Landbúnaður

Deildu 

Share on facebook
Share on twitter

Innlendur landbúnaður er grunnþáttur í því að byggja sjálfbært samfélag á Íslandi, að þjóðin sé sjálfri sér næg um matvæli í eins ríkum mæli og aðstæður hér leyfa sem og að fæðuöryggi sé tryggt. Innlendur landbúnaður snýst því um að auka lífsgæði allra landsmanna og tryggja búsetuskilyrði fyrir samfélagið allt. Landbúnaður er mikilvægur hluti af sögu og menningararfi þjóðarinnar og ber að rækta sem slíkan auk þess sem byggð í strjálbýli er samofin tilvist landbúnaðarins.

Besta leiðin til að efla byggðahlutverk landbúnaðarins er að styrkja nýsköpun og skapa þannig ný verðmæti og störf með fjölbreyttum hætti um land allt. Landið býr yfir ákveðnum gæðum sem miklu skiptir að nýta með sjálfbærum hætti. Tímabært er að auka hlut innlendrar endurnýjanlegrar orku í landbúnaðarframleiðslu. Kraftmikill landbúnaður er því brýnt samfélags- og umhverfismál.

Mikilvægt er að landbúnaðurinn og öll önnur landnýting þróist í sátt við umhverfið og á grundvelli viðhorfa um sjálfbæra þróun í búskaparháttum og góður aðbúnaður búfjár verði ávallt í öndvegi. Allur íslenskur landbúnaður þarf að standast strangar gæðakröfur. Stefna skal að því að uppfylla þarfir og óskir neytenda um lífrænar landbúnaðarafurðir og efla stuðning við þær.

Menntun og rannsóknir

Menntun og rannsóknir eru undirstaða framþróunar og nýsköpunar í öllum atvinnuvegum. Er landbúnaður þar ekki undanskilinn. Íslendingar búa vel að því að eiga öfluga háskóla og rannsóknarstofnanir sem hafa sinnt þessu fagsviði og er full ástæða til að styrkja starf þeirra enn frekar.

Tryggja og efla þarf gott og fjölbreytt framboð á starfsmenntun í búfræði og garðyrkju sem og öfluga háskólamenntun á sviði landbúnaðar. Mikilvægt er að landbúnaðarháskólarnir starfi með öðrum háskólastofnunum að þróun menntunar og rannsókna. Efla þarf fræðslu í leik- og grunnskólum um landbúnað og matvælaframleiðslu sem hluta af sjálfbærnimenntun.

Tryggja þarf öflugar grunnrannsóknir og þróunarrannsóknir á sviði landbúnaðar, sérstaklega í átt að sjálfbærum og lífrænum landbúnaði og tryggja aðgengi að virkum heilbrigðisrannsóknum, eins og annarra atvinnuvega. Sameina á þá sjóði sem sinnt hafa einstökum atvinnugreinum. Þar með yrðu atvinnuvegarannsóknir allar undir einum hatti, fagleg gæði tryggð og möguleikar auknir á þverfaglegum rannsóknum en landbúnaðarrannsóknir standa nú þegar mjög framarlega í flokki í íslensku fræðasamfélagi. Um leið er mikilvægt að hafa áfram sérstakan styrktarsjóð fyrir smá og hagnýt verkefni á sviði landbúnaðar. Skoða þarf hvort slíkur landbúnaðarsjóður yrði fjármagnaður af tollum eða umhverfisgjöldum á sviði landbúnaðar.

Landnýting og dýravelferð

Land og jarðvegur eru auðlindir sem Íslendingar eiga í ríkum mæli með hliðsjón af fólksfjölda. Það er samfélagsleg skylda að landnýting sé með sjálfbærum hætti og tryggja þarf í skipulagi að ræktarland fari ekki undir aðra starfsemi en landbúnaðarframleiðslu. Skipuleg skráning ræktaðs og ræktanlegs lands þarf að fara fram sem liður í aðgerðum til verndar þess. Hefja þarf vinnu við rammaáætlun um landnýtingu, meðal annars með þetta að markmiði, auk þess sem virk beitarstjórnun í öllum landsfjórðungum, sjálfbærni og náttúruvernd verði lykilþættir.

Koma verður í veg fyrir óeðlilega samþjöppun í landbúnaði, t.d. með því að setja ákveðnar hömlur á eignarhald stórra lögaðila á mörgum jörðum, en um leið varast þá þróun að landinu sé skipt upp í smáskammta í tengslum við frístundabyggð og áhugabúskap. Ríkið hætti við sölu á ríkisjörðum í fullum rekstri en noti þær í staðinn til útleigu fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa við landbúnað.

Þá skiptir miklu að stuðla að grænum búskaparháttum og dýravelferð og tengja það landbúnaðarstyrkjum. Lög og reglugerðir um dýravelferð og aðbúnað ættu ávallt að byggjast á nýjustu rannsóknum, fylgja siðferðilegum viðmiðum og vera í takt við það sem best gerist erlendis. Þá þurfa að vera skýr ákvæði um hvernig taka skal á brotum á reglum um dýravernd og búfjárhald, ævinlega með velferð dýranna í fyrirrúmi.

Starfsumhverfi og kjör

Mikilvægt er að stuðningskerfi landbúnaðarins sé til stöðugrar umræðu og endurskoðunar. Markmið ríkisins með stuðningi sínum er í senn að tryggja neytendum örugg og góð matvæli á hagstæðu verði og að viðhalda byggð um landið allt. Ljóst er að til að tryggja matvæla- og fæðuöryggi þarf hið opinbera að styðja við landbúnað og matvælaframleiðslu. Eðlilegt er að viðhalda framleiðslustyrkjum til að uppfylla neysluþörf á innanlandsmarkaði en breyta þarf hluta þeirra í fjárfestingastyrki þannig að bændur geti byggt upp og þróað framleiðslu sína. Styrkir þurfa að renna til þeirra sem standast gæðakröfur og efla þarf gæðatengingu styrkjakerfisins.

Tryggja þarf að garðyrkjubændur sem nýta raforku til lýsingar gróðurhúsa fái orkuna á sambærilegu verði og aðrir stórkaupendur. Þeim verði þannig gert kleift að auka markaðshlutdeild sína á innlendum markaði og eftir atvikum flytja út afurðir sínar.

Setja þarf viðmið um hámarkshlut einstakra aðila af heildarframleiðslurétti eða –magni innan hverrar búgreinar sem nýtur ríkisstuðnings. Jafnframt verði réttur til framleiðslustuðnings bundinn við búsetu á lögbýlum en ekki aðeins eignarhald. Skoða þarf hvort lækka eigi stuðning áður en þakinu er náð.

Fæðu- og matvælaöryggi

Kortleggja þarf skipulega hvernig Ísland getur reitt sig á innlenda matvælaframleiðslu með umfangsmeiri hætti en nú er. Skal stefna að því að innlend landbúnaðarframleiðsla anni innlendri eftirspurn eftir landbúnaðarafurðum til að tryggja fæðuöryggi (að þjóðin sé sjálfri sér næg um matvæli) og matvælaöryggi (að innlend matvæli séu örugg til neyslu). Sérstaklega þarf að líta til kornræktunar auk búfjárræktar og garðyrkju.

Endurskoða þarf reglur um slátrun og flutning á sláturfé þar sem viðhafa þarf sjónarmið um dýravelferð og umhverfiskostnað. Tryggja þarf að bændur geti sótt í sláturhús innan tiltekinna fjarlægðarmarka, hugsanlega með því að koma á laggirnar færanlegu sláturhúsi. Hafa þarf reglur um fullvinnslu afurða þannig úr garði gerðar að heimaunnin matvæli verði raunhæfur kostur þeirra bænda sem kjósa að selja sína vöru sjálfir.

Þegar kemur að því grundvallarverkefni að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika hefur landbúnaðurinn lykilhlutverki að gegna. Standa þarf vörð um íslenska búfjárstofna og íslenska flóru enda mikilvægur þáttur í líffræðilegri fjölbreytni heimsins. Íslensk fána og flóra njóti alltaf vafans þegar taka á afstöðu til innflutnings. Takmarka þarf notkun eiturefna í landbúnaði eins og kostur er.

Móta þarf framleiðslustefnu í lífrænum landbúnaði þar sem tryggðir verða aðlögunarstyrkir til lífrænna ræktenda. Stefna skal að því að framboð á lífrænt ræktuðum landbúnaðarvörum sé í takt við eftirspurnina. Ryðja þarf hömlum úr vegi sem koma í veg fyrir að bændur geti tekið upp lífrænan landbúnað, m.a. með því að tryggja slátrun með lífræna vottun í öllum landshlutum.

Viðhafa þarf skýra varúðarreglu ef erfðabreyttútiræktun verður gerð heimil í ljósi þess að þekking og reynsla er enn mjög takmörkuð. Setja þarf skýrt verklag um hvernig fara eigi með umsóknir þar að lútandi þannig að óháðir aðilar meti umsóknir og veiti ekki leyfi nema hafið sé yfir allan vafa að útiræktun geti ekki stefnt annarri ræktun eða náttúrulegu gróðurfari í voða. Varast þarf að leggja út á braut einkaleyfa og markaðsvæðingar þegar svo ríkir almannahagsmunir eru í húfi. Tryggja þarf framboð á kjarnfóðri sem er með vottun um að það innihaldi ekki afurðir af erfðabreyttum plöntum vera óerfðabreytt.

Skoða þarf kosti og galla þess að leggja umhverfisgjöld á innfluttar landbúnaðarafurðir. Þar með myndu neytendur átta sig á vistspori ólíkra afurða og greiða verð sem passar við það. Slík álagning myndi í senn efla umhverfisvitund neytenda og styrkja stöðu innlendra landbúnaðarafurða.

Markaðssetning og neytendavernd

Upprunamerking er mikilvæg í markaðssetningu íslenskra landbúnaðarafurða innanlands og erlendis en líka liður í öflugri neytendavernd. Því er mikilvægt að setja lög um upprunamerkingu landbúnaðarvara þar sem innihald er nákvæmlega tilgreint eftir uppruna til að koma í veg fyrir misnotkun slíkra merkinga. Regluverkið þarf að eiga bæði við framleiðendur, vinnslustöðvar og smásölu þannig að keðjan sé órofin. Tryggja þarf fullnægjandi merkingar á afurðum og aðföngum, innlendum jafnt sem innfluttum, m.t.t. notkunar erfðabreyttra lífvera við framleiðsluna.

Markaðssetning á Íslandi þarf að hluta til að tengjast innlendum matvælum og sérstaklega svæðisbundnum matvælum. Hluti af ferðamálastefnu Íslendinga á að byggja á staðbundinni ferðaþjónustu og efla þarf upplýsingamiðlun um hana.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.