Matvælastefna

Landsfundur 2019.

Heimafengin hollusta
Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að innleiða metnaðarfulla matvælastefnu stjórnvalda. Markmið matvælastefnunnar skal vera tvíþætt: að öll matvælaframleiðsla til sjávar og lands verði kolefnishlutlaus árið 2040 og stuðli að betri lýðheilsu.

Hringrásarhagkerfið er leiðin til að ná þessum markmiðum. Hringrásarhagkerfið byggist á því að nýta aðföng á skynsamlegri hátt og draga úr sóun þannig að hagræðing náist samhliða því að dregið er úr álagi á auðlindir jarðar. Núverandi framleiðsla og neysla á matvælum er ósjálfbær, en hún byggist á línulegu hagkerfi þar sem hlutir eru framleiddir, þeir notaðir og þeim hent. Mannkynið notar bjargir jarðar með þeim hraða að rúmlega tvær jarðir þyrfti til að standa undir núverandi neyslu. Því er hringrásarhagkerfið forsenda þess að unnt verði að draga úr losun við framleiðslu og neyslu matvæla.

Auka þarf neyslu á hollum matvælum á kostnað óhollari matvæla. Draga þarf úr neyslu kjöts, sem framleitt er með ósjálfbærum hætti. Með því að framleiða lífrænan áburð úr úrgangi mætti gera stærstan hluta innlendrar landbúnaðarframleiðslu lífrænan. Jafnframt þarf að draga úr losun við flutning matvæla en hingað til lands eru flutt matvæli sem hægt er að framleiða innanlands með minna kolefnisspori.

Mikilvægt er að stjórnvöld styðji markvisst þá sem framleiða matvæli sem hafa góð áhrif á náttúru og lýðheilsu ásamt því að upplýsa almenning um mikilvægi þess að velja hollan og umhverfisvænan mat. Þannig má bæta afkomu framleiðenda samhliða því að ná markmiðum í lýðheilsu- og loftslagsmálum og tryggja matvælaöryggi landsmanna.

Breikka þarf matvælaframleiðslu
Sjávarútvegur og landbúnaður eru grunnurinn að öflugri matvælaframleiðslu á Íslandi. Verkefni næstu áratuga er að framleiða næg matvæli á Íslandi til að fæða þjóðina en jafnframt stuðla að því að matvælaframleiðendur verði kolefnishlutlausir – líkt og samfélagið allt. Stærsta framlag Íslendinga til fæðuöryggis heimsins er sjálfbær nýting auðlinda hafsins og auðlinda íslenskrar náttúru, hvort sem um er að ræða fiskveiðar, landbúnað eða fiskeldi. Til grundvallar þarf að vera hringrás næringarefna og heilnæmi matvæla.

Auka þarf framleiðslu grænmetis innanlands en til landsins er flutt mikið magn grænmetis með flugi. Til þess að það megi verða þarf að jafna dreifingarkostnað raforku og þannig lækka rafmagnskostnað hjá framleiðendum í dreifbýli. Þá þarf að finna fjölbreyttari prótíngjafa sem hægt er að rækta á Íslandi með því að styðja við öflugt rannsóknarstarf á nytjaplöntum. Á norðurslóðum verður búfé alltaf óaðskiljanlegur hluti af sjálfbæru hringrásarhagkerfi.

Eins og staðan er í dag er talið að þriðjungi hráefna og tilbúinna matvæla sé hent. Í hringrásarhagkerfi framtíðarinnar verður að draga úr matarsóun með réttum hvötum á öllum stigum framleiðslu og neyslu. Sérstaklega þarf að huga að því að auka árstíðarbundna neyslu innlendra matvæla og snúa frá neysluhyggju sem leiðir til flutnings á matvælum heimshorna á milli.

Hollur matur er heilbrigðismál
Mataræði er einn af megináhrifaþáttum hinna ýmsu lífsstílssjúkdóma. Stefnan skal ávallt vera sú að auðvelda almenningi að velja hollari valkost í verslunum, veitingahúsum og mötuneytum. Til þess að almenningur geti tekið upplýstar ákvarðanir og hugað að afleiðingum neyslu sinnar á heilsu og umhverfi verða upplýsingar að vera skýrar, hvar sem matvælanna er neytt. Koma þarf upplýsingum um hollustu og kolefnisspor til skila á umbúðum matvæla. Til að það megi verða þarf að stórauka rannsóknir á kolefnisspori innlendra matvæla.

Móta þarf reglur um það hvernig takmarka má markaðssetningu óhollra matvæla, sérstaklega gagnvart börnum. Til þess að það megi verða þarf að stórauka rannsóknir á næringargildi matvæla. Til að hvetja til heilbrigðari neysluhátta gætu stjórnvöld t.d. breytt álögum á matvæli til þess að lækka verð á hollum og umhverfisvænum matvælum á borð við grænmeti og hækka verð á óhollum matvælum og matvælum með með stórt kolefnisspor.

Nýsköpun í hringrásarhagkerfinu
Hringrásarhagkerfið er forsenda fyrir sjálfbærri þróun á komandi áratugum. Öflugir sjóðir þurfa að vera til staðar fyrir bæði vísindamenn og frumkvöðla. Leggja þarf sérstaka áherslu á það að aðstoð við frumkvöðla sé í boði um land allt. Nýsköpun í framleiðslu, úrvinnslu og tækni mun efla verðmætasköpun hringinn í kringum landið og búa til græn störf framtíðarinnar. Með fjölbreyttari atvinnuháttum verða til öflugri samfélög sem aftur leiða af sér frekari suðupott hugmynda og nýsköpunar.

Mikilvægi lífrænnar ræktunnar
Stórauka þarf framleiðslu á lífrænum matvælum á Íslandi enda er lífræn ræktun í sátt við náttúruna og nýtir auðlindir vel. Eitt af meginmarkmiðum lífræns búskapar er að vernda og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni.

Innleiða þarf hugmyndafræði lífræns landbúnaðar um að loka hringrásum næringarefna með heildrænum hætti í alla matvælaframleiðslu, þannig að næringarefni verði endurnýtt eins og kostur er á öllum stigum framleiðslu, flutninga og neyslu. Stefna ber að því að endurnýta næringarefni úr úrgangi, enda má með því móti stíga stórt skref í átt að því að gera innlenda matvælaframleiðslu lífræna í sem mestum mæli.

Örugg matvæli
Matvæli eiga að vera örugg og örugg matvæli þurfa að vera aðgengileg öllum. Neytendur eiga að geta treyst því að matvæli sem þeir kaupa, hvort sem er í stórmarkaði, frá kaupmanninum á horninu eða beint frá bónda, séu örugg og næringarrík og bæði framleiðsla þeirra og verslun með þau fara fram á sanngjarnan hátt við við sem bestar aðstæður, hvort heldur snýr að aðbúnaði verkafólks eða velferð dýra. Þar eru öruggar og rekjanlegar upprunamerkingar lykilatriði. Hafa þarf yfirsýn yfir næringargildi matvæla á markaði og þróun neysluhátta yfir í hollari kost. Þá er einnig mikilvægt að yfirfara löggjöf um merkingar matvæla og hvaða staðhæfingum er leyfilegt að halda fram.

Þekkingarmiðlun um heilnæmi matvæla þarf að taka alvarlega svo að mataræði og lýðheilsa þróist í farsæla átt. Sérstaklega þarf að gæta að því að matur í skólum og í öldrunarþjónustu uppfylli næringarskilyrði en séu ekki tómar hitaeiningar. Gæta þarf að því að allir í samfélaginu hafi völ á því að fá næringarríkan mat, óháð tekjum. Þannig má hvetja skólamötuneyti til að hafa kjötlausa daga til þess að draga út kjötneyslu.

Ónæmi gegn sýklalyfjum hefur farið vaxandi í heiminum síðastliðin ár. Íslenskir framleiðendur hafa hingað til notað ákaflega lítið af sýklalyfjum og þá stöðu þarf að verja. Auknu sýklalyfjaónæmi þarf að mæta með aðgerðum til þess að tryggja öryggi neytenda. Þannig verði Ísland í fararbroddi við að lágmarka áhættuna sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum.

Sveitarfélög og matvælastefna
Mikilvægt er að sveitarfélög setji sér matvælastefnu og hlúi að framleiðendum heima í héraði. Sveitarfélög geta til dæmis gert það að innkaupastefnu sinni að velja alltaf umhverfisvænsta kostinn sem hlýtur að vera sá sem lágmarkar flutninga og þar með kolefnisspor. Með góðu fordæmi gætu neytendur og veitingamenn fylgt í kjölfarið og eflt þannig framleiðslu í héraði og aukið áhuga heimafólks sem og ferðamanna á staðbundnum mat og matargerð.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.