki áfangastaðarins Íslands og ætti að vera uppistaðan í aðdráttarafli landsins. Til þess að svo megi vera þarf að tryggja að ferðaþjónusta þróist án þess að ásýnd eftirsóttra náttúrusvæða verði umbylt eða breytt með óafturkræfum hætti. Þar sem rannsóknir vantar á áhrif ferðamennsku á samfélög, skal náttúran njóta vafans, varúðarregla í heiðri höfð og ábyrg auðlindastjórnun iðkuð jafnframt því að rannsóknir á nýtingu og vernd íslenskrar náttúru verði auknar. Samhliða er mikilvægt að efla menntun þeirra sem er falið að sjá um þjóðgarða, verndarsvæði og önnur náttúrusvæði sem ferðamenn sækja. Mun stærri svæði landsins ættu að vera friðlýst og ætti þar að horfa til landslagsheilda og samfellu í vistgerðum. Miðhálendið allt á að verða þjóðgarður og kjarninn í ímynd landsins. Efla þarf menntun í náttúruvernd og náttúrunýtingu og samþætta skilning á ferðamálum og þróun ferðaþjónustu. Skilja verður til hlítar verðmæti íslenskrar náttúru og áhrif nýtingar. Þekking á náttúrufræðum er grunnur að nýtingu og stjórnun auðlindarinnar. Víðtækar grunnrannsóknir á íslenskri náttúru þarf að bæta að miklum mun og sjá til þess að þekking á náttúru landsins sé fullnægjandi til þess að unnt sé að uppfylla alþjóðlega samninga og tryggja að öll nýting sé í anda sjálfbærni.

Þannig vill VG að:

  • Ferðaþjónusta standi vörð um ímynd Íslands og sérstaka náttúru landsins
  • Efla þar landvörslu og fjölga þarf stöðugildum og heilsársstöðugildum í landvörslu með auknu fjármagni og skoða þarf endurskipulagningu verkefna í landvörslu.
  • Markaðssetning landsins horfi ekki til fjölda gesta heldur tegundar ferðamennsku. Markmiðið sé að landið höfði til gesta með umhverfisvitund og í þekkingarleit og þeirra er láta sig málefni náttúru og umhverfis varða, enda landið einn fárra „sýningargripa“ heimsins um öfl náttúru.
  • Auknar séu rannsóknir og miðlun þekkingar á sérstöðu íslenskrar náttúru sem mikilvægs grunns ferðaþjónustunnar.
  • Uppbygging innviða ferðaþjónustu taki mið a þolmörkum ferðamennsku út frá náttúru og umferð ferðamanna, þekkingu á þörfum og væntingum heimafólks og gesta, einkennist af vitund um einstaka náttúru, og sé auk þess skipulögð af færustu hönnuðum og sérfræðingum okkar í samvinnu við heimamenn á hverju svæði
  • Að landsvæðin marki sér sérstöðu og áherslur sem falla að viðkomandi svæðum og samfélögum.
  • Ferðaþjónustan verði virkur þáttakandi í orkuskiptum í samgöngum af öllu tagi og dragi úr álagi á áfangastaði með því að gera ferðafólki kleift að nýta almenningssamgöngur um landið.

Samfélagið og ferðaþjónusta

Samfélög á Íslandi, hvort heldur er í borg eða dreifðum byggðum, eiga mikið undir gestakomum og gestir koma inn á öll svið íslensks mannlífs og samfélags. Mikilvægt er að efling þjónustu við gesti komi ekki niður á annarri atvinnustarfsemi á forsjá heimafólks, með t.d. of mikilli utanaðkomandi fjárfestingu. Að sama skapi þarf að tryggja að fjölgun gesta sé ekki með slíkum hraða að það skapi ójafnvægi, heimafólki þyki að sér sótt eða hætta sé á að samfélög fari að litast af gróðavon vegna gestakomu. Áhugi gesta á íslensku samfélagi er sóknarfæri í menningarferðaþjónustu og uppbyggingu skapandi tengsla við gesti landsins. Gríðarleg aukning hefur enda orðið á ferðamönnum sem koma hingað til að njóta margvíslegrar menningar, þar með talið tónlistarhátíða af ýmsu tagi og annarra menningarviðburða. Mikilvægt er að hugað sé sérstaklega að regluverki og innviðum til að hlúa að slíkri ferðamennsku Menningarferðaþjónusta er í örum vexti og eru þar óteljandi sóknarfæri, hvort heldur sem er í tengslum við sögu fyrri tíðar eða samtímamenningu.Með því að fjölga áfangastöðum Hverjum treystir þú? með fjölbreyttu, staðbundnu aðdráttarafli er unnt að létta og dreifa þunga af komu ferðamannaá vinsælum en viðkvæmum stöðum og skapa fjölbreytta atvinnumöguleika heima í héraði. Með auknum rannsóknum í ferðamálafræði er hægt að efla slíka þróun, dreifa álaginu á fleiri staði og koma í veg fyrir landspjöll. Fara þarf ítarlega yfir lagaumhverfi ferðaþjónustu á Íslandi, fá heildstæða mynd af stofnanaumgjörð með einföldun og skilvirkni að markmiði.

Þannig vill VG að:

  • Vöxtur ferðaþjónustu sé í takt við burði staðbundinna samfélaga til að nýta sér ferðaþjónustu sér til hagsældar.
  • Menningarferðaþjónusta sé efld á forsendum lifandi samfélaga, varðveislu menningararfs og stuðnings við fjölbreytt menningarstarf.
  • Uppbygging og skipulag sé á forsjá heimafólks.
  • Endurskoða þarf reglur um öryggi gesta á áfangastöðum.
  • Opinber stofnanaumgjörð ferðaþjónustu þarf að vera í einum farvegi sem samhæfir alla þá ólíku aðila sem þurfa að koma að þróun greinarinnar.

Störf í ferðaþjónustu

Ferðaþjónusta snýst um þjónustu og tengsl við gesti og upplifun þeirra. Öryggi og góð þjónusta verður að vera í fyrirrúmi þar sem ferðaþjónustustörf krefjast gestrisni og fagmennsku. Því þarf að endurskipuleggja menntunarmál þjónustugreina, efla þjónustugæði, öryggisvitund og skipulag á öllum sviðum.

Miklu máli skiptir að hafa á að skipa vel menntuðum hópi leiðsögumanna, sem geta verið talsmenn náttúrunnar og túlkað hana fyrir erlendum ferðamönnum í ljósi þróunar mannlegra athafna í landinu allt frá landnámi og fram á vora daga. Full þörf er á að efla og endurskoða menntun leiðsögumanna og búa svo um hnúta að skipulagðar ferðir erlendra ferðamanna séu með menntaðri íslenskri leiðsögn eða hópstjórn.

Fjölga þarf einnig fagmenntuðum störfum í tengslum við leiðsögn og fræðslu, m.a. í þjóðgörðum og á öðrum friðlýstum svæðum. Framtíðarsýn VG er að mun stærri svæði landsins og miðhálendið allt verði þjóðgarður og þá líkt því sem við sjáum í þjóðgörðum Bandaríkjanna og Evrópu. . Mikilvægt er að gróska ferðaþjónustunnar glepji okkur ekki sýn og því þarf að huga að framtíðarstefnumörkun greinarinnar með tryggri fjármögnun til menntunar á öllum þeim sviðum sem tengjast henni. Efla þarf nám sem fyrir er og styðja við námsbrautir á öllum menntastigum er varða ferðaþjónustugreinar og langtímauppbyggingu hennar, að gæði starfanna og þjónustunnar byggist á góðri menntun. Til að íslensku efnahagslífi sé sem mestur akkur í ferðaþjónustu er mikilvægt að tryggja að uppbygging þjónustu við gesti sé á forsjá landsmanna og að þær vörur sem boðnar eru gestum séu eins og mest má framleiddar hérlendis. Tryggja þarf að erlent starfsfólk sem starfar í ferðaþjónustu sé virkir þátttakendur í mótun ferðaþjónustunnar og gestamóttöku og eigi þannig hlutdeild í greininni. Ferðaþjónusta er oft fyrsti viðkomustaður ungs fólks á vinnumarkaði og því mikilvægt að atvinnurekendur sýni lögbundna ábyrgð. Mikilvægt er að allt sé uppi á borðum sem tengist atvinnurekstri í ferðaþjónustu öll gjöld greidd og réttindi fólks virt í hvívetna. Ferðaþjónusta snýst um fólk að vinna fyrir fólk.

Þannig vill VG að:

  • Unnið verði frekar að því að skilgreina sérstöðu landsins og það sem það hefur að bjóða og það nýtt sem efniviður í nýsköpun og vöruþróun.
  • Fagmennska í miðlun sérstöðu landsins verði efld í leiðsögn. Endurskoða og endurskipuleggja þarf nám leiðsögumanna og fararstjóra og skilgreina hlutverk þeirra í nútíma ferðaþjónustu sem tekur mið af náttúruvernd.
  • Menntun á öllum sviðum ferðaþjónustu verði efld. Mikilvægt er að horfa til möguleika á enn frekari starfsþróun og fjölgun heilsársstarfa í greininni.
  • Mikilvægt er að öll fyrirtæki í ferðaþjónustu uppfylli kröfur um samfélagslega ábyrgð sína og standi undir hlutverki sínu og skyldum sem atvinnurekandi.

Ferðaþjónusta getur skapað fjölda góðra starfa. Skýra þarf áherslur í markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar þar sem náttúran og náttúruupplifun er helsta aðdráttaraflið, upplýsa þarf betur um öryggi ferðafólks, aðstæður hérlendis, landvernd, sögu og menningu og halda áfram markaðssetningu á öðrum árstíðum en sumrinu. Miðla þarf upplýsingum til ferðafólks með markvissum og samræmdum hætti, með sameiningu landkynningarmála hjá sveitarfélögum og ríki og aukinni samvinnu um þau með flugfélögunum. Með því að leggja aukinn þunga í markaðssetningu náttúrutengdrar og grænnar ferðaþjónustu sem er grundvölluð á hreinu lofti, lítt spilltri náttúru, heilnæmu vatni og matar- og menningarferðaþjónustu, má auka fjölbreytni í greininni og gera hana umhverfisvænni

Framtíðarsýn

Framtíðarsýn VG fyrir ferðamannalandið Ísland er að vel verði haldið utan um náttúruvernd, menningararf, þjóðgarða og önnur friðlýst svæði friðlýst svæði og þjóðgarða sem skapa fjölda fólks vinnu við náttúruvernd, endursköpun og viðhald sögu okkar og menningar, rannsóknir og ferðaþjónustu og byggi á sérstöðu Íslands. Fólki þarf að vera gert auðvelt aðkomast um allt land en samhliða verði framandleika og sérstöðu náttúrunnar viðhaldið. Landsmenn allir í ýmiskonar starfsemi fái notið arðs af ferðaþjónustu með því að bjóða gestum til þátttöku á eigin forsendum. Hingað komi semsagt fólk alls staðar að úr heiminum til að upplifa Ísland, vinna með okkur og til að efla tengsl okkar og skapa fjölbreyttari atvinnutækifæri.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search