Alþjóða- og friðarmál

Deildu 

Share on facebook
Share on twitter

Friður á grundvelli jöfnuðar

Með því að útdeila auðlindum heimsins jafnar gætu allir búið við mannsæmandi kjör. Til að jafna kjör fólks þarf róttækar breytingar á því hvernig við útdeilum völdum og gæðum milli ríkja sem innan þeirra, svo sem milli stétta, kynja, kynþátta og svo framvegis.

Kapítalismi er hvorki sjálfbær efnahagslega né umhverfislega og leiðir til samþjöppunar valda, auðs og eigna hjá stórum alþjóðlegum fyrirtækjum sem og stórfelldrar mismununar.

Síaukinn ágangur á auðlindir jarðar og áhrif mannkynsins á loftslag hennar leiða af sér fólksflótta, misskiptingu og umhverfisvá sem stefnir lífríki jarðarinnar, vistkerfum og mannkyninu sjálfu í hættu. Gegn þessari þróun verður að sporna.

Binda þarf enda á rangláta viðskiptahætti og arðrán svo hin fátækari svæði geti brauðfætt íbúa sína án þess að ganga á gæði jarðar.

• Ísland beiti sér gegn arðráni stórfyrirtækja á alþjóðavísu.
• Ísland standi utan ESB.
• Ísland beiti sér gegn múrum og girðingum milli þjóða og þjóðfélagshópa.
• Ísland beiti sér fyrir aðgerðum gegn mansali á alþjóðavettvangi.
• Höfnum rasisma.
• Ísland taki forystu í umhverfismálum.
• Ísland taki forystu í aðgerðum til að vinna gegn umhverfisvá á alþjóðavettvangi.
• Ísland hafni þátttöku í olíuvinnslu.

Höfnum hernaði

Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan, á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. Stríð og hernaður leysa engin vandamál, þótt hernaðarsinnar haldi því fram að barist sé fyrir friði og mannréttindum. Auk þess eru vígvæðing og hernaður gegndarlaus sóun auðlinda og lífs. Mikilvægt er að aðgerðir á alþjóðavettvangi, þar á meðal viðskiptaþvinganir, valdi ekki dauða og þjáningum saklausra borgara.

Ekki á að leyfa heræfingar í landinu eða innan lögsögu þess. Ísland og íslenska lögsögu á að friðlýsa fyrir umferð með kjarnorku-, sýkla- og efnavopna í lofti, á láði og legi.

Íslensk stjórnvöld eiga að hafna hernaðaríhlutunum, beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið og afvopnun sem og að vinna gegn vopnaframleiðslu og vígbúnaði.

Ísland þarf að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar eins og mögulegt er, bæði með því að taka á móti fleira flóttafólki og styðja fólk í því að geta lifað með reisn annars staðar í heiminum. Nauðsynlegt er að Ísland axli ábyrgð á forréttindastöðu sinni í alþjóðasamfélaginu og geri það sem í valdi þess stendur til að deila auðlegð sinni með þeim sem mest þurfa á að halda. Við megum ekki líta undan.

• Ísland taki skilyrðislausa afstöðu gegn hernaði.
• Ísland segi sig úr NATO og biðjist afsökunar á þátttöku sinni í hernaðaraðgerðum á þeirra vegum.
• Ísland beiti sér fyrir afvopnun á alþjóðavettvangi.
• Ísland friðlýsi sig fyrir kjarnorkuvopnum og banni umferð þeirra í íslenskri lögsögu.
• Ísland biðjist sérstaklega afsökunar á þátttöku sinni í Íraksstríðinu.
• Ísland sendi ekki fulltrúa til að starfa á vegum hernaðarsamtaka erlendis.
• Höfnum heræfingum á Íslandi.
• Höfnum komu herskipa og herflugvéla til Íslands, svo og flutningi pólitískra stríðsfanga í gegnum íslenska lögsögu.
• Ísland taki á móti fleiri flóttamönnum.

Ábyrg alþjóðasamskipti

Gæta verður þess í samningum um alþjóðasamskipti og alþjóðaviðskipti að festa ekki í sessi þá efnahagslegu gjá sem nú blasir við milli einstakra heimshluta sem og hafa mannréttindi og félagsleg réttindi í huga.

Íslendingar eiga að stórauka framlag sitt til þróunarsamvinnu og leggja fátækum þjóðum lið á alþjóðavettvangi. Aðalmarkmið þróunarverkefna á vegum Íslendinga á að vera að gera fólk sjálfbjarga á eigin forsendum.

Íslensk utanríkisstefna þarf að byggjast á því sjónarmiði að við kjósum alþjóðlegt réttlæti, afvopnun og friðsamlegar lausnir átaka. Skynsamlegasta leiðin til þess er að Ísland beiti sér fyrir samvinnu smáríkja á alþjóðavettvangi á jafnréttisgrundvelli með sjálfbærni að leiðarljósi.

• Ísland beiti sér fyrir lokun skattaskjóla.
• Aukum hlut Íslands í þróunarsamvinnu með jafnrétti að leiðarljósi.
• Ísland móti sér sjálfstæða utanríkisstefnu.
• Ísland styðji sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt annarra þjóða.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.