Landsfundur 2024.
Öll eiga að hafa tækifæri til að móta samfélag sitt óháð fjárráðum, heilsu, menntun eða stöðu að öðru leyti. Svigrúm til þátttöku í lýðræðislegum verkefnum ásamt aðgengi að traustum og gagnreyndum upplýsingum, staðreyndum og samhengi þeirra, er hverri manneskju mikilvægt. Sérstaklega þarf að huga að valdeflingu minnihluta- og jaðarhópa. Það á að standa vörð um almannahagsmuni gegn sérhagsmunum og vinna gegn spillingu. Ljúka þarf heildstæðri endurskoðun stjórnarskrárinnar.
Kjölfesta Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs er þátttaka almennra félaga hennar um land allt, í starfi, stefnumótun og ákvörðunum. Starfið einkennist af opnum samræðum í raunheimum og netheimum þar sem félagar koma saman, móta hugmyndir, leysa úr álitamálum og koma stefnu hreyfingarinnar á framfæri og í framkvæmd. Raddir allra hópa samfélagsins þurfa að eiga sæti við borðið þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Því vill hreyfingin að ungu fólki sé ávallt tryggð aðkoma að umræðum og ákvarðanatöku innan hreyfingarinnar.
Ávallt skal leitast við að ná samhljóða niðurstöðu í ákvarðanatöku og taka skal sérstakt mið af hagsmunum jaðar- og minnihlutahópa með valdeflingu þeirra að markmiði.
Fulltrúar hreyfingarinnar framfylgja stefnu hennar og ákvörðunum og haga störfum sínum í samræmi við þær.
Stjórnkerfi og fjölmiðlar
- Aðgangur að traustum upplýsingum er forsenda upplýstrar umræðu. Mikilvægt er að efla miðla- og upplýsingalæsi, sporna gegn upplýsingaóreiðu og tryggja að miðlað sé á aðgengilegan hátt til allra samfélagshópa.
- Gagnsæi, opin stjórnsýsla og faglegar ráðningar skulu ávallt viðhöfð hjá stjórnvöldum.
- Tryggja skal opinber og fyrirsjáanleg framlög til stjórnmálahreyfinga.
- Lögbinda skal hámarks hlutfall framlaga lögaðila af heildarframlögum til stjórnmálaflokka.
- Fjölga þarf tækifærum almennings til þess að taka ákvarðanir í þágu samfélagsins alls og skapa vettvang fyrir rökræður, samráð og sameiginlega ákvarðanatöku, meðal annars með aðferðafræði slembivals.
- Almenningur á að geta lagt fram tillögur til Alþingis og sveitarstjórna sem taka skal til umfjöllunar. Miða má við að 2% kosningabærra geti sett mál á dagskrá.
- Tryggja skal lýðræðislega þátttöku nemenda í skólastarfi þar sem þau læra lýðræðisleg vinnubrögð og eru upplýst um réttindi sín og skyldur. Efla skal starfsemi ungmennaráða sveitarfélaga.
- Kosningaaldurinn skal lækkaður í 16 ár.
- Framfylgja þarf betur ákvæðum upplýsingalaga og auka aðgang fólks með aðgengilegum hætti að upplýsingum sem varða almannahagsmuni.
- Verja skal sjálfstæði fjölmiðla og ritstjórnarlegt frelsi. Styðja skal fjölmiðla sem sinna óháðri fréttaöflun, greinandi blaðamennsku og halda úti lýðræðislegri samfélagsumræðu.
- Uppljóstrarar eiga að hafa leiðir til að koma upplýsingum til réttra aðila án þess að óttast um sinn hag.
- Ríkisútvarpið skal áfram vera öflugur fjölmiðill í almannaþágu, rekinn fyrir útvarpsgjald og sjálfsaflafé.
- Staðbundnir fjölmiðlar verði efldir og þjónusta þeirra aukin á landsvæðum þar sem engin eða takmörkuð fjölmiðlun er fyrir hendi.
Umbætur á stjórnarskrá
- Ljúka skal heildstæðri endurskoðun stjórnarskrárinnar og breytingar á henni skulu tryggja lýðræði og mannréttindi á tímum mikilla samfélagsbreytinga.
- Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar skal endurskoðaður með sérstöku tilliti til loftslagsvárinnar og hraðra tæknibreytinga, þ.m.t. notkun gervigreindar.
- Umhverfis- og náttúruvernd á að vera hluti af stjórnarskránni og tryggja skal rétt fólks til þeirra mikilvægu mannréttinda sem heilnæmt umhverfi er.
- Réttur fólks til frjálsrar farar um landið skal vera virtur enda hefur almannarétturinn verið í íslenskri löggjöf allt frá Jónsbók.
- Ákvæði um auðlindir í þjóðareign er grundvallaratriði við endurskoðun stjórnarskrárinnar.
- Endurskoða á kjördæmaskipan og vægi atkvæða.
Vinnumarkaður og tækniþróun
- Styðja þarf framgang lýðræðislegra fyrirtækja og styrkja atvinnulýðræði með löggjöf.
- Greiða þarf götu fyrirtækja og félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Hægt væri að efla samvinnufélagaformið í þessu tilliti.
- Hið opinbera á að geta rekið stofnanir og félög á samfélagslegum forsendum, einnig á samkeppnismarkaði.
- Upplýsingar um raunverulega eigendur, krosseignatengsl og ársreikninga skulu vera aðgengilegar almenningi.
- Starfsfólk á að geta átt hlutdeild í stjórnum fyrirtækja og hafa ráðgjafarrétt auk upplýsingaréttar um fjárhagslega stöðu og framtíðaráform.
- Starfsfólk sem starfar hjá fyrirtækjum á að fá til sín tiltekið hlutfall ágóða eða arðgreiðslna úr þeim.
- Launafólk á að njóta virðisauka sem fæst með notkun gervigreindar og sjálfvirknilausna, til að mynda með styttri vinnutíma, hærri launum, auknu starfsöryggi, bættu vinnuumhverfi og betri kjörum.
- Tryggja þarf að gervigreind sé notuð á þann hátt að hún ýti ekki undir eða viðhaldi mismunun, að höfundar- og sæmdarréttur sé virtur í hvívetna við notkun hennar og að komið verði í veg fyrir að hún sé notuð í stafrænu kynferðisofbeldi, til valdníðslu eða til að ýta undir hatursorðræðu.