Landsfundur 2023.
Heilbrigt efnahagslíf og fjármálakerfi er grunnurinn að öflugu velferðarkerfi og samtvinnað skýrri sýn um sjálfbæran vöxt og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Farsælasta undirstaða þróttmikils efnahagslífs er blandað hagkerfi þar sem hinir efnamestu eru skattlagðir umfram hina tekjulægri en sú stefna hefur skilað mestri hagsæld og mestum jöfnuði.
Þó að tekjujöfnuður á mælikvarða launatekna sé meiri á Íslandi en víðast hvar annars staðar er eignastaðan mjög ójöfn. Ríkustu tíu prósentin eiga um þrjá fjórðu allra eigna en eignaminnstu þrjátíu prósentin eiga nánast ekkert eða minna en ekkert. Endurdreifing fjármagns, með því að draga úr tekjumun og styrkja stöðu hinna tekjulægstu, skilar sér hratt og örugglega út í samfélagið og eykur hagsæld.
Eins þarf að nást sátt um nýja mælikvarða, velsældarmælikvarða sem meta hagsæld, félagslegan auð, kynjasjónarmið og loftslagsmarkmið en ekki eingöngu hagvöxt. Slíkir mælikvarðar gera það kleift að byggja efnahagsstjórn á fjölbreyttari sjónarmiðum en áður hefur verið gert og leggja grunn að skilvirku, réttlátu og grænu skattkerfi sem stuðlar að jöfnuði. Stjórnvöld eiga að auka verðmæta- og nýsköpun á öllum sviðum til að skjóta fleiri stoðum undir íslenskt efnahagslíf og tryggja að íslenskt samfélag og atvinnulíf sé sem best í stakk búið til að takast á við áskoranir tæknivæðingar, loftslagsbreytinga og annarra fyrirsjáanlegra samfélagsbreytinga.
Skattkerfið þarf sífellt að vera til skoðunar og í víðtæku samráði stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins og fjölbreytt heildarsamtök. Skoða þarf sérstaklega breytingar vegna aukinnar sjálfvirkni og tæknivæðingar sem á eftir að hafa róttæk áhrif á íslenskan vinnumarkað og greina til hvaða aðgerða þarf að grípa til að tryggja mannsæmandi kjör launafólks. Þá á að uppræta skattaskjól og aflandsfélög enda eru þau til þess fallin að koma hagnaði undan eðlilegri skattlagningu sem síðan bitnar á jöfnuði og velferð samfélagsins alls.
Ríkisfjármál og skattar
Ríkisfjármál eru í raun reikningshald samneyslu og samhjálpar. Þau verða að samræmast markmiðum samfélagsins og því er það pólitísk ákvörðun hver útgjöldin eiga að vera og hverjar tekjurnar. Skattkerfið byggist því á félagslegum og efnahagslegum markmiðum. Skattkerfið er langáhrifamesta tæki samfélagsins til að auka jöfnuð og sanngirni í samfélaginu. Jöfnuður er í sjálfu sér ekki aðeins réttlætismál heldur líka mikilvægt hagstjórnarmarkmið. Um það vitnar fjöldi alþjóðlegra rannsókna og skýrslna sem allar sýna að aukinn ójöfnuður dregur úr hagvexti og veldur óánægju og óstöðugleika.
- Efnahagsstefnan á að draga úr ójöfnuði sem leiðir til réttlátara og auðugra þjóðfélags. Styrkja þarf enn betur kynjaða hagstjórn og kynjaða fjárlagagerð. Skattar og virk hagstjórnartæki eiga að tryggja öflugt velferðarsamfélag og stuðla að jöfnuði.
- Aðgerðir í skattamálum eiga að þjóna markmiðum um öflugt velferðarsamfélag, aukinn jöfnuð og önnur samfélagsleg markmið, svo sem í umhverfismálum, lýðheilsu og byggðamálum.
- Persónuafsláttur á að nýtast lág og millitekjuhópum sem best og fylgja þróun verðlags. Tryggja þarf að tekjulægstu hóparnir, sem eru undir markmiðum um grunnframfærslu, séu undir skattleysismörkum.
- Innleiða skal hóflegan auðlegðarskatt á eignir einstaklinga, að undanskildu íbúðarhúsnæði, og einnig þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt. Halda skal tekjuskatti eðlilega þrepaskiptum eins og nú er og ætti skattprósentan á ofurtekjur að vera umtalsvert hærri en á lægri tekjur og venjulegar launatekjur. Tryggja þarf aukið jafnræði með því að loka leiðum til að fela tekjur og einkaneyslu í einkahlutafélögum.
- Grænar skattaívilnanir geta nýst til að ná markmiðum í umhverfismálum. Nýfjárfestingar eiga að uppfylla loftslagsmarkmið og ekki skulu gerðir frekari ívilnandi fjárfestingasamningar um mengandi starfsemi. Skattaívilnunum ætti einnig að beita til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum sem og til matvælaframleiðslu sem uppfyllir loftslags- og sjálfbærnimarkmið.
- Innheimta á gjald af nýtingu auðlinda og skal það renna í sameiginlega sjóði samfélagsins og endurspegla að auðlindirnar eru eign þjóðarinnar. Auðlindagjald er greiðsla til að nýta takmörkuð gæði til afmarkaðs tíma. Lykilatriði er að auðlindagjöld séu arðgreiðslur en ekki skattar.
- Fjármagnstekjuskattur eða einskonar ígildi útsvars á að renna til sveitarfélaga sem fá ekki tekjur af þeim sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt. Gjaldendur fjármagnstekjuskatts dreifast misjafnlega á sveitarfélögin en jafna mætti dreifingu þeirra tekna milli sveitarfélaganna t.d. í gegnum Jöfnunarsjóð sveitafélaga.
- Stórefla þarf skattaeftirlit og skattrannsóknir til að stemma stigu við skattaundanskotum einstaklinga og fyrirtækja á kostnað velferðarsamfélagsins. Nýtingu aflandsfélaga í skattaskjólum á að banna eða takmarka sem kostur er. Ísland á að leggja sitt lóð á vogarskálar í alþjóðlegri viðleitni til að koma böndum á fjölþjóðafyrirtæki og auðhringa sem koma sér undan eðlilegum skattgreiðslum með klækjabrögðum.
- Ísland á að vera virkur þátttakandi alþjóðlegu samstarfi í skattamálum um upplýsingaskipti og aukið gagnsæi. Vextir, þóknanir og þjónustugreiðslur til aðila á lágskattasvæðum verði skattlögð sérstaklega og þannig markvisst unnið gegn aflandsfélögum í skattaskjólum.
Lög um opinber fjármál
Lög um opinber fjármál, fjármálareglur og fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga þarf að endurskoða í ljósi reynslunnar eftir heimsfaraldur kórónuveiru. Reglurnar settu skynsamlegri hagstjórn og beitingu opinberra fjármála til sveiflujöfnunar á erfiðleikatímum of þröngar skorður eins og kom í ljós þegar þjóðin var að glíma við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins.
- Lög um opinber fjármál og fjármálareglur þurfa áfram að tryggja vandaða áætlanagerð og sjálfbærni, en mikilvægt er að læra af reynslu síðustu ára. Of hröð niðurgreiðsla skulda eftir að efnahagsáföll eru um garð gengin getur beinlínis skaðað mikilvæga samfélagsinnviði svo sem heilbrigðis- og menntakerfið.
- Fjármálareglur mega ekki binda hendur stjórnvalda um of og takmarka möguleika þeirra til hagstjórnar, hvort sem er á þenslu- eða samdráttartímum. Hefja þarf vandaða vinnu við endurskoðun þessa regluverks sem taki einnig til þess hvernig nýjar og raunhæfari reglur taki gildi á nýjan leik.
- Lagður hefur verið grunnur að heilbrigðara og sterkara innlendu fjármálakerfi frá Hruni. Má í því sambandi nefna umfangsmiklar lagabreytingar og margvíslegar ráðstafanir um bankastarfsemi og viðskiptavenjur fjármálafyrirtækja. Brýnt er að slá hvergi slöku við í að tryggja að svo megi áfram vera.
- Ríkið á áfram að vera eigandi Landsbankans. Gera þarf nauðsynlegar lagabreytingar til að skapa umgjörð um starfsemi samfélagsbanka sem starfa samkvæmt umhverfis- og samfélagssjónarmiðum.
- Greina þarf umfang svokallaðrar skuggabankastarfsemi í íslensku efnahagslífi og hættur sem þar kunna að geta byggst upp. Skoða þarf lánveitingar lífeyrissjóða og ýmiskonar fjártæknifyrirtækja, bæði frá sjónarhóli neytendaverndar og kerfisáhættu.
- Húsnæði eru grundvallarmannréttindi og eðlilegt að áfram verði til félagslegur húsnæðislánasjóður sem tryggi meðal annars lán til kaupa á húsnæði um land allt. Fara þarf heildstætt yfir húsnæðisstuðningskerfi hins opinbera og meta hvert eigi að stefna til framtíðar þannig að húsnæðisstuðningur hins opinbera verði efldur og nýtist fyrst og fremst lág- og meðaltekjuhópum.
- Draga þarf áfram úr vægi verðtryggingar með auknu framboði á óverðtryggðum lánum en einnig með því að fjölga þeim tækjum sem eru fyrir hendi til að fylgja eftir peningastefnu stjórnvalda og lækka þannig vaxtakostnað almennings.
Samspil efnahagsstjórnar og vinnumarkaðar
Mikilvægt er að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði. Sá stöðugleiki má ekki snúast um að halda láglaunahópum niðri og grafa undan velferðarkerfinu. Sátt á vinnumarkaði byggist á sátt um velferðarkerfið. Þjóðhagsráð er mikilvægur vettvangur til að fjalla um félagslegan og efnahagslegan stöðugleika og þar þarf verkalýðshreyfingin að hafa sterka rödd.
- Skoða þarf kosti þess að komið verði á laggirnar sjálfstæðri Þjóðhagsstofnun og unnar séu langtíma þjóðhagsáætlanir til þess að forðast kollsteypur í íslensku efnahagslífi.
- Efla þarf bæði skattaeftirlit og vinnueftirlit með markvissum aðgerðum til að unnt verði að skapa almenna sátt um eðlilega launaþróun í landinu. Þannig verði spornað gegn launastuldi og markvisst barist gegn mansali og þrælahaldi sem er svartur blettur á íslenskum vinnumarkaði.
- Skoða þarf hvort unnt sé að skylda vinnuveitendur til að upplýsa um launabil innan fyrirtækja í ársreikningum og efna til víðtæks samtals um hvað sé ásættanlegur launamunur í samfélaginu, svo sem hvort hann eigi að vera þrefaldur eða fjórfaldur.
- Stefnt skal að því að minnka launabilið og útrýma launamun kynjanna. Slíkar aðgerðir, ásamt skýrri framtíðarsýn um skattkerfið og velferðarsamfélagið, eru grundvöllur þess að unnt verði að ná og viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði.
Gjaldmiðilsmál
Vinstrihreyfingin – grænt framboð leggur ríka áherslu á samstarf við önnur Evrópulönd en telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Hins vegar er hreyfingin reiðubúin að leggja það mál í hendur þjóðarinnar enda er um afdrifaríka ákvörðun að ræða sem eðlilegt er að allur almenningur hafi skoðun á.
- Leggja þarf mat á þá raunhæfu valkosti sem eru taldir bjóðast í gjaldmiðilsmálum. Annars vegar áframhaldandi sjálfstæð peningastefna með íslenskri krónu og hins vegar innganga í Evrópusambandið og aðild að Myntbandalagi Evrópu, með upptöku evru og þátttöku í samevrópskri peningastefnu.
- Ljóst er að Ísland mun nýta sér krónuna sem gjaldmiðil næstu árin og því þarf að tryggja að peningastefnan fari saman við ríkisfjármálastefnu og taki mið af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika.