Search
Close this search box.

Stefnuyfirlýsing hreyfingarinnar

6 febrúar árið 1999 var stefnuyfirlýsing vinstri grænna samþykkt á stofnfundinum. Þá var lögð aðaláhersla á félagshyggju og umhverfisvernd. En á landsfundi árið 2005 var ný stefnuyfirlýsing samþykkt, þá var kvenfrelsi og alþjóðarstefnu bætt við. 

Vinstri græn beita sér fyrir rótækum þjóðfélagsumbótum og náttúruvernd. Vinstri græn vilja útrýma kynjamisrétti og tryggja jafnrétti, kvenfrelsi og aukinn jöfnuð í samfélaginu.

Umhverfismál

Hreyfingin vill byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag. Hún hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum. Vinstri græn telja her á landinu óþarfan og vilja eiga friðsamlegt samstarf við allar þjóðir og tryggja sjálfbæra þróun samfélagsins og þá finnst þeim mikilvægt að vernda náttúruna. Mikilvægt er að atvinnuvegir og fyrirtæki lagi sér að kröfum um sjálfbæra þróun og vistvæn framleiðsluferli. Vinstri græn eru á móti mengandi stóriðju sem veldur mikilli röskun í náttúruunni. Við verðum að fara vel með náttúruauðlindir okkar til að eyðileggja ekki fyrir komandi kynslóðum. Skattkerfið á einnig að hvetja til umhverfisverndar. Við styðjum vistvænar fiskveiðar og vernd uppvaxtarsvæða nytjafiska. Vernd hafsins er úrslitaatriði fyrir Íslendinga.

Jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar

Jafnrétti, félagslegt réttlæti og efling byggðar: Allir eiga að vera jafnir óháð kynferði, kynhneigð, trúar, litarháttar og uppruna og aðstaða fyrir alla óháð búsetu og félagslegrar stöðu á að vera sem jöfnust. Kjör öryrkja og aldraðra verður að bæta. Börn eiga að hafa rétt til að njóta samvista við foreldra sína og því þarf að bæta þátttöku feðra í uppeldi barna sinna. Hindra verður að allir flytji úr sveitunum í bæinn með því að bæta kjör landsbyggðarfólks, t.d. í sambandi við námskostnað, húshitun og vöruverð. 40 stunda vinnuvika á að duga til eðlilegrar framfærslu, því þarf að tryggja réttláta tekjuskiptingu.

Kvenfrelsi

Hreyfingin vill samfélag þar sem bæði konur og karlar fá að njóta sín og engum sé mismunað eftir kyni. Karlar þurfa að afsala sér forréttindum sem þeir hafa tekið í arf til þess að fullt formlegt og félagslegt réttlæti náist. Kynjafræði ætti að vera sjálfsagður hluti af skólakerfinu, hvetja þarf ungt fólk til að lagfæra misréttið. Laun eiga að vera ákvörðuð eftir hvaða verk er unnið ekki eftir því hver vinnur það. Líkaminn má aldrei vera söluvara. Konur eiga rétt á kynferðislegu sjálfstæði. Stjórnvöld eiga að tryggja konum og börnum öryggi gegn öllu ofbeldi. 

Samfélag og atvinnulíf

Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill efla samfélagsþjónustu og velferðarkerfi og tryggja að fjárhagsleg staða fólks skerði aldrei möguleika þess til að njóta opinberrar þjónustu og félagslegs öryggis. Meginstoðir velferðarkerfisins eiga að heyra beint undir ríki og sveitarfélög. Bæta þarf stöðu fjölskyldunnar og auka möguleika fólks með ung börn til samveru. Draga verður úr tekjutengingu og jaðaráhrifum í skattkerfinu og almannatryggingum. Atvinnulífið verður að vera fjölbreyttara og nýta þarf umhverfisvæna tækni. Atvinnufyrirtæki eiga að greiða eðlilega hlutdeild af hagnaði sínum í sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Koma þarf í veg fyrir einkavæðingu. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu.

Sjálfstæð utanríkisstefna, félagsleg alþjóðahyggja

Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu. Mikilvægt er að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku- sýkla- og efnavopnum og banna umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Beina verður aukinni athygli að umhverfisöryggi og vernda hafið fyrir úrgangi frá kjarnorkuverum og herstöðvum. Vinstri grænir vilja efla starfsemi sameinuðu þjóðanna og auka þátttöku almennra félagasamtaka í stefnumörkum alþjóðamála. Ísland á að leggja sitt að mörkum til að útrýma fátækt og hungri, félagslegu ranglæti, misskiptingu auðs, kynþáttamismunun, mannréttindabrotum og hernaðarhyggju. Allir jarðarbúar eiga að vera jafnir og lifa í sátt og allir eiga að eiga rétt og tækifæri til að nýta auðlindir sínar. Samskipti við Evrópusambandið ber að þróa í átt til samninga um viðskipti og samvinnu, m.a. á sviði menntamála, vinnumarkaðsmála og umhverfismála. Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað. Hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja eru í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans, miðstýring, skrifræði og skortur á lýðræði einkennir stofnanir þess um of. Vinstrihreyfingin – grænt framboð lýsir stuðningi við hvers kyns friðsamlega baráttu fyrir félagslegu réttlæti án landamæra og jafnframt vilja sínum til að taka þátt í þeirri baráttu hérlendis sem erlendis.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search