PO
EN

Menntun fyrir okkur öll

Landsfundur 2024.

Menntun er eitt mikilvægasta jöfnunartæki samfélagsins og gegnir margþættu hlutverki fyrir hvert og eitt okkar. Öflugt og aðgengilegt menntakerfi, sem stendur öllum til boða á forsendum hvers og eins til að rækta hæfileika sína og færni, er undirstaða þess að við öll getum tekið þátt í lýðræðissamfélagi, þroskast og notið okkar. Til að jafna enn frekar aðstöðumun innan menntakerfisins skal stefnt að því að gera menntun endurgjaldslausa á öllum skólastigum.

Menntun á að vera óháð búsetu, efnahag og öðrum þáttum sem kunna að vera fyrirstaða og skulu menntastofnanir aldrei reknar í hagnaðarskyni. Sporna á við einkavæðingu í menntakerfinu. Menntun er ævilangt verkefni og því þarf að tryggja fjölbreytta framhaldsfræðslu og aðlaga hana að ólíkum hópum.

Þá er menntun forsenda aukinnar þekkingar, nýsköpunar og þróunar og það er samfélagslegt verkefni að byggja upp þróttmikið menntakerfi því það er undirstaða aukinnar verðmætasköpunar í víðum skilningi. Góð menntun eykur lífsgæði einstaklinga og tryggir um leið velsæld og blómlegt atvinnulíf.

Góður grunnur

  • Brúa þarf bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla enn frekar enda mikið lífsgæðamál fyrir fjölskyldur. Tryggja þarf leikskóladvöl að loknu fæðingarorlofi og lögbinda á að börn eigi kost á leikskóla frá tilteknum aldri. Huga þarf sérstaklega að stöðu barna innflytjenda sem ekki sækja leikskóla.
  • Tryggja þarf fjármagn til innleiðingar og framkvæmdar laga um farsæld barna sem og innleiðingu aðalnámskráa. Með því bætum við hag barna sem þurfa á sértækri þjónustu að halda. Mæta þarf kröfum um aukna fræðslu í samfélagslegum áskorunum hverju sinni.
  • Kennarar og skólastjórnendur þurfa að njóta faglegs frelsis til að móta áherslur að þörfum nemenda hverju sinni. Þá er áríðandi að nemendur fái, með lýðræðislegum hætti, tækifæri til að hafa áhrif á mótun skólastarfsins.
  • Samþætta þarf listnám, íþróttir og félagsstarf frístundastarfi sveitarfélaganna. Börn og ungmenni um allt land eiga í auknum mæli að geta fengið styrki til tómstundastarfs. Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir aðlögun ungra innflytjenda. Öll börn eiga að fá aðgengi að listnámi óháð efnahag.
  • Allir nemendur eiga rétt á að læra móðurmál sitt. Það á líka við um börn sem eiga táknmál að móðurmáli, innflytjendur og börn þeirra sem þurfa bæði að njóta kennslu í móðurmáli sínu og íslensku.

Nám til framtíðar

  • Í grunnskólum landsins koma öll börn og unglingar á skólaskyldualdri saman óháð ólíkum félagslegum og menningarlegum aðstæðum eða atgervi. Það á að fagna fjölbreytileika skólasamfélagsins og vinna markvisst að því að brjóta niður staðalmyndir og kveða niður fordóma. Fjölbreytileiki og síbreytilegt samfélag þarf að endurspeglast í námsefni, nálgunum og kennsluaðferðum. Með örum samfélagsbreytingum, tækniframförum og alþjóðavæðingu þarf að efla grunnmenntun barna og leggja áherslu á fræðslu sem styrkir sjálfsmynd þeirra. Tryggja þarf jöfn tækifæri til fjölbreyttrar menntunar óháð búsetu og þar þarf sérstaklega að huga að aðgengi að iðn- og listnámi. Endurskoða þarf fyrirkomulag iðnnáms með það að markmiði að fjölga útskrifuðum iðnnemum og taka þannig markviss skref í átt að aukinni samvinnu framhaldsskóla, vinnustaða, stéttarfélaga og annarra sem koma að skipulagi og framkvæmd starfsnáms.
  • Auka þarf sveigjanleika í námi á framhaldsskólastigi og tryggja að nemendur hafi svigrúm til að sinna félagslífi, íþróttum og tómstundum samhliða námi.
  • Brotthvarf úr námi er birtingarmynd ójafnra tækifæra í íslensku samfélagi. Nauðsynlegt er að sporna gegn því með aðgerðum innan menntakerfisins og ekki síður utan þess. Sérstaklega þarf að skoða stöðu nemenda með innflytjendabakgrunn í þessu samhengi.
  • Tryggja skal fjölbreyttan stuðning í öllum framhaldsskólum með góðu aðgengi að sérfræðiaðstoð til að sporna gegn brotthvarfi úr námi og stuðla að bættri líðan námsmanna. Huga þarf sérstaklega að innflytjendum í þessu samhengi.
  • Tryggja þarf fjölbreytt háskólanám og margvíslegt viðbótarnám framhaldsskóla. Nemendum skal gefinn kostur á að stunda slíkt nám í fjarnámi um land allt.
  • Áfram þarf að efla fjármögnun háskólastigsins. Stefna skal að því að ekki sé tekið gjald fyrir nám á háskólastigi til að tryggja jafnt aðgengi að háskólanámi.
  • Grunnrannsóknir eru undirstaða nýsköpunar og þekkingariðnaðar. Atvinnustefna í sátt við umhverfið byggist á því að virkja hugvit fremur en náttúruauðlindir og til þess þarf að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun.
  • Háskólar þurfa fjárveitingar til að sinna rannsóknum jafnt sem kennslu. Þeim fjármunum, sem eru utan við rannsóknafjárveitingar háskólanna, skal úthluta úr samkeppnissjóðum þar sem jafningjamat er notað við mat á rannsóknum. Nýta þarf ívilnanir til að styðja við þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki.
  • Endurskoða þarf löggjöf um framhaldsfræðslu með tilliti til samfélagsbreytinga og þess að sett verði aðalnámskrá um framhaldsfræðslu. Öflug framhaldsfræðsla er mikilvægt jöfnunartæki sem gerir fólki kleift að sækja sér ný tækifæri, hreyfa sig til á vinnumarkaði og tileinka sér nýja þekkingu. Styrkja þarf raunfærnimat enn frekar m.a. með menntun innflytjenda í huga.

Menntasjóður námsmanna

  • Námslánakerfið á að auka jöfnuð. Meta þarf árangur af nýjum Menntasjóði þar sem hluti námslána er nú orðinn styrkur til námsmanna. Meta þarf hvort að núverandi styrkjafyrirkomulag hygli ekki um of þeim sem þegar hafa sterka fjárhagslega og félagslega stöðu. Þá þarf áfram að huga að því að tryggja mannsæmandi grunnframfærslu fyrir námsmenn svo jafnrétti til náms verði tryggt. Hækka þarf frítekjumark til þess að tryggja rétt efnaminni nemenda til námslána óháð starfshlutfalli síðasta árs. Tryggja þarf að vaxtabyrði námslána sé ekki íþyngjandi.
  • Nýta skal heimild í lögum um Menntasjóð námsmanna til ívilnunar við endurgreiðslu námslána vegna námsgreina á sérstökum svæðum.
  • Námslán skulu falla niður við ellilífeyrisaldur og við varanlega örorku lántakanda.

Rammi menntunar

  • Starfsaðstæður nemenda, kennara og annars starfsfólks menntastofnana eiga að vera í fremstu röð og nauðsynlegt að mikilvægi skólastarfsins endurspeglist í launum og öðrum kjörum.
  • Vinna þarf markvisst áfram að því að útskrifa fólk með kennsluréttindi og bæta aðstæður og kjör kennara svo tryggja megi öflugt skólastarf til framtíðar. Þá þarf að jafna aðgengi kennara að sí- og endurmenntun svo kennsla geti þróast í takt við samfélagslegar breytingar.
  • Skólabókasöfn sinna markvissu hlutverki í grunn- og framhaldsmenntun allra barna og ungmenna. Þau þurfa áfram að vera órjúfanlegur hluti skólastarfsins. Tryggja þarf sérstaklega fjárveitingar skóla til bókakaupa þannig að ávallt sé aðgengi að nýjum bókum fyrir nemendur.
  • Jafna þarf aðgengi skóla að tækjabúnaði og styðja þannig við nám í samfélagi sem er í örri og stöðugri þróun.
  • Tryggja þarf að skimunarpróf og staðlaðir mælikvarðar séu til staðar til að styðja við einstaklingsmiðað nám og áherslur aðalnámskráa.
  • Efla þarf námsefnisgerð á öllum skólastigum. Styðja þarf við íslenskar þýðingar á vönduðu erlendu námsefni og framleiðslu á nýju námsefni á íslensku fyrir nemendur með ólíkar þarfir og bakgrunn. Taka þarf hér tillit til tækniframfara, fjölbreyttrar miðlunar og nýrra kennsluhátta. Námsgögn eiga að vera nemendum og fjölskyldum þeirra gjaldfrjáls.
  • Efla þarf kennslu í náttúrufræðum, umhverfislæsi, umhverfisvernd og sjálfbærni. Efla þarf nám á öllum skólastigum sem þroskar getu nemenda til að taka upplýstar ákvarðanir um umhverfismál. Nemendur ættu að fá ríkuleg tækifæri til að tengjast náttúrunni gegnum nám sitt, til að læra að bera ábyrgð á umhverfinu.

Þessi síða styðst við vafrakökur (cookies) til að bæta virkni síðunnar. Með því að vafra um síðuna samþykkir þú notkun þeirra.

Search