EN
PO
Search
Close this search box.

Kvenfrelsi og jafnréttismál

Landsfundur 2024.

Kynjakerfið er félagslegt yfirráðakerfi sem þrífst á tvíhyggju og fyrirframgefnum hugmyndum um fólk þar sem karlar eru yfirskipaðir. Ofuráhersla á hið kapítalíska hagkerfi, vaxandi veldi fjármagnsins og frjálshyggju er ógn við félagslegt réttlæti og jafna stöðu kynjanna í samfélaginu.

Fullt jafnrétti krefst þess að ráðist sé að rótum kynjakerfisins og einkennum þess. Breytingar til lengri tíma krefjast úrbóta á sviði uppeldis- og menntamála en á sama tíma verður að grípa til beinna og tafarlausra aðgerða á öllum sviðum samfélagsins. Nauðsynlegt er að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis og brjóta þannig upp kynjakerfi sem er skaðlegt fyrir stöðu, tækifæri og þátttöku allra og skapa þannig betra samfélag fyrir okkur öll, óháð kynjum

Öryggi

Kynbundið ofbeldi er alvarlegasta birtingarmynd kynjamisréttis. Það er ekki einstaklingsbundinn vandi heldur samfélagsmein sem þrífst á valdamisræmi og er mesta ógn við líf og heilsu kvenna og kvára. Ofbeldi og ógn um ofbeldi eru hluti af daglegu lífi kvenna og kvára og hefur einnig mikil áhrif á líf og stöðu þeirra sem tilheyra minnihlutahópum.

  • Útrýma þarf kynbundnu ofbeldi. Uppræta þarf þau viðhorf og kerfi sem leiða af sér kynbundið ofbeldi og tryggja að öll ofbeldismál fái skjóta og faglega meðferð í réttarvörslukerfinu. Framfylgja þarf betur þeim ákvæðum íslenskra laga sem banna ofbeldi af öllum toga.
  • Styrkja þarf löggjöf og framkvæmd laga þegar kemur að nauðgunarmálum enda tekur réttarkerfið aðeins á litlum hluta þessara alvarlegu glæpa. Tryggja þarf að brotaþolar séu aðilar máls og að ríkið verði skaðabótaskylt gagnvart þolendum ef mál er fellt niður vegna mistaka við rannsókn eða tafa á málsmeðferð. Nauðsynlegt er að auðvelda leiðir brotaþola í gegnum réttarvörslukerfið með því að tryggja fræðslu, samtal og réttargæslu á öllum stigum. Huga þarf sérstaklega að stöðu fatlaðra kvenna sem rannsóknir sýna að eru í aukinni hættu á að verða beittar ofbeldi. Komið verði á sjóði sem þolendur geta sótt í til að standa straum af kostnaði við að takast á við afleiðingar brota sem ekki tekst að sakfella fyrir. Sjóðurinn tekur mið af einkaréttarmálum til greiðslu bóta og eins þarf að stórauka sálfræðiaðstoð fyrir þolendur ofbeldis.
  • Þolendur heimilisofbeldis skulu hafa sömu réttindi til réttargæslu og sálfræðiþjónustu eins og þolendur kynferðisbrota. Tryggja þarf að öll börn sem verða fyrir eða vitni að ofbeldi hljóti faglega aðstoð og þau skulu njóta vafans þegar heimilisofbeldismál koma á borð lögreglu eða heilbrigðiskerfis. Við ákvörðun forsjár og umgengni við foreldra í heimilisofbeldismálum þarf að taka tillit til óska barna. Breyta skal hjúskaparlögum svo tafarlaust megi fá skilnað að borði og sæng þegar sótt er um skilnað. Heimila þarf að hægt sé að beita bráðabirgðaúrskurði þegar kemur að búsetu barna og ungmenna í slíkum tilfellum. Heimilt verði að ágreiningsmálum sé skotið til dómstóla ef bið í sáttameðferð er lengri en tveir mánuðir. Auðvelda þarf þolendum heimilisofbeldis að fá nálgunarbann og sé nálgunarbann brotið á það að leiða til fjársekta.
  • Styrkja þarf löggjöf gegn stafrænu kynferðisofbeldi. Gervigreind er í auknum mæli nýtt til að framleiða slíkt efni og mikilvægt að bregðast þegar við með lagasetningu og fræðslu. Bæta þarf hegningarlög svo þau nái yfir brot í netheimum svo sem djúpfölsun.
  • Tryggja þarf góða og aðgengilega þjónustu við þolendur í samræmi við þarfir þeirra og vilja innan heilbrigðiskerfis, félagsþjónustu og réttarkerfis. Standa skal myndarlega við bakið á þeim grasrótarsamtökum sem hafa borið hitann og þungann af ráðgjöf og þjónustu við þolendur. Sömuleiðis þarf að tryggja meðferðarúrræði fyrir gerendur.
  • Nauðsynlegt er að fylgja eftir aðgerðaáætlun um mansal og að henni fylgi fjármagn og mannafli. Tryggja þarf vernd og þjónustu við einstaklinga sem búa við nauðung, leiðir út úr slíkum aðstæðum og meðferðarúrræði, ráðgjöf og eftirfylgni fyrir þolendur. Nauðsynlegt er að mansalsþolendur sem sækja um alþjóðlega vernd fái sérstaka málsmeðferð þar sem fullt tillit er tekið til þeirra einstöku aðstæðna sem þolendur slíkra brota eru í.
  • Klám er ein tegund ofbeldis og er bannað með lögum. Því þarf að framfylgja betur. Auka þarf forvarnir og fræðslu og leita allra leiða til að hamla aðgengi barna að klámi.
  • Mikilvægt er að standa með banni við kaupum á vændi og efla bæði viðbrögð og frumkvæði lögreglu og dómstóla við brotum á þeim lögum. Lögin þurfa jafnframt að ná til vændis á netinu. Enn fremur þarf að koma á fleiri og fjölbreyttari úrræðum fyrir fólk í vændi og fólk sem vill losna úr vændi og styrkja þau úrræði sem fyrir eru. Leitast skal við að grípa inn í áður en fólk grípur til vændis sem örþrifaráðs til framfærslu. Stuðla ber að samfélagi þar sem slíks gerist ekki þörf.
  • Öll sveitarfélög eiga að starfrækja ofbeldisvarnaráð þar sem saman koma viðbragðs- og fagaðilar í málaflokknum sem vinni markvisst að því að útrýma kynbundnu ofbeldi.
  • Gera skal almannarými aðlaðandi og örugg í skipulagi með því að gæta að lýsingu og hönnun og forðast að búa til undirgöng og skuggasund.
  • Kynjaaðskilnaðarstefnan er raunveruleg ógn við konur og kvár víða í heiminum. Ísland á að vera í forystu á alþjóðavettvangi þegar kemur að því að tryggja konum og kvárum öryggi um allan heim með því að taka virkan þátt í baráttu þeirra fyrir kynfrelsi og yfirráðum yfir eigin líkama.

Vinnumarkaður

Kynjað valdakerfi nær til allra sviða samfélagsins svo sem vinnumarkaðarins, stjórnmála, fjölmiðla, velferðar og menningar. Í lýðræðissamfélagi þurfa ákvarðanir að vera teknar af breiðum hópi fólks. Uppbygging vinnumarkaðar og valdastofnana er karllæg sem gerir það að verkum að lítill og einsleitur hópur hefur of mikil völd. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða og tryggja að fjölbreyttar raddir heyrist og að á þær sé hlustað. Kynskiptur vinnumarkaður á sinn þátt í að viðhalda stöðluðum hugmyndum um hlutverk kynjanna. Brýnt er að útrýma kynbundum launamun, brjóta upp staðalímyndir, stuðla að fjölbreyttari fyrirmyndum og meta fólk að verðleikum óháð kyni þess.

  • Mikilvægt er að endurmeta virði kvennastarfa, með tilliti til ábyrgðar og mikilvægi fyrir samfélagið, og eiga ríki og sveitarfélög að vera leiðandi í þeirri vinnu. Vanmat á kvennastörfum er ein helsta ástæða kynbundins launamunar.
  • Vegna kynbundins launamunar, vanmati á virði kvennastarfa og ólaunuðum störfum kvenna eru þær með lægri tekjur yfir ævina og sömuleiðis skert lífeyrisréttindi samanborið við karla. Þetta þarf að leiðrétta. Huga þarf einkum að störfum kvenna og kvára sem eru utan hins hefðbundna vinnumarkaðar, hafa ekki aðgang að stéttarfélögum og er berskjölduð fyrir hvers kyns misnotkun.
  • Nauðsynlegt er að vinnuvikan verði stytt á hinum almenna vinnumarkaði í samræmi við opinbera markaðinn.
  • Tryggja þarf að starfsfólk ríkis og sveitarfélaga fái viðunandi fræðslu um jafnréttismál og þær lagalegu skyldur sem þeim ber að uppfylla í störfum sínum

Fjölskyldumál

Enn bera konur meiri ábyrgð á umönnun, bæði barna og veikra ættingja, og heimilisstörfum. Það órétti hefur áhrif á laun, starfsmöguleika, heilsu og vellíðan kvenna. Þessu þarf að breyta.

  • Nauðsynlegt er að tryggja jafna skiptingu fæðingarorlofs foreldra.
  • Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins með hagsmuni kvenna og barna að leiðarljósi. Það verður ekki gert með því að stytta dvalartíma, fjölga lokunardögum eða hækka gjaldskrár.
  • Lögfesta þarf leikskólastigið en Ísland er eina landið á Norðurlöndum sem ekki er með lögbundinn rétt barna til leikskóla eftir að fæðingarorlofi lýkur.
  • Nauðsynlegt er að laga fæðingarorlofskerfið þegar kemur að réttindum námsmanna, kvenna sem eignast börn einar, fjölburaforeldra og þeirra sem ekki hafa full réttindi til fæðingarorlofs, óháð tímabilinu sem orlofið tekur til.
  • Foreldrar skulu halda fullum tekjum í fæðingarorlofi upp að ákveðnu hámarki án skerðinga. Svo lengi sem nauðsynlegt er fyrir fjölskyldur að lengja fæðingarorlof til að brúa bilið skal fólk safna sér inn réttindum svo sem orlofs- og veikindarétti og sá réttur skal ekki skerðast ef foreldri þarf að lengja orlof umfram sinn hlut.
  • Tryggja þarf öllum foreldrum sömu réttarstöðu við fæðingu barns til dæmis þegar kemur að skráningum í opinber kerfi og samskiptum við opinberar stofnanir.
  • Ekki á að leyfa heimgreiðslur enda eru þær ekki fallnar til þess að tryggja inngildingu eða jafnrétti.
  • Auka þarf stuðning við foreldra til að takast á við hlutverk sitt og mikilvægt að öll kerfi hugi sérstaklega að velferð barna og foreldra. Stuðla skal að jafnari ábyrgð á heimilisstörfum sem aftur leiðir til jafnari tækifæra til þátttöku í samfélaginu og jafnari stöðu foreldra til samvista með fjölskyldu. Umhyggjuhagkerfið byggist að stærstum hluta á ólaunaðri vinnu kvenna. Styðja þarf konur eða kvár sem eru í þeirri stöðu að þurfa að annast aldraða foreldra, langveik börn eða aðra aðstandendur, og gæta þess að slík umönnun komi ekki niður á launatengdum réttindum þeirra s.s. eftirlauna eða orlofs svo dæmi séu nefnd.

Heilbrigðismál

  • Mikilvægt er að tryggja að tekið sé mið af rannsóknum, reynslu og þekkingu á sviði kvennaheilsu í allri heilbrigðisþjónustu.
  • Tryggja þarf fæðandi konum og fólki fjölbreytta og góða þjónustu sem miðar að þörfum þeirra, vilja og aðstæðum og er aðgengileg öllum óháð búsetu. Tryggja skal að barnshafandi gangi ekki á veikindarétt sinn hjá atvinnurekanda vegna veikinda á meðgöngu heldur fái greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.
  • Standa þarf vörð um réttinn til þungunarrofs sbr. lög nr 43/2019.
  • Staðgöngumæðrun býður upp á alvarlega misnotkun á konum. Ekki skal leyfa staðgöngumæðrun, hvorki í velgjörðar- né hagnaðarskyni.

Menntun og uppeldi

Jafnrétti til náms er forsenda félagslegs réttlætis í samfélaginu. Góð almenn menntun jafnar tækifæri fólks til þátttöku en skólakerfið er jafnframt ein mikilvægasta eining samfélagsins til að brjóta upp kynjakerfið og breyta hugarfari.

Staðlaðar hugmyndir um kyn sem börn kynnast allt frá fæðingu í gegnum menningu og hefðir, listir, fjölmiðla, vini og fjölskyldu viðhalda kynjakerfinu og tvíhyggju. Börn fá þannig skilaboð um að tileinka sér eiginleika sem falla að fyrirframgefnum og einsleitum hugmyndum og hlutverkum og að þessir eiginleikar séu mismikils virði. Kvenlægir eiginleikar eru þannig taldir minna virði en þeir karllægu. Á því byggir svo yfir- og undirskipan kerfisins.

Aukin áhersla á femíníska greiningu og gagnrýna hugsun í skólakerfinu getur rofið vítahring staðalmynda og styrkt börn til að rækta með sér hæfileika og áhugamál óháð úreltum hugmyndum um hlutverk þeirra.

  • Kynjafræði á að vera sjálfstæð skyldugrein á öllum skólastigum og nauðsynlegur hluti af námi í kennslu- og uppeldisfræðum.
  • Samþætta verður kynjasjónarmið inn í allar greinar svo staða kynjanna, birtingarmyndir og áhrif kynjakerfisins séu greind í þeim viðfangsefnum sem tekin eru fyrir.
  • Öll menntun á að efla gagnrýna hugsun gagnvart staðalmyndum kynjanna, greina bein og óbein skilaboð kynjakerfisins og sporna gegn áhrifum þeirra.
  • Sérstök ofbeldisvarnafræðsla er nauðsynleg í grunnskólum og þarf að ná til allra barna. Taka verður á áhrifum klámvæðingarinnar og fjalla um tilfinningar, nánd og mörk, um samþykki og nærgætni í kynferðislegum samskiptum.
  • Mat á framkvæmd jafnréttisfræðslu í samræmi við Aðalnámskrá verði hluti af innra og ytri mati á skólastarfi.
  • Mikilvægt er að hafa kynja – og jafnréttissjónarmið að þverfaglegu og málefnalegu leiðarljósi í allri stefnumótun innan kerfisins og í öllum málaflokkum.

Samfélagið

  • Halda þarf áfram að innleiða kynjaða hagstjórn og fjárhagsáætlunargerð enda skilar sú aðferðafræði sanngjarnari og betri nýtingu opinbers fjár.
  • Mikilvægt er að nota kynjakvóta til að stuðla að jafnrétti í stjórnunarstöðum, í stjórnmálum, við úthlutun styrkja eða á öðrum þeim sviðum þar sem kynjahalli er mikill. Fjölmiðlar eiga að draga upp raunsanna mynd af fjölbreytileika samfélagsins. Stjórnmálahreyfingum ber að leggja sitt af mörkum til að tryggja fjölbreytt sjónarmið í flokksstarfi og þar sem ráðum er ráðið og tryggja hlut kvenna á framboðslistum og í áhrifastöðum ásamt því að brjóta upp hefðbundin kynhlutverk innan stjórnmálanna.
  • Hjá grasrótar- og hagsmunasamtökum á sviði jafnréttismála liggur dýrmæt reynsla og þekking sem taka þarf mið af í allri opinberri stefnumörkun, mótun þjónustu og rekstri hins opinbera.
  • Brýnt er að fram fari jafnréttismat á öllum nýjum verkefnum, breytingum á verkefnum eða niðurskurði á vettvangi hins opinbera. Enn fremur er brýnt að gerðar verði jafnréttisúttektir með reglulegu millibili eða eftir því sem tilefni gefst til.
  • Stjórnvaldsstofnanir sem hafa jafnréttismál með höndum eiga að hafa nauðsynlegar valdheimildir, mannafla og fjármagn til að sinna hlutverki sínu.
  • Á sviði menningar og íþrótta er brýnt að tryggja jöfn tækifæri til afreka, þátttöku og áhrifa, að fjölbreytileiki samfélagsins sé sýnilegur og að fjármagni í málaflokkunum sé úthlutað með sanngjörnum hætti. Skilyrða megi styrki til menningar- og íþróttastarfs til að tryggja að þeim markmiðum sé náð.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search