Orkumál

Sjálfbærni, öryggi og ábyrgð
Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur frá stofnun haft sjálfbærni að leiðarljósi, ekki síst þegar kemur að nýtingu og vinnslu vatnsafls og jarðvarma. Gæta verður varúðar- og verndarsjónarmiða við orkuöflun. Stórvirkjanir í þágu mengandi stóriðju samrýmast ekki sjálfbærri orkustefnu. Greiða þarf sanngjarnt gjald þegar auðlindir í eigu þjóðarinnar eru virkjaðar og gera verður kröfu til þess að stórnotendur greiði sanngjarnt verð fyrir orkuna sem þeir kaupa sem og allan kostnað við flutning og afhendingu hennar.

Ísland þarf að taka mið af niðurstöðum vísindamanna og setja stefnuna á að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Ísland á jafnframt að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að halda hlýnun jarðar undir 1,5°C og beita sér fyrir því að jarðefnaeldsneyti verði ekki unnið á norðurslóðum. Tryggja þarf rannsóknir og viðbúnað vegna þeirra breytinga sem þegar eru hafnar í vistkerfinu af völdum loftslagsbreytinga og eru óumflýjanlegar. Styrkja þarf fátækari þjóðir til að minnka losun og byggja upp viðnámsþrótt og veita nægilegu fjármagni til orkuskipta og mótvægisaðgerða gegn loftslagshlýnun.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að við þessar aðstæður, og í ljósi Parísarsamkomulagsins, komi ekki til greina að ráðstafa meiri orku til mengandi stóriðju, sem nú þegar nýtir tæplega 80% af allri raforkuframleiðslu í landinu. Þvert á móti er eðlilegt að kanna hvort ekki megi draga úr  raforkunotkun í þágu stóriðjunnar, til dæmis með því að hefja endurskoðun raforkusamninga til stóriðju til framtíðar, með því markmiði að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, fækka mengandi stóriðjuverum, auðvelda orkuskipti í samgöngum, auka fjölbreytni í iðnaði og fjölga í hópi „grænna“ fyrirtækja sem nota raforku á Íslandi.

Deilur um orkuöflun og -nýtingu hafa allt of lengi skipt þjóðinni í fylkingar. Það helgast ekki síst af því að áherslan hefur um of verið á orkuöflun fyrir stóriðju með tilheyrandi stórframkvæmdum í virkjunum og línulögnum. Almenni raforkumarkaðurinn, ylrækt og uppbygging lítilla og meðalstórra fyrirtækja hafa ekki verið í forgangi og hafa liðið fyrir þessa þróun.

Það er tímabært að höggva á þennan hnút, setja punkt aftan við stórframkvæmdir sem fylgja stóriðjunni og huga að því hvernig við getum nýtt orkuauðlindir landsins til að uppfylla Parísarsamkomulagið og draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Sátt þarf að ríkja um það hvernig við umgöngumst sameiginlegar auðlindir okkar í vatnsafli og jarðvarma. Það er markmið Vinstri grænna að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi, jafnhliða því sem gætt sé varúðar- og verndarsjónarmiða. Til að það verði mögulegt þarf að leggja til hliðar hugmyndir um stórvirka orkuöflun í þágu einstakra iðnaðarverkefna.

Ný viðhorf í orkubúskap
Orkubúskapur næstu áratuga á að snúast um kolefnisjöfnun, þ.e. að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda alls staðar og binda kolefni með gróðri. Bættar almenningssamgöngur og orkuskipti í samgöngum er einn mikilvægasti áfanginn á leið Íslands til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. Með orkuskiptum er átt við að nýta raforku og innlent eldsneyti í vaxandi mæli á bíla, vinnuvélar, báta og skip og flugvélar eftir því sem tækni leyfir. Orkuspárnefnd hefur reiknað að á næstu 30 árum muni almennur iðnaður og þjónusta þurfa 500–600 MW orku til viðbótar við það sem nú er. Á sama tímabili munu raforkusamningar til stóriðju um sama magn renna út. Rannsaka þarf ítarlega allar efnahagslegar, samfélagslegar og umhverfislegar hliðar raforkusamninga við stórnotendur, sem og möguleika til þess að færa 500-600 MW af orku úr stóriðju í almenna notkun, iðnað og þjónustu, og forðast þannig að byggja frekari virkjanir. Þurfi hins vegar nýjar virkjanir til að uppfylla þessa þörf verður að ríkja sátt um það hvernig þeirrar orku er aflað. Mestu skiptir að það verði gert hægt og bítandi í takti við vaxandi notkun, til að mæta fólksfjölgun og þörfum grænna og meðalstórra fyrirtækja en ekki í einstaka stórstökkum. Einnig þarf að horfa til betri nýtingar, minnka töp í kerfinu, bæta nýtingu í virkjunum sem fyrir eru og til nýrrar tækni og aðferða við orkuöflun.

Framþróun í vistvænum samgöngum á Íslandi til 2030 fer farsællegast fram með því að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti fyrir flesta, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli, og nýta fjölbreytta orkugjafa. Áherslu verður að leggja á að stórauka hlut stórra og smárra bíla með raforku úr rafgeymum og rafbíla sem ganga fyrir vetni, þar sem við á. Þetta á einnig við um ýmsar vinnuvélar. Samtímis verður að greiða fyrir því að stærri vinnuvélar og stórir bílar geti skipt yfir í innlent metan, metanól og lífdísil.

Hefja skal rafvæðingu hafna svo að rafbátar geti sótt sér þar orku en skipum af öllum stærðum verði gert að nýta raforku úr landi í stað orku frá eigin ljósavélum. Nýtt og vistvænt eldsneyti á skipsvélar er í hraðri framþróun, svo sem metan, metanól og etanól, lífdísill og vetni. Íslendingum ber að taka þátt í þróuninni, meðal annars með frekari nýsköpun í framleiðslu þess og notkun. Blöndun vistvænna eldsneytistegunda í flugvélaeldsneyti er þegar hafin og ber að leggja áherslu á að taka þátt í framsæknum orkuskiptum í flugi.

Umræður um að selja orku til útlanda með sæstreng hefur farið fram af og til á undanförnum 20 árum. Skoðaðir hafa verið efnahagslegir og félagslegir kostir og gallar. Ljóst er að sæstrengur er kostnaðarsamt og áhættusamt verkefni, sem myndi setja mikinn þrýsting á íslenska náttúru. Hætt er við að virkja þyrfti hvern einasta foss og jarðhitasvæði og raska þannig verðmætum víðernum til að standa undir kostnaði og til að hámarka arðsemi verkefnisins. Á sama tíma gætu skapast örðugleikar fyrir græna orkufreka starfsemi á Íslandi til að afla sér orku á samkeppnishæfu verði. Enn fremur er mikil óvissa um það hvernig þróun nýrrar tækni í orkuframleiðslu fleytir fram. Á síðustu árum hafa til að mynda  stór skref verið tekin í þróun stórra sólorkuvera og vindorkuvera. Tækniþróun getur í framtíðinni gert það að verkum að verð á raforku í gegnum fyrirhugaðan sæstreng á milli Íslands og Bretlands verði ekki lengur samkeppnishæft.

Sanngjarnt orkuverð til heimila og innlends iðnaðar
Við verðlagningu raforku verði heimilum og innlendum atvinnufyrirtækjum tryggt sanngjarnt orkuverð og það markmið sett ofar hagnaðarkröfu orkufyrirtækja. Eigi að síður er mikilvægt að við verðlagningu sé fullt tillit tekið til allra kostnaðarþátta, þar með talið fórnarkostnaðar vegna glataðra náttúruverðmæta og annars umhverfiskostnaðar. Þá má ekki gleyma því að náttúran hefur gildi í sjálfu sér sem erfitt er að meta til króna og aura.

Raforkan, rétt eins og neysluvatn, húshitun og fjarskipti, telst til grunnþarfa í nútímasamfélagi og þessi kerfi á ekki að reka í hagnaðarskyni. Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur mikilvægt að sameiginlegt eignarhald þjóðarinnar á auðlindum til lands og sjávar verði viðurkennt og að samfélagið í heild njóti arðs af sjálfbærri nýtingu þeirra.

Raunhæf orkuspá með tilliti til Parísarsamkomulagsins
Mikilvægt er að setja niður, eins nákvæmlega og unnt er, hver raunveruleg orkuþörf þjóðarinnar verður næstu áratugi. Við þá vinnu þarf sérstaklega að huga að markmiðum um orkuskipti ekki síst í samgöngum og aukinn hlut endurnýjanlegra og innlendra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis.

Við mat á orkuþörf landsmanna þurfa markmið Parísarsamkomulagsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og skuldbindingar okkar hvað varðar orkuskipti og umhverfisvænni orkugjafa að vera í fyrirrúmi. Taka þarf tillit til fólksfjölgunar, vaxandi ferðamannafjölda og áhrifa hvors tveggja á þróun almenna markaðarins. Huga þarf sérstaklega að húshitun, ekki síst á köldum svæðum með notkun varmadæla, varmaskipta og betri einangrunar. Ennfremur þarf að huga að atvinnuuppbyggingu í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, ekki síst á landsbyggðinni. Þegar þessi þörf hefur verið metin á raunsæjan hátt er fyrst hægt að áætla hve mikillar orku þarf að afla og hvernig það best verður gert. Ábyrg umgengni við auðlindina, betri nýting, almennur orkusparnaður og sparneytnari rafmagnstæki draga úr þörf fyrir frekari orkuöflun.

Sjálfbær orkuöflun í sátt við náttúru landsins
Sjálfbærni verður ætíð að vera leiðarhnoðið þegar kemur að orkuöflun og ríkulegt tillit þarf að taka til náttúruverndar. Þar skiptir verndun hálendisins mestu máli en hún verður best tryggð með heildstæðu skipulagi þar sem áhersla er lögð á friðun stórra landslagsheilda með stofnun Miðhálendisþjóðgarðs.

Mikilvægt er að virkjunarframkvæmdir fari í umhverfismat. Í dag eru framkvæmdir undir 10 MW undanskildar umhverfismati. Það er allt of hátt viðmið og býður uppá að framkvæmdaraðilar reisi nokkrar virkjanir í röð, sem allar eru undir viðmiðum, án þess að umhverfismat fari fram. Hefja þarf vinnu sem fyrst við að skilgreina hver viðmiðin eiga að vera, hvað telst smávirkjun til heimanotkunar og hvað á að falla undir mat á umhverfisáhrifum.

Við umgengni og nýtingu á orkuauðlindum þjóðarinnar er mikilvægt að sýna ábyrgð og leggja ber áherslu á félagslegan rekstur en ekki rekstur í hagnaðarskyni. Landsvirkjun á áfram að vera að fullu í opinberri eigu, enda hefur fyrirtækið verið byggt upp með nýtingu á sameiginlegum orkuauðlindum þjóðarinnar.

Ísland er auðugt af endurnýjanlegum orkugjöfum og hefur að því leyti sérstöðu og einstaka möguleika til að uppfylla Parísarsamkomulagið. Mikilvægt er að virkjun jarðvarmans sé sjálfbær en ekki ágeng þannig að jarðhitageymirinn geti áfram þjónað þörfum komandi kynslóða.  Við nýtingu vatnsafls er ekki þörf á að sökkva grónu landi undir miðlunarlón eða þurrka fagra og vatnsmikla fossa á hálendinu. Leita þarf sjálfbærari leiða við nýtingu vatnsaflsins og efla rannsóknir á nýjum orkulindum, svo sem vindorku og djúpvarma. Einnig þarf að huga að nýrri tækni svo sem virkjun sjávarfalla, nýtingu metans og alkóhóls, vetnis og lífdísils.

Orka til allra landsmanna
Allir landsmenn eiga að búa við fullnægjandi afhendingaröryggi. Samræma þarf skilgreiningu á því hugtaki í lögum og reglugerðum og setja þarf lagaákvæði um ábyrgð orkufyrirtækja til að uppfylla orkuþörf heimila og almennra notenda. Standa ber við fyrirheit um að tryggja öllum í landinu aðgang að þriggja fasa rafmagni.

Veikt flutnings- og dreifikerfi stendur atvinnulífi á landsbyggðinni víða fyrir þrifum. Ljóst er að styrkja þarf kerfið til að tryggja afhendingaröryggi almenna markaðarins og til orkuskipta en við þær framkvæmdir þarf að meta alla kosti og velja þá lausn sem er í mestri sátt við umhverfið, enda þótt það kunni að hafa aukinn kostnað í för með sér. Sérstaka varúð skal sýna á hálendinu og á vernduðum svæðum.  Loftlínur mega ekki skerða ósnortin víðerni og forðast skal að jarðstrengir fari um viðkvæmar jarðmyndanir.