Search
Close this search box.

Auðlindir hafs og stranda

Landsfundur 2021.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á ábyrga umgengni um auðlindir hafsins, gert fortakslausa kröfu um sjálfbæra nýtingu og bent á mikilvægi grunnrannsókna og fræðilegrar þekkingar í því sambandi. Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill standa vörð um ákvæði 1.gr. laga um stjórn fiskveiða sem kveður á um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum sjávar og treysta þá sameign í sessi með auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Því tengd er sú sjálfsagða krafa að eigandinn, þjóðin, njóti arðs eða auðlindarentu þegar einkaaðilar fá aðgang að sameiginlegri auðlind til hagnýtingar í ábataskyni. Heildstæð nálgun verði á málefni greinarinnar þannig að hið umhverfislega, samfélagslega og byggðalega samhengi hafi vægi ásamt hinu hagræna.

  • Eðlilegasta fyrirkomulagið, eðlilegasti grunnur veiðiréttinda, er nýtingarleyfi til afmarkaðs tíma í senn, gegn eðlilegu gjaldi. Í því sambandi eru þær breytingar sem gerðar voru á grundvelli veiðigjalda á þessu kjörtímabili að færa álagninguna nær afkomu í rauntíma jákvæðar. Innlausn veiðiheimilda úr núverandi kerfi mætti útfæra þannig að útgerðum byðist að færa núverandi veiðiheimildir sínar, eða stærstan hluta þeirra, yfir í slík nýtingarleyfi til afmarkaðs tíma, ellegar sæta tiltekinni árlegri fyrningu. Standa þarf vörð um hagsmuni minni sjávarbyggða, smábáta og minni útgerða og möguleika til nýliðunar sem aftur varðveiti fjölbreytni og endurspegli heildstæða nálgun hreyfingarinnar á málefni greinarinnar. Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafði frumkvæði að tilkomu strandveiða árið 2009 og tilurð verkefnisins „brothættar byggðir“ og byggðafestukvóta (sértæks byggðakvóta) árið 2012.
  • Að því ber að stefna að aflaheimildir í 5,3% kerfinu verði auknar í hóflegum áföngum með það sem endamarkmið að 8-10% veiðiheimilda verði til ráðstöfunar í slíkum tilgangi.
  • Festa þarf strandveiðar enn betur í sessi og auka svigrúm til félags- og byggðaráðstafana. Skoða á kosti þess að hægt verði að leigja veiðiheimildir af hinu opinbera í tilteknu magni á föstu verði og eftir atvikum á svæðagrundvelli.
  • Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur í gegnum árin lagt mikla áherslu á innlenda verðmætasköpun, störf og fullvinnslu afurða sem aftur lámarkar kolefnisspor greinarinnar, samanber áherslu á aðgang innlendrar vinnslu að hráefni á jafnræðisgrundvelli á fiskmörkuðum og byggðafestukvóta til stuðnings vinnslu í minni sjávarbyggðum.
  • Koma þarf í veg fyrir að vaxandi afli af Íslandsmiðum og stór hluti framleiðslunnar í auknu fiskeldi fari óunninn úr landi. Með því eru ekki aðeins störf og virðisauki flutt úr landi, heldur er einnig ljóst að slíkur hráefnisútflutningur skilur eftir sig mikið viðbótar kolefnisspor borið saman við fullvinnslu hér heima. Beita þarf umhverfisgjöldum eða umhverfisálagi á slíkan hráefnisútflutning. Innlend fiskvinnsla skal alltaf eiga þess kost að bjóða í óunnin afla áður en hann fer úr landi, þ.e. annan afla en þann sem fer beint til vinnslu hjá sama aðila og stundar veiðarnar eða afla sem gengur beint til innlendrar vinnslu á grundvelli tengsla / samninga.
  • Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að fiskveiðistjórnunarkerfið verði endurskoðað með áherslu á að styrkja varnir gegn óhóflegri samþjöppun með því að kvótaþök séu fortakslaust virt, girðingar haldi sér milli kerfa (aflamark / krókaflamark og aðrar veiðar) og að framtíðargrundvöllur veiðiréttinda verði tímabundinn og afmörkuð nýtingarleyfi bundin tilteknum skilyrðum.
  • Skilgreiningu á tengdum aðilum, sbr. 13. gr. laga um stjórn fiskveiða, þarf að lámarki að herða þannig að aðilar skuli teljast tengdir í skilningi kvótaþakanna ef eitt fyrirtæki eða eigendur þess eiga meira en 25%, fjórðung, í öðru. Einnig þarf að leggja saman eign fyrirtækjanna bæði í aflamarki og krókaflamarki þegar staða þeirra gagnvart heildar kvótaþökunum er skoðuð. Girða ber fyrir að stórfyrirtæki í aflamarkskerfinu geti keypt upp smærri fyrirtæki og veiðiheimildir í krókaflamarkskerfinu og aukið þannig enn á samþjöppun veiðiheimilda.
  • Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að mikilvægt sé að tryggja öryggi áhafna og að lögum um hvíldartíma sjómanna, sem vinna oft við erfið skilyrði, verði framfylgt með auknu eftirliti (trúnaðarmenn, aðkoma stéttarfélaga o.s.frv.).
  • Verðlagningarkerfi fiskveiða, ekki síst í uppsjávarveiðum, þarf að taka til endurskoðunar til að tryggja réttlátan hlut sjómanna, hafnargjöld, útsvarstekjur sveitarfélaga og skatttekjur ríkisins.

Umhverfi og sjávarútvegur

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill hraða orkuskiptum í sjávarútvegi og haftengdri starfsemi og stuðla, m.a. með skattalegum hvötum, að slíkri þróun ásamt áherslu á vistvæn veiðarfæri og útgerðarhætti. Stefnumótun og eftir atvikum löggjöf þarf að endurspegla með tölusettum og tímasettum markmiðum hækkandi hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hjá skipaflotanum.

  • Hefjast þarf handa, þegar árið 2022, á orkuskiptum í íslenska flotanum á grundvelli metnaðarfullrar aðgerðaáætlunar sem byggi á eftirfarandi markmiðum:
    • Að ferjur, bátar og skip sem nýtt eru í ferðaþjónustu og strandveiðiflotinn, verði að stærstum hluta knúin áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2031.
    • Að stærstur hluti fiski- og kaupskipaflotans nýti endurnýjanlega orkugjafa fyrir árið 2036.
    • Að allur skipafloti Íslands verði knúinn áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2040.
  • Skattlagning á jarðefnaeldsneyti (kolefnisgjald) þarf að vera nægjanlega hvetjandi til að hraða notkun annarra orkugjafa, án þess að íþyngja rekstri útgerða um of á orkuskiptatímabilinu. Stuðla þarf að jákvæðum hvötum til orkuskipta.
  • Auka þarf framlög til rannsókna og þróunar nýrra og vistvænni orkugjafa og lausna í orkumálum (t.a.m. vetnis, lífdísils og rafmagns), ásamt innviðafjárfestingum sem stuðla að slíkri framvindu svo hægt verði að ráðast í heildarorkuskipti skipaflotans.
  • Ísland þarf að ná ákveðnu hlutfalli verndarsvæða í hafi, en alþjóðleg viðmið eru 10%. Í dag er innan við 1% hafsvæðis sem lýtur lögsögu Íslendinga verndað. Ráðast þarf í greiningarvinnu á því hvaða sjávarsvæði er brýnast að vernda m.t.t. mikilvægra uppeldisstöðva fisks við strendur Íslands og sérstæðra náttúrufyrirbæra á hafsbotni svo sem kaldsjávarkóralla, jarðhitasvæða neðansjávar o.s.frv.
  • Endurhugsa þarf nálgun á verndun og nýtingu lífríkisins á grunnslóð og hvað snertir staðbundnar tegundir. Leggja þarf grunn að sjálfbærri nýtingu þeirra auðlinda sem næst liggja landi og á grunnslóð með svæðaskiptingu á faglegum og vísindalegum grundvelli, nýtingarstefnu og staðbundinni stjórnun. Kvótasetning í hefðbundnum skilningi og fyrir landið í heild hentar engan veginn þegar um er að ræða tegundir eins og grásleppu, sæbjúgu, beitukóng, humar og krabba svo dæmi séu tekin, hvað þá þang og þara. Liður í breyttri nálgun þarf að vera að endurskoða línur sem verja grunnslóðina fyrir stórvirkari veiðarfærum og ýta undir vistvænar veiðiaðferðir svo sem gildruveiðar.

Fiskeldi

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að umhverfisvernd og sjálfbærni séu höfð að leiðarljósi við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Miklir vaxtar- og framtíðarmöguleikar felast í frekari þróun á umhverfisvænu fiskeldi og nýsköpun. Má þar nefna ræktun þörunga í sambýli við laxeldi og nýtingu aukaafurða sem styðja við sjálfbærni í fiskeldi.

  • Í fiskeldi er megináskorunin að finna jafnvægi á milli nýtingar og náttúruverndar og þess vegna mikilvægt að treysta eftirlit, vöktun og rannsóknir sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Mestu skiptir að vandað sé til uppbyggingar fiskeldis m.t.t. eftirlits og krafna sem miða að náttúruvernd.
  • Stjórnvöld ættu að hvetja til framþróunar og nýsköpunar í eldislausnum sem miða að hámarksnýtingu hliðarafurða, verndun viðkvæmrar náttúru og verndun villtra stofna ekki síst gegn hættu á erfðamengun.
  • Auka þarf fjárhagslega hvata sem eflt geta þróun í fiskeldi úr opnum kvíum yfir í eldi í lokuðum kvíum og á dýpra vatni, og eldi á landi. Skref í rétta átt gæti verið eldi með geldfisk. Mikilvægt er að lágmarka umhverfisáhrif af fiskeldi m.t.t áhrifa á aðra atvinnustarfsemi í nágrenni eldisins, t.a.m. matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu.
  • Afurðir fiskeldis þarf, rétt eins og við á í hefðbundinni fiskvinnslu, að fullvinna innan lands eins og kostur er til að minnka kolefnissporið, skapa störf og innlendan virðisauka. Huga þarf að hvötum í þessu sambandi.
  • Hraða þarf gerð skipulags fyrir strandsvæði, firði og flóa, samanber lög um skipulag haf- og strandsvæða, þannig að sjónarmið heimamanna fái vægi og aðrir hagsmunir séu metnir samhliða hagsmunum fiskeldis. Ekki ætti að veita ný leyfi til eldis, né samþykkja aukningu eldis nema gerð skipulags á þessum grunni sé lokið.

 

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að:

  • Grunnur veiðiréttinda sé nýtingarleyfi til afmarkaðs tíma í senn
  • Aflaheimildir í 5,3% kerfinu verði auknar í hóflegum áföngum með það sem endamarkmið að 8-10% veiðiheimilda verði til ráðstöfunar í slíkum tilgangi
  • Innlend fiskvinnsla eigi þess alltaf kost að bjóða í óunnin afla áður en hann fer úr landi
  • Aðilar skuli teljast tengdir í skilningi kvótaþakanna ef eitt fyrirtæki eða eigendur þess eiga meira en 25%, fjórðung, í öðru
  • Markmið um orkuskipti í skipaflota Íslands verði þau:
  • að ferjur, bátar og skip sem nýtt eru í ferðaþjónustu og strandveiðiflotinn verði að stærstum hluta knúin áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir árið 2031
  • að stærstur hluti fiski- og kaupskipaflotans nýti endurnýjanlega orkugjafa fyrir árið 2036
  • að allur skipafloti Íslands verði knúinn áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2040
  • Endurhugsa þarf nálgun á verndun og nýtingu lífríkisins á grunnslóð og þegar staðbundnar tegundir eiga í hlut
  • Auka beri fjárhagslega hvata sem eflt geta þróun í fiskeldi úr opnum kvíum yfir í eldi í lokuðum kvíum og á dýpra vatni, eldi með geldfisk og eldi á landi
  • Ekki ætti að veita ný leyfi til eldis, né samþykkja aukningu eldis, nema gerð skipulags haf- og strandsvæða sé lokið á viðkomandi svæði

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search