Search
Close this search box.

Orkumál

Landsfundur 2023.

Orkunýting á Íslandi á að byggja á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, þar sem orka landsins er nýtt til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Náttúran skal ávallt njóta vafans við orkuöflun og flutning. Orka telst til grunnþarfa í nútíma samfélagi rétt eins og hreint vatn, húshitun og fjarskipti. Flutningskerfi hennar á að vera hluti af sameiginlegum innviðum sem almenningur getur treyst á. Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á sjálfbæra forgangsröðun þegar framleiddrar orku. Greiða þarf tilhlýðilegt afgjald þegar auðlindir í eigu þjóðarinnar eru nýttar. Orkuöflun þarf að lúta lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun og lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Orku til allra landsmanna

  • Allir landsmenn eiga að búa við gott aðgengi að raforku, fullnægjandi afhendingaröryggi og jafnan dreifingarkostnað. Samræma þarf í lögum og reglugerðum skilgreiningar á afhendingaröryggi og setja þarf lagaákvæði um ábyrgð orkufyrirtækja til að uppfylla orkuþörf fólksins í landinu.
  • Krafa skal gerð til stórnotenda að greitt sé tilhlýðilegt verð fyrir orkuna sem og allan kostnað við flutning og afhendingu hennar. Eigendastefna Landsvirkjunar, sem og annarra orkufyrirtækja í opinberri eigu, þarf að taka mið af þessu.
  • Styrkja þarf flutningskerfi raforku til að tryggja afhendingaröryggi og jafnt aðgengi til orkuskipta um allt land.
  • Við verðlagningu raforku þarf að tryggja neytendavernd orkuverðs gagnvart heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Slík verðlagning á ekki að taka mið af hagnaðarkröfu opinberra orkufyrirtækja og annarra orkuframleiðenda.
  • Leggja verður sérstaka áherslu á að lækka raforkukostnað innlendrar matvælaframleiðslu svo sem garðyrkju til að auka sjálfbærni samfélagsins og matvælaöryggi þjóðarinnar.
  • Íslensk stjórnvöld og fyrirtæki í opinberri eigu skulu ekki stunda sölu upprunaábyrgða til aðila innan ESB. Þá þurfa þau að leggja áherslu á raunverulegt gagnsæi í kolefnisbókhaldi.
  • Ekki skal greiða götu erlendra fyrirtækja að orkuauðlindum Íslands.

Orkuöflun í sátt við samfélag og náttúru

  • Umhverfisrannsóknir og náttúruverndarsjónarmið eiga að vera grundvöllur fyrir ákvörðunum um uppbyggingu orkumannvirkja. Sjálfbærni skal höfð að leiðarljósi í orkuöflun og gæta verður varúðar- og verndarsjónarmiða við hana.
  • Taka ber viðmið um svokallaðar smávirkjanir til gagngerrar endurskoðunar og breyta þannig að við ákvarðanir um þær verði horft til mögulegra umhverfisáhrifa í stað uppsetts afls.
  • Horfa skal sérstaklega til mikilvægis óbyggðra víðerna, náttúruminja og ásýndar lands við ákvarðanir um uppbyggingu orkumannvirkja. Byggja þarf þær ákvarðanir á landupplýsingum og afla gagna fagaðila um viðmið og forsendur verndar óbyggðra víðerna og vistkerfa. Á svæðum þar sem miklir náttúruverndarhagsmunir eru undir ber að friða svæðið fyrir orkuvinnslu og línulögnum.
  • Stórvirkjanir í þágu mengandi stóriðju samrýmast ekki sjálfbærri orkustefnu. Herða þarf kröfur á stóriðjuver hérlendis um að taka meiri ábyrgð og draga verulega úr orkunotkun og mengun á öllum sviðum.
  • Vinna skal gegn öllum hugmyndum varðandi orkusölu um sæstreng til annarra landa en slíkur strengur og útflutningur á rafeldsneyti kallar á fleiri virkjanir og raskar þannig verðmætum víðernum, náttúruminjum og ógnar líffræðilegri fjölbreytni. Það er forgangsmál að framleiðsla á raforku sé til uppbyggingar á grænu og kolefnishlutlausu samfélagi innan lands í þágu orkuskipta. Útflutningur á raforku mun gera grænni starfsemi á Íslandi erfitt að afla sér orku á samkeppnishæfu verði.
  • Eigi nýjar virkjanir að ná markmiðum Íslands um full orkuskipti fyrir árið 2040 verður að ríkja sátt um það hvernig og hvar orkunnar er aflað. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í sátt við samfélagið. Kalla þarf eftir afstöðu almennings og félagasamtaka m.t.t. náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða vegna þessa.
  • Áhersla skal vera á betri orkunýtingu og minna orkutap í kerfum, bæta þarf nýtingu í virkjunum sem fyrir eru og horfa til nýrrar tækni og aðferða við orkuöflun.
  • Leita þarf sjálfbærari leiða við nýtingu vatnsafls, efla rannsóknir á nýjum orkulindum og taka þátt í þróun og framleiðslu vetnis, metans og lífeldsneytis sem mögulegs orkugjafa til framtíðar að teknu tilliti til náttúruverndar.
  • Gera skal þá ófrávíkjanlegu kröfu við áætlanagerð, skipulagningu og uppbyggingu orkumannvirkja að sveitarfélög og framkvæmdaaðilar sýni samfélagslega ábyrgð.
  • Brýnt er að framkvæmdir skapi ekki sundrungu og togstreitu meðal heimamanna.
  • Rafmyntargröftur og önnur orkufrek starfsemi sem ekki nýtist til uppbyggingar græns og sjálfbærs samfélags er orkusóun sem minnka þarf í áföngum og hætta fyrir árið 2030.

Orkuskipti

  • Meta þarf orkuþörf landsins til framtíðar af aðilum sem ekki hafa hagsmuna að gæta.
  • Tryggja þarf forsendur hraðra orkuskipta á landinu með nauðsynlegu fjármagni, skipulagningu og vísindarannsóknum.
  • Forgangsraða þarf orkunýtingu í þágu innlendra orkuskipta og flýta þarf útfösun á jarðefnaeldsneyti svo Ísland verði óháð því eigi síðar en 2040.
  • Binda skal framleiðslu á rafeldsneyti við innanlandsmarkað til að tryggja innlend orkuskipti.
  • Áhersla skal vera á að öll samgöngutæki í almannaeigu gangi fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Fækka þarf verulega farartækjum sem knúin eru með hefðbundnu jarðefnaeldsneyti.
  • Taka verður upp hvatakerfi með það í huga að vinnuvélar og stórir bílar geti skipt yfir í hreinni orkugjafa og flýta þarf sérstaklega rafvæðingu hafna með sérstakri gjaldtöku á skemmtiferðaskip til að mæta þeim kostnaði. Fylgja þarf eftir reglugerð um bann við notkun svartolíu í landhelgi Íslands.
  • Þá verður að flýta orkuskiptum í flugi. Setja þarf innanlandsflugi raunhæf tímamörk í orkuskiptum.

Vindorka

  • Marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku á landi og hafi í íslenskri lögsögu og setja þarf skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuvirkjunum sem renna á til samfélagsins alls. Skýrar reglur þurfa að gilda um vindorkuver t.d. um stærð þeirra, efni, lit og annað eftir því hver áhrif þeirra eru á umhverfið.
  • Vindorka skal áfram heyra undir rammaáætlun. Framkvæmdir verða að lúta lögum og reglum um mat á umhverfisáhrifum. Aðlaga skal reglur um mat á umhverfisáhrifum að byggingu vindorkuvera.
  • Leyfi til undirbúningsframkvæmda eða tilrauna vegna vindorkuvera skal ekki veita fyrr en skýrar reglur um uppbyggingu þeirra liggja fyrir. Útgefin leyfi verða að kveða á um ábyrgð á niðurrifi og förgun úrsérgenginna vindorkumannvirkjana.
  • Afleiðingar orkuöflunar með vindi þarf að rannsaka nánar á Íslandi og kynna fyrir almenningi áður en teknar eru óafturkræfar ákvarðanir. Gera skal ríka kröfu til þess að sýnt sé fram á hvort vindorkuver samræmist og falli að íslenskum aðstæðum, náttúru, lífríki, víðernum, samfélagi og orkuinnviðum.
  • Þegar kemur að úthlutun takmarkaðra sameiginlegra gæða eins og virkjanaleyfa skulu fyrirtæki í almannaeigu hafa forgang.
  • Vindorkuver á landi eiga aðeins heima á þegar röskuðum svæðum með tengingu við orkuinnviði sem fyrir eru í almannaeigu.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Túngötu 14

101 Reykjavík

vg@vg.is

KT: 421298-2709

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search