Landsfundur 2021.
Neyðarástand hefur skapast víða vegna loftsbreytinga. Loftslagsvá og viðbrögð til að stemma stigu við henni munu hafa í för með sér djúpstæðar samfélagsbreytingar. Aðgerðir verða að vera róttækar og tryggja réttlát umskipti. Viðbrögð við loftslagsvá þurfa að byggjast á áætlunum og fléttast inn í alla pólitíska stefnumótun. Endurreisn hagkerfisins í framhaldi af heimsfaraldri þarf að vera græn og styðja við þróun kolefnishlutlauss hringrásarhagkerfis.
Náttúran á alltaf að njóta vafans. Innleiða skal mengunarbótaregluna í alla framleiðslu og þjónustu þannig að þau sem menga borgi. Ný græn störf þurfa að skipa stóran sess í að draga úr atvinnuleysi.
Tryggja þarf gagnsæi og aðgengi að upplýsingum og almenningur á að hafa beina aðkomu að ákvörðunum varðandi umhverfis- og loftslagsmál snemma í ferli ákvarðanatöku. Tryggja þarf fjárhags- og réttarstöðu frjálsra félagasamtaka á sviði náttúru- og umhverfisverndar og sérstaklega þarf að gera ungu fólki kleift að vera virkir þátttakendur og gerendur í stefnumótun.
Mótvægi við loftslagsvá
Vinstrihreyfingin – grænt framboð vill að Ísland sé leiðandi í loftslagsmálum og færi fram frekari lausnir á alþjóðavettvangi. Ísland getur verið í fararbroddi að koma á lágkolefnishagkerfi. Í norrænni samvinnu getur Ísland beitt sér fyrir sameiginlegu markmiði Norðurlandanna um kolefnishlutleysi, lagt aukna áherslu á vernd líffræðilegrar fjölbreytni og náttúruverndar á norðurslóðum í þágu loftslagsmála.
- Vísindaleg þekking þarf að vera undirstaða allra aðgerða í loftslagsmálum. Mikilvægt er að stefnumótun, markmiðssetning og aðgerðir séu uppfærðar reglulega og byggist á og mótist af vaxandi þekkingu, rannsóknum og vöktun hverju sinni. Tryggja þarf fjármagn til grunnrannsókna og vöktunar í loftslagsmálum, þ.m.t. vegna náttúruvár.
- Ísland á að ganga lengra en núverandi skuldbindingar Evrópusambandsins kveða á um í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands árið 2030 m.v. 2005 (ESR) og lögfesta sjálfstætt markmið um a.m.k. 60% samdrátt.
- Draga þarf verulega úr losun sem heyrir undir evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir (ETS). Í þessum losunarflokki á Ísland að setja sjálfstætt markmið sem styður markmið aðildarríkja ESB um ríflega 60% samdrátt sem m.a. nær til stóriðju og flugsamgangna.
- Ísland þarf einnig að horfa til losunar vegna landnotkunar í markmiði sínu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi. Vinna þarf heildstæða, sjálfbæra landnýtingarstefnu með aðkomu sérfræðinga og setja sérstakt markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem rekja má til landnotkunar (LULUCF) eftir því sem þekkingu á losuninni fleygir fram. Hraða þarf aðgerðum til að stöðva losun frá framræstu votlendi og röskuðu mólendi. Með auknum styrkjum ríkis og framlögum fyrirtækja þarf að auka endurheimt votlendis og kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu svo markmið um kolefnishlutleysi náist.
- Lögbundnu markmiði Íslands um kolefnishlutleysi þarf að ná í síðasta lagi árið 2040, en flýta ef kostur er, þannig að binding umfram nettólosun hefjist eins fljótt og auðið er. Markmiðið þarf að taka mið af losun á ársgrundvelli.
- Skýr, mælanleg, tímasett markmið sem og raunhæfar, framsæknar og fjármagnaðar aðgerðir eru forsenda árangurs í loftslagsmálum. Reglusetning, hagrænir hvatar, loftslagsvænt skipulag, fræðsla og þátttaka í alþjóðlegu samstarfi eru lykilþættir í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Grænar fjárfestingar og loftslagsvæn nýsköpun skipa hér stóran sess.
- Allar loftslagsaðgerðir þarf að rýna með tilliti til félagslegs réttlætis svo tryggja megi réttlát umskipti og að aðgerðir bitni ekki á efnaminna fólki.
- Aðlögun að loftslagsbreytingum er mikilvæg. Vinna þarf aðgerðaáætlun um samfélagslega aðlögun að yfirvofandi breytingum vegna hamfarahlýnunar á grunni hvítbókar og nýrrar stefnu um aðlögun.
- Hlusta þarf á ákall ungs fólks og loftslagsverkfallanna um að leggja mun meira fjármagn í aðgerðir gegn loftslagsvánni og forða þannig komandi kynslóðum frá mun meiri kostnaði.
- Ísland ætti að lágmarki að tvöfalda stuðning sinn við þróunarríki til aðlögunar og aðgerða gegn loftslagsvá í samræmi við þrettánda Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna m.a. í gegnum Græna loftslagssjóðinn og Aðlögunarsjóðinn.
- Meta þarf hver sanngjörn hlutdeild Íslendinga ætti að vera í samdrætti í losun svo markmið um 1,5°C hnattræna hlýnun náist og skoða hvernig það geti haft áhrif á markmið Íslands.
- Kolefnisspor Íslendinga er með því stærsta sem finnst í heiminum. Meta þarf og leitast við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna framleiðslu og neyslu á vörum sem eiga uppruna sinn utan Íslands.
- Styðja þarf enn frekar við nýsköpun og tæknilausnir í baráttunni við loftslagsvána, s.s. vegna kolefnisföngunar og förgunar.
- Efla þarf almenningssamgöngur á landinu öllu og flýta uppbyggingu Borgarlínu. Aukin fjarvinna og efling virkra ferðamáta, sér í lagi göngu- og hjólreiða, auk orkuskipta, eru mikilvægar aðgerðir í að ná markmiðum Íslands. Slíkar aðgerðir stuðla einnig að betri loftgæðum og efldri lýðheilsu.
- Lögfesta þarf bann við olíuleit í íslenskri lögsögu og allri olíuvinnslu á Íslandi hið fyrsta.
- Banni við nýskráningu bensín- og dísilbifreiða þarf að flýta til ársins 2025 líkt og Noregur hefur gert. Samhliða þessu þarf að tryggja uppbyggingu innviða fyrir umhverfisvænni bifreiðar um allt land.
- Stefna skal að jarðefnaeldsneytislausu Íslandi árið 2045.
- Veita þarf ívilnanir til orkuskipta í flutningum á sjó og landi, í byggingariðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi.
- Leggja þarf gjald á losun allra gróðurhúsaloftegunda. Kolefnisgjald þarf að hækka í áföngum.
- Efla þarf getu stjórnsýslunnar og einstakra stofnana enn frekar til þess að takast á við loftslagsvána. Taka þarf hlutverk og skipun Loftslagsráðs til endurskoðunar m.t.t. reynslunnar. Meta þarf frumvörp og allar stærri áætlanir m.t.t. loftslagsáhrifa.
- Tengjum saman allar einingar stjórnkerfisins til að ná markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum undir hattinum Sjálfbært Ísland.
Vernd líffræðilegrar fjölbreytni og náttúru
Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur ríka áherslu á vernd og sérstöðu íslenskrar náttúru, til lands og sjávar, og líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni hennar.
- Náttúran á alltaf að njóta vafans.
- Fjölga þarf friðuðum svæðum, þannig að þau þeki 30% á landi og í hafi árið 2030. Leggja þarf tillögur að Náttúruminjaskrá fyrir Alþingi og friðlýsa svæði samkvæmt henni í framhaldinu.
- Efla þarf rannsóknir á landhnignun og áhrifum landgræðslu og skógræktar á líffræðilega fjölbreytni.
- Tryggja þarf sjálfbærni ferðaþjónustu og efla þolmarkagreiningar í þágu náttúru og samfélags.
- Auka þarf vernd og endurheimt vistkerfa. Klára þarf landsáætlanir í skógrækt og landgræðslu og koma þeim í framkvæmd. Leggja þarf sérstaka áherslu á vernd og endurheimt votlendis með það að markmiði að minnsta kosti 15% af röskuðu votlendi verði endurheimt fyrir árið 2030. Endurheimt verði votlendi sem ekki er í nýtingu.
- Efla þarf stjórnsýslu náttúruverndarmála með sameiningu stofnana sem fara með verkefni náttúruverndar, fjölga heilsársstörfum og efla landvörslu. Meta þarf kosti og galla þess að málefni landgræðslu og skógræktar tilheyri þessari sömu stofnun.
- Mikilvægt er að nota áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) áfram sem stjórntæki og halda áfram friðlýsingum á grundvelli verndarflokks áætlunarinnar.
- Bæta þarf vatnsvernd þar sem þess er þörf og stuðla að náttúrulegu ástandi vistkerfa ferskvatns og strandsjávar. Aðgerðaáætlun um vatnamál þarf að koma til framkvæmda hið fyrsta.
- Mat á umhverfisáhrifum er verkfæri sem hjálpar okkur að standa vörð um náttúruna og umhverfið.
- Festa verður mengunarbótaregluna betur í sessi.
- Ísland þarf að taka virkan þátt í alþjóðasamningum, þ.m.t. samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, en jafnframt byggja á staðbundinni þekkingu í gegnum rannsóknir á verndarstöðu og kortlagningu lífvera á Íslandi.
- Stofna ber þjóðgarð á miðhálendinu sem mun stuðla að verndun víðerna, náttúrufars, jarðminja auk menningar og sögu. Friðlýsa þarf hálendi Vestfjarða og umhverfi Breiðafjarðar og stofna þar þjóðgarða.
- Stjórnvöld þurfa að móta stefnu um verndarsvæði í hafi til samræmis við alþjóðleg viðmið, vinna áætlun þar að lútandi og koma henni til framkvæmda. Innleiða þarf alþjóðleg viðmið um verndun hafsvæða og vinna áfram ötullega að banni við flutningi og bruna svartolíu á Norðurslóðum.
- Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu allra auðlinda til að vernda líffræðilega fjölbreytni og draga úr sóun. Tryggja þarf stjórnarskrárvarða þjóðareign á auðlindum fyrir framtíðarkynslóðir.
- Tryggja skal fjármagn til rannsókna og vöktunar lykilþátta vistkerfa og tegunda til að undirbyggja vísindalega nálgun við ákvarðanatöku sem tryggi sjálfbæra nýtingu og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Aðgengi að auðlindum og réttlát skipting hagnaðar af nýtingu þeirra er forgangsatriði.
- Fylgja verður skýrum reglum um innflutning alls sem borið getur tegundir lífvera sem kunna að verða ágengar í íslenskri náttúru. Skilvirkt eftirlit og utanumhald þarf um alla notkun ágengra og framandi tegunda og skal notkun þeirra aðeins leyfð þar sem við á og rask á vistkerfum þannig takmarkað.
- Mikilvægt er að heildarendurskoðun löggjafar um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra nái fram að ganga og stækka þarf griðasvæði hvala í kringum landið.
- Ísland er paradís jarðfræðilegra undra. Stjórnvöld þurfa að efla kortlagningu jarðminja, landslags og víðerna til að koma á skipulagðri vernd verðmætustu svæðanna.
- Ísland ætti að beita sér í alþjóðasamfélaginu fyrir verndun regnskóga og annarra svæða sem búa yfir mikilli líffræðilegri fjölbreytni.
Hringrásarhagkerfið: Minni sóun og meiri verðmætasköpun
Skilvirkari nýting auðlinda dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, hægir á tapi líffræðilegrar fjölbreytni og dregur úr mengun. Hringrásarhagkerfi er nauðsynlegt í þróun í átt að nýtnara samfélagi, stuðlar að nýjum og fleiri störfum og er í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
- Ísland verði í forystuhlutverki við að skapa lífvænlegt, heilbrigt og réttlátt samfélag með hringrásarhagkerfi sem nýtir allar auðlindir með sjálfbærum hætti, dregur úr myndun úrgangs, minnkar sóun, eykur endurnotkun, endurvinnslu og dregur stórlega úr urðun, m.a. með banni við urðun lífræns úrgangs. Líta þarf á úrgang sem auðlind sem fer hring eftir hring í framleiðslu og notkun.
- Fylgja þarf nýrri úrgangsstefnu kröftuglega úr hlaði og koma nýrri lagaskyldu um flokkun fyrirtækja og heimila á úrgangi og samræmingu flokkunar á landsvísu til framkvæmdar. Einnig er brýnt að koma á þrepaskiptu hvatakerfi til að stuðla að notkun umhverfisvænni umbúða sem fyrst.
- Fyrirtæki bera ábyrgð á að lágmarka umhverfisáhrif sín, hvort sem um þjónustuaðila er að ræða, framleiðendur eða innflytjendur vöru. Styðja þarf sérstaklega við frumkvöðla.
- Neytendum skal gert kleift að velja lausnir sem styðja við hringrásarhagkerfið og minna kolefnisspor matvæla. Gera þarf kröfu um birtingu kolefnisspors allra matvæla og vara í verslunum og stuðla að og hvetja til loftslagsvæns mataræðis. Einnig skal hvetja til minni neyslu, minni sóunar ásamt því að hvetja til endurnýtingar og lágmörkunar úrgangs.
- Draga þarf úr plastmengun og matarsóun, huga að sjálfbærari notkun textíls, kortleggja og bæta eftirlit með notkun hættulegra efna á Íslandi og banna notkun efna sem ógna vistkerfum og heilsu allra lífvera.
- Ljúka þarf við gerð aðgerðaáætlunar um minnkun matarsóunar sem unnið hefur verið að. Markmið um minnkun skal ná til allrar virðiskeðjunnar.
- Efla þarf endurvinnslu hérlendis, til að mynda með uppbyggingu innviða fyrir svæðisbundna moltugerð og metanvinnslu. Draga þarf stórlega úr urðun úrgangs, t.d. með álagningu urðunarskatts. Eftirlit með ráðstöfun úrgangs þarf að efla.
- Endurreisn í kjölfar heimsfaraldurs þarf að verða í átt að sjálfbærni. Útbúa þarf heildstæða aðgerðaáætlun um innleiðingu hringrásarhagkerfisins sem meðal annars samhæfi nýlegar áætlanir á þessu sviði. Sérstök áhersla þarf að vera á fjölgun grænna starfa og beitingu hvata og lata til að stuðla að innleiðingunni.
- Í nýsköpun og vöruþróun þarf frekari tengingu við grænna hagkerfi og græn störf um landið allt. Styðja þarf við hringrásarhönnun, efla sjálfbæra vöruhönnun og viðgerðarþjónustu. Hvatar til einstaklinga og fyrirtækja af öllum stærðum skulu miða að því að ýta undir sjálfbært samfélag.
- Setja þarf skýra stefnu um sjálfbærni í byggingariðnaði þannig að draga megi úr umhverfisáhrifum hans, meðal annars með auknu hlutfalli umhverfisvottaðra bygginga.
- Auka þarf enn frekar stuðning við sveitarfélög í fráveitumálum og umbuna þeim í réttu hlutfalli við hreinsun mengunarefna, þ.m.t. örplasts. Auka þarf áherslu og stuðning við blágrænar ofanvatnslausnir hjá sveitarfélögum.