Search
Close this search box.

Matvælastefna

Landsfundur 2023.

Öll matvælaframleiðsla á Íslandi á að verða kolefnishlutlaus árið 2040 og stuðla að bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Leiðin að þessum markmiðum er skilvirk innleiðing hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins en árangursrík innleiðing þess dregur úr losun við framleiðslu og neyslu matvæla. Matvælaframleiðsla á Íslandi á að tryggja fæðu- og matvælaöryggi landsmanna ásamt því að vera í fremstu röð í framleiðslu úrvals matvæla. Stefnumörkun á sviði matvæla á ávallt að vera samræmd annarri stefnumótun stjórnvalda sérstaklega m.t.t. loftslagsmála og verndar líffræðilegrar fjölbreytni.

Stjórnvöld eiga að styðja markvisst matvælaframleiðendur sem hafa góð áhrif á umhverfið og lýðheilsu með framleiðslu sinni og upplýsa neytendur um mikilvægi þess að velja hollan og umhverfisvænan mat. Þannig má bæta afkomu framleiðenda samhliða því að ná markmiðum í lýðheilsu- og loftslagsmálum og tryggja matvælaöryggi til framtíðar.

Sjávarútvegur og landbúnaður standa undir öflugri matvælaframleiðslu á Íslandi. Verkefni næstu áratuga er að treysta fæðuöryggi á Íslandi en jafnframt stuðla að því að matvælaframleiðsla verði kolefnishlutlaus líkt og stefnt er að í samfélaginu öllu. Stærsta framlag Íslands til fæðuöryggis í heiminum er sjálfbær nýting auðlinda hafsins og íslenskrar náttúru, hvort sem um er að ræða fiskveiðar, landbúnað eða fiskeldi. Til grundvallar þarf að vera hringrás næringarefna og heilnæmi matvæla.

  • Auka þarf framleiðslu grænmetis innanlands. Til þess að það megi verða þarf að jafna dreifingarkostnað raforku og þannig lækka rafmagnskostnað hjá framleiðendum í dreifbýli.
  • Finna þarf fjölbreyttari prótíngjafa sem hægt er að rækta á Íslandi með því að styðja við öflugt rannsóknarstarf í matvælaframleiðslu til að mynda á skordýrum, einfrumungum, nytjaplöntum og þörungum.
  • Draga verður úr matarsóun með réttum hvötum á öllum stigum framleiðslu og neyslu m.a. með fræðslu og upplýsingum til neytenda. Sérstaklega þarf að huga að því að auka árstíðarbundna neyslu innlendra matvæla og snúa frá neysluhyggju sem leiðir til flutnings á matvælum heimshorna á milli. Mikilvægt er að draga úr brottkasti og sóun hvers konar.
  • Matvælaframleiðsla á að byggja á fullnýtingu afurða þannig að virðisaukning þeirra verði sem mest og umhverfisáhrif af framleiðslunni sem minnst.
  • Með því að framleiða áburð úr lífrænum úrgangi mætti gera stærstan hluta innlendrar landbúnaðarframleiðslu sjálfbæran. Jafnframt þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við flutning matvæla.

Hollur matur er heilbrigðismál

Mataræði er einn af megináhrifaþáttum hinna ýmsu lífsstílssjúkdóma. Mikilvægt er að auðvelda almenningi að velja hollari valkost í verslunum, mötuneytum og á veitingahúsum.

  • Innihaldslýsingar og kolefnisspor matvæla þurfa að vera skýrar á umbúðum. Mikilvægt er að stórauka rannsóknir á kolefnisspori innlendra matvæla.
  • Móta þarf reglur um hvernig takmarka má markaðssetningu óhollra matvæla, sérstaklega gagnvart börnum. Hvetja þarf til neyslu á hollum matvælum á kostnað óhollari matvæla. Draga þarf úr neyslu kjöts sem framleitt er með ósjálfbærum hætti.
  • Stórauka þarf innlendar rannsóknir á næringargildi matvæla og eftirlit með heilbrigði þeirra. Til að hvetja til heilbrigðari neysluhátta gætu stjórnvöld lækkað verð á hollum og umhverfisvænum mat á borð við grænmeti og hækkað verð á óhollum mat og matvælum með stórt kolefnisspor.
  • Brýnt er að sveitarfélög setji sér matvælastefnu sem styður við framleiðendur í héraði.

Nýsköpun í hringrásarhagkerfinu

Hringrásarhagkerfið er forsenda fyrir sjálfbærri þróun á komandi áratugum. Öflugir sjóðir þurfa að vera til staðar fyrir bæði vísindamenn og frumkvöðla. Leggja þarf sérstaka áherslu á það að aðstoð við frumkvöðla sé í boði um land allt. Nýsköpun í framleiðslu, úrvinnslu og tækni mun efla verðmætasköpun hringinn í kringum landið og búa til græn störf framtíðarinnar. Með fjölbreyttari atvinnuháttum verða til öflugri samfélög sem aftur leiða af sér frekari suðupott hugmynda og nýsköpunar.

  • Stórauka þarf framleiðslu á lífrænum matvælum á Íslandi enda er lífræn ræktun í sátt við náttúruna og nýtir auðlindir vel. Eitt af meginmarkmiðum lífræns búskapar er að vernda og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni.
  • Innleiða þarf hugmyndafræði lífræns landbúnaðar um að loka hringrásum næringarefna með heildrænum hætti í allri matvælaframleiðslu þannig að næringarefni verði endurnýtt eins og kostur er á öllum stigum framleiðslu, flutninga og neyslu.
  • Stefna ber að því að endurnýta næringarefni enda má með því móti stíga stórt skref í átt að því að gera innlenda matvælaframleiðslu lífræna í sem mestum mæli.
  • Fullvinnsla afurða og næringarefna í matvælaframleiðslu er kjarninn í hringrásarhagkerfinu. Það sem ekki sem nýtist til mann- eða dýraeldis getur nýst sem lífrænn áburður. Regluverk þarf að tryggja fullnýtingu allra næringarefna og má ekki verða hindrun í þróun nýrra matvæla- og fóðurefna.

Matvælaöryggi

  • Matvæli eiga að vera örugg og aðgengileg öllum. Neytendur eiga að geta treyst því að matvæli sem þeir kaupa séu örugg og næringarrík. Framleiðsla og viðskipti með þau eiga að fara fram með sanngjörnum hætti (e. Fairtrade) og hafa góðan aðbúnað verkafólks og bænda og dýravelferð að leiðarljósi.
  • Mikilvægt er að tryggja innlendar rannsóknir og þjónustu á sviði dýraheilbrigðis- og dýravelferðar.
  • Tryggja þarf örugga og aðgengilega dýralæknaþjónustu um allt land.
  • Upprunamerkingar matvæla eiga að vera öruggar og rekjanlegar og endurskoða þarf reglur um þær.
  • Leggja þarf meiri áherslu á fræðslu um heilnæmi matvæla svo að mataræði og lýðheilsa þróist í farsæla átt.
  • Gæta þarf að því að allir í samfélaginu hafi völ á því að fá næringarríkan mat, óháð tekjum. Sérstaklega þarf að gæta að því að matur í skólum, öldrunarþjónustu og öðrum stofnunum taki mið af ráðleggingum embættis landlæknis og neysla hans stuðli að minna kolefnisspori.
  • Viðhalda þarf sterkri stöðu Íslands við að lágmarka áhættuna sem felst í sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum á grundvelli hugmyndafræði Einnar heilsu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search