Landbúnaður

Landsfundur 2021.

Framtíðarsýn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er að landbúnaður á Íslandi verði kolefnishlutlaus, stundaður í sátt við náttúruna með sjálfbæra nýtingu lands og velferð dýra í forgrunni. Hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla á diskum landsmanna verði hærra en nú er. Búseta í dreifbýli hafi styrkst og fleiri stoðir verði undir landbúnaði en nú eru. Landbúnaður verði órjúfanlegur þáttur í sjálfbæru samfélagi á Íslandi og verðmætasköpun í hinum dreifðu byggðum. Tengsl bænda og neytenda séu góð sem endurspeglist í því að bændur hafi sanngjarna afkomu og neytendur borgi sanngjarnt verð fyrir afurðir þeirra. Til að ná þessari framtíðarsýn þarf að stíga ákveðin skref í átt að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Loftslagsmál og náttúruvernd

  • Til að landbúnaðurinn nái kolefnishlutleysi þarf að draga úr losun og auka bindingu. Bæta þarf kolefnisbókhald og beita hagrænum hvötum til þess að hvetja bændur til að taka upp búskaparhætti í þágu loftslagsins. Auka þarf enn frekar fjármuni til þess að mæta þessari áskorun og tímasetja vörður á leiðinni að settu marki.
  • Stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði kemur frá búfé. Efla þarf rannsóknir og þróun aðferða í búfjárrækt, svo sem við að bæta fóðrun, svo draga megi úr losun frá iðragerjun.
  • Orkuskipti þurfa að eiga sér stað í landbúnaði.
  • Til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis þarf að auka enn frekar hvata til endurheimtar vistkerfa s.s. með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis.
  • Viðvarandi viðfangsefni er að nýting beitarlands sé með sjálfbærum hætti og uppfæra þarf reglugerðir um gæðastýringu til þess að taka mið af bestu vísindalegri þekkingu í þeim málum. Beita þarf hagrænum hvötum í búvörusamningum til að bæta beitarstýringu í úthaga, heimalöndum og afréttum. Brýnt er að koma upp beitarhólfum og friða land sem ekki er hæft til beitar.
  • Við skipulag lands þarf að huga að því að fjölþætt markmið geta verið með skógrækt, hvort sem þar er um að ræða endurheimt vistkerfa, ræktun kolefnisskógar til bindingar eða skógrækt til iðnaðarnota. Huga þarf að jafnvægi milli þessarar markmiða, samræmi við náttúruverndarsjónarmið og framtíðarásýnd lands. Ágengum og framandi tegundum skal ekki dreift í óspilltri náttúru.
  • Gæta verður fyllsta öryggis þar sem unnið er með erfðabreyttar lífverur, örverur, plöntur og dýr, til að fyrirbyggja hvers kyns blöndun eða óæskilega mengun við umhverfi og lífríki Íslands. Brýnt er að lágmarka áhættu fyrir íslenska náttúru og líffræðilega fjölbreytni landsins og til þess þurfa stjórnvöld að móta heildarstefnu um notkun erfðabreyttra lífvera með aðkomu vísindafólks, framleiðenda og annarra hagsmunaaðila. Náttúran skal njóta vafans og tryggja verður að framleiðsla og notkun erfðabreyttra lífvera fari fram á siðferðilega og samfélagslega ábyrgan hátt. Ræktun erfðabreyttra lífvera skal ekki skaða eða hamla ræktun annarra, s.s. ræktun lífrænna afurða.
  • Bændur eru vörslumenn lands og því þarf að skapa tækifæri og styrkja möguleika þeirra til að byggja afkomu sína á náttúruvernd, t.a.m. með varðveislu og endurheimt landgæða fyrir komandi kynslóðir eða umsjón friðaðra svæða.
  • Sóknarfæri eru í hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, m.a. til lífrænnar framleiðslu. Draga þarf úr notkun tilbúins áburðarvegna stórs kolefnisspors og mikilvægt er að auka hlutfall lífræns áburðar með betri nýtingu á auðlindastraumum.

Starfsumhverfi og kjör

Markmið stuðnings við landbúnað þarf að skýra þannig að horft sé í meiri mæli til þess að bæta afkomu bænda, efla innlenda framleiðslu í þágu fæðuöryggis, uppfylla neysluþörf á innanlandsmarkaði og að landbúnaður sé stundaður með sjálfbærum hætti með umhverfis- og loftslagsmál að leiðarljósi.

  • Samfélögum í dreifbýli verður ekki viðhaldið nema nýliðun sé tryggð. Styðja þarf nýliða með öflugri hætti, sér í lagi þá sem hefja sjálfbæran búskap. Stuðningur við landbúnað þarf að vera framsækinn og grundvallast á því að styrkja fjölskyldubú og að dregið verði úr stuðningi með aukinni stærð búa.
  • Styðja þarf við ræktun á fleiri tegundum landbúnaðarvara en nú er gert, einkum garðyrkju og akuryrkju, og tryggja hagræna hvata til loftslagsvænni búskaparhátta. Gera þarf umbætur á næstu búvörusamningum m.t.t. þessa í góðu samráði við haghafa. Efla þarf útiræktun til muna.
  • Tryggja þarf að garðyrkjubændur fái raforku á sambærilegu verði og aðrir stórkaupendur til lýsingar gróðurhúsa. Beina þarf þegar framleiddri orku í aukna grænmetisrækt.
  • Auka þarf hlutdeild afurða með lítið vistspor og lífrænna afurða í neyslu. Til þess má beita opinberri stefnumótun og mælanlegum markmiðum, s.s. í innkaupastefnu ríkis og sveitarfélaga.
  • Greina þarf hvort umhverfisgjöld á innflutt matvæli með stórt vistspor geti stuðlað að kolefnishlutleysi og séu raunhæf í framkvæmd. Gæta þarf að hagsmunum framleiðenda og neytenda við gerð viðskiptasamninga þannig að innlendum hagsmunum sé ekki fórnað s.s. með ójafnræði í inn- og útflutningsheimildum.
  • Halda verður áfram þeirri mikilvægu vinnu sem staðið hefur yfir við að reisa skorður við samþjöppun á landi í hendur fárra. Jarðnæði er auðlind og mikilvægt að gætt sé almannahagsmuna við nýtingu þeirrar auðlindar sem og annarra og sporna verður við því að safnist á hendur fárra.

 

Ný hugsun – ný tækifæri

  • Til þess að treysta fæðuöryggi þurfa stjórnvöld að setja sér metnaðarfull markmið í að auka hlutfall hollra og næringarríkra innlendra matvæla. Með tryggu aðgengi að matvælum úr innlendri framleiðslu getum við stuðlað að heilnæmi matvara og auknu matvælaöryggi, t.a.m. í ljósi sýklalyfjanotkunar. Hækka þarf verulega hlutfall innlendrar framleiðslu á grænmeti svo það nái 60% af framboði á markaði fyrir árið 2025.
  • Með aukinni tæknivæðingu hefur bændum í hefðbundnum búskap fækkað. Til þess að búseta í dreifbýli dragist ekki saman með keðjuverkandi áhrifum á byggðafestu þarf að skjóta fleiri stoðum undir landbúnað. Nýsköpun og rannsóknir gegna lykilhlutverki í að styrkja stoðir landbúnaðarins.
  • Mikilvægt er að starfsmennta- og háskólar í landbúnaði séu öflugir og í fararbroddi í rannsóknum á sviði landbúnaðar og umhverfismála, s.s. í þágu loftslagsmála, náttúruverndar, landgæða og nýsköpunar í framleiðslu. Brýnt er að rannsóknir séu stundaðar þar sem kennsla fer fram.
  • Ræktun nýrra tegunda nytjajurta, sér í lagi í grænmetisframleiðslu, ásamt uppbyggingu akuryrkju í sátt við náttúruna getur dregið úr þörf á innfluttum aðföngum, minnkað kolefnisspor og treyst fæðuöryggi.
  • Lífræn ræktun er í sátt við náttúruna og í henni felast sóknarfæri. Móta þarf heildstæða aðgerðaáætlun til að auka lífræna framleiðslu. Beina þarf fjármagni í búvörusamningum í auknum mæli til lífrænna búskaparhátta með viðbótarstuðningi og auka hlutfall ræktunarlands í vottaðri lífrænni ræktun svo það verði 10% árið 2030. Efla þarf rannsóknir, ráðgjöf og fræðslu um lífræna framleiðslu.
  • Skapa þarf þau skilyrði að hægt sé að stunda nýsköpun í framleiðslu á landbúnaðarvörum og starfrækja minni sláturhús vítt og breitt um landið, t.d. færanleg sláturhús, svo ekki þurfi að flytja dýr um langan veg. Skapa þarf betri skilyrði fyrir sölu afurða beint frá býli þar sem rekjanleiki er alger.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að:

  • Íslenskur landbúnaður verði kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og kolefnisbinding með endurheimt vistkerfa aukin
  • Stutt verði við orkuskipti í landbúnaði
  • Hagrænir hvatar stuðli að sjáfbærri búfjárbeit
  • Bændur geti eflt afkomu sína með því að stunda náttúruvernd á eigin landi og stuðlað að endurheimt landgæða
  • Stuðningur í landbúnaði sé framsækinn og að hann minnki með stærð búa
  • Við endurskoðun búvörusamninga sé lögð áhersla á hagræna hvata í þágu loftslagsins og aukinn stuðning við lífræna búskaparhætti
  • Áhrif umhverfisgjalda á innflutt matvæli með stórt vistspor verði greind
  • Starfsmennta- og háskólar í landbúnaði verði í fararbroddi í rannsóknum og nýsköpun
  • Mótuð verði heildstæð aðgerðaáætlun um lífræna framleiðslu og að hlutfall ræktunarlands í vottaðri lífrænni ræktun verði 10% árið 2030
  • Stuðningur við nýliðun í landbúnaði verði efldur og bændur njóti stuðnings til frekari nýsköpunar og fjölbreyttari framleiðslu

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.