PO
EN

Ferðamál

Landsfundur 2024.

Ferðaþjónusta á Íslandi á að vera sjálfbær, ábyrg og samfélagslega jákvæð, grundvallast á virðingu fyrir náttúru, menningu og samfélögum landsins og stuðla að verndun auðlinda og líffræðilegrar fjölbreytni. Tryggja skal að ferðaþjónustan stuðli að jákvæðum samfélagslegum áhrifum og sé rekin með hliðsjón af þolmörkum náttúrunnar.

Áhersla skal lögð á gæði umfram magn, eflingu menntunar og nýsköpunar og að góðir starfshættir séu viðhafðir innan greinarinnar. Ísland á að vera fyrirmynd á heimsvísu fyrir sjálfbæra og ábyrga ferðaþjónustu. Tryggja þarf aðkomu heimamanna að stefnumótun, aukna fræðslu fyrir ferðamenn og ferðaþjónustuaðila, ásamt því að tryggja að innviðir og stjórntæki taki mið af þolmörkum til verndar íslenskri náttúru og menningu til framtíðar.

Sjálfbær ferðaþjónusta og náttúruvernd

  • Ferðaþjónusta á Íslandi á að byggjast á sjálfbærni. Í því felst að ferðaþjónusta taki mið af vernd náttúruauðlinda og líffræðilegrar fjölbreytni, þar sem jarðvegur, vatn, loft og lífríki fái nauðsynlega vernd gegn álagi ferðamanna. Uppbygging innviða svo sem vistvænna samgangna, stíga, áningarstaða og hreinlætisaðstöðu skal vera í takt við þolmörk svæðanna.
  • Skilgreina skal þolmörk náttúru, samfélaga, ferðamannastaða og innviða til að tryggja vernd viðkvæmra svæða og halda álagi innan þeirra marka sem náttúran þolir.
  • Styðja skal við ábyrga ferðaþjónustu þar sem aðgengi að svæðum er stjórnað. Nauðsynlegt er að innleiða takmarkanir á fjölda gesta á viðkvæmum svæðum og vinsælum áfangastöðum sem byggir á þolmarkagreiningu þar sem áhersla er lögð á virðingu gesta fyrir áfangastöðum, verndun menningarminja, landslagsheilda, vistkerfa og lífbreytileika. Þar sem ekki hefur farið fram þolmarkagreining skal náttúran njóta vafans.
  • Tryggja skal að almannaréttur verði ekki fénýttur í tekjumyndandi starfsemi ferðaþjónustu og að sett verði skýr lög um stýringu ferðaþjónustu á grundvelli almannaréttar. Eðlilegt er að ferðaþjónustuaðilar sem skipuleggja ferðir á landi annarra þurfi að leggja af mörkum til verndar náttúru og uppbyggingar innviða.
  • Auka þarf fræðslu fyrir ferðamenn og ferðaþjónustuaðila um viðkvæma náttúru Íslands, menningu og siði. Einnig þarf að tryggja gott aðgengi að upplýsingum um veðurfar, leiðarlýsingar og aðra þætti sem hafa áhrif á öryggi ferðamanna.
  • Efla þarf markaðssetningu sem byggir á fræðslu um sjálfbæra ferðahegðun, menningu, öryggi og náttúruvernd. Sjálfbær ferðamennska á að vera hornsteinn ferðaþjónustu á Íslandi til framtíðar.

Gæði í ferðaþjónustu

  • Ferðamennska á Íslandi á að byggja á gæðum frekar en magni og vera sjálfbær. Mikilvægt er að dreifa álagi árið um kring, fjölga vaxtarsprotum í ferðaþjónustu og efla atvinnulíf heima í héraði svo jákvæðra áhrifa ferðaþjónustunnar gæti í ólíkum landshlutum.
  • Aðkoma heimamanna að stefnumótun og þróun ferðaþjónustu er lykilatriði og skal sérstök áhersla lögð á aðkomu þeirra að ákvarðanatöku. Mikilvægt er að nýta staðbundna þekkingu til að ákvarða þolmörk.

Menntun og góðar starfsvenjur

  • Efla þarf nám við námsbrautir á öllum menntastigum sem varða ferðaþjónustugreinar og fjölga fagmenntuðu fólki í leiðsögn svo unnt sé að auka gæði ferðaþjónustunnar. Höfuð áhersla skal lögð á menntun, símenntun og þjálfun ferðaþjónustuaðila.
  • Efla skal menntun þeirra sem sjá um þjóðgarða og önnur náttúrusvæði og huga þarf sérstaklega að eflingu landvörslu með endurskipulagningu og fjölgun stöðugilda.
  • Fjármagna þarf þjálfun og menntun fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu með áherslu á sjálfbærni, náttúrulæsi, menningarlæsi og þjónustu. Mikilvægt er að leiðsögumenn og landverðir fái menntun og aðstöðu til að sinna störfum sínum af fagmennsku. Ferðaþjónusta á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum verði strangari takmörkunum háð.
  • Nýsköpun í ferðaþjónustu sem byggir á sjálfbærum lausnum skal efla. Fjárfesta skal í rannsóknar- og þróunarverkefnum sem snúa að grænni ferðaþjónustu, endurnýjanlegri orku og umhverfisvænum lausnum í öllum greinum ferðaþjónustunnar.
  • Til að uppfylla skilyrði sjálfbærrar ferðaþjónustu þarf að hvetja til nýsköpunar og góðra starfshátta. Hagvöxtur á að vera sjálfbær og fjárfestingar grænar og áhersla skal lögð á atvinnusköpun í heimabyggð, menningu, sögu og umgengni við auðlindir í samræmi við þolmörk.

Grænar lausnir

  • Lög skal áhersla á grænar lausnir í ferðaþjónustu, svo sem vistvænar almenningssamgöngur, sjálfbæra orkunotkun og úrgangsstjórnun. Þróa skal innviði sem miða að minna kolefnisspori, þar með talið hleðslustöðvum fyrir rafbíla, göngu- og hjólreiðastígum og kolefnisjöfnun verkefna.
  • Til að stuðla að orkuskiptum skal nota græna hvata fyrir bílaleigur og fjölga hleðslustöðvum og gjaldskyldum bílastæðum sem falla að umhverfinu og eru við valda áfangastaði.
  • Lágmarka skal útblástur frá skemmtiferða- og farþegaskipum m.a. með rafvæðingu hafna og bindandi viðmiðum um losun í sjó og loft. Fari losun mengandi efna frá skemmtiferðaskipum fram innan lögsögu Íslands, hvort sem er í höfn eða hafi, skal greitt viðbótargjald fyrir losunina.
  • Úrgangur frá skemmtiferða- og farþegaskipum skal flokkaður samkvæmt íslenskum reglum og lúti gjaldskrám. Þá skal losun kjölfestuvatns í íslenskri lögsögu bannað nema brýna nauðsyn beri til vegna óviðráðanlegra orsaka og gegn gjaldi.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search